Fullveldi áfram!

Claus hefur lög að mæla. Við höfum verið ansi upptekin við að stara á vandann, enda skyggir hann á allt annað. Það er erfitt að sjá lausnir þegar maður er í miðri hringiðunni. Þegar maður er villtur er gott að skoða kort svo maður fái yfirsýn yfir landið. Auðvitað kemur bankahrunið hvorki með korti né leiðbeiningum, en þá er gott að hafa fólk sem sér vandann utan frá og getur bent á hvar við getum byrjað að byggja upp.

Fullveldi Íslands er 90 ára í dag. Til hamingju! Þegar litið er til baka má segja að þessi 90 ár hafi verið bölvað basl. Frostaveturinn, spænska veikin, kreppan. Svo kom stríðið og við komumst inn í nútímann, en þó máttu margir sætta sig við að búa í hriplekum og óþéttum bröggum fram undir 1970. Við vöndumst óðaverðbólgu, hruni fiskistofna, höftum og einangrun. Það er í raun ekki nema á síðasta áratug eða svo sem við höfum haft það þokkalegt.

En nú er ég að lýsa fréttum á fullveldistímanum. Fréttir hljóma alltaf verr en raunveruleikinn, enda eru hamfarir, morð og spilling meira spennandi en daglegt líf. Það er varla til sú kvikmynd þar sem einhver er ekki drepinn, því það er það sem við viljum sjá. Ekki upplifa beint, heldur í bíó og sjónvarpi.

Flestir sem ég þekki hafa haft það ágætt gegn um tíðina, þrátt fyrir óðaverðbólgu og innflutningshöft. Reyndar er ég viss um að hamingja þjóðarinnar hafi ekki aukist þegar peningarnir fóru að streyma inn í landið á síðustu árum. Með velsæld missum við þörfina á að standa saman, við missum það sem tengir okkur saman sem eina þjóð.

Claus talar um að forsenda uppbyggingar sé að hafa sterkan leiðtoga sem við getum þjappað okkur á bak við. Þann leiðtoga munum við ekki fá í bráð, því stjórnin mun sitja sem fastast. Kannski er það ekki alslæmt, því kosningar of snemma myndu kalla á ringulreið. Flokkar yrðu kosnir, ekki vegna hæfni og getu, heldur vegna reiði á öðrum. Sagan hefur margsýnt að reið þjóð getur ekki kosið vel. Ég vil bjóða Claus velkominn til landsins, vonandi það að ríkisstjórnin bjóði honum heim. Fáum allt upp á borðið svo við getum valið rétt í vor eða sumar. Þangað til þjöppum við okkur saman sem þjóð. Við þurfum ekki leiðtoga. Við höfum okkur sjálf og landið okkar.

Til hamingju með 90 ára fullveldi. Sjáum til þess að við höldum því um ókomna tíð. 


mbl.is Íslendingar einblína á vandann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Til hamingju...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 1.12.2008 kl. 14:04

2 identicon

Sammála.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband