Færsluflokkur: Tónlist
30.10.2007 | 10:00
Paul McCartney segir sóðabrandara
Góður þessi. Paul gerir grín þrátt fyrir erfiða tíma. Kannski þess vegna sem þetta er svona ljótur brandari.
Annars hef ég verið að hlusta á nýju plötuna, Memory Almost Full, og verð að segja að hún er virkilega góð. Þegar maður setur einn besta lagahöfund allra tíma í klípu er ekki að því að spyrja. George er dáinn, John er dáinn, Linda dó eftir þrjátíu ára hjónaband. Hann giftist aftur en það fór á versta veg. Sennilega með það í huga samdi hann eitt besta lag sitt frá upphafi, House of Wax (hlustið í spilaranum hér til hliðar). Hann er að eldast og veit af því, eins og kemur fram í The End of the End. Tíminn hefur hlaupið frá honum og allt sem eftir er eru myndir (That Was Me). Svo er auðvitað sama hvað hann gerir, allt er borið saman við Bítlana (My Ever Present Past).
Ég hef lítið fylgst með honum undanfarin ár. Að vísu fór ég á hljómleika með honum fyrir 3-4 árum og kom hann virkilega á óvart. Ég hafði búist við hálf hallærislegum og jafnvel væmnum hljómleikum, en það var alls ekki. Hann gerði betur en flestir, ef ekki allir, sem ég hef séð og ég hef séð marga. Þar á meðal flesta gömlu rokkarana sem enn eru að.
Af 13 lögum á diskinum líkar mér ekkert sérstaklega við tvö. Þá eru 11 góð lög eftir, 4-5 sem eru meðal þess besta sem hann hefur gert. Þessi diskur er hverrar krónu virði.
Ég legg það ekki í vana minn að skrifa plötudóma og ég hef aldrei sett lag í spilarann á Moggablogginu, en þessi diskur kom mér svo á óvart að ég varð að segja frá því. Svo varð ég að koma brandaranum að.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.9.2007 | 10:33
Rick Treffers II - Pissstaur í vindi
Hér er falleg færsla á Sunnudegi, laus við væl, vesen og vandræði heimsins. Eins og ég sagði fyrir viku eða tveim er ég að vinna við að búa til kvikmyndahluta sviðsmyndar Ricks nokkurs Treffers fyrir hljómleikaferðina sem verður haldin í vetur og kannski fram á sumar. Ekki sat ég á fingrum mér, heldur notaði æeg þá til að munda myndavél og pota í hnappa forritsins Final Cut Pro, sem landsmenn þekkja kannski ekki af fenginni reynslu.
Verkefnið var tiltölulega einfalt. Ljósmyndir voru teknar af kappanum. Þær eru svo notaðar í bókina sem kemur með disknum. Þetta eru flottar myndir, skotnar á Hasselblad myndavél. Þegar hann innti mig eftir hugmyndum, hvað skyldi nú spilast fyrir aftan hann og spilafélagana, var ég ekki lengi að svara. Nei, mér leist ekki á hugmynd hans um að fara að spila VJ, allt of mikið verk og myndi kosta hann of mikið. Kannski texta? Nei, það er næstum vonlaust að synca það þannig að textinn sé á réttum stað þegar spilað er live. Nei, sagði ég, KISS. Ha, KISS? Já, Keep It Simple Stoopid, eigum við ekki bara að endurskapa ljósmyndirnar? Já, sagði hann, asskoti gæti það virkað.
Þannig var þetta sem sagt unnið. Ljósmyndirnar voru fyrirmyndin og við reyndum að gera hreyfanlegar útgáfur með því að fara aftur á sama stað og myndin var tekin og reyna að ná sama effect. Þetta er sem sagt ekki tónlistarmyndband eða músikkvídíó og ekki hannað til að vera kúl sem slíkt. Þetta á að fylla upp í reynsluna af hljómleikunum, án þess að draga óþarflega mikla athygli frá tónlistarmönnunum.
Hvað finnst ykkur, landar góðir? Hér er eitt sýnishorn af tólf. Ég má til með að vara við því að textinn er á hollensku.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.8.2007 | 07:08
Verkefni með Rick Treffers
Dagurinn í dag verður spennandi. Þetta er fyrsti upptökudagur af þremur sem ég vinn með Rick Treffers. Hann er hollendingur og er að gefa út geisladisk í október. Eins og lög gera ráð fyrir verður farið í hljómleikaferðalag til að vekja athygli á afurðinni.
Hann hefur verið að í rúm tíu ár, mest með hljómsveitinni Mist. Þetta verður hins vegar sólódiskur.
Hann hafði samband við mig fyrir einhverjum vikum síðan og bað mig að hanna video hlutann. Ég notast við ljósmyndir sem voru teknar fyrir bæklinginn. Hugmyndin er að gæða þær lífi og nota þær sem bakgrunn meðar hann spilar. Í dag förum við sem sagt í upptökur.
Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu. Læt vita.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 07:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.4.2007 | 22:21
Summertime
It's summertime, and the living is easy...
Allavega hér í Hollandi. Ég held að opinber hiti hafi verið um 25 stig í dag, en mælirinn í garðinum fór í 33 stig. Mælirinn er í skugga. Þá er bara eitt að gera, grilla pulsurnar sem mamma kom með. Á laugardag var ég allan daginn á hestamannamóti að kvikmynda hross að hoppa yfir hindranir. Það er soldið fyndið fyrir íslending að gera þetta því hollendingarnir fara öðruvísi að. Hér eru engir pelar eða lopapeysur. Menn eru uppáklæddir í rauð föt og líta út eins og pínulitlir tindátar úr Napoleon stríðunum á risastórum hestunum.
Svo er ég að kynnast Mats betur og hann okkur eftir því sem hann eldist og þroskast. Ég hef tekið upp á því að vagga honum þegar hann er óvær. Ég set tónlist á og þá erum við bara tveir einir í heiminum. Það er ekki sama hvað spilað er, en Fade to Black með Dire Straits er vel þegið, lengri Pink Floyd lögin, Katie Meluha. Uppáhaldið er samt útgáfa Paul McCartney á Summertime. Þetta er skemmtilega hrá og blúsuð útgáfa og Mats róast um leið og hann heyrir upphafstónana. Hann er yfirleitt sofnaður þegar lagið endar. Merkilegt að hann skuli taka eitt lag fram yfir önnur, en svona er það samt.
Meira seinna. Nú þarf ég að fara að sofa. Löng vika framundan.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.3.2007 | 09:26
Um Land, Þjóð, Fána og Þjóðsöng
Spaugstofan grínaðist með þjóðsönginn og virðist þar með hafa opnað box Pandoru. Margir eru móðgaðir yfir þessu "virðingarleysi". Það eru jú lög sem kveða á um að ekki megi flytja hann í breyttri mynd. En hvað er þjóðsöngur og hvert er hlutverk hans?
Það er engin spurning að af hinni þjóðlegu þrenningu, landinu, fánanum og söngnum er landið dýrmætast. Án landsins er fáninn og söngurinn einskis virði.
Þjóðsöngurinn á að fjalla um landið, hversu dásamlegt það er og okkur dýrmætt. Þjóðsöngurinn okkar fjallar hins vegar um Guð meira en hvað annað. Kristin trú er þjóðtrúin og nenni ég því ekki að kvarta um það. Að söngurinn sé torsunginn hafa aðrir skrifað um. Það er sennilega rétt. Allavega kann ég hann ekki og gæti sennilega ekki sungið hann þó svo væri. Ekki að ég hefði neinn sérstakan áhuga, því ef ég hugsa um landið mitt vil ég ekki endilega blanda Guði eða trú inn í það. Ísland, landið sjálft, er það dýrmætasta sem íslenska þjóðin á og landið á skilið alla þá virðingu og ást sem við getum gefið. Landið er okkar, landið ar þeirra sem á undan lifðu og landið er þeirra sem á eftir koma. Það er merkilegt að sjá fólk sem styður stórvægilegar skemmdir á landinu, óafturkræfar skemmdir, móðgast þegar þjóðsöngurinn er notaður til að verja landið. Þjóðsöngurinn ætti að vea eign allra landsmanna, sameiningartákn. Ef að gerð er þungarokksútgáfa er það betra en núverandi ástand þar sem flestum er nokkuð sama um þetta "kórlag".
Fáninn er líka svolítið skemmtilegt fyrirbæri. Hann er kross, tákn trúarinnar, en litirnir tákna eld, ís og haf. Það sem mér finnst hvað merkilegast hér er að fáninn má ekki snerta jörðina, jörðina sem hann er tákn fyrir. Það er sennilega ástæða fyrir því, en ég get ekki ímyndað mér hver hún er.
Þjóðin sem býr í landinu hefur rétt á að nýta það, njóta þess og elska. Þjóðin hefur ekki rétt til að þurrmjólka það svo að ekkert standi eftir fyrir komandi kynslóðir.
Það að standa vörð um fánann og þjóðsönginn en eyðileggja landið er hræsni. Á sennilega mikið sameiginlegt með fólki sem ver kirkjuna en gengur þvert á það sem trúin boðar. Þjóðsöngvar og fánar eru tákn fyrir landið, rétt eins og kirkjur og krossar eru tákn trúarinnar. Okkur væri hollast að bera virðingu fyrir því sem virkilega skiptir máli, landinu sjálfu og þjóðinni. Þá kemur virðing fyrir öðrum hlutum af sjálfu sér.
Spaugstofumenn brutu lög um þjóðsönginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.12.2006 | 22:15
Focus
Í tilefni jólanna hef ég ákveðið að setja inn myndband sem ég gerði fyrir hollenska söngkonu í fyrrahaust. Þetta gerðist svona...
Ég fór á tónleika sem voru kallaðir Live in the Living af því að hljómsveitir komu fram í stofu heima hjá fólki. Ein þeirra sem komu fram var Marike Jager. Röddin var heillandi og ég ákvað að ég yrði að gera eitthvað með henni. Það sem ég er siðvandur maður bauðst ég til að gera myndband við lag af þá óútkominni plötu hennar. Það var slegið til og ég fór að hugsa um hvað myndbandið skyldi vera.
Sagan var samin og við komum okkur saman um tökustaði og daga. Stór hluti var tekinn upp í sandöldum í Soest í mið-Hollandi. Café hlutinn og götuatriðið var svo tekið upp í Amsterdam. Við notuðum líka myndver með bláum vegg til að taka upp sum atriðin, eins og þar sem hún er tvisvar í mynd.
Myndbandið var svo klippt og litað af mér. Ójá, ég lærði tvennt af þessu verkefni. Ekki gera allt sjálfur án þess að biðja nokkrn mann (eða konu) um hjálp (þó að erfitt sé að fara eftir því) og hitt var...
Látið svo endilega vita hvað ykkur finnst. Og til þeirra sem ekki lásu síðustu færslu, Gleðileg Jól!
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
22.11.2006 | 14:19
Gullgrafari eða fórnarlamb?
Hver ætli sannleikurinn sé? Þau gerðu ekki kaupsamning þegar þau giftust. Frekar illa hugsað af Paul myndi maður halda, en hann átti auðvitað langt hjónaband að baki sem endaði með dauða Lindu. Maður hefði samt haldið að það væri fólk kring um hann sem hefði ráðlegt honum að gera samning.
Ef Heather er fórnarlambið, má hún alveg útskýra af hverju. Hún fær væna summu við skilnaðinn, ekki spurning með það. Þarf hún virkilega helminginn af eignum Pauls? Hún á sennilega rétt á þeim nema hægt sé að flækja málið, en ef þetta er svona sársaukafullt ferli, af hverju ekki bara sætta sig við 100 milljón pund og kalla það gott?
Maður veit aldrei.
Eitt að lokum, endilega lesið þetta og kjósið svo hér til hliðar.
Mills: Skilnaðurinn verri en að hafa misst útlim | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.11.2006 | 21:51
Að texta mynd...
...sökkar. Þvílíkt starf. Allavega, ég skulda ykkur ekki kvikmyndablogg, svo hér er það.
Ég var frekar upptekinn í gærkvöldi, var að klippa til fjegur um morguninn. Það var fluga í hausum á mér sem hætti ekki að suða. Klára röffköttið fyrir miðvikudaginn. Þá er hægt að texta og koma þessu frá sér. Ég kláraði sem sagt að búta saman myndinni og horfði á hana frá upphafi til enda í fyrsta sinn. Þetta var mikil stund, vegna þess að þarna var ég að sjá sköpunarverkið mitt í fyrsta skipti og af því myndin er svo löng. Mér er talin trú um að mynd er stuttmynd svo lengi sem hún nær ekki klukkutímanum. Þessi er 37 mínútur. Það er 1/3 af bíómynd. Spáið í það. Það held ég að maður sé léttskrítinn að fara út í svona dæmi.
Það var skrítin tilfinning að sjá myndina frá upphafi til enda. Ég var ekkert alveg viss um að þetta væri að virka. Þá minnti ég mig á að það á eftir að fínpússa klippinguna, laga liti og hljóð og semja tónlist. Þetta er ekki tilbúið. Í dag fór ég í að prufa liti og lagaði klippinguna til. Þetta er bara að virka, svei mér þá. Ég hef trú á þessu. Ójá.
Það skemmtilega var að leikaranir (here I go again) voru að skila sínu. Ég horfði upp á persónurnar falla í gryfjurnar sem ég hafði skrifað og hugsaði með mér, ekki gera þetta. Farðu varlega. Það verður gaman að sjá hvað öðrum finnst um þetta allt saman.
En af hverju er ég að texta þetta? Það er nebbla þannig að tónskáldið er enskt og skilur ekki baun í íslensku. Ég þarf því að texta alla myndina áður en ég set hana á DVD og sendi hana til hans. Það er voðaleg vinna. Svo mikil vinna að ég hlýt að vera fífl að vera að taka mér pásu til að pikka þetta blogg. Það er eins og sé ekkert líf nema maður hafi lyklaborðið undir nefinu.
Allavega, ég er spenntur. Svo spenntur að nú hætti ég þessu svo ég geti farið að texta svo ég geti sent diskinn svo ég geti heyrt hvers konar tónlist myndin fær heimsfrægan tónlistarmann til að semja. Ojá, hann er heimsfrægur. Ég er viss um að flestir íslendingar, flestir vesturlandabúar reyndar, undir fimmtugu eigi plötu sem hann spilar á.
Gleymið svo ekki að tilnefna fyndnasta bloggarann hér!
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
20.10.2006 | 13:04
Stuttmynd - Sýnishorn tvö
Ég var að klára að setja saman nýtt sýnishorn. Eins og síðast er þetta ekki kynningarmyndband (trailer), þar sem myndin er ekki komin það langt í vinnslu. Tónlistina gerði ég sjálfur, þar sem eiginleg tónlist myndarinnar er ekki tilbúin. Þetta er meira til að gefa fólkinu sem hjalpaði til möguleika á að sjá hvað er að gerast.
Myndbandið hér á blogginu er í venjulegru vef upplausn, 320x240 pixlar, en hægt er að nálgast iPod útgáfu í hærri upplausn á Oktober Films heimasíðunni.
Látið svo endilega vita hvað ykkur finnst og hvort það sé góð hugmynd að setja myndbönd beint inn í færslu eins og hér er gert.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.7.2006 | 09:40
John Lennon
Ég hef oft velt því fyrir mér hvað John Lennon væri að gera ef hann væri á lífi. Hvað hefði hann gert hefði Mark Chapman ekki myrt hann í desember 1980?
Við vitum að hann var nýbúinn að gefa út plötuna Double Fantasy. Það er ekki eins vel þekkt að hann var á leiðinni til Englands til að hjálpa bæði George og Ringo með sóloplötur sem þeir voru að vinna að. Þar að auki var hann langt kominn með næstu sólóplötu, Milk and Honey. Hún var kláruð eftir andlát hans og gefin út árið 1984.
Þá er það fantasían. Vorið 1981 er hann búinn að hjálpa ex-Bítlunum tveimur. Hann fer aftur til NY að klára sína eigin plötu. Hún kemur út á haustmánuðun 1981 og selst nokkuð vel. Hann spilar á örfáum hljómleikum í kring um jólin en tekur ekki í mál að fara í alvöru hljómleikaferð.
Um vorið fer Lennon aftur í hljóðver. Upptökur eru kláraðar síðla sumars og platan kemur út fyrir jólin 1982. Hún selst minna en fyrri plötur og Lennon dregur sig í hlé. Sean er átta ára og John finnst hann ekki hafa sinnt honum nógu mikið síðustu þrjú árin. Haustið 1983 bankar gamall kunningi, Elton John, upp á hjá honum. Hann vill ólmur fá Lennon til að syngja inn á nýjustu plötuna en John er ekki svo viss. Elton tekur nei ekki í mál og John lætur til leiðast. Lagið er gefið út á smáskífu í byrjun árs 1984 og selst vel. Þeir spila saman á einum hljómleikum. 1984 fer í að ferðast um Bandaríkin og reyna að fá fólk til að kjósa Reagan út úr Hvíta Húsinu. Hann semur lag og tekur það upp með George Harrison og Eric Claption. Herferðin er mikið í fréttum, Lennon er maður ársins að mörgu leyti, en Reagan nær þó endurkjöri. John hjálpar líka syninum Julian með fyrstu plötuna.
Í ársbyrjun 1985 hittast þeir John, George og Eric aftur. Ætlunin er að fylgja eftir smáskífunni frá árinu áður. Þetta átti að vera 2-3 lög en vatt fljótt upp á sig og í apríl voru 14 lög komin á band. 10 laga platan kemur út í byrjun júní 1985, gengur vel, og er fylgt eftir með lítilli hljómleikaferð um Bretlandseyjar. Þeir koma meðal annars fram á Live Aid. George og Eric vilja halda áfram og fara um Evrópu og Bandaríkin, en John hefur ekki áhuga á því. Það eru háværar raddir um að Bítlarnir skuli koma saman á árinu til að halda upp á 45 ára afmæli Johns, 25 ára afmæli Hamborgar ævintýrsins og 15 ára afmæli Let it Be, en enginn Bítlanna segist hafa áhuga.
"Lennon in the Movies!". Í lok 1985 tekur Lennon að sér að framleiða mynd um afleiðingar Víetnam stríðsins. Hann leggur til fjármagn og nafn sitt. Hann ferðast til suð-austur Asíu á vormánuðum 1986 og talar við Bandaríska hermenn um sumarið. Klipping fer fram um haustið og er myndin frumsýnd samtímis í London og Washington í byrjun desember 1986. Í kjölfar myndarinnar ferðast Lennon um heiminn, fer á eins konar fyrirlestratúr. Í mars fer hann með fjölskylduna til Bahama eyja og nýtur sumarsins við Karabíska hafið.
Haustið 1987 hringir síminn. Það er svarthærður íri sem vill ólmur fá goðið til að koma fram með hljómsveit sinni. John er ekkert á því að koma fram á sviði og segir nei. Eftir margar símhringingar ákveður hann þó að skoða málið, þar sem þessi ungi maður virðist hafa eitthvað til málanna að leggja. Eftir að hafa séð U2 á hljómleikum slær Lennon til og kemur fram með þeim í Madison Square Garden í lok september 1987.
Hann smitast af ákafa þeirra, sér að baráttan fyrir friði lifir enn og ákveður að taka til hendinni á ný. Hann tekur upp tvö lög með U2 í Sun Studios, sem eru seinna útgefin á Rattle & Hum. Lennon lokar sig af í íbúðinni í NY í tvo mánuði og gerir ekkert annað en að semja lög. Nýja platan er tekin upp á sex vikum í byrjun 1988. Hvert lag er fullkominn áróðurssöngur fyrir betri heimi. Lennon leitar uppi tólf leikstjóra og lætur gera stuttmynd (frekar en myndband) við hvert lag af plötunni. Nýjasta afurðin kemur svo út í júlí 1988 á vínyl, geisladisk og myndbandi. Viku fyrir útgáfuna er myndin sýnd í 30 kvikmyndahúsum um allan heim. Aldrei þessu vant ákveður Lennon að fara í hljómleikaferð. Hann ferðast um allan heiminn frá júlí 1988 til mars 1989. Lagavalið er 45% nýtt efni, 35% sólo og 20% Bítlalög. Ferðin er mjög vel heppnuð, þó sumir kvarti yfir að hafa ekki fengið að heyra meira Bítlaefni.
Árið 1989 eru blikur á lofti í austur Evrópu. Lennon ferðast um álfuna og predikar ást og jafnrétti. Þegar múrinn fellur um haustið er hann í Berlín.
Framhald seinna...?
Þessi færsla var innspíreruð af þessu.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)