Færsluflokkur: Tónlist

Væluskjóður!

Skemmtanaiðnaðurinn hefur verið duglegur að barma sér og hágráta yfir því hvað heimurinn er vondur. Við erum öll þjófar, aumingjar sem viljum allt fyrir ekkert. Stelum öllu steini léttara, svo að tónlistarmenn þurfa að éta það sem úti frýs. Og þeir sjá það sem úti frýs, því þeir eru neyddir til að fara út á götu og glamra á gítarinn í frostinu með hor í nös, vonandi að vegfarendur hendi í þá tíkalli af og til. En við erum þjófar, svo líkurnar á því eru hverfandi. Listamenn eru dæmdir til að deyja úr kulda og hor í þakherbergi, einir og yfirgefnir.

Nú er heimurinn að taka upp ACTA lögin sem leyfa þessum fórnarlömbum þjófanna að fangelsa fólk fyrir að dánlóda myndum, tónlist og hverju sem hugsanlega var skapað af öðru fólki. Það er lögbrot að birta brot úr lagatextum í tölvupóstum og á bloggum. "Imagine no possessions, I wonder if you can" Þar hafiði það. Það eru harðari viðurlög við því að ná sér í eitt lag á netinu án endurgjalds, en að nauðga 13 ára dóttur nágrannans. Hvaða skilaboð er verið að senda? Er heimurinn að verða algerlega sturlaður?

Svo heyrði ég dæmi um að aðstandendur hafi þurft að borga STEFi fyrir að mega góðfúslega spila lög eftir listamanninn látna. Hvert fara þeir peningar? Og ef ég er að klippa myndbönd sem ég tók sjálfur og þarf harðan disk, fer hluti verðsins til STEFs sem makarr fyrst krókinn sjálft og útdeilir afganginum á aumu listamennina sem ekkert höfðu með verkefnið mitt að gera.

En bíddu. Eru listamenn að fara á hausinn? Verður heimurinn tónlistarlaus innan skamms? Svarið virðist vera nei. Meiri tónlist er gefin út nú en nokkru sinni fyrr. Hagnaður er meiri en nokkru sinni. En samt á að taka okkur kverkataki og stinga í steininn. Ég hef ákveðið að verði ACTA að lögum, mun ég hætta að kaupa tónlist og kvikmyndir. Hér er athyglisverð mynd sem sýnir þróunina undanfarin ár. Smellið þar til lesanleg stærð fæst.

theskyisrising

 Þess má geta að ég hætti að næla mér í forrit þegar Apple setti upp App Store fyrir tölvur. Pages, sem er svipað og Word, kostar 16 evrur. Final Cut Pro, sem áður var 1000 evrur, kostar nú 240. Þetta er málið. Það tekur því ekki að stela þessum forritum, og salan eykst.


mbl.is Hakkarar réðust á vef ráðuneytis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steve Jobs - snillingur

Fyrsta Apple tölvan sem ég komst í kynni við var upphaflegi Makkinn hjá vinkonu mömmu. Fórum þangað í heimsókn og þarna stóð hann. Lítill skjárinn í svart-hvítu. Ég fékk að leika mér með tölvuna og reynslan skildi eitthvað eftir sig.

Systir mín var seinna með Makka á heimilinu. Frábær tölva. Ég átti auðvitað PC ens og allir, en Makkinn hafði eitthvað sem ég gat ekki útskýrt.

Það var svo 2004 að ég fór að læra kvikmyndagerð. Þurfti Makka til að geta notað Final Cut Pro. Keypti notaðan PowerMac. Ég myndi auðvitað nota ThinkPad tölvuna í allt annað, enda ein af betri gerðunum með skjá í hárri upplausn og fleira gott. Örfáum vikum seinna var eg hættur að nota IBM tölvuna og var farinn að nota Makkann í allt. Ekki bara klippingar.

Ég þurfti ferðatölvu og keypti mér tólf tommu PowerBook. Besta tölva sem ég hafði átt. Hún var notuð einhverja klukkutíma á dag í sex ár og aldrei hikstaði hún. Hún var seld siðasta sumar þegar ég keypti MacBook Pro. Ég sakna gömlu tölvunnar og sé eftir að hafa selt hana. Ekki að hún nytist mikið í dag. Hún myndi ekki ráða við forritin sem ég er að nota í dag, en hún var orðin vinur. Sex ár er langur tími og hún klikkaði aldrei.

Það er erfitt að útskýra hvað gerir Makkann svona sérstakan. Betra viðmót? Fallegri hönnun? Það að hlutirnir virka bara? Ég náði mér í Final Cut Pro X um daginn. Var forvitinn. Allir virðast hata þetta forrit. Allt of mikil breyting frá síðustu útgáfu. Allt of einfalt. Vantar í það. Er leikfang, ekki "pro". Ég varð að prófa. Ég horfði á skjáinn og skildi ekkert. Hafði gert stuttmyndir, myndbönd og klippt heilu hljómleikamyndirnar á Final Cut Pro, en ég sat bara og horfði á skjáinn. Beit þó á jaxlinn, skrifaði örstutt handrit, hringdi í leikkonu og við tókum upp stuttmyndina White Roses. Tók mig hálfan dag að læra grunninn í nýja klippiforritinu og klára myndina. Gerði svo tónlistarmyndband um helgina. Ég skyldi nota Final Cut Pro X, ekki eldri útgáfuna. Það virkaði vel og eftir þessi tvö verkefni hef ég engan áhuga á að fara til baka. Það nýja er leiðin fram á við.

Og svona var Steve Jobs. Aldrei hræddur við að taka skref fram á við. Fólk horfðu stundum í forundran, hvað er hann að gera? Þetta verður flopp. Og vissulega klikkaði hann af og til. En fyrirtækið sem hann byggði upp, tölvurnar, stýrikerfið. Steve breytti heiminum með því að fara slóðir sem engum datt í hug að fara, taka áhættur sem hefðu getað sett hann og Apple á hausinn. Hann hafði sýn, trúði á hana og kom henni í framkvæmd.

Steve Jobs verður saknað. Hvernig mun Apple breytast? Hvaða áhrif mun fráfall hana hafa á okkur Apple notendur? Sjáum til.

Læt myndbandið fylgja með.

 

Afsaka innsláttarvillur og annað. Skrifaði þetta hratt og fór ekki yfir, því ég er að verða of seinn í vinnu!!! 


mbl.is Steve Jobs látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndbandið þýska

Hvað gerir fólk sem hefur ekki tíma til að skipta um nærbuxur nema einu sinni í viku? Hefur ekki efni á bút í þær slitnu? Það fólk klárar klippingu á hljómleikamynd, tekur upp aðra, þýðir handrit og tekur að sér að gera myndand fyrir súkkulaðibita. Julia A. Noack er bara svo fín, enda Berlíner.

Hér er afraksturinn, ferskur úr ofninum. Kíkið endilega í HD ef púddan ræður við...

 


Into The Real kvikmyndað

Julia Noack

Ég er að dunda mér við að gera myndband fyrir þessa stelpu. Hún heitir Julia Noack og býr í Berlín. Flott lag, frábær karakter og ég held að myndbandið verði skemmtilegt. Þetta gekk að vísu svolítið brösuglega. Ég sótti hana klukkan 6:45 að morgni með það í huga að kvikmynda hana í fyrstu sólargeislunum, en göturnar eru svo mjóar og húsin svo há í Amsterdam að við sátum í skugganum. Ég notaði þá bara tækifærið og tók myndir af henni. Hún þurfti svo að vera mætt í útvarpsviðtal korter í átta, svo við urðum að hætta um það leyti sem sólin lér sjá sig.

Svo ætluðum við að taka upp atriði kvöldið eftir, en það klikkaði vegna anna. Notuðum því daginn. Við tókum upp helling framan við grænan skerm, vonandi að þetta yrði nothæft. Þegar við vorum rétt að byrja sá ég bandið, nýtt, öðruvísi og betra fyrir mér í hausnum. Vandamálið gerði það að verkum að myndbandið verður betra.

Julia Noack

Henti laginu inn hér til hliðar. Njótið.

 

Afsakið annars að ég nenni ekki að blogga um pólitík þessa dagana. Það breytist hvort eð ekkert. 


Paradiso - einokunarverslunin afnumin

Það er ekki oft að það hlakki í mér við gjaldþrot, en ekki get ég sagt að ég hafi grátið í gær. Kvikmyndafyrirtæki hafði gert samning við tvo hljómleikastaði í Amsterdam, Paradiso þar á meðal. Þeir höfðu einkaleyfi á að kvikmynda það sem þar fram fór. Ég var beðinn um að taka upp hljómleika Maria Mena í Paradiso, en það gekk ekki upp því einkaleyfið var í fullu gildi. Ekki að hitt fyrirtækið hafi haft áhuga á að taka upp hljómleikana, heldur var málið að halda öðrum frá. Ekkert var tekið upp. Slæmt fyrir mig, slæmt fyrir salinn, skipti ekki máli fyrir kvikmyndafyrirtækið sáluga. Málið var að fái þeir ekki kökuna, fær hana enginn. Þetta var leiðinlegt ástand, því margir íslendingar sem spila hér í Hollandi, spila á þessum stöðum.

Það er vonandi að ég hafi möguleika á að taka upp fleiri hljómleika hér eftir. Hafi Hjaltalín áhuga á að tala við mig, og lesi þeir þetta, er þeim velkomið að vera í sambandi. Paradiso er open for business. Einokunarverslunin er dauð.


mbl.is Hjaltalín hefur upptökur á nýrri plötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Love Me Do að Let It Be

Ef ég er ekki að klikka á sagnfræðinni, spiluðu þeir síðast saman á minningarhljómleikum George Harrison. Það var árið 2002. Nú er 2009. Þetta er því jafn langur tími og leið milli Love Me Do og Get Back upptaknanna, sem enduðu á Let It Be plötunni. Svo leið svipaður tími milli hljómleikanna 2002 og Anthology upptaknanna 1995.

Sýnir manni hvað Bítlarnir störfuðu stutt. Gerir afrek þeirra merkilegri fyrir vikið. 


mbl.is Ringo og Paul saman á sviði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enda er ég vinafár...

Aldrei átti ég marga vini og aldrei fékk ég laun af einhverju viti, nema kannski þegar ég var að klepra hjá IBM heildsölunni um árið. Átti reyndar ekki heldur marga vini þá. Hefði kannski getað keypt nokkra, en nú er peningurinn búinn. Átti heldur ekki marga vini í skóla og það sést á launaseðlunum sem væru meira virði sem brennsluefni í arninn, ef þeir væru ekki PDF skrár.

En hvað um það. Ég átti aldrei marga vini og hef ekki eignast þá enn. Hafði það þó af að hjálpa til við að kvikmynda lagið að neðan, svona ef vera skyldi að einhver hafi áhuga...

 


mbl.is Algengast að fólk eigi um 150 vini
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Splittessu

Sena virðist eiga megnið af íslenskri menningu. Flestum kvikmyndum er dreift af Senu. Megnið af íslenskri tónlist er í eigu Senu. Hver sá sem eignast fyrirtækið, eignast íslenska menningu.

Ég vona að það verði vel staðið að þessu. Best væri þó ef fyrirtækið yrði bútað niður svo að enginn gæti "átt" menninguna okkar. 90% markaðshlutdeild, eða hvað Sena er með, getur ekki verið holl. 


mbl.is Sala Senu ófrágengin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tunglmyrkvi ... og ský

Mig minnir að það hafi verið 3. mars 2007 sem ég sat útí garði með listmálara um nótt. Tilefnið var tunglmyrkvi. Það var kalt og rakt í lofti, en hann setti gasofn milli stólanna og borð þar sem við hrúguðum rauðvíni og ostum. Ég beindi vídeókamerunni til himins og tók herlegheitin upp. Það var svo hugmyndin að gera eitthvað skemmtilegt úr þessu. Ég var þá á kafi í því að klippa Svarta Sandinn og gaf mér ekki tíma í tunglið.

Eins og góðum kvikmyndagerðarmanni sæmir á ég fullt af hörðum diskum með efni. Sumt er klárað, annað ekki. Ég var að fara í gegn um diskana og rakst á þetta hálfkláraða verkefni. Ég opnaði þetta og var að klára að gera stutta mynd þar sem myrkvinn er sýndur á 7000% hraða. Það sem gerðist á fjórum tímum tekur nú þrjár og hálfa mínútu. Ég ákvað að setja lag undir, Sveitin Milli Sanda með Elly Vilhjálms. Vona að Sena geri mér ekki lífið leitt út af því.

Setti þetta á youTube í HD.

 


You Thumb Sucking Son of a Boyo

Geir er eins og ævintýrapersóna. Hann er fallegur og góður, en þó virðist eitthvað vera ekki eins og það á að vera. Svo þegar honum er bolað frá, breytist hann í þá kynjaveru sem hann var alltaf inni við beinið og bítur og brennir borgir og brýr. Hann talar um hatur og dásamar þá sem þjóðin urrar sem mest yfir. Í hvert sinn sem hann opnar munnin gapar þjóðin meira. Held ég.

Geir, ef þú vilt ekki eyða út restinni að fylgju sjallanna, ekki tala. 

Ég er að dunda mér við að setja HD myndbönd inn á netið. Allt sem ég hef gert sem lítur þokkalega út eða er ekki hundleiðinlegt mun koma til með að prýða mína nýju þútúpu síðu. Mér fannst þetta viðeigandi við þetta tækifæri. Mugison og hans fallegi fagurgali um þumalsugusoninn.

 


mbl.is Geir þakkar stjórum Seðlabanka vel unnin störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband