Færsluflokkur: Tónlist
30.1.2008 | 17:17
Svartur Sandur í póst
Loksins er komið að því. Stuttmyndin Svartur Sandur er komin á DVD og fer í póst á morgun, fimmtudaginn 21. janúar 2008. Voða gaman, en af hverju hefur þetta tekið svona langan tíma?
Tökur fóru fram í ágúst 2006, en hugmyndin er mikið eldri. Ég held þetta sé í fyrsta (og sennilega síðasta) sinn sem ég segi frá því hvernig hugmyndin varð til. Ég var að keyra Hellisheiðina tvo tíma eftir miðnætti, sumarið 1988. Ég er að fara upp brekkuna fyrir ofan skíðaskálann. Efst í brekkunni sé ég stelpu standa við veginn. Hún var klædd í hvítt, eins og hjúkrunarkona, hélt ég. Ég sá hana of seint til að stoppa, en steig á bremsuna því ég vildi athuga hvort hún þyrfti far. Ég gat ekki ímyndað mér að einhver stæði við veginn uppi á heiði um nótt af gamni sínu. Þegar ég leit í baksýnisspegilinn var enginn þarna. Ég er viss um þetta því skyggni var mjög gott og bremsuljósin lýstu upp nóttina. Ég hélt áfram. Morguninn eftir var ég á Bitru og sagði afa frá þessu og hann sagði mér að á þessum stað hefði stelpa frá Selfossi dáið einhverjum árum fyrr. 18 árum seinna var þetta neistinn sem setti Svarta Sandinn af stað.
Ég skrifaði söguna í byrjun árs 2006. Um páskana var handritið tilbúið, með hjálp William Kowalski. Hann er þekktur sem höfundur bókarinnar Eddie's Bastard. Ég óskaði eftir leikurum á netinu og fann Jóel og Önnu Brynju. Þau fundu mig, öllu heldur. Tökur fóru fram í ágúst á Eiríksstöðum í Haukadal, í Reynisfjöru við Vík í Mýrdal, Á Skógasafni og í Reykjavík. Við tókum upp eitt atriði á veitingastaðnum Pravda, en það var seinna klippt út.
Eftirvinna tók töluverðan tíma, enda unnu allir endurgjaldslaust þegar þau höfðu tíma. Ég byrjaði á að klippa myndina í áhorfanlegt form í september. Þessi útgáfa var 45 mínútur. Fljótlega var ég búinn að stytta hana í 35 mínútur. Johan Kriegelstein, sem hafði komið til Íslands til að hjálpa við tökur, tók við verkefninu og fínklippti.
Ég hafði verið í sambandi við Guy Fletcher, hljómborðsleikara Dire Straits, og hann samþykkti að semja tónlist fyrir mig. Með tónlistina í myndinni og klippinguna fínpússaða, tók ég við verkefninu vorið 2007. Mér fannst hún þyrfti að vera styttri. Ég klippti út þrjú atriði og lagaði til litina. Í ágúst 2007 var myndin tilbúin. Í desember var lesendum bloggsins boðið að sjá hana og um 1000 manns þáðu boðið.
Í janúar sendi Guy Fletcher mér nýja útgáfu af Black Sand Theme og bauð mér að nota það í myndinni. Ég fann góðan stað, en þar sem ég var farinn að grúska, ákvað ég að laga meira til. Litirnir voru ekki eins og ég vildi hafa þá, svo ég endurlitaði myndina eins og hún lagði sig. Ég breytti líka stafagerðinni til að gefa verkinu betri heildarmynd. Að lokum bjó ég til sýnishorn þar sem nýja útgáfan af Black Sand Theme var notuð.
Ég hafði hannað DVD disk, en hann var nú úreltur. Matseðlarnir litu allt öðruvísi út og höfðu lítið sameiginlegt með myndinni. Ég hannaði því diskinn upp á nýtt. Þetta endaði svo á að ég lagaði DVD hulstrið.
Hugmyndin er að þetta sé endanleg útgáfa og að ég geri ekkert meira við hana, nema kannski að bæta við erlendu textana.
Eins og kom fram í desember er hægt að sækja myndina endurgjaldslaust. Nýja útgáfan er mikið fallegri og ég veit ekki hvort ég vilji láta fólk sjá þá gömlu, en hún er enn á netinu fyrir áhugasama. Fólki er svo velkomið að greiða fyrir áhorfið, það gjald sem það telur vera sanngjarnt. Öll innkoma er notuð til að greiða upp kostnað, og náist það, borga þeim sem hjálpuðu til.
Hægt er að leggja inn á PayPal reikning minn á sömu síðu og myndin er sótt. Einnig er hægt að leggja inn á íslenska bankareikninginn 0325-26-000039, reikning 39 í Kaupþingi á Selfossi. Kennitala er 100569-3969. Allar upphæðir eru velkomnar, en borgi fólk 1100 krónur (12 evrur) eða meira, mun ég senda þeim DVD disk. Þetta er hvorki lágmarks- né hámarksupphæð. Ég vil bara sýna þeim auka þakklæti sem borga nóg til að standa undir framleiðslu- og sendingarkostnaði. Ég er auðvitað óendanlega þakklátur öllum sem hjálpa til.
Ég vona að fólki líki myndin. Endilega skrifið dóma þegar þið eruð búin að sjá hana.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2008 | 22:32
Nýtt myndband við nýja tónlist með nýjum litum og stöfum
Fyrirsögnin segir allt. Þá er ekkert annað að gera en endurtaka sig.
Guy Fletcher sendi mér nýja útgáfu af Black Sand Theme, lokalaginu af nýja diskinum hans. Ég setti það inn í myndina, en þar sem ég var að fikta hvort eð var, fór ég að fikta meira. Ég lék mér með liti og gerði myndina eitthvað dramatískari með því að breyta þeim. Svo var ég ekki sáttur við stafagerðina og breytti henni. Að lokum gerði ég trailer, sýnishorn, myndband, eitthvað við nýju tónlistina. Gæðin eru auðvitað frekar hallærisleg, enda er þetta tekið að youTube. Þetta gefur þó hugmynd um hvernig hlutirnir líta út í endanlegu útgáfunni.
Svo er um að gera að fylgjast með blogginu í vikunni. Ég mun henda inn reikningsnúmeri fyrir 61% lesenda sem vilja borga en ekki með korti. Kannski að ég setji líka myndbandið að neðan á netið í HD gæðum. Hver veit?
Þar sem myndin er tilbúin, sænski textinn kominn í hús og Svarts Sands Þemað tilbúið og myndin tilbúin fyrir DVD, en líka meira en líklegt að diskarnir fari í póst í vikunni.
Takk fyrir að fylgjast með!
Tónlist | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.1.2008 | 21:38
Getur það verið?
Ég er ekkert hissa. Mér hefur sjálfum verið meinilla við þá frá því ég man eftir mér. Amma Mats (barnsins vor) keypti risastóran trúð handa honum en varð að skila honur, selja, gefa... allavega koma honum í burtu. Mamma Mats var ekki á því að kvikyndið kæmi hér inn fyrir dyr.
Trúðar eru líka oftast sýndir sem illir og kvikyndislegir eða sem misheppnaðir karlar i kvikmyndum. Frægustu trúðarnir eru sennilega Krusty úr Simpsons, the It úr bók og mynd eftir Stephen King og Ronald McDonald, sem ég hafði aldrei gaman af.
Svo klæddi David Bowie sig upp sem trúð á plötunni Scary Monsters (and Super Creeps). Nafnið segir allt.
Það verður þó að gefa þeim að í sirkus, þar sem þeir eiga heima, eru þeir ekki svo slæmir. Trúður þarf að kunna allt. Ég held að besta fimleikafólk í heimi séu trúðar. En út fyrir sirkusinn eiga þeir ekkert erindi.
---
Það er svo af myndinni að frétta að ég verð kominn með íslenskan bankareikning á næstu dögum. Ég er búinn að fá nýju útgáfuna af Black Sand Theme. Hún sómir sér vel í myndinni. Þar sem ég var að fikta hvort eð er, fór ég í að laga til litina. Ég held að þó ég hafi ekkert klippt, verði þetta allt önnur mynd. Þetta var dropinn, neistinn "the something" sem hún þurfti. Hún ætti að vera tilbúin í vikunni. Ég vonast til að geta sett diskana í póst í næstu viku.
Börn eru hrædd við trúða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.1.2008 | 13:06
Tónlist Svarta Sandsins gefin út!
Gleðilegt ár, lesandi góður.
Ég var að heyra frá Guy Fletcher, þeim sem samdi tónlistina við stuttmyndina. Hann hefur verið að vinna við upptökur á sólóplötu undanfarið. Það mætti halda að Mark Knopfler héldi honum ekki við efnið, en það er alls ekki málið. Þeir hafa verið að spila á "prómótúr" undanfarið og fara á hljómleikaferð á næstu vikum, þar sem nýjasta plata Knopflers, Kill to get Crimson, verður kynnt. Maðurinn er bara ekkert annað en vinnualki, virðist vera.
Platan, Inamorata, kemur út 28. janúar. Lokalagið verður Black Sand Theme, eða Theme from Black Sand. Veit ekki. Allavega, titillagið úr stuttmyndinni verður lokalagið á diskinum. Hann sagði mér að það hefði verið tekið upp aftur, nú með fiðluleikara og flautu. Það á að hljóma mikið betur. Ég fæ lagið í vikunni og mun setja það inn í myndina. Fyrst maður er að opna verkefnið aftur, er alveg eins gott að sjá hvað hægt er að gera til að bæta myndina. Ég var að spá í að leika mér með litaval og gera myndina fallegri. Ég klippi hana ekki til, þetta hefur eingöngu með útlit að gera. Þeir sem pantað hafa diskinn fá hann þegar þessari vinnu er lokið. Svo er ég að bíða eftir sænska textanum.
Þeir sem hafa séð myndina, er eitthvað sem ykkur finnst að þurfi að bæta? Nú er síðasta tækifærið til að breyta einherju. Svo er auðvitað um að gera að kíkja á heimasíðu Guy Fletcher og panta sér disk.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.12.2007 | 21:27
Borgar sig að gefa út á netinu?
Eins og margir vita er ég að gera svipaða tilraun og Radiohead. Eftir því sem ég best veit er dæmið að ganga vel hjá þeim félögum. Spurningin er þó, virkar þetta bara ef maður er frægur eða er þetta framtíðin fyrir alla sem eru að búa til frumsamið efni, tónlist eða kvikmyndir?
Ég setti stuttmyndina Svartan Sand á netið fyrir tæpri viku. Hún hafði verið sótt 732 sinnum fyrr í dag. Eins og fram kemur í athugasemdum við fyrri færslu er hún líka komin inn á nýja íslenska torrent síðu. Ég hef ekki aðgang að henni, svo ég get ekki sagt um hvað er að gerast þar.
Átta manns hafa borgað fyrir myndina, rúmt eitt prósent. Það segir þó ekki alla söguna, því margir hafa sennilega ekki enn haft tækifæri til að sjá hana. Einnig hafa verið gerðar athugasemdir við að einungis er hægt að nota greiðslukort eða PayPal. Væri hægt að millifæra beint í heimabanka myndu fleiri geta borgað.
Ég hef sett inn nýja skoðanakönnun þar sem fólk getur látið vita. Komi í ljós að fólk vill frekar greiða fyrir myndina með millifærslu, mun ég bæta þeim möguleika við.
Af einhverjum ástæðum get ég bara haft eina skoðanakönnun inni í einu, svo sú fyrri þar sem spurt var um álit fólks á myndinni verður sett inn aftur þegar þetta mál er farið að skýrast.
Takk fyrir áhugann!
Radiohead tilkynnir tónleikaferð um Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.12.2007 | 11:35
Strætó og Netið - Svartur Sandur og Hellvar
Það er gaman að fylgjast með því hvernig fólk kynnir sig og sína list. Það er um að gera að fara ótroðnar slóðir, gera það sem ekki hefur verið gert áður. Ég óska Hellvari alls hins besta og vona að bílveikin láti ekki sjá sig.
Þá er komið að því. Stuttmyndin Svartur Sandur er á netinu.
Eins og ég minntist á í gær er þetta tilraun. Þegar torrent.is var lokað, reis fólk upp og hrópaði að SMÁÍS. Íslendingar eru ekki þjófar! Við erum tilbúin til að borga fyrir það sem ekki er okrað á. Við myndum styrkja listamenn ef ekki væri fyrir milliliðina.
Í dag gefst fólki tækifæri til að sanna sitt mál. Sýnum þeim sem sjá vilja að íslendingum sé treysandi. Við þurfum ekki ritvörn. Við þurfum ekki diskaskatt. Á næstu dögum mun ég fylgjast með niðurhali á myndinni og birta hér á síðunni. Einnig mun ég láta vita hvað fólk er að borga.
Hægt er að nálgast myndina hér. Hún er í iPod formi og ætti því að spilast með Quicktime spilaranum. Hægt er að setja hana inn á iPod spilarann gegn um iTunes. Þeir sem ná í hana, geta því haft hana og horft á um ókomna framtíð.
Ég þakka stuðninginn.
Tónleikar í strætó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
28.11.2007 | 06:08
3 dagar - Guy Fletcher
Eins og fram hefur komið mun ég setja Svartan Sand á netið á laugardaginn. Ég ætla að reyna að vera með daglega pistla meðan ég geri hana tilbúna.
Tónlist er mikilvægur hluti kvikmyndarinnar. Hún setur tóninn, byggir upp spennu og hjálpar til við að búa til rétta andrúmsloftið. Tónlist sem passar myndinni getur lyft henni á hærra plan og er Jaws sennilega þekktasta dæmið. Fólk var hrætt við stefið, enda sást hákarlinn varla í myndinni. Slæm tónlist eða tónlist sem ekki passar getur skemmt annars ágæta mynd. Ég sá einhverja mynd um daginn þar sem tónlistin passaði engan veginn. Þetta var ágætis mynd en tónlistin var svo úr takt að ég var feginn þegar myndin var búin. Ég man ekki hvaða mynd þetta var. Það var því augljóst frá upphafi að tónlistin yrði að passa og vera góð.
Þau sem hafa skoðað Oktober Films síðuna hafa sennilega séð tónleikaupptökurnar af hollensku hljómsveitinni Nits. Upphaflega var ætlunin að söngvai og gítarleikari þeirrar hljómsveitar semdi tónlistina, en þegar til kom var enginn timi. Ég sneri mér því að næsta manni...
Guy Fletcher gekk til liðs við Dire Straits árið 1984. Hann spilar því hljómborð á Brothers in Arms og öllum plötum Mark Knopfler síðan. Ég hafði séð Knopfler á hljómleikum árið 2005 og þeim gamla tókst að gera mið að aðdáenda. Ég las, skoðaði, horfði á auka DVD-inn sem kom með Shangri-La og komst fljótt að því að Guy Fletcher var heilinn á bak við flestar plötur Marks. Ég ákvað að reyna, þó að líkurnar væru auðvitað engar...
Guy Fletcher er kunnugur kvikmyndatónlist. Hann hefur unnið við margar kvikmyndir með Mark Knopfler, en einnig samið tónlistina við 3-4 myndir sjálfur. Hann var því rétti maðurinn, en var mín mynd og skilmálar eitthvað fyrir hann?
Mér til mikillar undrunar sló hann til. Vikurnar kring um áramótin 2006-2007 voru spennandi. Guy var að vinna við hljómleikaplötu Mark Knopfler og Emmilou Harris. Í jólafríinu samdi hann tónlistina og við vorum í sambandi. Allt þurfti að vera tilbúið sem fyrst, því Mark vildi taka upp nýja plötu.
Fólk sem séð hefur myndina er sammála um að tónlistin er góð, falleg, passi við, undirstriki samband persónanna. Það er allt gott og blessað og ég er í skýjunum yfir að hafa frumsamda tónlist í myndinni. Það er gott til þess að vita að sumir af stærri tónlistarmönnum samtímans eru að semja og spila vegna þess að þeir hafa gaman af því. Í stað þess að taka því rólega yfir hátíðirnar, samdi og spilaði Guy Fletcher tónlistina fyrir Svarta Sandinn.
Guy Fletcher er nú að vinna við sólóplötu en fer í hljómleikaferðalag með Mark Knopfler eftir áramót.
Fyrri færslur um Svartan Sand:
4 dagar - Anna Brynja Baldursdóttir
5 dagar - Jóel Sæmundsson
6 dagar - um gerð Svarta Sandsins
Oft ég Svarta Sandinn leit...
Tónlist | Breytt s.d. kl. 06:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.11.2007 | 13:06
Grænmetishommi
Ef ég verð einhvern tíma yfirbossinn á KEF mun ég sjá til þess að dýravinir, grænmetisætur, friðarsinnar, demókratar og svertingjar fái ekki að yfirgefa flugvélina sem þeir komu með. Fjandans frelsiselskandi hyski alltaf. Það er því nokkuð ljóst að ef ég fengi að ráða yrði ekkert af meintum hljómleikum Macca á Íslandi.
Paul McCartney fékk ekki að lenda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
20.11.2007 | 08:35
Er símaskráin lögleg?
Eftir því sem ég best veit brýtur Torrent.is engin lög. Síðan hjálpar manni að finna efni á netinu, en dreifir engu efni sjálf. Er þetta ekki svipað og að banna símaskránna vegna þess að til eru einstaklingar sem nota hana til að finna fórnarlömb, t.d. vegna innbrota, ýmiskonar áreytis og annara glæpa? Ef ég leita að biskupi í símaskránni og brýst svo inn hjá honum vegna þess að hann á sennilega mikið af verðmætum eignum, er þá hægt að kenna símaskránni um, þar sem ég fann heimilisfangið þar? Ef ég ákveð að ræna dóttur forsætisráðherra (á hann dóttur?) og finn heimilisfangið í símaskránni, hverjum er það að kenna?
Nú eru kannski einhverjir sem segja, nei þú getur verið með leyninúmer og þá er ekki hægt að finna þig. Er það þá ekki það sama og þegar Páll Óskar bað um að platan hans væri fjarlægð, sem var gert?
Lögbannskrafa tekin til greina og Torrent vefnum lokað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
16.11.2007 | 15:28
Imagine no possessions, voru þessir peningar einhvern tíma til?
Það væri gaman að skoða þessar spurningar og sjá hvort hægt sé að svara þeim öðruvísi en neitandi. Ef jafnrétti, friður og mannlegur kærleikur er það sem við viljum, hvers vegna er heimurinn fullur af stríði og fordómum? Erum við sjálfselsk eða hefur sagan og þjóðfélagið spillt okkur? Eru einhverjar líkur á að við munum nokkurn tíma lifa við alvöru jafnrétti, frið og gagnkvæman skilning?
Skoðum textann við Imagine.
Imagine there's no Heaven
It's easy if you try
No hell below us
Above us only sky
Imagine all the people
Living for today
Fyrsta versið veltir fyrir sér trúnni. Trúarbrögð hafa lofað okkur Himnaríki ef við erum góð og hótað okkur helvíti ef við erum slæm. Að vera góð í þessu stutta lífi er fjárfesting á eilífð í paradís. Án trúar myndum við verða sjálfselsk og troða á nágrannanum, því okkur yrði ekki refsað. Það má því segja sem svo að trúarbrögð geri ráð fyrir að við séum öll slæm af náttúrunnar hendi. Það má segja að trúnni hafi mistekist ætlunarverk sitt, því við komum ennþá illa fram við hvort annað eftir allar árþúsundirnar. Trúarbrögð hafa meira að segja oft verið orsök styrjalda. Við getum endalaust rökrætt um það hvort trúnni (Guði, Biblíunni, Kóraninum) er um að kenna eða trúarleiðtogum, og hvort við hefðum fundið aðrar ástæður til að berjast. Hver svo sem ástæðan er, trúarbrögðum hefur mistekist það meinta ætlunarverk sitt að gera okkur manneskjulegri.
- Hvað kenna trúarbrögð?
- Hver er munurinn á trúuðum og trúleysingjum?
- Hver er munurinn á mismunandi trúarbrögðum?
- Hvaða áhrif hafa trúarbrögð haft á heiminn?
- Eru einhver trúarbrögð minna útötuð blóði en önnur, og ef svo er, hvað gerir þau öðruvísi?
- Hvernig yrði heimurinn án trúarbragða?
Imagine there's no countries
It isn't hard to do
Nothing to kill or die for
And no religion too
Imagine all the people
Living life in peace
Annað versið er um lönd, og þar með þjóðir og þjóðernishyggju. Hver erum við, einstaklingar eða hlutar af heild? Af hverju erum við tilbúin til að drepa fólk af öðrum þjóðernum ef stjórnvöld segja okkur að gera það? Hver er munurinn á að drepa útlending eða einhvern af sama þjóðerni? Er einhver munur á kosnum stjórnum og erfðum, skiptir það máli hvort okkur er stjórnað af þjóðþingum og forsetum eða flokkum, einræðisherrum eða konungsfjölskyldum? Þarf að stjórna okkur, og ef svo, hvers vegna? Ef við losuðum okkur við lönd og þjóðir, myndi einhver notfæra sér það og kúga fólkið? Getum við lifað af án þess að einhver sé við völd? Er einhver munur á þjóðernishyggju og kynþáttafordómum?
- Hvað er land?
- Af hverju þurfum við lönd, ef svo er?
- Hvað hefur komið af stað stríðum milli landa og hvers vegna höfum við tekið þátt í þeim og barist?
- Hvað eru þjóðarleiðtogar og hvernig virka stjórnvöld?
- Hvernig væri heimurinn án landamæra og væri það yfir höfuð mögulegt?
You may say that I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will be as one
Imagine no possessions
I wonder if you can
No need for greed or hunger
A brotherhood of man
Imagine all the people
Sharing all the world
Þessu er sennilega erfiðast að svara eins og John bendir á. Hvað er eign? Ef þetta er húsið mitt, af hverju skulda ég einhverjum banka næstum allt verðgildi þess? Hvernig getur banki búið til peninga úr engu? Ef ég kaupi hús og tek lán setur bankinn pening inn á reikninginn minn, en það er ekkert annað en að setja vissa tölu við nafnið mitt í tölvunni. Þegar banki lánar, kemur peningurinn úr lausu lofti. Peningurinn á reikningnum mínum er færður inn sem skuld bankans, en á móti er lánið mitt eign bankans. Þessar færslur eyða hvorri annari út, ég keypti húsið fyrir ekkert. Ef bankinn lánaði innistæðu annars fólks, eins og flestir halda, þyrfti hann að lækka þær innistæður til að bókhaldið gengi upp. Húsið var borgað með láni, lánið eru peningar sem eru ekki til og voru búnir til fyrir viðskiptavininn. Það er því nokkuð ljóst að peningar eru hugarástand, þeir eru til meðan við trúum á þá. Ef við hættum að trúa á peninga, hrynur hagkerfið. Það þarf ekki meira til.
- Hvað er eign?
- Hvernig virka peningar?
- Ef peningar eru verðlausir og ekkert meira en tölur í tölvu, af hverju erum við að eltast við þá?
- Höfum við rétt á landinu okkar, húsinu, bílnum, og hafa sumir meiri rétt en aðrir?
- Indjánar höfðu allt aðra skoðun á heiminum. Þeir trúðu að við værum hluti af heiminum og mættum nota hann skynsamlega en við ættum hann ekki.
- Hvernig myndi heimurinn virka ef við deildum öllu?
You may say that I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will live as one
Eru til önnur svör við spurningunum að ofan eða er heimurinn sem við höfum skapað besta, eða eina, leiðin fram á við? Ef við hugsum öðru vísi, erum við rænulaust draumórafólk með hausinn í skýjaþoku eða snillingarnir sem leggjum grunninn að betri framtíð?
Þessi færsla reynir ekki að svara spurningunum, heldur að velta þeim upp. Það er auðvelt að taka heiminum eins og hann er, eða virðist vera. Allt er, hins vegar, sjaldan það sem það sýnist. Heimurinn, og skilningur okkar á honum, er sífellt að breytast og það sem við trúum í dag eru sennilega hindurvitni framtíðarinnar. Spurningin er, í hvaða átt er heimurinn að þróast og erum við ánægð með þá þróun?
Fjármálastofnanir gætu tapað allt að 400 milljörðum dala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)