Færsluflokkur: Bloggar
6.1.2009 | 13:47
Sendu mér eintak og ég...
Hef ekki séð austurrísku frímerkin, en þetta er fallegt. Ég var einmitt að tala við einhvern um daginn um frímerki. Hollensk frímerki eru ofsalega óspennandi, ljót eiginlega. Forljót reyndar, enda frímerkjasafnarar af skornum skammti hér. Sjálfsagt jafn margir og aðdáendur Íslands eftir hrun.
En hvað um það. Ef þú, lesandi góður, sendir mér póstkort með fallegri sögu og þessu frímerki, skal ég senda þér eintak af stuttmyndinni Svartur Sandur á DVD. Þetta er ekki keppni. Sendirðu kortið, færðu myndina.
Heimilisfangið er:
V.G. Ásgeirsson
Wilhelminastraat 7
1165 HA Halfweg
Holland
Friðarsúlan hlaut bronsið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.1.2009 | 14:22
Kowalski einkennið
Það er ekki á hverjum degi sem maður fær bréf frá heimsþekktum rithöfundi, svo ég var hissa þegar ég tékkaði á emilnum í nótt.
Við buðum vinum í heimsókn og þar sem þetta fólk á flest börn, var ballið búið um tvö. Það er svo leiðinlegt að vakna með allt í rúst, svo ég fór í að taka til. Um þrjú var þetta orðið gott og ég ákvað að athuga hvort ég hefði fengið einhverjar skemmtilegar áramótakveðjur um kvöldið. Jú, þarna kom emill frá William Kowalski, höfundi Eddie's Bastard og fleiri frábærra bóka. Hann sagðist hafa fylgst með fréttum frá Íslandi undanfarna mánuði og var að enda við að horfa á frétt í sjónvarpi þar sem sýnt var frá mótmælum í Reykjavík. Hann veit að ég bý í Hollandi, en vildi vita hvort fjölskyldan væri nokkuð í vandræðum. Hann vildi heyra það frá íslendingi hvernig málin væru. Ég sendi honum langt svar þar sem ég útlistaði ástandið, ástæðurnar fyrir mótmælunum og reiðina í samfélaginu.
Hann vildi líka vita hvort hrunið myndi hafa áhrif á fjármögnun kvikmyndarinnar, Undir Svörtum Sandi. Þar gat ég lítil svör gefið, þar sem framleiðslan, kostnaður og allt henni viðkomandi er á frumstigi.
Það er fátt skemmtilegra en að hitta listamenn sem maður dáir af verkum sínum og komast svo að því að þeir eru yndislegt fólk. Það er svo auðvelt að ofmetnast og verða hrokanum að bráð. Ég hafði lesið allar bækurnar hans og fannst þær með því besta sem ég hef rekist á. Eftir að hafa kynnst honum sjálfum, sé ég hvaðan snilligáfan og kærleikurinn kemur. Sumt fólk hefur einhverja gáfu, eitthvað meira en við hin.
Einhver spurði mig í gærkvöldi hvort ég ætlaði að strengja einhver áramótaheit. Ég sagði svo ekki vera. Nennti ekki að standa í svoleiðis. En kannski breytti þessi tölvupóstur því. Kannski er það lærdómur dagsins. Sama hversu fræg og dáð eða gleymd og snjáð við erum, ef við sýnum öðrum áhuga og kærleik, skiptum við máli. Jákvæðni okkar hefur áhrif á fólk, þótt við vitum það ekki alltaf sjálf. Það sem við segjum við annað fólk getur haft áhrif. Við vitum aldrei hvaða orðum fólk gleymir og hverjum fólk man allt sitt líf. Ef við brosum til kassadömu sem er að berjast við baslið, fer hún kannski að brosa líka og erfiðleikarnir virðast yfirstíganlegri. Við höfum unnið góðverk án þess að hafa fyrir því, án þess að reyna á okkur. Við getum líka eyðilagt dag ókunnugra með því að vera með frekju, neikvæðni og yfirgang. Hvaða rétt höfum við til að ráðast inn í líf annarra á þann hátt. Oftast ráðumst við á fólk sem við þekkjum ekki því við þurfum útrás fyrir gremju sem einhver annar orsakaði. Þá er einfalt að ráðast á verslanafólk, ketti eða börnin okkar sem ekkert hafa gert af sér.
Kannski er það veganestið inn í nýtt ár. Verum jákvæð. Og burt með spillingarliðið, auðvitað!
Ætla svo að klára þetta með því að segja GLEÐILEGT 2009 áður en ég missi mig út í einhverja ofurvæmni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.12.2008 | 21:23
2008
Þegar litið verður til baka á árið 2008... æi nei, á ekki bara að sleppa því? Þetta var hlaupár. Við lok 2007 tók við 2009. 2008 var aldrei til. Þetta gerðist aldrei.
Ísland vann sigur með því að tryggja sér gull í Pekingandabæ. Það vann svo hrikalegan ósigur þegar það ákvað að herma eftir skíðalýsingu Ómars frá því um árið. Hann rennir sér með þvílíkum þokka, svo hratt og örugglega. Það er unun að horfa á. Þarna fór hann á hausinn!
Vinnulega séð var árið mitt handónýtt. Næstum því. Vinn enn á flugvellinum. Það er gaman en launin eru svo slöpp að ég þarf að setja launaseðilinn í frysti til að geta lesið hann. Svo þarf ég að taka erlend lán til að geta keypt mjólk handa barninu. Ég vann í smá kvikmyndavinnu í sumar við að kvikmynda hesta hlaupandi í hringi og hoppand yfir hindranir. Ég er ennþá að reyna að fá borgað fyrir það. Stuttmyndinni var boðið að taka þátt í hátíð heima en var ekki sýnd, eins og ég komst að á síðasta degi eftir að hafa gert mér ferð heim til að vera viðstaddur. Hitti þó Papriku Steen og ákvað að ég vil vinna með henni í framtíðinni. Hitti líka Dag Kára og hann þekkti mig af einhverju námskeiði sem við vorum á saman fyrir um 20 árum. Krípí hvað sumt fólk er mannglöggt. Tók upp frábæra hljómleika með Mugison í Hollandi, bara svona "youTube rugl" eins og hann kallaði það. Tók upp tvenna Uriah Heep hljómleika og það gekk vel. Verður flott afurð ef DVDinn verður gefinn út. Svo kláraði ég fyrsta kvikmyndahandritið. Nú er bara að finna fúsan framleiðanda. Svo er nýtt handrit að rembast við að ná athygli minni. Ég kalla það The Filmmaker, svona til að byrja með. Það er sem sagt ofboðslega mikið að gera en ekkert að gerast.
Mitt persónulega líf var óspennandi, nema í október þegar afi dó, en það var spenna sem ég, hann og allir sem þekktu hann hefðu getað verið án. Fegurri manneskju var ekki hægt að finna og er missirinn því erfiðari að eiga við en ella.
2008 var vonlaust. Gleymum því bara að það hafi bara yfirleitt verið til og vonum að 2009 verð betra. Vonum að spillingarliðinu verði hent út og þessir þrír íslendingar sem eftir verða lifi í sátt við hvorn annan og landið. Ég vona svo að Híp diskurinn verði borinn fyrir augu almennings sem lepur hann upp. Svo vona ég að Undir Svörtum Sandi verði tekin upp og verði komin vel inn í eftirvinnslu í árslok. Vona að við þurfum ekki að vera í þessu bévítans basli áfram. Ég tók ekki þátt í góðærinu og hef því ekki áhuga á hallærinu heldur.
Ég óska þér, lesandi góður, gæfuríks árs. Gerum eitthvað gott úr þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.12.2008 | 10:35
Innskráning á blogg
Eftirfarandi er póstur sem ég sendi á aðstandendur blog.is Kæri viðtakandi, Ég hef tekið eftir breytingu á innskráningu á bloggi. Stundum opna ég nokkrar bloggsíður í flipum (tabs), les og geri athugasemdir. Hafi ég verið innskráður á þeirri fyrstu, helst það á seinni síðum. Nú þarf ég að skrá mig inn á hverja síðu sérstaklega. Einnig er það breytt að endurhlaði ég síðuna nokkrum mínútum seinna, þarf ég að skrá mig inn aftur til að gera athugasemd. Eru þetta breytingar til framtíðar? Þær gera allt ferlið þyngra og skemma mikið fyrir. Ég er sannfærður um að þetta muni hafa neikvæð áhrif á bloggið og athugasemdum, og þar með umræðum, muni fækka töluvert. Með von um skjót svör, Takk fyrir skemmtilegt umhverfi, Villi Ásgeirsson vga.blog.is PS. Til að skrifa þessa færslu, skráði ég mig inn hér að ofan. Ég opnaði svo stjórnborðið í nýjum flipa. Þegar þangað var komið, þurfti ég að skrá mig inn aftur til að geta skrifa nýja færslu. PPS. Eftir að hafa skrifað þessa færslu, þurfti ég að skrá mig inn aftur til að vista. PPPS. Þegar færslan var vistuð, potaði ég í Refresh á bloggsíðunni til að sjá hvernig þetta liti út. Þá var ég þegar útskráður. Og nú fæ ég þetta: Vefköku notanda vantar. Vinsamlega innskráðu þig aftur. Merkilegt, þar sem ég er innskráður, samkvæmt efsta hluta stjórnborðssíðunnar. Ég þurfti því að fara alveg út og inn aftur. Og skrá mig inn aftur. Veit ekki hversu oft.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.12.2008 | 17:53
Gleðileg Jól! - Gjöf til bloggvina
Kæru íslendingar.
Ég vil nota þetta tækifæri til að óska landsmönnum öllum Gleðilegra Jóla. Þetta er hátíð ljóss og friðar, vináttu og gjafmildi. Verið góð við hvert annað og knúsið þá sem ykkur þykir vænt um.
Þar sem ég er erlendis get ég engan hitt eða knúsað. Þó vil ég bjóða bloggvinum mínum jólagjöf. Sendið mér skilaboð og ég sendi ykkur upplýsingar um hvernig þið getið náð í stuttmyndina Svartan Sand. Sum ykkar eiga hana á DVD, en fyrir ykkur hin, látið bara vita og ég læt ykkur vita hvar þið getið dánlódað henni. Þessi er að vísu í hærri upplausn en sjónvarp, svo kannski vilja handhafar DVDsins líka ná í.
Þetta er Quicktime skrá, og þarf þann spilara, eða iTunes eða iPod eða iPhone. Skráin stendur til boða fram á annan dag jóla. Munið að þetta er stuttmyndin sem kvikmyndin Undir Svörtum Sandi verður byggð á, en hún fer í framleiðslu á árinu ef orkan er með ons.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
14.12.2008 | 21:39
Betri er kartafla en retta
Það er nú gott að McCain bjóði fram aðstoð sína. Kannski hann geti hjálpað Obama að læra biblíuna utan að eins og Palin. Hann getur þá kvótað biblíuvers meðan hann drepur, eins og gaukurinn í Tarantúllu myndinni. Kannski hann geti hjálpað Obama að hætta að reykja. Það virðist nefninlega vera hans stærsti galli.
Sem gerir hann að fjandi góðum forseta. Ef blysin eru hans stærsta vandamál er hann svo nálægt fullkomnun að framtíðin getur jafnvel talist björt. Lítil hætta á því, en það má láta sig dreyma.
Annars var ég að hugsa, af gefnu tilefni. Allt þetta anti-reykvæl og fólk sem er bara happí með Geira og Árna af því áfengi hækkar. Það er eins og fólk trúi því að áfengi og tóbak drepi alla sem deyja. Það er bara ekki svo. Held ég. Maður hefur þá allavega gaman af meðan þetta endist.
Kannski er ég ekki marktækur. Ég er að falla nett fyrir Film Noir, myndunum þar sem allir reykja og drekka eins og enginn sé morgundagurinn. Var alltaf hrifinn af dæminu, en nú er ég alveg að missa mig. Sá Casablanca um daginn eins og frægt er varla orðið, Kiss Me Deadly, The Big Sleep. Ég verð bara að viðurkenna að nútímaskvísurnar, edrú og reyklausar eru ansi litlausar miðað við Ingrid og hennar stöllur. Og voru þær þó í svart hvítu.
En hvað um það. Skál. Á einhver eld?
McCain heitir Obama aðstoð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.12.2008 | 04:04
Hvað gerist nú?
Á undanförnum árum hefur íslenskum kvikmyndum fjölgað, en það sem meira máli skiptir, gæðunum hefur farið mikið fram. Íslenskar kvikmyndir eru ekki lengur einfaldar, ofleiknar blótsyrðakrukkur. Það er gaman að sjá Mýrina á þessum lista og Baltasar verða smám saman nafn úti í heimi. Köld Slóð var ekki síðri, nema kannski kameruvinnan í upphafi myndarinnar. Svo var Astrópía að fá viðurkenningu um daginn á fantasíuhátíð í Bandaríkjunum. En hvað gerist nú, þegar allir eru að fara á hausinn. Hvaða áhrif mun hrunið hafa á kvikmyndagerð á Íslandi?
Ég var að lesa reglur Kvikmyndamiðstöðvarinnar og komst að því að sú stofnun leggur til allt að 40% af heildarkostnaði myndarinnar en að sá kostnaður megi ekki vera innan við 50 milljónir. Þetta er sjálfsagt gert til að sía út þá sem er ekki alvara, en ég var samt ekki viss um að þetta væri rétta leiðin. Ísland er lítill markaður og mér finnst það skipta máli að myndir reyni að standa undir sér.
Einhvern tíma skrifaði ég um sjö milljóna kvikmyndir. Sú tala gæti verið breytt í dag vegna gengisfalls krónunnar, en hugmyndin ætti að vera skýr. Ég vildi stofna sjóð eða fyrirtæki sem framleiddi, eða aðstoðaði við framleiðslu kvikmynda í fullri lengd sem kostuðu ekki meira en sjö milljónir, fullkláraðar. 10 myndir yrðu framleiddar árlega. Þetta hljómar kannski eins og verksmiðja, en það er líka hægt að segja um Hollywood og ekki er allt slæmt sem þaðan kemur.
Hvað sem við erum nú, verðum við að sjá til þess að menning okkar íslendinga verði ekki fórnarlamb kreppunnar, því án menningar erum við ekkert.
Setti inn tvo hlekki á eldri færslur eftir að færslan var skrifuð:
26.08.07, Kvikmyndalandið Ísland
05.11.08, Hrunið - Kvikmynd um fall Íslands
Mýrin ein af bestu myndum ársins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.12.2008 | 22:07
Undir Svörtum Sandi - handritið tilbúið?
Fyrir þau sem eru að fylgjast með þróun kvikmyndarinnar, er ég með fréttir. Ég held að handritið sé tilbúið. Ég þarf að prenta það út og lesa í heild sinni í einni törn til að fá tilfinningu fyrir flæði sögunnar, en ég held að þetta sé bara komið. Handritið er 120 blaðsíður. Hver blaðsíða er um það bil mínúta í bíó, svo við erum að tala um tæplega tveggja tíma mynd. Veit ekki hvort það er of langt. Íslenskar myndir hafa yfirleitt ekki farið langt yfir 90 mínúturnar og þetta er mitt fyrsta verk í fullri lengd.
Nú er bara að sjá hvernig þessu verður komið í verk. Hvenær fara tökur fram, hver framleiðir, hverjir munu vinna að henni, hvaða leikarar passa í hlutverkin, hvernig verður þetta fjármagnað? Handritið er kannski tilbúið, en við erum rétt að byrja.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
1.12.2008 | 09:34
Fullveldi áfram!
Claus hefur lög að mæla. Við höfum verið ansi upptekin við að stara á vandann, enda skyggir hann á allt annað. Það er erfitt að sjá lausnir þegar maður er í miðri hringiðunni. Þegar maður er villtur er gott að skoða kort svo maður fái yfirsýn yfir landið. Auðvitað kemur bankahrunið hvorki með korti né leiðbeiningum, en þá er gott að hafa fólk sem sér vandann utan frá og getur bent á hvar við getum byrjað að byggja upp.
Fullveldi Íslands er 90 ára í dag. Til hamingju! Þegar litið er til baka má segja að þessi 90 ár hafi verið bölvað basl. Frostaveturinn, spænska veikin, kreppan. Svo kom stríðið og við komumst inn í nútímann, en þó máttu margir sætta sig við að búa í hriplekum og óþéttum bröggum fram undir 1970. Við vöndumst óðaverðbólgu, hruni fiskistofna, höftum og einangrun. Það er í raun ekki nema á síðasta áratug eða svo sem við höfum haft það þokkalegt.
En nú er ég að lýsa fréttum á fullveldistímanum. Fréttir hljóma alltaf verr en raunveruleikinn, enda eru hamfarir, morð og spilling meira spennandi en daglegt líf. Það er varla til sú kvikmynd þar sem einhver er ekki drepinn, því það er það sem við viljum sjá. Ekki upplifa beint, heldur í bíó og sjónvarpi.
Flestir sem ég þekki hafa haft það ágætt gegn um tíðina, þrátt fyrir óðaverðbólgu og innflutningshöft. Reyndar er ég viss um að hamingja þjóðarinnar hafi ekki aukist þegar peningarnir fóru að streyma inn í landið á síðustu árum. Með velsæld missum við þörfina á að standa saman, við missum það sem tengir okkur saman sem eina þjóð.
Claus talar um að forsenda uppbyggingar sé að hafa sterkan leiðtoga sem við getum þjappað okkur á bak við. Þann leiðtoga munum við ekki fá í bráð, því stjórnin mun sitja sem fastast. Kannski er það ekki alslæmt, því kosningar of snemma myndu kalla á ringulreið. Flokkar yrðu kosnir, ekki vegna hæfni og getu, heldur vegna reiði á öðrum. Sagan hefur margsýnt að reið þjóð getur ekki kosið vel. Ég vil bjóða Claus velkominn til landsins, vonandi það að ríkisstjórnin bjóði honum heim. Fáum allt upp á borðið svo við getum valið rétt í vor eða sumar. Þangað til þjöppum við okkur saman sem þjóð. Við þurfum ekki leiðtoga. Við höfum okkur sjálf og landið okkar.
Til hamingju með 90 ára fullveldi. Sjáum til þess að við höldum því um ókomna tíð.
Íslendingar einblína á vandann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.11.2008 | 13:19
Bönnum Jólasveininn!
Jólaálfarnir eru auðvitað ekkert annar en púkar komnir beint frá helvíti. Þeir eyðileggja jólapælinguna sem kristnir tróðu ofan í opið ógeðið á forfeðrum okkar. Það sést langar leiðir að þessir smáputtar eru ekkert annað en verkfæri þess sem talar tungum tveim.
Það sem gerir málið enn alvarlegra fyrir okkur íslendinga er að við höfum sett gömlu jólasveinana sem voru ekkert annað en þjófar og morðingjasynir í dulbúning hins fallega og afalega santaklos. Við bjóðum þessi kvikyndi velkomin og leyfum þeim að spreða verðlausu sælgæti meðan kötturinn þeirra veiðir börnin okkar í matinn fyrir foreldrana.
En þetta er ekki búið. Þessi rauðklæddi santaklos er uppfynning KókaKóla Kompanísins í Ameríku. Hann er ekkert annað en sölumaður drykks sem gerir börnin okkar feit, ofvirk og tannlaus. Þar fyrir utan er fyrirtækið sem gerði hann frægan risastórt og svoleiðis fyrirtækjum getum við aldrei treyst. Þau eru auðvitað innan undir hjá nýjaheimsliðinu sem er að vinna fyrir þann klaufska úr víti.
En hvaðan kom hugmyndin að Klos? Frá Hollandi, held ég alveg örugglega. Fimmta desember er smábörnum talin trú um að Sinterklaas komi og gefi þeim sælgæti. Hann kemur með litlu skipi frá Spáni í lok nóvember og ríður sínum hvíta hesti um Holland, dreifandi nammi. Aðstoðarmenn hans eru kallaðir Zwarte Piet, Svarti Pétur. Þeir mega elta Klás fótgangandi. Hann kemur sem sagt hingað til að halda upp á afmælið sitt. Stundum lítur hann út eins og biskup eða páfi með her afríkuþræla, en hollendingarnir sverja að litur Pésanna hafi ekkert með þrælasöluna að gera.
En hvað um það, mikið væri gaman að prufa að vera jafn ginkeyptur og daninn í einn dag. Að vera fullorðinn maður og virkilega trúa að jólaálfar komi frá helvíti, að það sé yfirleitt til og fjandinn líka. Ég væri til í að sjá heiminn með hans augum í einn dag. Einn dag, ekki meir.
Vill banna jólasveina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)