19.8.2006 | 02:17
Sagan um Myndina - annar bútur
Eftir tökurnar á Eiríksstöðum var kominn tími á kirkjugarðinn. Jóel rakaði sig, en skildi eftir smá mottu. Leikararnir sáu sjálf um búningana, fyrir utan loðkápu sem ég fékk lánaða. Minkurinn var keyptur í London árið 1967 fyrir langömmu og hefur ekki verið notaður í meira en tuttugu ár. Þetta var allt annað tímabil svo að allt varð að vera öðruvísi. Ekki bara fötin, heldur staðurinn, farðinn og persónurnar. Sonja leysti sitt verk af hólmi með stæl eins og fyrri daginn og leikararnir voru í topp formi.
Mánudagurinn átti að fara í tökur í Vík, en þeim var frestað fram í næstu viku. Við vorum ekki komin með búningana á hreint og frekar en að kasta til hendinni var ákveðið að taka þau atriði upp seinna. Fyrstu tökudagarnir heppnuðust það vel að restin mátti ekki verða síðri.
Hollendingarnir þrír komu til landsins á þriðjudag. Eins gott, því það var komið að erfiðasta hluta myndatökunnar. Töluvert af myndinni gerist í bíl og eins og allir sem hafa gert kvikmyndir vita, er það flókið mál. Kiddi reddaði tækjabúnaði til að festa myndavélina á bílinn. Við vorum komin upp á Bláfjallaveg á miðvikudagsmorgun með gamla Sunnyinn sem ég keypti um daginn og Toyota Avensis sem Helena frænka leyfði okkur að nota í tvo daga. Þetta var erfiður dagur, en allt gekk vel. Veðrið var ekki gott, glampandi sól, en rigning hefði verið verri svo maður var ekkert að kvarta.
Fimmtudagurinn var erfiðasti dagurinn. Við þurftum að sviðsetja umferðarslys án þess að skemma bíla og slasa fólk. Hvert atriði var skoðað og hvert skot ákveðið kvöldið áður. Þetta gekk allt vel, en reyndi mikið á Önnu Brynju. Hún þurfti að standa á miðjum vegi með bíl keyrandi að sér. Hún þurfti að henda sér aftur á bak eins og hún hefði lent fyrir bíl og svo fylltum við nefið á henni af gerviblóði. Þetta allt ofan á farða sem tók tvo tíma að fullkomna. Ég var dauðþreyttur eftir daginn, en ég er viss um að dagurinn tók mest á hana. Það er ekki spurning að ég er með topp leikkonu í þessari mynd.
Föstudagurinn átti að vera einfaldur, fara á skemmtistað og taka upp eitt atriði, en það gekk ekki eins ljúft fyrir sig og ætlunin var. Það var einhver misskilningur í gangi þar sem eigandinn hélt við yrðum kannski hálftíma að klára þetta. Þegar vélin og ljósin voru komin upp og leikararnir klárir þurftum við að fara. Jóel reddaði okkur inn á Pravda og við tókum atriðið upp þar. Þetta gekk sem sagt allt upp, en tók mikið meiri tíma en ég hafði ætlað.
Á laugardag verður svo farið í bíltúr til að finna tökustað fyrir tvö atriði og svo er það suðurlandið í næstu viku. Ég er að vona að tökum ljúki svo í lok næstu viku.
Þetta er stuttmynd, en það er ekki hægt að segja að hún sé einföld í gerð. Við erum búin að vera að taka upp í viku og erum hálfnuð. Erfiðustu atriðin eru búin og eftir að hafa horft á það sem þegar er komið er ég viss um að útkoman verður glæsileg. Það er orðinn daglegur ávani að dásama fólkið sem ég er að vinna með, en það er bara góð ástæða fyrir því. Ég get ekki ímyndað mér betri hóp til að vinna með. Þetta verkefni byrjaði sem einföld hugmynd en er nú orðin stærri en ég hefði þorað að plana. Það vafðist upp á þetta og ég er núna að sjá hvað þetta er orðið stórt. Það er sennilega gott að ég sá það ekki fyrr, því ég er ekki viss um að ég hefði lagt í þetta.
Meira seinna...
15.8.2006 | 00:23
Sagan um Myndina - fyrsti bútur
Tökur eru hafnar. Myndin er farin af stað. Þetta er mikil vinna og mikið að gera en þetta er rosalega gaman. Það get ég þakkað fólkinu sem er að gera þetta með mér.
Ég kom til landsins fyrir rúmri viku og hitti hópinn. Ég efast um að ég hefði fengið betra fólk til að vinna með þó ég hefði haft fjárlög á við Dirty Harry himself.
Við vorum með æfingar á föstudag og ég vissi strax að ég var heppinn með hópinn. Anna Brynja og Jóel lifðu sig inn í hlutverkin og það var ekki hægt að heyra að þau voru að fara með línur sem höfðu verið skrifaðar einhverjum mánuðum fyrr. Kiddi var líka með tæknimálin á hreinu og það léttir mitt verk mikið. Ég vil þakka Erlingi Gíslasyni og Brynju konu hans fyrir aðstöðuna.
Tökur hófust á laugardag við Eiríksstaði í Haukadal. Eiríkur Rauði byggði bæinn upphaflega en hann var endurbyggður á aldamótaárinu 2000. Hann er mjög vel gerður og kemur mjög vel út á mynd. Það eina sem ég sé eftir er að lyktin í bænum kemst ekki til skila til áhorfenda.
Laugardagurinn var flóknasti dagurinn að mörgu leyti. Anna Brynja og Jóel þurftu að vera ung og gömul. Það fór því mikill tími í förðun, en Sonja sannaði að hún getur gert kraftaverk. Við vorum líka með tvo aukaleikara, Oddný sem lék ömmuna og Kristín Viðja var yngri útgáfa af Önnu Brynju. Þær stóðu sig báðar frábærlega. Hver veit, kannski sjáum við meira af Viðju. Hæfileikarnir eru fyrir hendi. Kiddi var ómissandi, eins og ég hafði búist við. Ef hann var ekki að aðstoða við tökur, var hann hlaupandi um allt takandi myndir. Þetta var líka löng keyrsla. Þetta var því langur og erfiður dagur en það var ekki að sjá á fólkinu. Ég veit að þessi hópur á eftir að skila af sér góðri mynd.
Meira seinna... þetta er bara rétt farið af stað.
6.8.2006 | 22:48
Á Netinu
Ég veit að það eru allir potandi í hressingartakkann (refresh-button) á vafranum sínum, bíðandi eftir að ég segi vef-söguna mína. Biðin er á enda, hún er hér.
Ég keypti tölvu árið 1988. Þetta var Amstrad 8086 vél. Það var hægt að fá hana með mótaldi, en ég sá enga þörf fyrir það. Vissi ekkert hvað ég ætti að gera við svoleiðis, enda þrjú ár í að netið yrði sett í samband.
Ég fór fyrst á netið 1995. Þá var komið net-café, Cyberia. Þessi staður var rekinn af Einari Erni Sykurmola og var neðarlega á Hverfisgötu. Ég man að þetta var frekar dimmur staður og það voru tölvur í röðum við veggina. Ég keypti mér kaffibolla, opnaði Netscape og pikkaði David Bowie inn í Yahoo leitarvélina. Bowie var það fyrsta sem mér datt í hug. Ég fann einhverjar síður, leitaði svo að öðrum hlutum. Það var eins og maður væri kominn inn í framtíðina.
Þetta var spennandi, en það liðu þó tvö ár áður en ég loksins fékk mér tengingu. Ég var þó ekkert að sóa neinum tíma, hitti hollending á netinu og afgangurinn er saga eins og útlendingarnir segja.
Ég byrjaði að fikta við heimasíðugerð 1999. Ég setti myndir á þetta og einhverjar upplýsingar um hluti sem ég hafði áhuga á. Ég setti svo upp síðu um Ísland fyrir útlendinga og trompaði svo allt með meistaraverkinu, BowieLive. Það entist í tvö ár, þangað til ég fór að fikta við kvikmyndagerð. Ég hætti að halda til upplýsingum um aðra og hannaði heimasíðu þar sem fólk gat lesið um mín eigin verk.
Netið hefur breytt mínu lífi og ég viðurkenni fúslega að ég er sennilega fíkill. Það er allavega hægt að segja að ég nota það nógu mikið og veit ekki hvað ég myndi gera ef það væri tekið "offline". Ótengd tölva er næstum eins og bensínlaus bíll núorðið.
Þá veistu það, lesandi góður. Ég á tvær af þessum 92.615.362 síðum. Ég viðurkenni að það er mér að kenna að þetta er ekki slétt og falleg tala sem endar á heilum tug.
![]() |
Veraldarvefurinn 15 ára í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.8.2006 | 10:44
Að smíða kvikmynd
Þá er komið að því. Síðasti dagurinn í vinnunni í dag og flugið í fyrramálið. Ferðin byrjar með langþráðum endurfundum en vinnan byrjar fljótlega eftir það.
Ég var að klára að setja saman endanlegt plan fyrir tökur. Fundir með leikurum og tökuliði strax eftir helgi og svo hefjast tökur fyrir næstu helgi. Síðustu atriðin verða svo tekin upp þriðjudaginn 22 ágúst. Þetta eru sem sagt um tvær vikur sem fara í þetta. Þess á milli get ég bara verið í mínu eigin landi innan um fjölskylduna.
Hugmyndin er að blogga eitthvað hérna á komandi vikum, en ég hef sennilega minni tíma til þess en hingað til. Það væri þó gaman að koma einhverjum myndum og sögum á netið. Spurning með að uppfæra heimasíðuna líka. Kominn tími á það. Kannski ég vinni í því í flugvélinni á morgun.
Að gera kvikmynd er mikið verk og það getur svo margt farið úrskeiðis. Þá á ég ekki bara við fótbrot og aðra hluti sem koma í veg fyrir að verkið verði klárað, heldur litla hluti sem gera myndina ekki eins góða og ætlunin var. Þetta var vandamálið í fyrra. Ég skrifaði handrit og leikstýrði mynd, The Small Hours. Sagan var ekki svo slæm, en það var enginn tími til neins. Ég gubbaði út handritinu, sem var svo endalaust í vinnslu, þar á meðal eftir að tökur hófust. Þær hófust reyndar um viku eftir að ég gubbaði upp hugmyndinni. Það var því enginn tími til að gera neitt, plana neitt. Myndin var gerð og margir segja að hún sé góð, en ég var aldrei sáttur. Sagan eins og ég sá hana komst ekki nógu vel til skila og leikurinn rétt náði að vera þokkalegur. Þetta var auðvitað allt mitt, allir sem að myndinni komu stóðu sig sem hetjur. Það var bara enginn tími til að vanda til verks.
Það verður svo sannarlega annað uppá peningnum í þetta skiptið. Við tökum okkur nægan tíma í að ná hverju atriði eins og það á að vera. Ég hef valið leikara með reynslu og tökustaði sem krydda söguna. Þar fyrir utan hefur þessi saga verið skrifuð, endurskrifuð, legið í tunnu og svo tekin upp aftur, yfirfarin og endurskrifuð aftur. Ég hef sem sagt gert allt sem ég get til að þessi mynd heppnist sem best. Nú er bara að nota tökudagana og gera sitt allra besta og vona að svona óvenjuleg saga höfði til einhverra.
Allavega, hlakka til að komast heim. Meira seinna.
2.8.2006 | 17:05
Tímamót
2006 virðist ætla að verða mikið umbrotaár. Alvarleg veikindi í fjölskyldunni, fjölgun við sjóndeildarhringinn, stuttmyndin hefur tekið mikinn tíma og vinnu og það dæmi virðist allt vera að taka meira til sín. Ég kem heim til Íslands á laugardaginn og verð í fjórar vikur, sennilega lengri tími en ég hef verið samanlagt á klakanum síðasta áratuginn. Upprunalega ástæðan var kvikmyndin en nú er ég bara feginn að geta verið þarna fyrir fjölskylduna og sjálfan mig. Ég er líka búinn að vera á fundum undanfarið og var kosinn formaður fimm manna hóps sem er að setja upp framleiðslufyrirtæki í september í Hollandi. Þar verður auðvitað nóg að gera, tvö verkefni þegar í vinnslu og 2-3 í viðbót í undirbúningi.
Ég var búinn að semja við eigandann þar sem ég vinn núna að ég myndi vinna þrjá daga í viku eftir að ég kem til baka frá Íslandi. Þetta er eitthvað sem við ákváðum fyrir ári síðan. Hann bað mig að bíða þar sem vantaði mann í aðra stöðu. Ég beið, en það tók níu mánuði að finna þann mann. Af hverju veit ég ekki. Sennilega vildi hann ekki vera að borga öll þessi laun. Það er allavega eina ástæðan sem ég get ímyndað mér. Það var ekki fyrr en vinnufélagi minn byrjaði virkilega að kvarta að eitthvað gerðist. Nú var komið að mér hélt ég og við sömdum um að ég færi að vinna þrjá daga í september. Það var svo fyrir um viku að hann kallar mig inn til sín og dregur allt til baka. Hann geti ekki látið mig vinna þrjá daga. Fimm skal það vera.
Ég skrifaði sem sagt uppsagnarbréf. Ég vinn minn uppsagnartíma í september eftir að ég kem til baka og svo er þetta búið. Þetta er stór ákvörðun, því ég mun auðvitað verða launalaus í bili. Engar bætur fyrir þá sem hætta sjálfviljugir. Maginn er í hnút, þannig lagað, en það er sama hvernig ég skoða dæmið, þetta var það eina sem ég gat gert. Valið var á milli fastra tekna og vinnu sem maður er ekki ánægður í og henda öllum hugmyndum um kvikmyndagerð fyrir borð, eða að njóta lífsins og gera eitthvað sem maður hefur áhuga á og trúir á. Spurning með að finna hlutastarf einhvers staðar.
Þetta ár mun því skilja við okkur í allt annarri stöðu en þegar það gekk í garð. Ekkert er eins, allt er að umturnast og það verður athyglisvert að sjá hvernig hlutinir verða þegar þetta tímabil er um garð gengið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.7.2006 | 15:18
Lögfræði í Sandkassa
Ég man eftir því að pabbi minn var alltaf sterkari en pabbi þinn og hann myndi nú bara lemja alla sem væru með stæla.
Mér finnst rifrildi fyrirtækja oft hljóma eins og smábörn í sandkassa. Skoðum þetta mál. Mjólka notar sexhyrndar krukkur með miðum svipuðum O&S. O&S pirrast og segir að Mjólka hafi stolið hönnuninni. Það er kannski satt með miðana og hefði Mjólka kannski mátt vera pínu minna gegnsæ ef svo er, en hér í Hollandi er Feta ostur oft seldur í sexkant glerkrukkum. Þetta virðist því vera einhver alþjóðleg hefð. O&S var samt fyrst á hinum litla íslenska markaði til að nota þessa krukku, hefur misst markaðshlutdeild og ákveður því að fara í mál.
Mjólka þykist þá "skilja" O&S en koma svo með útúrsnúninga sem ástæðu þess skilnings. Þrátt fyrir skilninginn ákveður Mjólka að fara bara líka í mál því hvorugur aðilinn má, eftir allt saman, nota orðið Feta. Mjólka var svo sniðug að nota Feti, sem er auðvitað allt annað og hefur ekkert með Feta að gera. Nema hvað, ég las einhvers staðar (sennilega á MBL fyrir einhverjum mánuðum) að Grikkir, Dönum til mikillar mæðu, vildu helst fá einkarétt á Feta framleiðslu.
Það er sem sagt tvennt sem getur gerst hér. Neytendur greiða hærra verð því lögfræðingar eru ekki ókeypis, eða stóri fíllinn stígur á öskrandi mýsnar og neytendur kaupa innfluttan Feta ost.
![]() |
Mjólka íhugar að kæra Osta- og smjörsöluna fyrir að nota orðið ,,feta" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.7.2006 | 14:33
Lögfræðinemar

Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.7.2006 | 11:21
Join the Club...
Ég hef ekki hugmynd hvernig maður segir svona fréttir. Ég hef sagt fjölskyldunni og bestu vinum frá þessu en ekki sagt þetta opinberlega, enda er ég ekki frægur og hef því enga ástæðu til að tala um hluti opinberlega. Veit ekki einu sinni hvort það sé yfirleitt góð hugmynd að segja alþjóð þetta. Sennilega ekki. Geri það samt.
Ég er að verða alvöru íslendingur. Alvöru íslendingar eiga börn. Ég hef látið það eiga sig fram að þessu en það er bara kominn tími á þetta.
Áætlaður komutími er febrúar. Svo er bara spurning hvort maður leyfi þessari færslu að standa. Það er eitthvað svo skrítið að vera að standandi upp á stól gargandi þetta in public. En þetta er mér sem sagt efst í huga um þessar mundir.
25.7.2006 | 09:40
John Lennon
Ég hef oft velt því fyrir mér hvað John Lennon væri að gera ef hann væri á lífi. Hvað hefði hann gert hefði Mark Chapman ekki myrt hann í desember 1980?
Við vitum að hann var nýbúinn að gefa út plötuna Double Fantasy. Það er ekki eins vel þekkt að hann var á leiðinni til Englands til að hjálpa bæði George og Ringo með sóloplötur sem þeir voru að vinna að. Þar að auki var hann langt kominn með næstu sólóplötu, Milk and Honey. Hún var kláruð eftir andlát hans og gefin út árið 1984.
Þá er það fantasían. Vorið 1981 er hann búinn að hjálpa ex-Bítlunum tveimur. Hann fer aftur til NY að klára sína eigin plötu. Hún kemur út á haustmánuðun 1981 og selst nokkuð vel. Hann spilar á örfáum hljómleikum í kring um jólin en tekur ekki í mál að fara í alvöru hljómleikaferð.
Um vorið fer Lennon aftur í hljóðver. Upptökur eru kláraðar síðla sumars og platan kemur út fyrir jólin 1982. Hún selst minna en fyrri plötur og Lennon dregur sig í hlé. Sean er átta ára og John finnst hann ekki hafa sinnt honum nógu mikið síðustu þrjú árin. Haustið 1983 bankar gamall kunningi, Elton John, upp á hjá honum. Hann vill ólmur fá Lennon til að syngja inn á nýjustu plötuna en John er ekki svo viss. Elton tekur nei ekki í mál og John lætur til leiðast. Lagið er gefið út á smáskífu í byrjun árs 1984 og selst vel. Þeir spila saman á einum hljómleikum. 1984 fer í að ferðast um Bandaríkin og reyna að fá fólk til að kjósa Reagan út úr Hvíta Húsinu. Hann semur lag og tekur það upp með George Harrison og Eric Claption. Herferðin er mikið í fréttum, Lennon er maður ársins að mörgu leyti, en Reagan nær þó endurkjöri. John hjálpar líka syninum Julian með fyrstu plötuna.
Í ársbyrjun 1985 hittast þeir John, George og Eric aftur. Ætlunin er að fylgja eftir smáskífunni frá árinu áður. Þetta átti að vera 2-3 lög en vatt fljótt upp á sig og í apríl voru 14 lög komin á band. 10 laga platan kemur út í byrjun júní 1985, gengur vel, og er fylgt eftir með lítilli hljómleikaferð um Bretlandseyjar. Þeir koma meðal annars fram á Live Aid. George og Eric vilja halda áfram og fara um Evrópu og Bandaríkin, en John hefur ekki áhuga á því. Það eru háværar raddir um að Bítlarnir skuli koma saman á árinu til að halda upp á 45 ára afmæli Johns, 25 ára afmæli Hamborgar ævintýrsins og 15 ára afmæli Let it Be, en enginn Bítlanna segist hafa áhuga.
"Lennon in the Movies!". Í lok 1985 tekur Lennon að sér að framleiða mynd um afleiðingar Víetnam stríðsins. Hann leggur til fjármagn og nafn sitt. Hann ferðast til suð-austur Asíu á vormánuðum 1986 og talar við Bandaríska hermenn um sumarið. Klipping fer fram um haustið og er myndin frumsýnd samtímis í London og Washington í byrjun desember 1986. Í kjölfar myndarinnar ferðast Lennon um heiminn, fer á eins konar fyrirlestratúr. Í mars fer hann með fjölskylduna til Bahama eyja og nýtur sumarsins við Karabíska hafið.
Haustið 1987 hringir síminn. Það er svarthærður íri sem vill ólmur fá goðið til að koma fram með hljómsveit sinni. John er ekkert á því að koma fram á sviði og segir nei. Eftir margar símhringingar ákveður hann þó að skoða málið, þar sem þessi ungi maður virðist hafa eitthvað til málanna að leggja. Eftir að hafa séð U2 á hljómleikum slær Lennon til og kemur fram með þeim í Madison Square Garden í lok september 1987.
Hann smitast af ákafa þeirra, sér að baráttan fyrir friði lifir enn og ákveður að taka til hendinni á ný. Hann tekur upp tvö lög með U2 í Sun Studios, sem eru seinna útgefin á Rattle & Hum. Lennon lokar sig af í íbúðinni í NY í tvo mánuði og gerir ekkert annað en að semja lög. Nýja platan er tekin upp á sex vikum í byrjun 1988. Hvert lag er fullkominn áróðurssöngur fyrir betri heimi. Lennon leitar uppi tólf leikstjóra og lætur gera stuttmynd (frekar en myndband) við hvert lag af plötunni. Nýjasta afurðin kemur svo út í júlí 1988 á vínyl, geisladisk og myndbandi. Viku fyrir útgáfuna er myndin sýnd í 30 kvikmyndahúsum um allan heim. Aldrei þessu vant ákveður Lennon að fara í hljómleikaferð. Hann ferðast um allan heiminn frá júlí 1988 til mars 1989. Lagavalið er 45% nýtt efni, 35% sólo og 20% Bítlalög. Ferðin er mjög vel heppnuð, þó sumir kvarti yfir að hafa ekki fengið að heyra meira Bítlaefni.
Árið 1989 eru blikur á lofti í austur Evrópu. Lennon ferðast um álfuna og predikar ást og jafnrétti. Þegar múrinn fellur um haustið er hann í Berlín.
Framhald seinna...?
Þessi færsla var innspíreruð af þessu.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.7.2006 | 08:39
Einhver hlýtur að vilja þetta.
Mennirnir eru stundum furðulegir. Maður skilur ekki alltaf hvað fólk er að gera, sérstaklega þegar það sprengir hvort annað í loft upp. Ef maður reynir að skilja hin ýmsu átök fer maður oft í hringi og endar á byrjunarreitnum, einskis vísari. Það er til einföld aðferð sem oft virkar vel. Rómverjar notuðu hana til að komast að sannleikanum. Hver græðir? Ef glæpur er framinn græðir einhver. Ef þú finnur hann, ertu kominn með sökudólginn.
Hver græðir á þessu nýja stríði? Líbanon? Hezbollah? Ísrael? Íran? Bandaríkin? Það væri gaman að heyra hvað fólki finnst.
![]() |
Forseti Írans: Ísraelsmenn hafa þrýst á eigin sjálfseyðingarhnapp" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)