Carnivale

Ég var að klára að horfa á Carnivale. Þetta eru þættir sem gerast 1934 í sandfoki suðvestur hluta Bandaríkjanna.

Ég ætla nú ekki að segja neitt mikið um þessa þætti, nema að þeir eru ótrúlega góðir. Þeir sem hafa gaman af David Lynch finna sig í þessu. Söguþráðurinn er sterkur, það er ekkert verið að flýta sér allt of mikið, heldur er séð til þess að maður njóti hvers atriðis til hins ýtrasta.

Það er líka skondið að hafi maður ekki lesið sér til um þættina fyrir fram, hefur maður ekki hugmynd um hvað er í gangi. Það skýrist allt, en það er skemmtilegt að vera jafn glórulaus og persónurnar.

Allavega, ég mæli með þessum þáttum, 110%. 


Ísland Grátið / Lowest Energy Prices !!

"Skemmtileg" tilviljun að meðan miklar rökræður fóru fram á þessu bloggi var fólk að flagga í hálfa stöng á hálendinu. Það er engin spurning að mikill hluti íslensku þjóðarinnar er á móti frekari stóriðju og stór hluti þeirra sem ekki eru á móti hafa ekki kynnt sér málið.

Ég fann bæklinginn "Lowest Energy Prices" á heimasíðu Draumalandsins. Ég mæli með því að allir lesi þennan bækling og endilega látið vita hvað ykkur finnst. Er verið að stuðla að hagvexti um alla framtíð eða selja Ísland og íslendinga fyrir lægsta verð?

Það verður ekki aftur snúið með Kárahnjúka, en getum við ekki látið hér staðar numið? 


mbl.is Flaggað í hálfa stöng á hálendinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað var Friðrik að segja...?

Eru þetta ekki aðal rökin þegar fólk spyr hvort all þetta ál sé nauðsynlegt? Er ekki alltaf minnst á þoturnar sem fólk notar til að komast til og frá landi? Það er ekki minnst á milljarða kókdósa sem enginn nennir að endurvinna, heldur virðist öll framleiðsla íslensku álveranna fara í farþegaþotur.

Þangað til sú saga er ekki nógu góð lengur því þotur verða ekki smíðaðar úr áli eftir nokkur ár. Nei, þá er sagt "Áhrifin á áliðnaðinn séu hins vegar lítil þar sem flugvélaframleiðsla skýri ekki nema lítinn hluta álframleiðslu í heiminum. Álframleiðendur á Íslandi framleiða ekkert fyrir flugvélaiðnaðinn svo áhrifin á íslenskan markað yrðu hverfandi."

Geta Alcan, Alcoa, Landsvirkjun og allir hinir sem eru svo álþurfi þá staðfest að Ísland er að framleiða ál í gosdósir, eða er sannleikurinn ennþá verri? 


mbl.is Óumflýjanlegt að hætta notkun áls í flugvélaframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland á kafi...

Eins og sést á myndinni að neðan er Ísland að sökkva. Það er bara fínt því það græða víst einhverjir amerískir Bush-vinir á því. Ég hef nöldrað svo oft yfir þessu og það breytir engu. Fólk hefur kvartað og mótmælt og það breytir engu. Þetta er svo sem allt í lagi því Áldór og Álgerður og Sif og öll hin geta látið eins og þau séu merkileg og að Íslandssagan muni þakka þeim.

Ef þetta eru framfarir eigum við skilið að vera hent aftur inn í helli. 

Annars er það merkilegt hvað þetta er allt ofboðslega stórt. Raskið er gífurlegt. Gífurlegt er fíflalegt orð í þessu samhengi en það er ekki til nógu stórt orð yfir eyðilegginguna sem verður sett í gang í September þegar lónið byrjar að fyllast.

Ég var að finna þessa mynd á Kárahjúkavefnum. Ég vona að þetta fólk skammist sín allavega, að það sé ekki svo firrt að það haldi að þetta sé bara kúl og allt í lagi.

 

 Bætt við 21.07.2006 - hlekkur úr athugasemd: http://www.althingi.is/altext/128/01/r28203059.sgml


Fallegu hvítu seglin...

Ég man eftir að hafa alist upp við sögur af frönskum skipum, ströndum, mannbjörg og slysum. Langafi, fæddur 1893, mundi vel eftir skútunum sem sigldu upp í sandinn í Meðallandsfjöru. Mér datt einhvern tíma í hug að taka sögurnar upp á spólu en ég var of ungur til að taka það nógu alvarlega og gera eitthvað í því. Það er því mikil vitneskja farin og kemur aldrei aftur.

Nú þegar ég er farinn að fitla við kvikmyndagerð datt mér í hug að skoða þetta aftur. Ég fór að lesa mér til um frönsku og flæmsku skúturnar sem komu á íslandsmið í byrjun mars ár hvert. Ég komst að því að þetta var stórmál í Frakklandi og er enn. Þessi keppni sannar það. Ég komst líka að því að fallegu hvítu seglin sem sáust frá landi voru allt annað en falleg þegar maður var á þessum bátum. Þar var kuldi og vosbúð.

Hvernig sáu íslendingar frakkana? Hvernig sáu frakkarnir íslendinga? Hvenær og hvernig fóru samskipti fram? Margar spurningar og þetta er bara byrjunin.


mbl.is Frönsku skúturnar á leið heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búningar og skotlistar

Það var mikið að gera um helgina. Mér líður eins og ég sé að gera stórmynd. Ég hef verið að búa til shotlist undanfarið, þá er hvert einasta atriði skorið niður í smá búta. Hver klipping er plönuð áður en nokkuð er tekið upp. Það heftir klipparann kannski en ég veit af fyrri reynslu að maður verður að vita hvað á að gera þegar komið er á vettvang. Það þýðir ekki að mæta á staðinn, skoða sig um og segja "ókei, hvernig gerum við þetta?". Ég hef verið viðriðinn svoleiðis framleiðslu og veit að það gengur ekki nema maður hafi yfirdrifið mikinn tíma. Ég man eftir rökræðum, hálftímar og klukkutímar liðu án þess að nokkuð væri tekið upp. Ég er sem sagt að plana hvert einasta myndskeið (hvað heiti shot á íslensku?).

Svo eru það búningarnir. Myndin flakkar um aldirnar og það þarf búning fyrir hvert tímabil. Þar efr smá vandamál í gangi. Á Íslandi er ég ekki í neinum samböndum og þekki engan sem eitthvað hefur með búning að gera. Í Hollandi get ég reddað ýmsu, en eru þetta þá réttu búningarnir? Hollensk hönnun og tíska var alltaf öðruvísi en íslensk. Mér finnst að fyrst maður er að gera íslenska mynd úr þessu er eins gott að fara alla leið og nota íslenskan klæðnað. Ef einhver veit hvert ég get snúið mér, vinsamlegast skiljið eftir athugasemd.

Íslensk mynd, það er ekkert nýtt? Átti þetta ekki alltaf að vera íslenskt? Nei, ég ætlaði alltaf að taka hana upp á Íslandi vegna þess að landslagið passar við söguna. Svo er hún lauslega byggð á atburðum sem gerðust á Íslandi. Restin hafði ekkert með Ísland að gera. Hún yrði á ensku og gerð fyrir erlendan markað. Nú lítur út fyrir að hún verði á íslensku, svo til allir sem koma að henni eru íslendingar. Ég mun samt sem áður reyna við erlendan markað þar sem ég hef lesið mikið að hryllingssögum um áhugaleysi íslenskra miðla á stuttmyndum. Við sjáum til.

Þetta var sem sagt mikilvæg helgi fyrir myndina. Kannski eins gott, því ég verð á landinu eftir örfáar vikur og það er enn nóg undirbúningsvinna eftir. Nú þarf ég hins vegar að hætta að skrifa því að hin vinnan bíður. Best að fara að þykjast fíla IBM tölvur, fyrir það ég fæ víst greitt.  


Microsoft Windows át diskinn minn!

Það er mikið talað um að hugbúnaði sé stolið. Fólk er kallað þjófar við fyrsta tækifæri. Það skiptir ekki máli hvort þú stelur Windows af búðarhillu eða netinu. Að stela er að stela og synd er synd. Þetta er auðvitað það sem hugbúnaðarfyrirtæki segja okkur. Það skiptir þau engu máli hvernig hugbúnaði er stolið. Þau "missa af" sölu og það er það sem skiptir máli.

Ég man að um miðjan síðasta áratug fékk fólk geisladisk með Windows 95 þegar það keypti tölvu. Ef það vildi eða þurfti að setja Windows upp upp á nýtt vað það ekki svo erfitt. Activation var ekki komin til sögunnar svo að maður þurfti ekki að útskýra fyrir Microsoft ef maður skipti um grafískt kort.

Eftir því sem milljarðarnir stöfluðust upp í Redmond, jókst móðursíkin. Við gætum verið að missa af peningum. Það eru allir að stela frá okkur. Hvernig getum við stoppað þetta? CD-Key hefur verið þekkt fyrirbæri í langan tíma. Virkaði ágætlega en var auðvelt að svindla á því, sérstaklega eftir að allir voru komnir á netið.

Svo kom Windows XP og allt í einu þurfti að aktivera það. Það var ekki nóg að kaupa diskinn, heldur þurfti að fá leyfi Microsoft til að nota innihaldið. Ef fólk var ekki með nettengingu gat það verið vandasamt. Ef Windows var ekki aktiverað innan 30 daga (minnir mig) lokaðist bara á það, notandinn var timplaður þjófur. Fólk gat ekki notað tölvuna sína. Þetta var ekki einu sinni eitthvað sem maður gerði einu sinni, heldu í hvert skipti sem eitthvað var keypt í tölvuna. Ef maður hafði gaman af því að kaupa nýtt dót, grafískt kort, hljóðkort, stærri disk, þá gat Windows ákveðið að hætta að virka, activation eða ekki, og maður mátti hringja í Microsoft og biðja um leyfi til að nota tölvuna aftur.

Þeir eru ekki dottnir af baki og nú er komið eitthvað sem heitir Genuine Advantage. Þetta er forrit sem hefur samband við Microsoft á hverjum degi til að ganga úr skugga um að það sé ekki ennþá lögleg útgáfa. Ég skil nafnið ekki, nema þeir séu farnir að sjá Windows sem seljendavæna vöru frekar en notendavæna. Ef það er "genuine advantage" af því að vera með þetta forrit sett upp vil ég endilega heyra það. 

Þegar vara eins og Windows nær að eigna sér markaðinn fara skrítnir hlutir að gerast. Windows er notað á um 90% allra tölva á vesturlöndum. Það er því ákveðið að allir noti Windows. Ég hef unnið við að selja og þjónusta IBM tölvur síðastliðin fimm ár. IBM ThinkPad er vinsæl Linux vél en IBM selur ekki ThinkPad án Windows. Ég hef ekki hugmynd um hvað ég hef oft verið spurður hvort ekki sé hægt að sleppa Windowsinu og fá einhvern pening endurgreiddan. Stutta svarið er nei. Langa svarið er nei, farðu og hættu að vera með þessa vitleysu. Það er nefnilega þannig að Windows er tekið alvarlega og önnur stýrikerfi ekki. Linux er fyrir forritara og nörda og Mac OS X er fyrir hönnuði og homma. Það var skylda um tíma að setja Windows á allar seldar tölvur (nema Apple) hér í Hollandi. Það var ekki hægt að fara í neina búð og kaupa gluggalausar tölvur. Tölvur sem voru settar saman á staðnum urðu að koma með Windows. Það var gengið út frá því að þú myndir nota Windows og svona var hægt að tryggja að þú borgaðir fyrir það.

Eins og ég minntist á hef ég unnið með IBM tölvur undanfarin ár. Sú var tíðin að kaupandinn fékk sérsmíðaðan Windows disk með tölvunni. Hann virkaði ekki á aðrar tölvur. Það hefði því mátt halda að lausnin væri komin. Windows diskur sem eingöngu er hægt að nota á tölvuna sem hann var hannaður fyrir. Ég get vottað að þessir diskar (kallaðir preload CDs) virka alls ekki á aðrar tölvur.

Þetta var samt ekki nóg fyrir Microsoft. Það var því komið með annað kerfi. Óuppsett Windows, preloadið, var sett á harða diskinn. Þetta virkar þannig að diskinum er skipt í tvennt. Segjum að hann sé 80GB. Þú sérð u.þ.b. 60GB þar sem Windows og önnur forrit eru. Þetta er C: drifið. Hvar eru hin 15-20 gígabætin? Þau eru falin og þú getur ekki notað þau. Þar eru Windows diskarnir þínir. IBM og Microsoft segja að þetta sé ekkert mál því ef þú þarft að setja upp Windows aftur potarðu bara í ThinkVantage takkann (F11 virkar líka) og þú getur sett upp Windows frá grunni. Það er ekkert minnst á að þér er seld tölva með 80GB en aðeins 60GB eru sjáanleg. Er það ekki að stela? Svo ef harði diskurinn deyr er Windows líka dáið. Þú getur keypt nýjan harðan disk en það er ekkert Windows á honum. Hvað nú? Hringja í IBM? Þeir hjálpa þér ekki. Þetta er Microsoft vandamál. Hringja í Microsoft? Þjónar engum tilgangi, þetta er OEM útgáfa, talaðu við IBM. Nú er tvennt sem hægt er að gera. Kaupa Windows aftur þrátt fyrir að hafa borgað fyrir það þegar tölvan var keypt, eða fara á netið og finna ólöglega útgáfu.

Ég var Windows notandi í rúm 10 ár og er reyndar enn þar sem ég er ennþá að vinna við þetta IBM dæmi. Ég notaði þetta af því að allir aðrir gerðu það. Ekki að maður sé endilega að elta fjöldann, heldur eð þetta bara það sem maður gerir. Þú borðar, sefur, vinnur og notar Windows.

Ég skil ekki lengur hvað er svo spennandi við Windows að fólk leggi á sig allt það vesen sem fylgir því þegar Linux útgáfur eins og Ubuntu og fyrirtæki eins og Apple eru til. Það er sennilega ekki af því að þetta er þeirra val, heldur er búið að velja fyrir okkur.


Disaster Looms...

Góð grein um stórslysið. 

 


Föt í Gammeldag

Stuttmyndin. Undirbúningur er í gangi. Íslenskir bloggarar hafa talað og tungumálið er að komast á hreint. Ég er búinn að ákveða mig á hvaða tungumáli hún verður, en ég þarf bara að sannfæra sjálfan mig áður en ég geri það opinbert.

Hitt er aftur annað mál og alvarlegra. Mikið af myndinni gerist fyrr á öldum. Það þýðir því ekki að mæta í gallabuxum með tyggjó. Ég er ekki að segja að fólk þurfi að vera í peysufötum, en 1850 þarf að líta út eins og 1850. Það er hér sem ég hef rekist á hvað getur verið erfitt að undirbúa kvikmynd án þess að vera á staðnum sjálfur. Netið hefur breytt heiminum en það hefur ekki komið í staðinn fyrir mannleg samskipti.

Brýnasta verkefni á næstu vikum er að sjá til þess að fólk, staðir og hlutir líti út eins og þeir hefðu gert á þeim tíma sem myndin gerist. Ég vona að lausn verði fundin áður en ég kem til landsins, og ef ekki, þá vona ég að mér takist að negla það á þeim dögum sem ég hef áður en einhver öskrar ACTION!


Rigning er góð

Mikið öfunda ég íslendinga sem kvarta yfir rigningu og haustveðri. Hér í útlandinu er ekki kalt, 30 stig í svefnherberginu. Ég myndi sofa annars staðar en þetta er sennilega svalasti staðurinn í húsinu þrátt fyrir allt. Hitastigið úti fer kannski niður um 2-3 gráður þegar myrkur skellur á en það er svo lygnt að það skiptir engu þó maður opni alla glugga.

Það er hægt að klæða af sér kulda og regn, en hvað gerir maður í svona hita þegar kalt bað er eini staðurinn sem líft er á? Ekki get ég sofið þar í alla nótt?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband