Fullkomið jafnrétti trúarbragða?

Það hefur verið töluverð umræða á blogginu síðan íslenskum múslimum var neitað um lóð undir mosku. Það mátti búast við heitum umræðum og þær létu ekki á sér standa. Það er alltaf svona þegar trú á í hlut.

Það er endalaust talað um virðingu fyrir hinum og þessum trúarhópum. Ef einhver segir að hann trúi á einhverja veru verð ég sjálfkrafa að bera virðingu fyrir því. Það er svo sem allt í lagi, mér er sama á hvað fólk trúir og sé enga ástæðu til að sýna einhverjum vanvirðingu af því hann trúir á eitthvað sem ég er kannski ósammála. Það er eins og að líta niður á Volvo eigendur af því mér finnst Volvo bílar ljótir. Maðurinn getur verið hin besta sál, vel gefinn, fyndinn og skemmtilegur. Það að hann keyri um á Volvo gerir það ekki að verkum að mér finnist hann vitlaus, heimskur, asnalegur eða að hann tilheyri ekki mér og mínum. Ég myndi ekki kaupa bílinn af honum, en þar fyrir utan get ég umgengist hann án vandræða.

Þó að mér finnist allt í lagi að þessi maður keyri um á Volvo, er ekki þar með sagt að ríki og sveitarfélög eigi að styrkja hann og hans líka í Volvodellunni sinni með skattpeningunum mínum. Af hverju á að innræta barninu mínu í skóla að Volvo séu fallegir bílar og að öryggið sem því fylgir að keyra um á Volvo réttlæti hærra verð? Svo kemur barnið heim og kvartar yfir því að ég eigi ekki Volvo. Ég þarf að reyna að útskýra fyrir barninu að Volvo sé ekki endilega besti og fallegasti bíllinn í heimi. Á meðan börnum er kennt að Volvo sé fallegur og öruggur bíll fær Félag Volvoeigenda úthlutaða lóð svo að þeir geti sett upp félagsheimili með litlu Volvo safni. Það er líka bara sanngjarnt, því Toyotaklúbburinn fékk líka lóð. Svo er Audiklúbburinn að sækja um.

Það er sennilega auðséð að Volvoinn í þessum pistli er Guð og þá einhver ein útfærsla á honum. Skiptir ekki máli hvort hann heiti Guð, Allah, Jahwed, Óðinn eða hvað. Það eru til ótal útgáfur af Guði. Það er hið besta mál að fólk fái að iðka sína trú í friði fyrir fordómum. Það er líka mikilvægt að það sé ekki gert upp á milli trúarbragða. Síðast en ekki síst er mikilvægt að trúleysingjar njóti sama jafnréttis.

Eftir því sem ég hugsa meira um þetta mál styrkist ég í þeirri trú að fullkomið trúfrelsi geti aðeins orðið að veruleika ef ríki og sveitarfélög hafa ekkert með trúfélög að gera. Það yrði engin þjóðkirkja, a.m.k. ekki þekki kirkja sem fólk gengur sjálfkrafa í. Þjóðkirkjan yrði sjálfstætt félag sem þyrfti að fleyta sér áfram á framlögum félaga. Sama myndi gilda um múslima, ásatrúarmenn, búddista og hverja þá sem finna þörf fyrir eigið trúfélag. Ef öll trúfélög yrðu sjálfstæð, fengju engar lóðir, enga styrki eða sérstaka meðferð frá hinu opinbera, kæmist á fullkomið trúfrelsi. Þá þyrfti enginn að kvarta yfir að sér væri mismunað því það fengi enginn neitt.

Látum Volvoeigendur byggja sitt eigið félagsheimili sjálfir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband