Svartur Sandur í póst

Loksins er komið að því. Stuttmyndin Svartur Sandur er komin á DVD og fer í póst á morgun, fimmtudaginn 21. janúar 2008. Voða gaman, en af hverju hefur þetta tekið svona langan tíma?

Tökur fóru fram í ágúst 2006, en hugmyndin er mikið eldri. Ég held þetta sé í fyrsta (og sennilega síðasta) sinn sem ég segi frá því hvernig hugmyndin varð til. Ég var að keyra Hellisheiðina tvo tíma eftir miðnætti, sumarið 1988. Ég er að fara upp brekkuna fyrir ofan skíðaskálann. Efst í brekkunni sé ég stelpu standa við veginn. Hún var klædd í hvítt, eins og hjúkrunarkona, hélt ég. Ég sá hana of seint til að stoppa, en steig á bremsuna því ég vildi athuga hvort hún þyrfti far. Ég gat ekki ímyndað mér að einhver stæði við veginn uppi á heiði um nótt af gamni sínu. Þegar ég leit í baksýnisspegilinn var enginn þarna. Ég er viss um þetta því skyggni var mjög gott og bremsuljósin lýstu upp nóttina. Ég hélt áfram. Morguninn eftir var ég á Bitru og sagði afa frá þessu og hann sagði mér að á þessum stað hefði stelpa frá Selfossi dáið einhverjum árum fyrr. 18 árum seinna var þetta neistinn sem setti Svarta Sandinn af stað.

Ég skrifaði söguna í byrjun árs 2006. Um páskana var handritið tilbúið, með hjálp William Kowalski. Hann er þekktur sem höfundur bókarinnar Eddie's Bastard. Ég óskaði eftir  leikurum á netinu og fann Jóel og Önnu Brynju. Þau fundu mig, öllu heldur. Tökur fóru fram í ágúst á Eiríksstöðum í Haukadal, í Reynisfjöru við Vík í Mýrdal, Á Skógasafni og í Reykjavík. Við tókum upp eitt atriði á veitingastaðnum Pravda, en það var seinna klippt út.

Eftirvinna tók töluverðan tíma, enda unnu allir endurgjaldslaust þegar þau höfðu tíma. Ég byrjaði á að klippa myndina í áhorfanlegt form í september. Þessi útgáfa var 45 mínútur. Fljótlega var ég búinn að stytta hana í 35 mínútur. Johan Kriegelstein, sem hafði komið til Íslands til að hjálpa við tökur, tók við verkefninu og fínklippti.

Ég hafði verið í sambandi við Guy Fletcher, hljómborðsleikara Dire Straits, og hann samþykkti að semja tónlist fyrir mig. Með tónlistina í myndinni og klippinguna fínpússaða, tók ég við verkefninu vorið 2007. Mér fannst hún þyrfti að vera styttri. Ég klippti út þrjú atriði og lagaði til litina. Í ágúst 2007 var myndin tilbúin. Í desember var lesendum bloggsins boðið að sjá hana og um 1000 manns þáðu boðið.

Í janúar sendi Guy Fletcher mér nýja útgáfu af Black Sand Theme og bauð mér að nota það í myndinni. Ég fann góðan stað, en þar sem ég var farinn að grúska, ákvað ég að laga meira til. Litirnir voru ekki eins og ég vildi hafa þá, svo ég endurlitaði myndina eins og hún lagði sig. Ég breytti líka stafagerðinni til að gefa verkinu betri heildarmynd. Að lokum bjó ég til sýnishorn þar sem nýja útgáfan af Black Sand Theme var notuð.

Ég hafði hannað DVD disk, en hann var nú úreltur. Matseðlarnir litu allt öðruvísi út og höfðu lítið sameiginlegt með myndinni. Ég hannaði því diskinn upp á nýtt. Þetta endaði svo á að ég lagaði DVD hulstrið.

Hugmyndin er að þetta sé endanleg útgáfa og að ég geri ekkert meira við hana, nema kannski að bæta við erlendu textana.

Eins og kom fram í desember er hægt að sækja myndina endurgjaldslaust. Nýja útgáfan er mikið fallegri og ég veit ekki hvort ég vilji láta fólk sjá þá gömlu, en hún er enn á netinu fyrir áhugasama. Fólki er svo velkomið að greiða fyrir áhorfið, það gjald sem það telur vera sanngjarnt. Öll innkoma er notuð til að greiða upp kostnað, og náist það, borga þeim sem hjálpuðu til.

Hægt er að leggja inn á PayPal reikning minn á sömu síðu og myndin er sótt. Einnig er hægt að leggja inn á íslenska bankareikninginn 0325-26-000039, reikning 39 í Kaupþingi á Selfossi. Kennitala er 100569-3969. Allar upphæðir eru velkomnar, en borgi fólk 1100 krónur (12 evrur) eða meira, mun ég senda þeim DVD disk. Þetta er hvorki lágmarks- né hámarksupphæð. Ég vil bara sýna þeim auka þakklæti sem borga nóg til að standa undir framleiðslu- og sendingarkostnaði. Ég er auðvitað óendanlega þakklátur öllum sem hjálpa til.

Ég vona að fólki líki myndin. Endilega skrifið dóma þegar þið eruð búin að sjá hana.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband