Færsluflokkur: Bloggar

Lögregluríki?

Þegar ég heyrði af handtöku Ómars í dag, skrifaði ég eftirfarandi athugasemd á DV.
 
"Afsakið orðbragðið, en hvaða helvítis lögregluríki er þetta fáránlega drullusamfélag orðið? Hvað í fjandanum hefur Ómar gert til að eiga það skilið að vera handtekinn? Þetta er eins og gamla Sovét og sögurnar sem maður er að heyra frá USA. Sleppið honum strax og biðjist afsökunar, ef þið viljið ekki algerlega missa almenningsálitið í skítinn."
 
Eiður Guðnason, fyrrverandi ráðherra lét svo hafa þetta efitir sér. "Við búum greinilega ekki í réttaríki heldur lögregluríki."
 
Ríkisstjórnin fór illa af stað. Tók ákvarðanir sem féllu í grýttan jarðveg. Virðist hafa lítinn áhuga á að efna stórkostlegu loforðin frá í vor.
 
Það er staðreynd að íslendingar eru ekki mikil uppreisnarþjóð. Við höfum leyft hinum og þessum að ráðskast með okkur í aldir. Í fljótu bragði, man ég eftir tveimur undartekningum. Vér mótmælum allir Jóns Sigurðssonar og Búsáhaldabyltingin þar sem Hrunstjórnin hrökklaðist frá völdum.
 
Við höfum sýnt að við getum látið heyra í okkur þegar okkur er misboðið. Ég hef það á tilfinningunni að núverandi stjórnvöld séu að storka örlögunum. Íslenska þjóðin lætur sig hafa allan fjandann, en ef henni er endalaust misboðið, ef heiðarlegt fólk er handtekið með ruddaskap, ef ekkert verður gert til að leiðrétta það sem er að í stjórnsýslunni... þá kann fjandinn að vera laus.
 
Nýlenda skuldaþræla sem stjórnað er með harðri hendi er ekki landið sem við viljum að Ísland verði. Það er löngu kominn tími á að venjulegt fólk með eðlilegar skoðanir fari að stjórna í þessu landi. 

mbl.is Eiður: „Löggan tók mig fyrst“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingana Heim

Það er gott mál ef Ísland er að ná til sín hátæknifyrirtækjum. Þjóðin er vel menntuð og á að geta verið brautryðjandi í flestu sem henni dettur í hug að taka sér fyrir hendur.

Fólksflótti eftir hrun getur þó sett strik í reikninginn. Fólk sem flytur að heiman virðist yfirleitt vera vel menntað, fólk sem kemst tiltölulega auðveldlega í góð störf í nágrannalöndunum. Þessu fólki þarf að ná til baka.

Ég hjó eftir þessu í fréttinni: "...meðal annars var Alvogen veittur frestur til þriggja ára á greiðslu gatnagerðargjöldum í Reykjavík."

Væri það ekki hugmynd að gera svipað fyrir íslendinga sem vilja koma heim? Gefa fólki sem átt hefur lögheimili erlendis í fimm ár eða lengur skattaafslátt, fella niður gatnagerðagjöld eða eitthvað svipað fyrstu 1-3 árin?

Málið er nefninlega að þjóðin er verðmætasta auðlind okkar, og ef við látum það óafskipt að best menntaða fólkið fari úr landi og komi ekki aftur, erum við í vanda. Framsækin fyrirtæki með vel menntað fólk innanborðs er sennilega besta tekjulind sem til er.

Svo er það auðvitað bónus að fá fólk heim sem kynnst hefur öðrum samfélögum, því víðsýni hlýtur að vera af hinu góða.


mbl.is Stórt heilbrigðisfyrirtæki skoðar Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíð Íslands...

„En þeir eru til sem hafa ekki trú á Íslandi, þeir sem ala á sundrung og þeir sem aðhyllast öfgakennda hugmyndafræði og líta á hvern þann vanda sem upp kemur í samfélaginu fyrst og fremst sem tækifæri til að innleiða þær öfgar,“ sagði Sigmundur Davíð.

„Íslandssagan í meira en 1100 ár sýnir að þegar við Íslendingar höfum trú á landinu okkar og okkur sjálfum og þegar okkur auðnast að standa saman en látum ekki sundrung og niðurrifsöfl draga úr okkur þrótt, þá farnast okkur vel.“ 

Merkileg orð sem forsætisráðherra lét falla. Á meðan girðingar og lögreglumenn halda "skrílnum" frá þingmönnum, talar hann um niðurrifsöfl og "þá sem ala á sundrung og aðhyllast öfgakennda hugmyndafræði".
 
Ég get ekki betur séð en að SDG (innlend skammtöfun) og hans félagar séu þeir einu sem ala á sundrungu og öfgakenndri hugmyndafræði. Við hverju bjóst ríkisstjórnin? Grjótkasti? Mólótov kokkteilum? Í hvernig hugarheimi lifir þetta fólk? Og sé hætta á þessum öfgakenndu ofbeldisverkum, er þá ekki eitthvað að í þjóðfélaginu? Er ekki hugmynd að finna meinið og vinna á því í sátt við kjósendur, fólkið sem kom SDG og félögum á þing?
 
Sá þessa auglýsingu á MBL.
Þjóðin er sundruð. Það er enginn vafi á því. En af hverju? Er það af því stjórnvöld og peningaöflin hafa alið á sundrungu eða er það af því íslendingar eru svo heimsk þjóð?
 
Við höfum verið mötuð á stóriðjustefnunni í mörg ár. Allt er ál sem glóir. Verksmiðjur eru fyrir alvöru fólk. Jafnvel þegar sýnt er að álvinnsla er í vanda, vilja þeir virkja meira, skemma meira, svo hægt sé að byggja fleiri álver.
 
Listir og menning er eitthvað sem fólk getur dundað sér við í tómstundum ef það nennir. Útlendingar, þessir leiðinlegu túristar, eru til þess eins að blóðmjólka og senda svo heim. Þeir gefa sama og ekkert af sér hvort eð er.
 
Nei, stóriðjan er málið. Eitthvað annað er ekkert.
 
Flugvöllurinn skal fara. Skiptir ekki máli hvort við höfum efni á því að byggja nýjan ákkúrat núna eða ekki.
 
ESB er útlensk skammstöfun og útlendingarnir skilja okkur hvort eð er ekki. 
 
Svo sér maður þjóðina klofna, rífast, sveitavarginn bölva lattelepjurunum. Þeir gefa okkur bein til að rífast um og við hlýðum eins og barðir hundar.
 
Við erum ein þjóð í einu landi. Við getum haft það fínt. En aðeins ef við hættum að láta ata okkur saman í einhverjum tilgangslausum hanaslag. Það eru öfl í samfélaginu sem ala á sundrungu því þau vita að ef þjóðin ákveður að standa saman, verður bylting. Ekki með pottum og pönnum, bensínsprengjum og líkamsárásum, heldur bylting hugarfars.
 
Og bylting hugarfars, að þjóðin klifri upp úr skotgröfunum og sættist, er það eina sem "þau" eru hrædd við.
 
Texti við mynd sést víst ekki almennilega, en hann er: Sá þessa auglýsingu á MBL. "Eftir að rekstur hefst..." Nákvæmlega. Þá er búið að rústa náttúrunni sem fer undir vatn. Disinfo, DoubleSpeak, eins og þeir segja í útlandinu. 

mbl.is Minnkar um 20 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðin til Fasisma?

Sterk fyrirsögn, en stundum velti ég fyrir mér hvert við erum að fara.

Ég man þegar öryggisverðir voru eitthvað sem þeir höfðu í útlöndum. Íslendingar myndu aldrei fara svo lágt að það þyrfti að verja og vernda þingmenn eitthvað sérstaklega.

En eins og einhver sagði, öfgaskríllinn er að eyðileggja þessa virðulegu athöfn.

Virðuleikinn kemur okkur ekki upp úr skuldafeninu sem vanhæfar ríkisstjórnir hafa komið okkur í. Mótmæli við setningu alþingis eru ekkert óvart. Það er ástæða fyrir því ef þingmönnum finnst þeir þurfi að læðast með veggjum.

Hvernig væri að laga það sem að er í þjóðfélaginu, frekar en að þýpka gjáina milli þings og þjóðar enn frekar? 


mbl.is Undirbúa setningu Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósum með, ekki á móti.

Nú er að kjósa. Ef þú vilt ekki Ólaf áfram, er bara ein leið. Ef þú ert ekki með okkur, ertu á móti Nýja Íslandi. Þá styður þú hið gamla, með allri sinni spillingu.

Þetta er einföldun sem oft er slegið fram þegar þarf að hópa fólki um viss málefni. Virkar líka oft. En þetta er meingölluð hugmyndafræði sem elur á ótta. Ef við viljum nýtt Ísland, ef við viljum breytingar, verðum við að hætta að vera hrædd. Það er nefninlega svo auðvelt að stjórna þeim sem hræðast.

Það eru sex frambjóðendur á kjörseðlinum. Ekki tveir. Sex valkostir, með sínum kostum og göllum. Við höfum heyrt þau og séð, vitum nokkurn veginn hvað þau vilja gera verði þau kosin. Það er okkar að móðga ekki lýðræðið og kjósa þann frambjóðanda sem við viljum sjá á Bessastöðum. Ekki kjósa á móti þeim sem við viljum ekki, heldur velja þann sem við viljum. Segja já, ekki nei.

Það tók mig töluverðan tíma að ákveða mig, en ég hef ákveðið að Andrea er minn frambjóðandi. Hún er ekki hrædd við að nýta embættið til að hjálpa heimilunum í landinu. Hún er ekki hrædd við að slá á puttana á ráðherrum sem eru ekki að standa sig. Hún er ekki hrædd við að vera í beinu sambandi við stjórnvöld og setja fram tillögur ef þjóðin fer fram á það. Hún yrði virkur forseti, og það er nákvæmlega það sem við þurfum á komandi árum. Forseti sem er með fingurinn á púlsinum og veitir Alþingi aðhald. Forseti sem lætur sig afkomu og hamingju þjóðarinnar varða. Forseti sem tekur fólkið í landinu fram yfir fjármagnsöflin.

Ég er ekki að kjósa Ólaf með því að velja Andreu. Ég er heldur ekki að kjósa Þóru með því að kjósa ekki Ólaf. Ég er að kjósa jákvæðar breytingar.


mbl.is Tæp 30.000 atkvæði greidd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með eða á Móti?

Ég var spenntur fyrir forsetakosningunum. Kominn tími á nýja manneskju og nýja tíma. Fékk þó fljótt leið á baráttunni. Valið stóð um núverandi forseta með sínum kostum og göllum og einhverskonar Vigdísi. Enginn minntist á alla hina frambjóðendurna. Enda áttu þeir aldrei séns. Eða hvað? Það munum við aldrei vita, því fjölmiðlar brugðust hlutverkinu.

Svo er þetta allt komið út í neikvæðni og us versus them. Við klúðruðum baráttunni.

Ég nota Apple tölvur. Hef gert síðan 2004. Ef einhver vill vita af hverju, get ég svarað já eða nei. Verið jákvæður eða neikvæður. Sagt að Makkinn sé frábær tölva, eða verið neikvæður og sagt að Windows sé drasl. Hvort virkar betur?

Reynum að láta þessa síðustu viku fyrir kosningar vara á jákvæðu nótunum. Það er svo miklu skemmtilegra og uppbyggilegra. Og kjósum þann sem okkur þykir bestur, ekki einhvern sem á séns á að koma höggi á þann sem okkur þykir verstur.


mbl.is Hvöttu Ara til að hætta við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsal Ríkisvalds?

Stjórnarskrármálið er orðið að frasa, eins og svo margt annað í íslenskri stjórnsýslu. Síðustu þrjú árin hafa einkennst af klúðri á klúður ofan. Það eina sem núverandi stjórn hefur sér tl málsbóta er að fyrri stjórnir voru enn verri.

Við verðum að fara að klára þetta mál. Koma nýrri stjórnarskrá á koppinn. Eða hvað? Ég hef ekki lesið hana alla. Mun gera það fljótlega, en ég man að þegar ég rann yfir hana á sínum tíma hnaut ég um eina greinina. Trúði varla eigin augum.

111. gr. Framsal ríkisvalds

Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi. 

Í fyrsta lagi finnst mér að framsal ríkisvalds megi ekki vera leyfilegt. Viljum við gera það í framtíðinni, ætti að þurfa stjórnarskrárbreytingu. Þessi grein er eins og sérpöntuð af Samfylkingunni svo þau geti komið okkur í ESB tiltölulega vandræðalaust. En skoðum þennan texta.

Okkur er heimilt að framselja ríkisvald alþjóðastofnunum. Við gætum þess vegna gengið NATO á hönd. IMF er alþjóðastofnun, ef maður teygir hugtakið. Hvalveiðiráðið er alþjóðastofnun, sem og Asíubandalagið og NAFTA. Það má ganga að því vísu að hugtakið verði teygt þegar einhver þrýstihópurinn vill tilheyra einhverjum klúbbnum.

Framsal ríkisvalds skal vera afturkræft? Ef við afsölum okkur sjálfstæðinu, höfum við ekkert um það að segja. Við ráðum okkur ekki sjálf. Önnur setning í greininni fellur því um sjálfa sig.

Það má segja að þjóðaratkvæðagreiðsla sé öryggisventillinn, en er það svo? Segjum að Kína vilji innlima Ísland og það sé fólk hér á landi sem hafi áhuga á að koma okkur þar inn. Hversu erfitt verður að snúa þjóðinni? Við erum svo lítil að það þyrfti ekki nema einhverja skiptimynd til að múta okkur. Segjum að Kína byggi glæsilegt sjúkrahús, borgi upp Hörpuna, lofi að borga upp skuldir landsins og bora göng í gegn um öll fjöll landsins? Klink fyrir þetta stórveldi. Það er erfitt að standast slíkt boð. Hvað myndi þjóðin kjósa?

Og hverjar eru líkurnar á því að Kína leyfði okkur að öðlast sjálfstæðið aftur, eins og við segjumst eiga rétt á í setningu númer tvö?

111. grein hefur auðvitað ekkert með Kína, IMF eða NATO að gera. Hún er alveg örugglega hönnuð sem farmiði inn í ESB. En hana má misnota á svo marga vegu að ég get ekki stutt nýju stjórnarskrána óbreytta.

Ég vona að dagarnir fjórir í mars verði vel nýttir. 


mbl.is Furða sig á farvegi stjórnlagamálsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glópagull

Efnahagskerfi heimsins hrundi haustið 2008. Ísland og fleiri ríki fundu fyrir því af hörku á meðan sum sluppu tiltölulega vel. En þetta er ekki búið. Dollarinn er veikur, evran riðar til falls. Báðir gjaldmiðlarnir hafa fallið um allavega fjórðung á liðnu ári. Kreppan er ekki búin, því það er ekki verið að ráðast á rót hennar. Ríki heimsins hafa aldrei verið skuldugri en einmitt núna og það sér ekki fyrir endann á lántökunum. Kreppan er rétt að byrja, nema við stokkum kerfið upp. Það er ekki að gerast.

photo 2

Erlendir kaupmenn reyna að hafa eðalmálma af íslendingum. Hér úti í heimi er þetta ekkert öðruvísi. Við höfum fengið sömu auglýsinguna inn um bréfalúguna af og til síðasta árið. Eigið þið gull sem þið viljið selja? Við greiðum hæstu verðin! Gullverð er í hæstu hæðum, en þó vilja þeir sem vitið hafa á þessum málmum ólmir kaupa það. Og borga vel fyrir. Merkileg tímasetning.

Þeir vita nefninlega að ef allt fer sem horfir, verða peningar eins og við þekkjum þá verðlitlir eftir einhver misseri. Þegar stærstu gjaldmiðlar heims riða til falls og ríkisskuldabréf og verðbréf eru of áhættusöm, er öruggast að fjárfesta í alvöru hlutum. Ekki peningunum sem eru bara tölur í tölvu og hafa enga eiginlega merkingu, ekki hlutabréfum sem geta fallið um tugi prósenta á örskömmum tíma. Nei, fasteignir og eðalmálmar eru öruggasta fjárfestingin. Eðalmálmarnir eru bestir, því þeir eru færanlegir.

Það er ekki gott ef menningarverðmæti eru að hverfa úr landi og eru eyðilögð í einhverri bræðslu. En burtséð frá því, er gott að hugsa málið til enda. Ef þeir sem vit hafa á eðalmálmum vilja ólmir kaupa þá þegar verð er í hámarki, ættu viðvörunarbjöllur að hljóma í hausnum á okkur. 


mbl.is Skart stöðvað á leið úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styður Jésú ritskoðun?

Snorri í Betel er kominn í klandur eina ferðina enn. Hann virðist eiga eitthvað erfitt með að sætta sig við að allir eru ekki eins. Samkynhneygðir mega ekki vera samkynhneygðir í friði fyrir honum.

Hann reyndi að krafsa sig upp úr kviksyndinu á bloggsíðunni sinni. Ég setti inn athugasemd. Eins og oft vill vera með ofurkristið fólk, var hún ekki birt samstundis. Hann hefur ákveðið að athugasemdir skuli fyrst skoðaðar og samþykktar áður en þær birtast. Þar sem ég var ósammála honum, birtist mín ekki.

Snorri mælir í Jésú nafni, segir hann. Ég geri því ráð fyrir að Jésú styðji ritskoðun.

Eigum við þá ekki að láta það eftir Snorra að ritskoða það sem okkur er ekki þóknanlegt? Mér sýnist foreldrum barnanna sem hann kennir ekki vera skemmt. Meirihluti þjóðarinnar er ósammála Snorra, svo það væri rökrétt að birta engar fréttir um hann og hans skoðanir. Þegja hann í hel.

Nei, það er ekki okkar að ákveða hvað fólki finnst og hvernig það lifir sínu lífi. Það er ekki okkar að segja fólki hvaða skoðanir það skal hafa. Fólk eins og Snorri gerir lítið úr kristinni trú svokölluðum kristilegum kærleik og umburðarlyndi. Helvíti hart ef ég, trúleysinginn, er umburðarlyndari en maður sem mælir í Krists nafni. En hann um það.

Ég get ekki séð að það komi honum við hjá hverjum fólk sefur. Hann má trúa því að hommar fari til helvítis. En mikið væri það gott ef hann héldi þessu rugli fyrir sig og væri ekki að hræða skólakrakka með sögum af vítislogum og guði sem hatar þau.


mbl.is Æfir vegna skrifa um samkynhneigð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefum vínsölu frjálsa!

Ég er eiginlega orðlaus, en ætla samt að pikka inn smá færslu.

Á Íslandi er áfengi litið hornauga. Þetta er bölvaldur, bakkus er harður húsbóndi, við drepumst öll úr alkóholisma ef þetta helvíti er ekki bannað!

Ef maður skoðar tölur, kemur eitthvað allt annað í ljós. Samkvæmt AA samtökunum eru hvergi fleiri hjálparhópar á haus en á Íslandi. 800 á milljón, á móti 0.6 í Portúgal, sem er með fæstu hópana. Portúgalar drekka 2 1/2 lítra á móti hverjum lítra okkar íslendinga. Þeir virðast kunna á áfengi, á meðan við gerum það ekki.

En svo ég tali bara af reynslunni. Ég bý í Hollandi. Hér er bjór og léttvín selt í matvöruverslunum. Kassi af bjór kostar u.þ.b. átta evrur. 24x30cl flöskur. Þetta er Heineken, ekki sá ódýrasti. Mig minnir að Lidl selji þýskan bjór, 24x33lc, á fimm evrur. Flaska af rauðvíni frá þremur evrum. Sterk vín eru seld í vínbúðum. Viskíflaskan kostar frá 12-13 evrum og upp. Samkvæmt heimspekilegum vangaveltum lífhræddra íslendinga ættu allir að vera ælandi í ræsinu hér, dauðadrukknir og lagstir í gröfina um fimmtugt. Það er auðvitað fjarstæða. Fólk drekkur meira magn hér en á Íslandi, en það dreyfist yfir vikuna. Bjór eftir vinnu og rauðvínsglas með matnum safnast saman. Íslendingar drekka örlítið minna, en demba öllu í sig á djamminu um helgar. Maður spyr sig, hvort ætli sé verra fyrir heilsuna?

Það er reyndar margsannað að 1-2 glös af rauðvíni á dag er gott fyrir skrokkinn. Það getur komið í veg fyrir hjartakvilla og skerpir hugsun.

Er ekki kominn tími á að íslendingar skríði upp úr holunum sem hræddir bindindismenn grófu fyrir 100 árum? Hættum að væla, hjálpum þeim sem ekki kunna að fara með áfengi og látum hina vera. Njótum þess að fá okkur ískaldan bjór eftir vinnu og gott rauðvinsglas með matnum. Leyfum matvöruverslunum að selja áfengi á eðlilegu verði og njótum lífsins.


mbl.is Áfengi hættulegasta eiturlyfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband