Umturn

Ó hvað það hata mig allir. Allir segja að ég sé svo heimskur og að ég sé að henda öllu frá mér og að ég sé að setja fólk í stórhættu. Það er eins og það sé 1943 og ég sé með gyðing í kjallaranum eða 1437 og ég sé að telja páfa trú um að jörðin sé kúla, þvílíkur er óttinn. We are all going to die!!! Eitthvað svoleiðis.

Þetta hefur sennilega eitthvað með heilaþvott, kaþólisma, Bildenburg, kassalaga hausa eða bara hreinan aulaskap að gera. Annars er þetta sennilega bara mismunandi hugsanagangur mismunandi þjóða. Svona er málið...

Eins og alþjóð varla veit er ég að hætta í vinnunni. Ég hef unnið á þessari skrifstofu í næstum fimm ár og safnað spiki. Ég hef lært að vera ekki fyndinn, vera ekki með læti, taka heiminum eins og hann er og trúa því að hlutirnir séu bara alveg eins og þeir eigi að vera og að allt sé samkvæmt áætlun. Ég hef samþykkt og þakkað fyrir að vera í fastri vinnu þar sem ég þarf að spyrja fallega hvort ég megi fara með konunni í ómskoðun. Ég hef líka lært að þakka fyrir mig ef svarið er nei af því að vinnufélagi bað um frí tíu mínútum fyrr. Sem sagt, ég er aumt, feitt og sveitt möppudýr sem lætur taka sig aftan frá svo það missi nú ekki vinnuna sem það vill svo sem ekkert vera í en þorir ekki öðru.

Mér fannst komið nóg. Ég fór í skóla og lærði eitthvað nýtt. Ég komst að því að ég er bara alls ekkert svo lélegur í nýja faginu og ákvað að taka það alvarlega. Ég talaði við bossann og það varð úr að ég myndi fara að vinna þrjá daga í viku. Helvískt fínt þar sem ég héldi einhverri innkomu en hefði líka tíma til að sinna nýja faginu. Það kom svo á daginn að einhverjum var ekki alvara, eða hafði bara skipt um skoðun, og mér var sagt að ég myndi sko bara vinna fimm daga í viku. Ég hélt ekki og sagði upp. Loforð á að standa við og mér fannst ég vera svikinn af bossanum.

Síðasti dagurinn í vinnunni er á fimmtudag og það er eins og himinn og jörð séu að farast. Hollendingarnir trúa því bara alls ekki að hlutirnir eigi eftir að ganga upp. Ég á örugglega eftir að fara á hausinn og ég mun draga konuna og ófæddan ungann með mér til helvíts. Er ég svona fáránlega bjartsýnn eða eru hollendingarnir skræfur sem búið er að berja allan karakter úr keð kassalaga kirkjudeildum og aldagömlu konungsveldi? Það er spurning. Það er svo sniðugt að allir hér eru stórhneykslaðir á mér en fjölskyldan heima (íslendingarnir) segja allir að ég hafi tekið rétta ákvörðun. Hollendingunum finnst ég hafa átt að taka þessu og finna mér vinnu áður en ég sagði upp. Það er svo mikið öryggi í því.

Merkilegur, þessi munur á þjóðunum.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég var dapur þegar ég byrjaði að lesa þitt blogg, og núna er ég glaður... takk!

Gunnar Helgi Eysteinsson, 26.9.2006 kl. 20:38

2 identicon

Áfram Villi !!

Anna Brynja (IP-tala skráð) 28.9.2006 kl. 16:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband