7.11.2006 | 21:59
SAMKEPPNI!!! - Fyndnasti bloggari á blog.is
Innflytjendur. Rasismi. Það er orðið svo þungt yfir öllu, eins og svart ský eftir pælingar liðinna daga. Það er eins og þjóðin sé komin í heilagt borgarastríð. Spurning með að koma með létta keppni til að létta lund í hinu meinta skammdegi sem virðist vera að leggjast yfir.
Spurningin er, hver er fyndnasti bloggarinn á blog.is?
Reglurnar eru einfaldar. Setjið inn athugasemdir hér fyrir neðan þar sem þið útnefnið þann bloggara sem fær ykkur til að hlægja. Það má útnefna fleiri en einn, þið getið jafnvel útnefnt ykkur sjálf. Eftir viku set ég svo upp skoðanakönnun hér til vinstri þar sem kosið verður.
Nú er bara að vona að undirtektirnar verði nógu góðar til að keppnin verði spennandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
7.11.2006 | 17:22
Hvað eru fordómar?
Eftir því sem ég best veit eru fordómar það að dæma fyrirfram, og þá án þess að skilja málið til fulls. Endilega leiðréttið mig ef ég er að bulla. Ég hef ekki búið á Íslandi í 13 á og get verið farinn að ryðga eitthvað.
Þessi umræða um útlendinga og moskur er komin út í þvílíkt rugl. Íslenskir stjórnmálaflokkar virðast vera fastir í einhverjum pólitískum rétttrúnaði (political correctness) sem hefur ekkert með raunveruleikann að gera. Frjálslyndi Flokkurinn segir eitthvað um að það væri kannski allt í lagi að skoða innflytjendalöggjöfina því við erum svo fá og meigum við svo litlu. Hvað ætti að gerast? Þeir sem eru á móti því ætti að koma með mótrök, þeir ætti að útskýra af hverju þeir séu á móti því að takmarka magn innflytjenda. Hvað gerist? Þeir koma með ómálefnanlegt bull og skítkast.
Hefur einhverjum dottið í hug að skoða þá þróun sem átt hefur séð stað í Evrópu á síðustu áratugum? Er það kannski slæm hugmynd að gera það? Maður vill auðvitað ekki vera stimplaður rasisti.
Ef Ísland er ekki að gera mistök, útskýrið þá af hverju. Að láta eins og smábörn á róló lítur ofsalega hallærilega út. Mér hafði aldrei dottið í hug að ég ætti nokkurn tíma eftir að eiga samleið með Frjálslyndum. Það hafa sennilega verið einhverjir fordómar af minni hálfu í þeirra garð.
![]() |
Lýsa yfir vonbrigðum með trúarbragðafordóma meðal Frjálslyndra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.11.2006 | 21:48
Fullkomið jafnrétti trúarbragða?
Það hefur verið töluverð umræða á blogginu síðan íslenskum múslimum var neitað um lóð undir mosku. Það mátti búast við heitum umræðum og þær létu ekki á sér standa. Það er alltaf svona þegar trú á í hlut.
Það er endalaust talað um virðingu fyrir hinum og þessum trúarhópum. Ef einhver segir að hann trúi á einhverja veru verð ég sjálfkrafa að bera virðingu fyrir því. Það er svo sem allt í lagi, mér er sama á hvað fólk trúir og sé enga ástæðu til að sýna einhverjum vanvirðingu af því hann trúir á eitthvað sem ég er kannski ósammála. Það er eins og að líta niður á Volvo eigendur af því mér finnst Volvo bílar ljótir. Maðurinn getur verið hin besta sál, vel gefinn, fyndinn og skemmtilegur. Það að hann keyri um á Volvo gerir það ekki að verkum að mér finnist hann vitlaus, heimskur, asnalegur eða að hann tilheyri ekki mér og mínum. Ég myndi ekki kaupa bílinn af honum, en þar fyrir utan get ég umgengist hann án vandræða.
Þó að mér finnist allt í lagi að þessi maður keyri um á Volvo, er ekki þar með sagt að ríki og sveitarfélög eigi að styrkja hann og hans líka í Volvodellunni sinni með skattpeningunum mínum. Af hverju á að innræta barninu mínu í skóla að Volvo séu fallegir bílar og að öryggið sem því fylgir að keyra um á Volvo réttlæti hærra verð? Svo kemur barnið heim og kvartar yfir því að ég eigi ekki Volvo. Ég þarf að reyna að útskýra fyrir barninu að Volvo sé ekki endilega besti og fallegasti bíllinn í heimi. Á meðan börnum er kennt að Volvo sé fallegur og öruggur bíll fær Félag Volvoeigenda úthlutaða lóð svo að þeir geti sett upp félagsheimili með litlu Volvo safni. Það er líka bara sanngjarnt, því Toyotaklúbburinn fékk líka lóð. Svo er Audiklúbburinn að sækja um.
Það er sennilega auðséð að Volvoinn í þessum pistli er Guð og þá einhver ein útfærsla á honum. Skiptir ekki máli hvort hann heiti Guð, Allah, Jahwed, Óðinn eða hvað. Það eru til ótal útgáfur af Guði. Það er hið besta mál að fólk fái að iðka sína trú í friði fyrir fordómum. Það er líka mikilvægt að það sé ekki gert upp á milli trúarbragða. Síðast en ekki síst er mikilvægt að trúleysingjar njóti sama jafnréttis.
Eftir því sem ég hugsa meira um þetta mál styrkist ég í þeirri trú að fullkomið trúfrelsi geti aðeins orðið að veruleika ef ríki og sveitarfélög hafa ekkert með trúfélög að gera. Það yrði engin þjóðkirkja, a.m.k. ekki þekki kirkja sem fólk gengur sjálfkrafa í. Þjóðkirkjan yrði sjálfstætt félag sem þyrfti að fleyta sér áfram á framlögum félaga. Sama myndi gilda um múslima, ásatrúarmenn, búddista og hverja þá sem finna þörf fyrir eigið trúfélag. Ef öll trúfélög yrðu sjálfstæð, fengju engar lóðir, enga styrki eða sérstaka meðferð frá hinu opinbera, kæmist á fullkomið trúfrelsi. Þá þyrfti enginn að kvarta yfir að sér væri mismunað því það fengi enginn neitt.
Látum Volvoeigendur byggja sitt eigið félagsheimili sjálfir.
3.11.2006 | 09:48
Múslimar vilja byggja?
Þetta er það fyrsta sem ég heyri af þessu máli og fréttin segir svo sem ekki mikið um málið.
Skil ég það rétt að trúfélög fái lóðir endurgjaldslaust, eða er þetta einfaldlega spurning um skipulag?
Hvað eru margir meðlimir í félagi múslima á Íslandi? Ég geri ráð fyrir að þeir vilji byggja mosku. Verður hún öllum opin, eða verður sama viðkvæmispukri og maður sér erlendis viðhaft, þar sem múslimar eiga sér samastað, innfæddir (hér notað um þjóðina sem bjó fyrir í landinu) eru ekki velkomnir og klerkar tala um að steypa stjórninni, taka af venjur og setja á fót islamskt ríki? Ég geri ráð fyrir að bænum sem farið er með fimm sinnum á dag verði ekki útvarpað um hverfið um hátalara á byggingunni eins og tíðkast víða? Fyrsta bænin fer oft í loftið milli fjögur og fimm á morgnanna. Eins og ég segi geri ég ekki ráð fyrir þessu, en það er sjálfsagt að koma því á hreint áður en framkvæmdir fara af stað.
Hvað finnst íslenskum múslimum um slæður, almennt frelsi borgarans, trúfrelsi og jafnrétti kynjanna?
Það er sjálfsagt mál að gefa múslimum sömu möguleika og öðrum, en það er líka nauðsynlegt að þeir virði reglur, lög og venjur heimalands síns fyrst og trúar sinnar þá. Íslensk lög og venjur verða að hafa meira vægi en Múhameð spámaður. Annars get ég ekki ímyndað mér að moska í Reykjavík gæti gengið upp.
![]() |
Félag múslima undrast að félagið fái ekki lóð í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.11.2006 | 09:36
Maður án nafns
Hollendingar eru klikk og ef ég væri ekki fastur hér kæmi ég heim hið fyrsta. Spurning með að búa til eitthverja áætlun, plan sem miðar að því að koma manni heim. Spurningin er svo hvort Ísland sé eitthvað betra. Veit ekki, því þar sem möppudyrin skjóta rótum er voðinn vís.
Þannig er mál með vexti að það er ungi á leiðinni. Hann eða hún á að koma í heiminn í byrjun febrúar. Þetta er þó komið það langt að ef unginn kemur í heiminn núna, eru góðir möguleikar á að hann spjari sig bara fínt og vaxi úr grasi. Það var því kominn tími á að "viðurkenna" faðernið. Ef maður er ógiftur á maður ekkert tilkall til barnsins. Komi eitthvað fyrir mömmuna er pabbinn réttlaus og foreldrar hennar fá forræði. Móðurbróðirinn á meira tilkall til barnsins. Fjarskyld frænka mömmunnar á meira tilkall. Það þarf því að "viðurkenna" faðernið áður en unginn kemur í heiminn.
Við fórum til sýslumanns í gær til að ganga frá þessu formsatriði. Ætti ekki að vera stórt mál, nema skriffinnska setji strik í reikninginn. Í þessu landi er lítil hætta á öðru. Við vorum spurð hvað barnið ætti að heita. Furðu lostin sögðumst við ekki vita það. Nei, ættarnafnið. Ó, ég skil. Ættarnafn dömunnar er ekki yfir drifið fallegt, svo við völdum föðurnafn mitt. Í Hollandi getum við ekki fylgt íslenskum reglum, svo ég get ekki kennt barnið við mig. Við erum send inn í einhverja kompu, þar sem við bíðum í góðan hálftíma. Þá kemur sleggjan.
Möppudýr kemur inn í kompuna og segir að það sé vandamál. Allt í lagi, hugsa ég. Eitthvað formsatriði sem hægt er að leysa. Onei. Málið er að föðurnafn mitt er ekki ættarnafn. Ég má ekki búa til ættarnafn úr því, samkvæmt íslenskum lögum. Þar fyrir utan er einn reitur fyrir nafn á íslensku fæðingarvottorði og þar stendur mitt fullt nafn. Það er því ekki sagt skýrum stöfum hvað eftirnafnið er. Ég heiti því þremur eigin nöfnum og er á eftirnafns. Ef ég streytist á móti og krefst þess að mitt nafn verði notað, mun unginn fá eigið nafn og svo mitt fullt nafn sem eftirnafn. Nema að það eru eigin nöfn og ekki ættarnöfn og því má það ekki. Möppudýrið snérist því í hringi en lét okkur vita að hann gæti ekki hjálpað okkur. Ekki nema barnið fengi ættarnafn móðurinnar. Á þessu stigi vorum við orðin harðákveðin að það myndi ekki gerast.
Þetta er sem sagt möppudýravandamál á versta stigi og eins og hollendingum er lagið er svarið, því miður getum við ekkert gert. Bless. Það besta var að hann fór að líkja þessu við það hvernig múslímar blanda saman nöfnum pabbans, afans og langafans. Þannig átti ég að skilja að það sé ekki hægt að þjóna endalausum sérhagsmunum minnihlutahópa. Ég sagði honum að þetta hefði ekkert með múslíma að gera, ég væri ekki að blanda neinu saman og hvort hann vildi ekki bara skella eftirnafi mínu á barnið. Nei, það var ekki hægt.
Það er vonandi að svör og lausn fáist á Íslandi, því hér er enga lausn að fá. Frekar en fyrri daginn.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.11.2006 | 14:19
5000 gestir!
4999 gestir nú þegar ég kom til að skoða síðuna. Það er bara nokkuð mikið þegar tillit er tekið til þess að ég er ekki fegurðardrottning, fréttamiðill eða talandi hundasúra. Ég hef ekki haft mikinn tíma til að blogga undanfarið, en ég mun reyna að laga það. Um að gera að komast í 10000 gesti áður en unginn kemur í heiminn.
Annars þarf ég að blogga um möppudýramennsku og vandamál sem fylgja því að heita ekki neitt. Það kemur seinna þegar ég hef náð að draga andann djúpt.
Takk öll fyrir að koma í heimsókn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.10.2006 | 21:00
Hvar er leyniþjónustan...
...þegar maður þarf á henni að halda? Það er alveg ljóst að það er fólk á meðal okkar sem þarf að taka í tuskuna.
Þegar litið er á úrslit könnunnar hér til vinstri er ljóst að flestir eða 35% vilja sjá myndina í kvikmyndahúsi. Gott mál. Næstum jafn margir vilja sjá hana í sjónvarpi. Allt í lagi svo sem, nema að eftir að allir fengu sér víðskjárvörp (eða hvað wide screen er á ísl.) er fólk annað hvort of feitt eða of mjótt því enginn virðist kunna að stilla það.
25% vilja sjá myndina á netinu. Það vill hins vegar enginn sjá myndina á DVD. Enginn. Núll prósent. Ég sem ætlaði að búa til svo mikið aukaefni.
Það sem mér finnst verst er að heil 10% segjast alls ekki vilja sjá myndina. Þetta eru ekki nema tvær hræður, svo að það er spurning með að siga leyniþjónustunni á þær (þau, þá).
Ég biðst afsökunar á þessari færslu. Þetta er næst-tilgangslausasta færsla mín frá upphafi.
22.10.2006 | 09:52
Erum við að skemma mannorð íslensku þjóðarinnar?
Ég var að fá emil frá vinkonu minni hér í Hollandi með titlinum, "Þar fór mannorð þitt". Maður hafði svo sem átt von á þessu. Málið er að það er í fréttum hér úti að íslendingar séu farnir að veiða hvali á ný og nú þykjast þeir ekki einu sinni vera að gera þetta fyrir þekkingu og vísindi. Nú er þetta einfaldlega veiðar til að selja kjöt og ná í gjaldeyri.
Það hefur verið talað mikið um hvalveiðar á Íslandi, með og á móti. Erlendis eru allir á móti. Ég ætla ekki að dæma um það hvort hvalveiðar séu hættulegar hvalastofnunum, aðrir vita meira um það. Samt hef ég skoðun og hún er einföld. Það ætti að banna hvalveiðar þar til heimurinn er tilbúinn til að samþykkja þær.
Það er ekki gaman, þegar maður býr erlendis, að lenda alltaf í samræðum um hvalveiðar. Það gerist nú samt. Fólk kemur að manni í samkvæmum og matarboðum og spyr hvað íslendingar séu að spá. Það er fátt um svör hjá mér því ég veit það hreinlega ekki. Það helsta sem mér dettur í hug er þjóðremba og moldarkofar, en ég læt vera að minnast á það.
Annað sem hvalveiðar gera er að skemma atvinnutækifæri íslendinga. Hvalaskoðanir eru þekkt dæmi, ferðamannaiðnaðurinn einnig, en ég sé aðra hlið á málinu sem íslendingum á Íslandi er ósýnileg. Stærsta matvöruverslun í Hollandi gefur út tímarit sem dreift er frítt í verslanir. Blaðið er fullt að upplýsingum um mat, uppskriftir og hvaðan hráefni koma og hvernig viss vara er framleidd. Ísland var tekið fyrir í vor. Þar var talað um hvernig fiskurinn er innan við tveggja daga gamall þegar hann er seldur til neytandans hér í Hollandi. Ferlinu var lýst, myndir af togara, af löndun, úr frystihúsi, frá pökkun sem fer fram í Belgíu og loks hvernig best er að elda íslenskan fisk svo að ferska bragðið njóti sín sem best.
Það er alveg ljóst að þessi grein myndi ekki birtast í dag. Ef verslanakeðjan vill yfir höfuð halda áfram að selja íslenskan fisk, þá vill hún svo sannarlega ekki vekja athygli neytenda á því hvaðan hann kemur. Þeir færu sennilega annað í mótmælaskyni.
Það skiptir því alls engu máli hvort hvalir séu í útrýmingarhættu eða ekki, hvort markaður sé fyrir hvalkjöt, eða hvort japanir og norðmenn veiði svo við meigum líka. Það sem skiptir máli er að hvalveiðar skemma mannorð íslendinga og tækifæri erlendis. Ekki svo léttvægt hjá þjóð sem á allt sitt undir útflutningi.
![]() |
Hvalur 9 væntanlegur að hvalstöðinni um hálf tíuleytið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2006 | 13:04
Stuttmynd - Sýnishorn tvö
Ég var að klára að setja saman nýtt sýnishorn. Eins og síðast er þetta ekki kynningarmyndband (trailer), þar sem myndin er ekki komin það langt í vinnslu. Tónlistina gerði ég sjálfur, þar sem eiginleg tónlist myndarinnar er ekki tilbúin. Þetta er meira til að gefa fólkinu sem hjalpaði til möguleika á að sjá hvað er að gerast.
Myndbandið hér á blogginu er í venjulegru vef upplausn, 320x240 pixlar, en hægt er að nálgast iPod útgáfu í hærri upplausn á Oktober Films heimasíðunni.
Látið svo endilega vita hvað ykkur finnst og hvort það sé góð hugmynd að setja myndbönd beint inn í færslu eins og hér er gert.
18.10.2006 | 07:00
Samkeppni?
Við vesturlandabúar erum heppin að búa í frjálsu þjóðfélagi. Þangað til annað kemur í ljós. Ég var að vinna fyrir heildsölu sem sérhæfir sig í IBM tölvum. Þar sem ég er að vinna við kvikmynd og setja upp mitt eigið fyrirtæki í kvikmyndagerð og þarf tíma til að koma því í gang vildi ég vinna þrjá daga í viku. Það var í lagi í fyrstu en þegar til stóð að efna það var fyrirkomulagið ekki nógu gott fyrir yfirmanninn og þurfti ég því að velja, halda áfram í vinnunni og gefa kvikmyndir upp á bátinn eða halda fyrir nefið og stökkva ofan í djúpu laugina, segja upp vinnunni og vona það besta.
Ég hætti. Mér var fljótlega boðin vinna hjá þýskum samkeppnisaðila. Ég myndi setja upp söluskrifstofu í Hollandi. Þrír dagar í viku eru ekkert mál og ég vinn að heiman til að byrja með. Ég keyrði til Þýskalands í síðustu viku til að hitta fólk og er skemmst frá því að segja að þar eru skemmtilegar hugmyndir í gangi. Ég myndi því byrja að vinna fyrir þjóðverjann um mánaðamótin. Fullkomin áætlun, þar sem ég er á launum, hef tíma fyrir kvikmyndir og næ mér i reynslu við að reka fyrirtæki.
Þá kom babb í bátinn. Það er lenska að setja klausu í ráðningarsamninga hér í landi að maður megi ekki vinna fyrir samkeppisaðila í heilt ár eftir að maður hættir hjá viðkomandi. Það er því búið að loka fyrir þann möguleika að ég geti unnið fyrir mér, að ég geti brúað bilið þar til kvikmyndirnar fara að gefa eitthvað af sér.
Þetta þykir víst sjálfsagður hlutur, þar sem ég þekki viðskiptavinina og veit hvernig markaðurinn er. Ég lærði þetta hjá fyrrverandi vinnuveitenda og þar með skulda ég honum víst eitthvað. Mér finnst hins vegar að hefði hann haft áhuga á að leysa þriggja daga málið á sínum tíma væri ég ennþá að vinna fyrir hann. Okkur er sagt að við búum í fjálsu þjóðfélagi, en ef þetta eru ekki nútíma átthagafjötrar, þá veit ég ekki hvað. Nú er bara að sjá hvort hægt sé að leysa málið, með góðu eða lögfræðingi ef með þarf.
Skemmtilegra málefni að lokum, ég geri ráð fyrir að hafa annað sýnishorn af myndinni tilbúið á næstu dögum.