Imagine no possessions, voru þessir peningar einhvern tíma til?

John Lennon samdi Imagine árið 1971. Þar veltur hann fram fallegum spurningum sem við við reynum varla að svara. Þær eru of háleytar, við tökum þær ekki alvarlega. Hvers vegna? Er það vegna þess að heimurinn er eins og hann er eða erum við of föst í kössunum sem við höfum komið okkur fyrir í?

Það væri gaman að skoða þessar spurningar og sjá hvort hægt sé að svara þeim öðruvísi en neitandi. Ef jafnrétti, friður og mannlegur kærleikur er það sem við viljum, hvers vegna er heimurinn fullur af stríði og fordómum? Erum við sjálfselsk eða hefur sagan og þjóðfélagið spillt okkur? Eru einhverjar líkur á að við munum nokkurn tíma lifa við alvöru jafnrétti, frið og gagnkvæman skilning?

Skoðum textann við Imagine.

Imagine there's no Heaven
It's easy if you try
No hell below us
Above us only sky
Imagine all the people
Living for today

Fyrsta versið veltir fyrir sér trúnni. Trúarbrögð hafa lofað okkur Himnaríki ef við erum góð og hótað okkur helvíti ef við erum slæm. Að vera góð í þessu stutta lífi er fjárfesting á eilífð í paradís. Án trúar myndum við verða sjálfselsk og troða á nágrannanum, því okkur yrði ekki refsað. Það má því segja sem svo að trúarbrögð geri ráð fyrir að við séum öll slæm af náttúrunnar hendi. Það má segja að trúnni hafi mistekist ætlunarverk sitt, því við komum ennþá illa fram við hvort annað eftir allar árþúsundirnar. Trúarbrögð hafa meira að segja oft verið orsök styrjalda. Við getum endalaust rökrætt um það hvort trúnni (Guði, Biblíunni, Kóraninum) er um að kenna eða trúarleiðtogum, og hvort við hefðum fundið aðrar ástæður til að berjast. Hver svo sem ástæðan er, trúarbrögðum hefur mistekist það meinta ætlunarverk sitt að gera okkur manneskjulegri.

- Hvað kenna trúarbrögð?
- Hver er munurinn á trúuðum og trúleysingjum?
- Hver er munurinn á mismunandi trúarbrögðum?
- Hvaða áhrif hafa trúarbrögð haft á heiminn?
- Eru einhver trúarbrögð minna útötuð blóði en önnur, og ef svo er, hvað gerir þau öðruvísi?
- Hvernig yrði heimurinn án trúarbragða?

Imagine there's no countries
It isn't hard to do
Nothing to kill or die for
And no religion too
Imagine all the people
Living life in peace

Annað versið er um lönd, og þar með þjóðir og þjóðernishyggju. Hver erum við, einstaklingar eða hlutar af heild? Af hverju erum við tilbúin til að drepa fólk af öðrum þjóðernum ef stjórnvöld segja okkur að gera það? Hver er munurinn á að drepa útlending eða einhvern af sama þjóðerni? Er einhver munur á kosnum stjórnum og erfðum, skiptir það máli hvort okkur er stjórnað af þjóðþingum og forsetum eða flokkum, einræðisherrum eða konungsfjölskyldum? Þarf að stjórna okkur, og ef svo, hvers vegna? Ef við losuðum okkur við lönd og þjóðir, myndi einhver notfæra sér það og kúga fólkið? Getum við lifað af án þess að einhver sé við völd? Er einhver munur á þjóðernishyggju og kynþáttafordómum?

- Hvað er land?
- Af hverju þurfum við lönd, ef svo er?
- Hvað hefur komið af stað stríðum milli landa og hvers vegna höfum við tekið þátt í þeim og barist?
- Hvað eru þjóðarleiðtogar og hvernig virka stjórnvöld?
- Hvernig væri heimurinn án landamæra og væri það yfir höfuð mögulegt?

You may say that I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will be as one

Imagine no possessions
I wonder if you can
No need for greed or hunger
A brotherhood of man
Imagine all the people
Sharing all the world

Þessu er sennilega erfiðast að svara eins og John bendir á. Hvað er eign? Ef þetta er húsið mitt, af hverju skulda ég einhverjum banka næstum allt verðgildi þess? Hvernig getur banki búið til peninga úr engu? Ef ég kaupi hús og tek lán setur bankinn pening inn á reikninginn minn, en það er ekkert annað en að setja vissa tölu við nafnið mitt í tölvunni. Þegar banki lánar, kemur peningurinn úr lausu lofti. Peningurinn á reikningnum mínum er færður inn sem skuld bankans, en á móti er lánið mitt eign bankans. Þessar færslur eyða hvorri annari út, ég keypti húsið fyrir ekkert. Ef bankinn lánaði innistæðu annars fólks, eins og flestir halda, þyrfti hann að lækka þær innistæður til að bókhaldið gengi upp. Húsið var borgað með láni, lánið eru peningar sem eru ekki til og voru búnir til fyrir viðskiptavininn. Það er því nokkuð ljóst að peningar eru hugarástand, þeir eru til meðan við trúum á þá. Ef við hættum að trúa á peninga, hrynur hagkerfið. Það þarf ekki meira til.

- Hvað er eign?
- Hvernig virka peningar?
- Ef peningar eru verðlausir og ekkert meira en tölur í tölvu, af hverju erum við að eltast við þá?
- Höfum við rétt á landinu okkar, húsinu, bílnum, og hafa sumir meiri rétt en aðrir?
- Indjánar höfðu allt aðra skoðun á heiminum. Þeir trúðu að við værum hluti af heiminum og mættum nota hann skynsamlega en við ættum hann ekki.
- Hvernig myndi heimurinn virka ef við deildum öllu?

You may say that I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will live as one

Eru til önnur svör við spurningunum að ofan eða er heimurinn sem við höfum skapað besta, eða eina, leiðin fram á við? Ef við hugsum öðru vísi, erum við rænulaust draumórafólk með hausinn í skýjaþoku eða snillingarnir sem leggjum grunninn að betri framtíð?

Þessi færsla reynir ekki að svara spurningunum, heldur að velta þeim upp. Það er auðvelt að taka heiminum eins og hann er, eða virðist vera. Allt er, hins vegar, sjaldan það sem það sýnist. Heimurinn, og skilningur okkar á honum, er sífellt að breytast og það sem við trúum í dag eru sennilega hindurvitni framtíðarinnar. Spurningin er, í hvaða átt er heimurinn að þróast og erum við ánægð með þá þróun?

mbl.is Fjármálastofnanir gætu tapað allt að 400 milljörðum dala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er mikið til í þessu.  En samt skrítið þegar maður fer að velta fyrir sér uppsprettu fjármagnsins.  Við erum skildug að borga í lífeyrissparnað til lífeyrissjóða og jafnvel til banka.  Þessir sjóðir taka svo peningana okkar og lána banka- og fjárfestingastofnunm sem svo aftur lána okkur á okur vöxtum.  Til hvers þarf alla þessa milliliði til að mata krókinn.  Af hverju getum við bara ekki fengið hluta af þeim lífeyrir sem við erum búin að spara, lánaðan á mun lægri vöxtum?  Verðmætin verða til við vinnu okkar og tekin af okkur með lögum, síðan fá allskonar stofnanir að valsa með þessa peninga þar til þeir enda aftur í vasa okkar sem lán og þá þurfum við að borga fullt af milliliðum vexti svo þeir geti nú lifað á þessu og skapað vinnu fyrir einhverja fjármálaspekúlanta sem annaðhvort græða í eigin vasa eða tapa fyrir aðra.

Sigurjón Haraldsson (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 16:38

2 Smámynd: halkatla

ég sá einu sinni kvikmynd á rúv sem gerðist á grænlandi um miðja síðustu öld (það er rosalegt hvað mér verður tíðrætt um það tímabil þessar stundirnar) og fjallaði um eskimóa, aðallega fjölskyldurnar í einum ættbálki, elsti karlnn og elsta konan voru höfðingjarnir og þau þurftu að taka rosalegar ákvarðanir til þess að vernda ættbálkinn, eignir einsog við skiljum þær voru ekki til, "landið" ekki heldur og ekki nein skipulögð trúarbrögð sem gerðu uppá milli fólks, en jiminn, allar þessar mannlegu tilfinningar voru til staðar og þær gerðu það að verkum að líf þessa fólks var nánast alveg einsog líf okkar. Öfund, ástríður og allt! Þetta var byggt á sannri sögu.

Peningar eru reyndar argasta blekkingartól og trúarbrögð eru fyrir löngu komin útí rugl, en ég held að rugl sé almennt hluti hins mannlega eðlis og óhjákvæmilegt því miður.

halkatla, 16.11.2007 kl. 16:57

3 Smámynd: Kári Harðarson

Þetta er mjög góð pæling.  Það er auðvelt að gleyma því að við fundum upp peninga sem aðferð við að hugsa um tilveruna.   Þeir eru mannleg uppfinning en ekki náttúrulögmál, eiginlega bara loforð milli manna í samfélagi um að taka ekki frá hvorum öðrum það sem þeir girnast án þess að eitthvað annað komi í skiptum.

Þess vegna má ræða hvort starfsemi banka sem búa til peninga úr engu sé æskileg eða rökrétt.   Yfirvöld hafa lagt blessun sína yfir bankastarfssemi því samfélög þrífast þar sem bankar starfa.  Samt fordæmdi biblían bankastarfsemi miklu harðorðar en gagnkynhneigð.

Þótt ég trúi ekki á allt sem í Biblíunni stendur velti ég stundum fyrir mér hvort ekki sé sannleikskorn þarna?  Bankar virðast prenta sína eigin peninga og þar með ávísanir á verðmæti sem þeir sköpuðu ekki sjálfir.

Kári Harðarson, 16.11.2007 kl. 17:14

4 identicon

Upphaflega voru peningar ekkert annað en ávísun á gull. Þegar peningalánarar evrópu á hinum myrku miðöldum komust að því að fólk vitjaði afar sjaldan gulleignar sinnar sem þeir höfðu í sinni vörslu sáu þeir fljótt að þeir gætu lánað mun meira af peningum en til var innistæða af gulli fyrir. Musteristemplararnir (Knights Templars) voru einmitt brenndir á báli fyrir að stunda þennann leik, þ.e.a.s. að búa til peninga sem ekki var til innistæða fyrir og græða stórfé á því að innheimta vexti.

Sú fullyrðing bankanna að þeir græði peninga á vaxtamun innláns og útlánsvaxta er svört blekking, Veltið þessu fyrir ykkur: Banki segist innheimta 15% vexti af útlánsfé sínu. Samkvæmt kenningunni þá er þetta útlánsfé semsé eiginfé bankans plús innlánsfé. Þegar bankinn getur lánað tíufallda þá upphæð sem hann raunverulega hefur í sínum hirslum, eins og bankakerfi vesturlanda virkar (svokalla fractional reserve banking system) þá er bankinn í rauninni að rukka 150% vexti af eiginfé og innlánsfé (sem við skulum kalla raunfé) sínu.

Þetta eru meðal töfrabragða sem bankar nota í dag til þess að skapa sér auð. Hinsvegar er það alls ekki rétt að auðurinn sé skapaður úr engu. Auðurinn skapast þannig að með þessari sífelldu aukningu á peningum í umferð, þá fellur verðgildi myntarinnar. Við köllum það verðbólgu og við erum látin lifa í þeirri trú að það sé vegna þess að við lifum um efni fram. Sannarlega er það rétt meðan við lifum á yfirdráttaheimild, sem ber 24% vexti (sem skilar bankanum 240% vöxtum af samsvarandi raunfé sem hann hefur í sínum hirslum). En ekki meðan við lifum á okkar eigin fé.

Hvaða merkingu hefur þetta allt saman? Jú, þegar við neyðumst til þess að taka lán í banka, hvort sem það er vegna húsnæðiskaupa eða annars, þá rýrum við myntina og þarmeð sameiginlega auð allra í kringum okkur. Auðurinn skapast ekki úr engu, heldur færist hann yfir til bankanna vegna þeirra aðferða þeirra við að skapa peninga úr engu.

Varðandi texta Johns Lennons, Imagine, þá langar mig að benda þér á bókina "Falið Vald" eftir Jóhannes Björn Lúðvíksson (www.vald.org) en þú getur lesið hana með því að smella á myndina af henni hægra megin á síðunni. Hún útskýrir þetta allt, bæði bankakerfið og hvaða þátt alþjóðabankar hafa leikið í styrjöldum í gegnum aldirnar. Einnig getur þú keypt myndina Moneymasters hér: http://www.themoneymasters.com/ en hún er einhver allra besta heimildarmynd sem til er um þetta málefni.

Heimir Arnar Birgisson (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 19:18

5 Smámynd: Tinna Gunnarsdóttir Gígja

Spurningunum ættirðu að reyna að koma inn í námsskrá grunnskóla. Ég held að allir hafi gott af því að velta þeim fyrir sér og rökræða.

Tinna Gunnarsdóttir Gígja, 17.11.2007 kl. 10:04

6 identicon

Þetta eru stórar spurningar sem eiga sér ekki einhlýt svör, sem er sjálfsagt ástæðan fyrir að margir veigra sér við að ræða þær. Og þeir sem það gera - þeir sem láta ófrið, styrjaldir, ofbeldi og mannréttindabrot fara fyrir brjóstið á sér og vilja kalla eftir öðrum gildum fá oft framan í sig einmitt það sem John Lennon vísar í (you may say I´m a dreamer...) að þeir séu óraunsæir og barnalegir hugsjónarmenn.

Fyrir nokkrum mánuðum, þegar ég var í ákveðinni innri leit varðandi það hvað ættu að vera næstu skref í lífinu, og hvort ég mynda hella mér út í alþjóðleg mannúðarstörf eða halda mig heima við, þá bloggaði ég talsvert um spurningar sem snúa að því hvort okkur komi neyð í fjarlægð við. Hvort sé ekki bara betra að einbeita sér að sínu og skipta sér sem minnst af hörmungum heimsins. Mitt svar var alltaf á sömu leið: Mér kemur þetta við þó það sé langt í burtu. Þá fékk ég einmitt oft þessi viðbrögð í athugasemdum að ég væri naív og illa að mér - sjálfsagt vel meinandi en ég skyldi bara ekki hvað heimurinn væri ljótur og hversu erfitt væri að breyta þessu.

Staðreyndin er hinsvegar sú að ég hafði sennilega bæði lesið mér meira til um grimmd mannskepnunnar en þeir sem komu með þessar athugasemdir og séð með eigin augum sumar verulega ljótar afleiðingar þessarar grimmdar. Samt held ég áfram að vera óforbetranlega bjartsýn hugsjónamanneskja. Mér finnst það vera hluti af því að vera manneskja að velta fyrir sér þessum stóru spurningum og láta það ekki fæla sig frá hversu stórar og flóknar þær eru. Enginn einn leysir þann vanda sem blasir við. Enginn einn getur upprætt grimmd, miskunnarleysi og breyskleika mannsins. En það er hægt að taka ákvörðun um það að vera í þeim hluta sem leitar lausna fremur en bæta á vandann. 

Þetta var nú svona það sem mér datt í hug við lesturinn. Takk fyrir hugleiðinguna...

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 12:58

7 identicon

Ég er sammála indjánunum, fólk á ekki að geta gobblað upp landi og auðlindum á fáar hendur og haldið restini í þrældómi.

Þessvegna er ég æfur yfir vatnalögunum, sem gera vatn í frosnu, fljótandi og gufuformi að eign, rétt eins og landsvæði eru nú eign. 

Næsta lógíska skref er svo loftalögin, það er þegar byrjað að þjálfa okkur með þessu kolefnisjöfnunarkjaftæði, nú er það valkvænt, svo verður það þannig að þú verður að jafna alla þína orkunotkun, svo andardrátt, svo á endanum gætir þú þurft að kaupa tíma handa börnum þínum með því að gefa þig fram á næstu "heilsugæslu" til svæfingar.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 17.11.2007 kl. 14:07

8 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

fínar pælingar

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 17.11.2007 kl. 19:02

9 Smámynd: Halla Rut

Frábær pistill.

Halla Rut , 20.11.2007 kl. 23:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband