5.10.2006 | 09:10
Íslenskar Stuttmyndir
Það vita sennilega flestir lesendur bloggsins að ég er að vinna við að gera stuttmynd. Eftirvinnsla er í fullum gangi og þetta lítur vel út. Það er því augljóst að ég hef áhuga á stuttmyndum. Það vita færri að ég lærði fjölmiðlun á árum áður og sú veira verður seint drepin. Bætum svo við að RÚV er að fara að setja mikið meiri pening í kaup á íslensku efni, og við gætum farið að sjá markað fyrir íslenskar stuttmyndir. Því var mér að detta svolítið í hug.
Erum við að fara að upplifa annað íslenskt kvikmyndavor? Kannski meira tengt sjónvarpsefni? Það er fullt af þekkingu á Íslandi. Margir sem vilja búa til kvikmyndir, en einhvers staðar þarf að byrja. Er ekki um að gera að gefa íslenskum stuttmyndum þá athygli sem þeim ber?
íslensk vefsíða sem fjallar um íslenskar stuttmyndir á að vera til. Einn staður þar sem fólk getur komið og lesið um myndir, leikara, leikstjóra, hvað er á döfinni, hvað er hægt að sjá og hvar. Það væri jafnvel hægt að horfa á myndir á síðunni, allavega kynningarmyndir svo að fólk geti ákveðið hvað það vill sjá. Þetta getur svo undið upp á sig og orðið DVD útgáfa, þar sem samansafn bestu íslensku stuttmyndanna er hægt að kaupa.
Annað sem ég myndi vilja gera er að gefa út einhverskonar tímarit, sennilega á þriggja mánaða fresti, þar sem talað er við fólk og sagt frá því helsta sem er í gangi. Þetta yrði sennilega gefið út sem PDF skrá sem hægt væri að sækja og prenta út ef fólk vill.
Þetta eru stórar hugmyndir og munu kosta mig mikinn tíma, en ef áhugi er fyrir hendi getur þetta orðið mjög skemmtilegt og þess virði. Það veltur allt á því hvað maður hefur úr miklu efni að moða. Ég vil því biðja fólk að hafa samband ef það hefur eitthvað að segja. Einnig væri það vel þegið ef þú, lesandi góður, segðir vinum og kunningjum sem eru í kvikmyndahugleiðingum frá þessari hugmynd.
Ég er búinn að skrá netfang fyrir þessa síðu, Stuttmyndir.com, svo nú er bara að koma dæminu af stað.
30.9.2006 | 15:51
Hræsni?
Ég ætlaði að svara athugasemd við þetta blog, þar sem Gestur Pálsson talar um hræsni andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar, en það varð lengra en ég gerði ráð fyrir, svo ég ákvað að setja það inn hér.
Þetta er sorglegt. Íslendingar framleiða nú þegar tvöfalt meiri orku en þeir þurfa (eða var það jafnvel meira?). Restin fer í álver. Ég get ekki talað fyrir aðra, en hræsnin í þessu máli er alfarið þeirra sem eru tilbúnir til að eyðileggja Ísland fyrir erlend stórfyrirtæki.
Það er merkilegt að fólk skilji ekki hvernig þessi fyrirtæki virka. Þau eru ekki að byggja álver af því að þau vilja hjálpa innfæddum að lifa góðu lífi. Nei, þau eru að græða peninga. Það er það sem fyrirtæki gera. Þau reyna að borga sem minnst fyrir hráefni og mannskap og vilja svo fá eins hátt verð fyrir vöruna og hægt er. Þannig virka fyrirtæki og svo sem ekkert athugavert við það. Það myndi heldur ekki skipta mig neinu máli ef það kostaði ekki mig og aðra íslendinga landið sem þeim er annt um.
Hvers vegna er ferið að fórna Íslandi fyrir gróða þessara útlendinga? Það á enginn Ísland, þ.á.m. ríkisstjórning og Samfylkingin. Það er ekki þeirra að stórskemma landið svo að afkomendurnir eigi ekkert annað en mengað og uppblásið sker það sem allir vinna í álverum af því fiskurinn er allur dauður og allur peningingurinn fór í að niðurgreiða álævintýrið. Þeir sem óska íslendingum þeirri framtíð hafa ekkert á Alþingi að gera.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2006 | 08:01
Til Hamingju Ísland!
Við erum öll voða stolt af Íslandi og hvað svona smá þjóð getur komið í framkvæmd. Íslendingar geta allt.
Nú er málið að setja upp leyniþjónustu svo við getum fylgst með öllum og kannski er málið að setja upp geimferðaáætlun líka. Við misstum af því þegar norðmenn og fleiri voru að ná sér í búta af suðurskautslandinu fyrir hundrað árum, við klúðruðum Ameríku fyrir þúsund árum, en við erum komin út úr moldarkofunum. Nú er málið að ná sér í feita spildu á tunglinu.
Íslendingar geta allt. Það sannar hið mikla mannvirki við Kárahnjúka. Ísland er málið. Til hamingju Ísland! Þú er best.
![]() |
Hálslón sextán metra djúpt, Jökla er horfin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.9.2006 | 10:02
Umturn
Þetta hefur sennilega eitthvað með heilaþvott, kaþólisma, Bildenburg, kassalaga hausa eða bara hreinan aulaskap að gera. Annars er þetta sennilega bara mismunandi hugsanagangur mismunandi þjóða. Svona er málið...
Eins og alþjóð varla veit er ég að hætta í vinnunni. Ég hef unnið á þessari skrifstofu í næstum fimm ár og safnað spiki. Ég hef lært að vera ekki fyndinn, vera ekki með læti, taka heiminum eins og hann er og trúa því að hlutirnir séu bara alveg eins og þeir eigi að vera og að allt sé samkvæmt áætlun. Ég hef samþykkt og þakkað fyrir að vera í fastri vinnu þar sem ég þarf að spyrja fallega hvort ég megi fara með konunni í ómskoðun. Ég hef líka lært að þakka fyrir mig ef svarið er nei af því að vinnufélagi bað um frí tíu mínútum fyrr. Sem sagt, ég er aumt, feitt og sveitt möppudýr sem lætur taka sig aftan frá svo það missi nú ekki vinnuna sem það vill svo sem ekkert vera í en þorir ekki öðru.
Mér fannst komið nóg. Ég fór í skóla og lærði eitthvað nýtt. Ég komst að því að ég er bara alls ekkert svo lélegur í nýja faginu og ákvað að taka það alvarlega. Ég talaði við bossann og það varð úr að ég myndi fara að vinna þrjá daga í viku. Helvískt fínt þar sem ég héldi einhverri innkomu en hefði líka tíma til að sinna nýja faginu. Það kom svo á daginn að einhverjum var ekki alvara, eða hafði bara skipt um skoðun, og mér var sagt að ég myndi sko bara vinna fimm daga í viku. Ég hélt ekki og sagði upp. Loforð á að standa við og mér fannst ég vera svikinn af bossanum.
Síðasti dagurinn í vinnunni er á fimmtudag og það er eins og himinn og jörð séu að farast. Hollendingarnir trúa því bara alls ekki að hlutirnir eigi eftir að ganga upp. Ég á örugglega eftir að fara á hausinn og ég mun draga konuna og ófæddan ungann með mér til helvíts. Er ég svona fáránlega bjartsýnn eða eru hollendingarnir skræfur sem búið er að berja allan karakter úr keð kassalaga kirkjudeildum og aldagömlu konungsveldi? Það er spurning. Það er svo sniðugt að allir hér eru stórhneykslaðir á mér en fjölskyldan heima (íslendingarnir) segja allir að ég hafi tekið rétta ákvörðun. Hollendingunum finnst ég hafa átt að taka þessu og finna mér vinnu áður en ég sagði upp. Það er svo mikið öryggi í því.
Merkilegur, þessi munur á þjóðunum.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.9.2006 | 12:33
Ísland var land þitt
Þetta er sorgleg vika. Þetta er vikan sem byrjað verður að safna í Hálslón, vikan sem Íslandi verður fórnað fyrir áldósir, vikan þar sem hálendinu, náttúrunni og íslandssögunni verður fórnað fyrir skiptimynt.
Í fréttinni segir meðal annars, "Á því 57 ferkílómetra svæði sem Hálslón mun þekja þegar það er fullt, eru auk gróðurlendis þekkt burðar- og farsvæði hreindýra auk fornminja frá því um 950, sem hafa verið rannsakaðar og skrásettar."
Til hamingju, Ísland.
![]() |
Hálslón byrjar að myndast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.9.2006 | 21:49
Trick or Treat?
Fleiri fréttir úr kvikyndaheiminum í Niðurlandi. Ég veit hvað ég verð að gera á hrekkjavökunni þetta árið. Ef halloween heitir hrekkjavaka á íslensku. Var það ekki? Minnir það. Ég var að komast að því að mín er vænst á kvikmyndasetti þá nóttina. Ég verð á flækingi um allt Holland mundandi kameru framan í leikara sem eru að þykjast éta einhvern blaðamann lifandi. Eitthvað svoleiðis. Þetta verður kvikmynd í fullri lengd. Ég er bara einn af crewinu í þetta skiptið, en það er bara fínt því ég þarf líka að klára mína eigin mynd.
Af henni er allt fínt að frétta. Ég vildi geta klippt meira, en ég er enn fastur í kleprunni (sjá gamla færslu) og verð það til mánaðamóta. Þá taka við spennandi tímar með skemmtilegum verkefnum og engri innkomu. Þið megið biðja fyrir mér eða senda pening. Eða bara segja mér að vera ekki með þessa vitleysu og finna mér aðra vinnu.
Svo að lokum, ef þið lítið hér til hliðar vinstra megin getið þið séð nýja skoðanakönnun. Sú gamla er farin, þar sem spurt var á hvaða tungumáli myndin ætti að vera. Íslenskan vann og myndin var tekin upp á íslensku. Nú er spurningin, hvar er best að sjá myndina?
Bless í bili. Þarf að fara að sofa og safna kröftum fyrir morgundaginn. Ekki gleyma að það er ennþá hægt að sjá litla sýnishornið á www.oktoberfilms.com
16.9.2006 | 21:14
Loksins hægt að sjá eitthvað
Ég er búinn að vera að rausa um þetta í einhverja mánuði. Ég er búinn að vera að vinna í þessu síðan í febrúar, þegar ég fékk hugmyndina. Það er loksinskomið að því að ég geti sýnt eitthvað. Þetta er ekki mikið. Vesælar 54 sekúndur. Þetta er heldur ekki alvöru treiler. Þetta er bara smá bútur sem ég var að vinna við og ákvað að deila með heiminum. Það var um að gera, því að kemur svo margt fyrir í þessu broti.
Njótið endilega, því ég geri ráð fyrir að það muni líða einhver tiimi þangað til alvöru treilerinn kemur á netið. Og endilega haldið áfram að koma með nöfn. Svartur Sandur (Black Sand) er allt í lagi, en er það hið eina sanna?
Myndbrotið er hægt að finna á OktoberFilms.com
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 21:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.9.2006 | 12:46
The name of the mynd is...
Það er víst komið að því að ákveða nafn á myndina. Hún hefur náttúrulega vinnutitil en hann verður ekki notaður. Mér datt í hug að nota nafn aðalpersónunnar en ég er ekkert viss um að það virki. Spurning með staðarnöfn. Mér fannst Kleifarvatn ansi snjallt bókarnafn, en þessi mynd gerist á óræðum stað, eða þar um bil. Svo eru klisjukenndar humyndir, Á Sandinum, Við Veginn, Emilía Deyr, Svartur Sandur, Ökuferð með Dauðum, Síðasti Bíltúrinn, Var Hún Ekki Örugglega Dáin Þegar Þú Fórst?, Puttalingur í Vanda. Ekki bara það, nafnið þarf að virka á Íslandi og í Útlandinu. Destiny gæti virkað ef það væri ekki svona mikil klisja, en hvað er það á íslensku? Örlög. Hljómar eins og safndiskur eða læknasaga.
Þetta er sem sagt það sem er að hrjá mig núna. Þetta og klippingin, en það er bara allt að ganga upp svo ég hef engar áhyggjur af því.
Ef þú, lesandi góður, hefur hugmynd, endilega láttu hana vaða í Athugasemdaskemmunni hér að neðan. Ég veit að flestir hafa ekki hugmynd um hvað myndin fjallar, en það er bara betra. Fyndið ef einhver rambar á frábæran titil. Sem sagt, komið með hugmyndir og ef þú rambar á nafn sem ég fíla nógu vel til að nota skal ég senda þér DVD þegar myndin er tilbúin. Og hananú.
4.9.2006 | 14:13
Saga Myndarinnar - IV - Eftirvinnsla
Það er komið að því. Tökum er lokið og ég er farinn aftur til Hollands. Það er ansi súrsæt tilfinning og nú segi ég af hverju.
Súr I: Ég er horfinn af landi brott. Ég hélt ég hefði svo mikinn tíma en hann flaug auðvitað út um gluggann eins og fis í norðanstrekking. Ég ætlaði að gera svo margt, hitta svo marga, fá mér bjór með gömlum vinum en það fór allt fyrir lítið. Það væri gaman að koma heim í hálfan mánuð og hafa nákvæmlega engin plön. Þá hittir maður kannski einhvern.
Súr II: Það var frábært að geta heimsótt fjölskylduna þegar ég vildi eða hafði tíma til. Það var gaman að hitta fólk fyrir tilviljun hjá öðrum, fólk sem ég hef ekki séð í 15-20 ár. Það sem ég sakna mest við að búa erlendis er fjölskyldan og íslenski óformleikinn. Þetta er eiginlega sætt en ég set það undir súrt því ég sakna þess núna.
Sæt I: Ég átti frábærar fjórar vikur heima. Kvikmyndatökurnar gengu vel, veðrið var gott, stundum of gott og aldrei slæmt. Allir sem snertu verkefnið gerðu það betra, það var ekkert rotið epli í hópnum. Það er gott að vita til þessa fólks næst þegar mér dettur í hug að taka eitthvað upp heima.
Sæt II: Ég kom til Hollands með 11 klst. af efni. Þetta þarf að klippa niður í hálftíma, laga liti, láta semja tónlist við og setja á DVD svo það sé tilbúið til sýningar. Ég er hálfnaður með að koma efninu inn í orkueplið (PowerMac) og geri ráð fyrir að geta farið að klippa seinna í vikunni. Ég ætla að byrja á að grófklippa myndina svo að sagan komist til skila. Ég er orðinn ansi spenntur að sjá hvað kemur út úr þessu.
Hvað um það, ég hef engan tíma til að blogga og það sést á þessari færslu, svo ég fer núna. Annars get ég sagt að ég vissi það fyrir en fékk það staðfest í þessari ferð að það er sama hvað maður býr lengi erlendis, maður er íslendingur og verður ekkert annað. Bless.
26.8.2006 | 12:51
Saga Myndarinnar - þriðji bútur
Tökum er því sem næst lokið. Við tókum upp atriði við Elliðavatn á sunnudag og á þriðjudag á Skógum og í Reynisfjöru milli Dyrhólaeyjar og Reynisdranga. Þá kom langþráð frí sem ég notaði til að sýna hollendingunum í hópnum Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Nú eru allir farnir nema ég. Það á eftir að taka upp tvö atriði, en þau eru mjög einföld og ég fer einn með Jóel á morgun, sunnudag, og klára þau. Þá er tökum lokið og kominn tími á eftirvinnsluna.
Ég flýg aftur til Hollands á föstudag og fer beint í að koma myndinni inn í tölvu og gera hana tilbúna til klippingar. Þetta verður töluverð vinna, við tókum upp 10 klukkutíma af efni sem verður svo klippt niður í hálftíma. Allavega geri ég ráð fyrir að þetta verði hálftími. Ég ætla bara að láta það ráðast. Ef að myndin virkar sem 20 mínútur verður hún það. Ef hún þarf að vera 45 mínútur, lengi ég hana. Þetta fer bara eftir sögunni. Mér finnst mikilvægara að hún komist til skila og að maður leyfi henna að ráða þessu en að ákveða lengdina fyrir fram.
Ég verð að segja að þetta er allt að fara fram úr björtustu vonum. Leikararnir gáfu sig alla fram og allir sem komu að myndinni stóðu sig frábærlega. Ég er að endurtaka mig, en það er bara svona. Það er svo gaman að sjá fólk taka þetta verkefni svona alvarlega. Ég var búinn að vinna við handritsskrif og undirbúning í einhverja mánuði áður en ég kom til landsins og það var gaman að sjá að fólk var að gefa allt sitt í þetta. Fólki virtist þykja vænt um þetta verkefni og mér þykir vænt um það.
Ég á líka eftir að þakka fólki sem hjálpaði til við gerð myndarinnar á annan hátt, en það kemur seinna.
Framhaldið er sem sagt eftirvinnsla. Ég geri ráð fyrir að vera kominn með gróft klippta útgáfu eftir mánuð (ég verð ennþá að vinna fullt starf út september) og þá fer tónlistin í gang. Hún verður samin af Henk Hofstede, reyndum manni og þekktum í Hollandi. Það þarf svo að fínklippa, leika sér með liti, skoða hvort þarf að lagfæra eitthvað, gera texta á einhverjum tungumálum þar sem hún var tekin upp á íslensku og gera DVD. Þá er komið að dreyfingu. Ég geri ráð fyrir að myndin verði tilbúin til sýninga seint á árinu. Það er bara vonandi að einhver taki þá að sér að sýna þetta. Ég hef ekki miklar áhyggjur, því ef klipping og tónlist tekst eins vel og tökurnar verður þetta mynd sem hægt er að vera stoltur af. Það er einhver markaður fyrir svona myndir erlendis, en ég vona að hún fái einhvern stuðning hér heima líka.
Þetta er sem sagt búið að ganga mjög vel og ég hlakka til að sjá hvað verður úr þessu.