Færsluflokkur: Trúmál og siðferði

Styður Jésú ritskoðun?

Snorri í Betel er kominn í klandur eina ferðina enn. Hann virðist eiga eitthvað erfitt með að sætta sig við að allir eru ekki eins. Samkynhneygðir mega ekki vera samkynhneygðir í friði fyrir honum.

Hann reyndi að krafsa sig upp úr kviksyndinu á bloggsíðunni sinni. Ég setti inn athugasemd. Eins og oft vill vera með ofurkristið fólk, var hún ekki birt samstundis. Hann hefur ákveðið að athugasemdir skuli fyrst skoðaðar og samþykktar áður en þær birtast. Þar sem ég var ósammála honum, birtist mín ekki.

Snorri mælir í Jésú nafni, segir hann. Ég geri því ráð fyrir að Jésú styðji ritskoðun.

Eigum við þá ekki að láta það eftir Snorra að ritskoða það sem okkur er ekki þóknanlegt? Mér sýnist foreldrum barnanna sem hann kennir ekki vera skemmt. Meirihluti þjóðarinnar er ósammála Snorra, svo það væri rökrétt að birta engar fréttir um hann og hans skoðanir. Þegja hann í hel.

Nei, það er ekki okkar að ákveða hvað fólki finnst og hvernig það lifir sínu lífi. Það er ekki okkar að segja fólki hvaða skoðanir það skal hafa. Fólk eins og Snorri gerir lítið úr kristinni trú svokölluðum kristilegum kærleik og umburðarlyndi. Helvíti hart ef ég, trúleysinginn, er umburðarlyndari en maður sem mælir í Krists nafni. En hann um það.

Ég get ekki séð að það komi honum við hjá hverjum fólk sefur. Hann má trúa því að hommar fari til helvítis. En mikið væri það gott ef hann héldi þessu rugli fyrir sig og væri ekki að hræða skólakrakka með sögum af vítislogum og guði sem hatar þau.


mbl.is Æfir vegna skrifa um samkynhneigð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk pyntar fólk.

Stundum les maður fréttir sem fær blóðið til að sjóða. Pyntingar á börnum er það ógeðslegasta sem hægt er að hugsa sér. Ég vona að Assad og aðrir með jafn viðbjóðslegt innræti mæti þeim örlögum sem þeir eiga skilið.

Því miður er það þó svo að maður er farinn að taka öllum svona fréttum með fyrirvara. Ekki að ég efist um að þetta sé að gerast, að sýrlensk börn séu tekin, brennd með sígarettum, gefið raflost og fleira. Að æsku þeirra sé rænt. Ég efast ekki um að svipaðir hlutir gerist í mörgum löndum, um allan heim. Svona fréttir koma bara svo oft upp vegna þess að vesturlönd vilja fara í stríð við viðkomandi land. Vonum að það sé ekki málið hér.

Þegar yfirvöld standa fyrir morðum og pyntingum, þurfa þau hjálp einstaklinga sem eru tilbúnir til að framkvæma voðaverk sem venjulegt fólk getur ekki ímyndað sér. Þetta gerist yfirleitt í nafni einhvers guðs sem fólk telur gefa sér einhvern rétt til að homa fram við aðra af algerri vanvirðingu því þeir aðhyllast ekki sömu hjátrú. Þetta gerist líka vegna óttans við einhvern leiðtoga. Maður er hlekkur í keðju og þorir ekki að fylgja samviskunni vegna þess að þá eru einhverjir bitlingar teknir af manni, eða að refsingin við að óhlýðnast er samviskunni yfirsterkari. Það er betra að pynta börn, en að eiga það á hættu að lenda á svarta lista yfirvalda. Stundum er það geðveiki sem fær fólk til að pynta og drepa, stundum meðvirkni og stundum ótti.

Bradley Manning á að hafa lekið skjölum sem voru svo birt af Wikileaks. Skjölum sem sýndu að hermenn bandamanna voru ekki alltaf að berjast við vondu kallana fyrir hin góðu öfl. Þau sýndu að hermennirnir okkar, sem við sendum til Íraks, Afganistan og Lýbíu með samþykki okkar, voru kerfisbundið að myrða og pynta óbreytta borgara. Skjölin sýndu að við erum ekki góði kallinn. Við erum nasistarnir sem stilltu fólki upp við vegg og skutum það fyrir minnstu sakir, rómverjarnir sem útrýmdu heilu þorpunum ef þau voru ekki til friðs. Við vorum innrásarherinn og við höguðum okkur þannig. Allt gerðist þetta í okkar nafni, því íslendingar samþykktu þessi stríð.

Hann á að hafa lekið þessum skjölum og var því hnepptur í gæsluvarðhald. Honum var haldið vakandi í 23 tíma á dag, hann fékk ekki að tala við neinn nema lögfræðing, hann fékk enga ábreiðu í pínulitla klefanum. Hann var pyntaður, niðurlægður og brotinn niður andlega. Haldið í þessu ástandi í hálft annað ár án þess að vera ákærður. Pyntaður án dóms og laga.

Bandaríkjamenn hafa reynt að þaga tilvist hans í hel síðan málið kom upp. Fæstir sem ég tala við hafa nokkra hugmynd um hver Bradley Manning er, þaðan af síður af hverju þau ættu að vita af honum. Þegar minnst er á hann í fjölmiðlum, er oft tekið fram að hann sé hommi, eins og til að gera minna úr málinu. Snúa því upp í hálfgert grín, beina umræðunni annað.

Af og til koma svo fréttir sem fá mann til að brosa og trúa á mannkynið. 

Í dag tók Hreyfingin stórt skref þegar hún tilnefndi Bradley Manning til friðarverðlauna Nóbels. Hvort hann fái verðlaunin er erfitt að segja, en þetta mun auka umfjöllun um hann í heimspressunni. Fólk mun hugsanlega heyra af honum í fyrsta sinn, skilja af hverju hann hefur verið í haldi án dóms og laga og sjá að heimurinn er ekki endilega eins og okkur er talin trú um. Að við séum ekki endilega góðu kallarnir, að það sé ekki hægt að fara í stríð til að halda friðinn, að ástæðan er ekki að viðhalda mannréttindum og bjarga þjóðum heimsins frá illum einræðisherrum. Að það hangi alltaf eitthvað á spítunni þegar ríki fara í stríð. Kannski að fólk fari að skilja að fyrsta fórnarlamb hverrar styrjaldar er sannleikurinn. Almennir borgara fylgja svo fast á eftir.

Almenningsálitið endaði Víetnam stríðið. Það getur líka endað stíðið við hryðjuverkin ef fólk veit um hvað það snýst. Án þegjandi samkomulags þegnanna, geta ríki ekki farið í stríð. Án hermanna sem tilbúnir eru til að drepa, yrði ansi fámennt á vígvöllunum.

Hreyfingin er lítill flokkur á Íslandi, en í dag hafði hún mikil áhrif á heimsvísu. Hún sýndi að örfáir einstaklingar geta haft mikil áhrif. Að við skiptum öll máli. Ég óska þeim innilega til hamingju. 


mbl.is Börn pyntuð á skelfilegan hátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

McDeath

Wall-Mart mun ekki taka neitt af okkur. Þeir bjóða ekki upp á persónulega þjónustu.

Er þetta kannski það sama og veitingahúsaeigendur sögðu þegar McDonalds var að byrja? Var þetta viðmótið hjá kaupmanninum á horninu þegar stórmarkaðir fóru að spretta upp?

Það kostar morð fjár að hrökkva. Það eru serimóníur, kistur, blóm og annað tilfallandi sem gerir það að verkum að hinn almenni borgari hefur ekki efni á að deyja. Þar sem þetta er óumflýjanlegt og eitthvað sem maður getur víst ekki hummað fram af sér, eru jarðarfaratryggingar big business hér í Hollandi.

Stundum er það ekki þjónustan sem við þurfum, heldur lægri verð. Ef hægt er að bola manni ofan í kistu og holu fyrir 80% lægra verð, munu margir láta þjónustuna eiga sig.

Eins og írarnir segja ef þeim er virkilega vel við þig, "I wish you a good death". 


mbl.is Wal-Mart hefur sölu á líkkistum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum er ekki sama?

Það er næstum sama hvar í heimi er, stjórnvöld eru spillt og bera enga virðingu fyrir plebbunum. Sagan af fréttamönnunum er ekkert leyndarmál. Ef dauði þeirra var slys, er Hallgrímskirkjan súkkulaðibúðingur með piparsósu.

Stuttu fyrir innrás Indónesíu var bandaríkjaforseti í heimsókn. Áður en hann kom í heimsókn, voru indónesísk yfirvöld beðin um að bíða með innrásina þangað til forsetinn væri farinn. Annars liti þetta svo illa út fyrir Bandaríkin. Góða Heimsveldinu var skítsama um íbúa Austur-Tímor. Þau vildu bara koma í veg fyrir "bad PR".

Fréttamennirnir sem fréttin fjallar um voru teknir höndum af indónesum. Þeir voru stimplaðir njósnarar og pyntaðir til dauða. (viðkvæmir geta hætt að lesa hér) Þeir voru hengdir upp á fótunum. Limirnir voru skornir af þeim og troðið upp í kok svo að þeir köfnuðu. Síðan voru líkin brennd.

Þetta heyrði ég fyrir 15 árum. Þetta er enginn nýr sannleikur. Þetta er saga sem hefur verið þekkt í tæp 35 ár. En pólitíkin er þannig að sumt er ekki nógu spennandi. Sumt tölum við ekki um. Sigurvegarinn skrifar söguna og við trúum því sem okkur er sagt.

Þetta er spilltur heimur og yfirleitt er okkur skítsama um það. Þetta er óréttlátur heimur, en við höfum ekki tíma til að láta það koma okkur við nema óréttlætið beinist að okkur sjálfum.


mbl.is Blaðamenn voru pyntaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bönnum Jólasveininn!

Jólaálfarnir eru auðvitað ekkert annar en púkar komnir beint frá helvíti. Þeir eyðileggja jólapælinguna sem kristnir tróðu ofan í opið ógeðið á forfeðrum okkar. Það sést langar leiðir að þessir smáputtar eru ekkert annað en verkfæri þess sem talar tungum tveim.

Santa

Það sem gerir málið enn alvarlegra fyrir okkur íslendinga er að við höfum sett gömlu jólasveinana sem voru ekkert annað en þjófar og morðingjasynir í dulbúning hins fallega og afalega santaklos. Við bjóðum þessi kvikyndi velkomin og leyfum þeim að spreða verðlausu sælgæti meðan kötturinn þeirra veiðir börnin okkar í matinn fyrir foreldrana.

En þetta er ekki búið. Þessi rauðklæddi santaklos er uppfynning KókaKóla Kompanísins í Ameríku. Hann er ekkert annað en sölumaður drykks sem gerir börnin okkar feit, ofvirk og tannlaus. Þar fyrir utan er fyrirtækið sem gerði hann frægan risastórt og svoleiðis fyrirtækjum getum við aldrei treyst. Þau eru auðvitað innan undir hjá nýjaheimsliðinu sem er að vinna fyrir þann klaufska úr víti.

sinterklaas Sinterklaas

En hvaðan kom hugmyndin að Klos? Frá Hollandi, held ég alveg örugglega. Fimmta desember er smábörnum talin trú um að Sinterklaas komi og gefi þeim sælgæti. Hann kemur með litlu skipi frá Spáni í lok nóvember og ríður sínum hvíta hesti um Holland, dreifandi nammi. Aðstoðarmenn hans eru kallaðir Zwarte Piet, Svarti Pétur. Þeir mega elta Klás fótgangandi. Hann kemur sem sagt hingað til að halda upp á afmælið sitt. Stundum lítur hann út eins og biskup eða páfi með her afríkuþræla, en hollendingarnir sverja að litur Pésanna hafi ekkert með þrælasöluna að gera.

zwartepiet

En hvað um það, mikið væri gaman að prufa að vera jafn ginkeyptur og daninn í einn dag. Að vera fullorðinn maður og virkilega trúa að jólaálfar komi frá helvíti, að það sé yfirleitt til og fjandinn líka. Ég væri til í að sjá heiminn með hans augum í einn dag. Einn dag, ekki meir. 


mbl.is Vill banna jólasveina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misskilningurinn sem kostaði Lennon lífið

John sagði einhvern tíma að Bítlanir væru vinsælli en Jésú. Hann hafði sennilega rétt fyrir sér, en fólk hefur svo gaman af því að misskilja hluti sem því líkar ekki. Sagt var að hann hefði haldið því fram að þeir væru betri eða merkilegri. Tóm þvæla en hann varð samt að biðjast fyrirgefningar opinberlega. Það gerði hann og notaði tækifærið til að útskýra hvað hann hafði átt við.

14 árum síðar var hann myrtur af aðdáanda sem hafði mislíkað það sem hann misskildi.

Það er greinilegt af frétt MBL að Vatikanið, eða Heilagi Sjórinn eins og það er stundum kallað, er enn ekki búið að fatta hvað Lennon var að segja, því það fyrirgefur honum það sem fólk hélt að það hefði heyrt. 


mbl.is Páfagarður „fyrirgefur" Lennon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðatuð

Er ekki komið nóg af þessu helveðske guðatuði þar sem ekkert má segja um trúarbrögð án þess að allir brjálist? Hvað er svona heilagt við Múhameð, Ésú, Mosa og alla þá? Það er ofsalega hallærislegt að allir verði að þegja þegar kemur að trúmálum.

Það er ekki spurning að hafi Múði verið að pota í barn, má það alveg koma upp á yfirborðið. Ekki að ég hefði áhuga á að lesa þann viðbjóð, en það hjálpar engum nema skeggjuðum múllum að fela það. Tímarnir voru aðrir, en fjandinn hafi það, níu ára barn.


mbl.is „Ljósblátt klám“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæri Guð

Ef þú ert til, nennirðu þá nokkuð að koma viti inn í hausinn á trúaða liðinu hérn í þorpinu sem ég bý í? Ég er viss um að þú veist hvaða þorp þetta er. Það er núna 28°c í svefnherberginu mínu. Hitastigið úti er svipað og rakinn slíkur að maður þarf næstum ekki að fara í sturtu. Ekki góð skilyrði fyrir svefn.

Eins og þú sennilega veist, vaknaði ég rétt upp úr 3 að staðartíma. Tek fram að um staðartíma er að ræða, því ég er að skifa þetta inn á kerfi í öðru tímabelti. Ég lá vakandi í heila eilífð. Ég var rétt að missa meðvitund þegar kirkjan á horninu gargaði fjórum sinnum. Henni var mikið niðri fyrir og vildi endilega að ég væri með það á hreinu að klukkan væri fjögur. Það voru ekki lífsnauðsynlegar upplýsingar, fannst mér. Ekki á þeim tímapunkti. Ég hrökk upp við pínglið í bjöllunum og lá glaðvakandi í bælinu í klukkutíma áður en ég fór fram úr.

Geturðu nokkuð komið því inn í hausinn á trúaða fólkinu að klukkur eiga eiginlega ekkert sameiginlegt með Guði? Eða er eitthvað samhengi milli klukkna sem klingja á nóttunni og Himnaríkis? Er ég kannski ekki að sjá samhengið?

Ég efast um að þú munir koma til mín og svara, eða skrifa athugasemd hér að neðan, en kannski að þú hvíslir því að einhverju safnaðarbarninu sem svo "óvart" hittir mig út í búð og fer að tala um næturpíngl upp úr þurru? Það er svo hallærislegt að fá svör eins og "þetta er hefð" þegar ég spyr hvort klukkurnar verði endilega að vera að hringja allan sólarhringinn og hvað það hafi með þig að gera. Mér finnst stundum eins og aðdáendaklúbburinn þinn sé ekkert spá allt of mikið í hlutina.

Ég sé að það eru eldingar á sjóndeildarhringnum. Vonandi er ég ekki að pirra þig með þessari færslu. Vonandi vakti ég þig ekki. 


Ekki gagnrýna trúarbrögð!

Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem að blogg er tekið fyrir og lokað. Í þetta sinn var enginn kærður, en slæmt er það samt. Ég las færslur og athugasemdir Skúla af og til. Ég var svo til alltaf ósammála honum, en þannig er lífið. Hann átti það til að vera öfgafullur, en hann er ekkert einn um það. Ég ætla ekki að nefna neina bloggara, en það eru harðir andstæðingar Íslam, Ísraels, Palestínumanna, trúarbragða, Samfylkingarinnar, stóriðju og náttúruverndar enn að. Það er líka hið besta mál, enda búum við við málfrelsi. Svo er okkur allavega sagt.

Bloggið býður upp á að gerðar séu athugasemdir við færslur. Segi Skúli eða aðrir eitthvað sem fer fyrir brjóstið á fólki eða er einfaldlega rangt, er um að gera að skrifa athugasemd. Að grenja og kvarta í mömmu var aldrei talið neinum til framdráttar.

Það má gagnrýna allt nema trú. Skúli gagnrýndi trú. Skamm á Skúla. Eða hvað?


mbl.is Óánægja með lokun umdeilds bloggs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góða ferð...

Af hverju þurftu þær að fara? Hver ákvað það? Ég óska þeim alls hins besta og vona að hamingjan fylgi þeim.

Annars get ég tekið undir að það er gaman að koma til Íslands en ekki að fara aftur utan.


mbl.is Gaman að koma en ekki að fara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband