Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Hrikaleg ógn við persónufrelsið

Fréttin segir sína sögu. Verði þessi lög að veruleika, munu öll samskipti á netinu verða hleruð og ritskoðuð. Sért þú með "óæskilegar" skoðanir, verðurðu settu(ur) undir smásjá. Yfirvöld munu engar heimildir þurfa, stórfyrirtæki í skemmtanabransanum geta rukkað þig fyrir að nota hluta úr dægurlagatextum. Vefsíður munu ekki geta fjallað um efni sem verndað er að höfundarétti. Wikipedia, youTube og Facebook gætu horfið, því enginn grundvöllur verður fyrir starfsemi þeirra.

Það sem mestu máli skiptir, er að netið verður eins og gamli sveitasíminn. Yfirvöld munu alltaf vita hvað þú ert að segja og gera.

Hér er myndband sem útskyrir í einföldu máli um hvað þetta snýr.

 

Og hér er hægt að setja sig á undirskriftalista gegn þessu skrímsli: http://www.avaaz.org/en/eu_save_the_internet/?tta 

Ég vona svo sannarlega að íslenskir þingmenn hafi rænu á að samþykkja þessi lög ekki. 


mbl.is ACTA verra en SOPA og PIPA
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alræðisríkið Ísland?

Ögmundur er að missa sig í ruglinu. Eftirfarandi frétt birtist á Pressunni, Er CERT-ÍS nýr stóri bróðir? Fær heimildir til að skoða netsamskipti Íslendinga án dómsúrskurðar.

Í frumvarpinu er CERT-ÍS fengin heimild til að skoða samskipti á netinu án dómsúrskurðar. Hvað er næst? Húsleitir án dómsúrskurðar ef einhver hefur það á tilfinngunni að maður sé ekki að hlýða lögum? Ég sé engan mun á því að yfirvöld gramsi í tölvupóstinum og venjulega póstinum, án þess að fá til þess heimild.

Þór Saari sagði eftirfarandi í athugasemd á fésbókarsíðu Evu Hauksdóttur. "Það var reynt að keyra frumvarpið gegnum þingið með hraði og án skoðunar fyriri jól en var stoppað af nefndinni (umhverfis- og samgöngunenfd) einmitt vegna þessara heimilda." Innanríkisráðherrann virðist ekkert vilja láta hið svokallaða lýðræði flækjast fyrir sér.

Þetta er skref í alræðisátt og verður að stoppa. Big brother is watching you.

Spurning af hverju ekki einu orði er eytt í þetta á MBL... 

Af einhverjum ástæðum get ég ekki sett in hlekk, en hér er slóðin: http://www.pressan.is/frettir/lesafrett/er-cert-is-nyr-stori-brodir-faer-heimildir-til-ad-skoda-netsamskipti-islendinga-an-domsurskurdar 


Steve Jobs - snillingur

Fyrsta Apple tölvan sem ég komst í kynni við var upphaflegi Makkinn hjá vinkonu mömmu. Fórum þangað í heimsókn og þarna stóð hann. Lítill skjárinn í svart-hvítu. Ég fékk að leika mér með tölvuna og reynslan skildi eitthvað eftir sig.

Systir mín var seinna með Makka á heimilinu. Frábær tölva. Ég átti auðvitað PC ens og allir, en Makkinn hafði eitthvað sem ég gat ekki útskýrt.

Það var svo 2004 að ég fór að læra kvikmyndagerð. Þurfti Makka til að geta notað Final Cut Pro. Keypti notaðan PowerMac. Ég myndi auðvitað nota ThinkPad tölvuna í allt annað, enda ein af betri gerðunum með skjá í hárri upplausn og fleira gott. Örfáum vikum seinna var eg hættur að nota IBM tölvuna og var farinn að nota Makkann í allt. Ekki bara klippingar.

Ég þurfti ferðatölvu og keypti mér tólf tommu PowerBook. Besta tölva sem ég hafði átt. Hún var notuð einhverja klukkutíma á dag í sex ár og aldrei hikstaði hún. Hún var seld siðasta sumar þegar ég keypti MacBook Pro. Ég sakna gömlu tölvunnar og sé eftir að hafa selt hana. Ekki að hún nytist mikið í dag. Hún myndi ekki ráða við forritin sem ég er að nota í dag, en hún var orðin vinur. Sex ár er langur tími og hún klikkaði aldrei.

Það er erfitt að útskýra hvað gerir Makkann svona sérstakan. Betra viðmót? Fallegri hönnun? Það að hlutirnir virka bara? Ég náði mér í Final Cut Pro X um daginn. Var forvitinn. Allir virðast hata þetta forrit. Allt of mikil breyting frá síðustu útgáfu. Allt of einfalt. Vantar í það. Er leikfang, ekki "pro". Ég varð að prófa. Ég horfði á skjáinn og skildi ekkert. Hafði gert stuttmyndir, myndbönd og klippt heilu hljómleikamyndirnar á Final Cut Pro, en ég sat bara og horfði á skjáinn. Beit þó á jaxlinn, skrifaði örstutt handrit, hringdi í leikkonu og við tókum upp stuttmyndina White Roses. Tók mig hálfan dag að læra grunninn í nýja klippiforritinu og klára myndina. Gerði svo tónlistarmyndband um helgina. Ég skyldi nota Final Cut Pro X, ekki eldri útgáfuna. Það virkaði vel og eftir þessi tvö verkefni hef ég engan áhuga á að fara til baka. Það nýja er leiðin fram á við.

Og svona var Steve Jobs. Aldrei hræddur við að taka skref fram á við. Fólk horfðu stundum í forundran, hvað er hann að gera? Þetta verður flopp. Og vissulega klikkaði hann af og til. En fyrirtækið sem hann byggði upp, tölvurnar, stýrikerfið. Steve breytti heiminum með því að fara slóðir sem engum datt í hug að fara, taka áhættur sem hefðu getað sett hann og Apple á hausinn. Hann hafði sýn, trúði á hana og kom henni í framkvæmd.

Steve Jobs verður saknað. Hvernig mun Apple breytast? Hvaða áhrif mun fráfall hana hafa á okkur Apple notendur? Sjáum til.

Læt myndbandið fylgja með.

 

Afsaka innsláttarvillur og annað. Skrifaði þetta hratt og fór ekki yfir, því ég er að verða of seinn í vinnu!!! 


mbl.is Steve Jobs látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HA HA !

Ég á Epli og enga vírusa! Dánlódaði einum fyrir 2-3 árum. Tölvan setti hann á desktoppið og spurði hvað hún ætti að gera við þetta. Hún skildi vírusinn ekki.

Gamla Páerbúkkin sem ég skrifa þetta á er yndisleg. Fjölskyldumeðlimur. Manni þykir bara vænt um þessa elsku. Vorum svo að fá nýja 15" MacBook Pro frá vinnunni hennar í gær. Hún er núna dáin því ég slefaði víst yfir hana. Nei, bara djók. Hún þolir það alveg.


mbl.is Ókeypis öryggishugbúnaður frá Microsoft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bluetooth?

Hvernig laðar maður konur að sér með Bluetooth tækni? Ég veit að einhverjar eru veikar fyrir gulli, en er ekki viss um að gulltennur virki vel. En Bluetooth?

Það vill svo til að það er Bluetooth á símanum mínum, svo ábendingar eru velkomnar. 


mbl.is Arabískur montrass í vanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparkað í dauðan hest

Þetta er skemmtilegt mál. Byrjaði sem sanngirnisdæmi ESB, þar sem Microsoft vildi ólmt drepa Netscape. Það virkaði fínt. Netscape var horfið of Internet Explorer átti netið. Svo kom Mozilla og ekkert gerðist. Svo komu sjúkdómar og göt í IE. Svo kom Firefox og fólk fór að hugsa dæmið og ná í vafrann.

Forsendur þessa gamla máls eru löngu horfnar. Netscape er dautt og vafralausar tölvur eru eins og bensínlausir bílar. Vafrar eru nauðsynlegir. Sé IE ekki látinn fylgja með Windows, verður hægt (og nauðsynlegt) að ná í hann gegn um Windows Update. IE verður því alltaf fyrsti vafri Windows notandans. Ekkert breytist, nema það að notandinn þarf að taka auka skref til að tölvan verði gagnleg. Notendur sem hafa lítið vit á tölvum geta lent í vandræðum þar sem þeir skilja ekki hvernig maður kemst á netið.

Ég nota Apple. Safari fylgir með stýrikerfinu. Það þykir ekkert stórmál. Hver er munurinn á Apple og MS? Fyrir utan gæðin...

Safari

 


mbl.is Windows 7 selt án IE í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steve Jobs lætur af störfum vegna veikinda

Steve Jobs, stofnandi og forstjóri Apple hefur tekið sér sex mánaða frí frá störfum vegna veikinda. Hann fékk krabbamein í brysi fyrir fimm árum en jafnaði sig af því. Á síðasta ári mátti sjá að hann hafði horast mikið og þegar ákvörðun var tekin að hann kæmi ekki fram á MacWorld Keynote, nú í janúar, urðu Apple notendur og fjárfestar órólegir. Hann hefur nú tekið sér frí, en margir efast um að hann komi aftur.

Í ræðunni hér að neðan tekur Steve Jobs fram að hann kláraði aldrei framhaldsnámið. Hann segir reyndar þrjár sögur sem eiga erindi til allra. Ég mæli með að sem flestir gefi sér 14 mínútur til að hlusta á hann.

 


Welcome to Your World...

Tuttugasta öldin var öld tækninýjunga. Fólk fór að spá í það hvernig framtíðin yrði. Oftar en ekki var útlitið dökkt, fasismi og gerviheimur sem var hannaður til að halda fólki því sem næst heiladauðu. Við erum komin ansi nálægt þessari framtíð. Viðskipti og stjórnmál eru samtvinnuð svo að aðeins þeir ríku komast að og fá einhverju ráðið. Fólkinu er haldið rólegu, kannski dáleiddu, með sjónvarpi og endalausu áreyti. Heimurinn er ekki eins og okkur er talin trú um.

future

Erum við að nálgast næsta skref? Er Blade Runner, Matrix eða eitthvað álíka framtíðin? Þannig virkaði þessi auglýsing á mig. Viltu hitta Gandhi? Saknarðu afa? Viltu sofa hjá Marilyn?Fara á sýrutripp með Lennon í Sgt. Peppers búning? Ekkert mál. Við erum með lausnina. Sýndarveruleikinn er málið.

Það verður auðvelt að stjórna heiminum þegar við erum öll komin í stólinn, leikandi okkur í eigin heimi. Hvaða máli skiptir það sem er að gerast úti?

Ég vil óska Yoko Ono til hamingju með afar ósmekklega notkun á eiginmanninum sáluga.


mbl.is Lennon auglýsir fartölvur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég verslaði á Íslandi í dag

Það er ljótt ef millifærslur eru ekki að virka milli landa. Hver stoppar þær og hvers vegna? Nú er ég erlendis og veit ekkert um ástandið nema að sem ég les á netinu. Er farið að bera á vöruskorti heima?

Annars var ég að versla í dag. Ég fór inn á síðu Isnic og tók NyjaIsland.is á leigu. Þetta kostaði slatta, en með ykkar hjálp verður þetta þess virði. Þess má geta að það virtist ekki vera vandamál að borga með korti.

En um lénið. Ég minntist á það um daginn að mig langaði að setja upp síðu þar sem fólk gæti komið saman og rætt málin. Komið með hugmyndir sem gætu hjálpað okkur að komast út úr þessu ástandi. Síðan er tilbúin. Hún er einföld en spjallborðið verðuð aðal málið. Það eina sem er ekki að virka er nafnaþjónadæmið. Hafi einhver vit á þessu, má hinn sami hjálpa. Ég setti upp DNS þjón hjá xName.org því hitt .is lénið mitt er þar. Ég er að nota nákvæmlega sömu stillingar, en samt segir Isnic síðan þetta:

Niðurstaða prófa á "NS1.XNAME.ORG": Ekki tókst að fletta upp nafnaþjónum fyrir lénið NYJAISLAND.IS
Niðurstaða prófa á "NS0.XNAME.ORG": Ekki tókst að fletta upp nafnaþjónum fyrir lénið NYJAISLAND.IS 

 Ég er ekki að fatta. Nenni einhver sem vit hefur á þessu að vera í emil sambandi á morgun, mun ég verða ofurhappí og síðan vonandi verða nothæf.


mbl.is Greiðslur stöðvaðar á leið til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggið endurrisið...

Mín síða var að detta inn. Ég er að vísu með appelsínuþema, en samkvæmt fréttinni ætti það að lagast fljótlega. Svona hlutir geta gerst, en ef vel er að málum staðið ættu engin gögn að glatast. Maður vonar það besta.

Nú er bara að bíða eftir að allt komist í lag, svo að ég geti hent inn viðtalinu við Megas sem beðið var um, um helgina. Það þýðir ekkert að hafa það myndalaust, svo ég bíð þangað til bloggið er komið í lag. 


mbl.is Bloggið opnað að hluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband