Kvikmyndalandið Ísland?

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í dag, Sunnudag 26 ágúst. Ég hef ákveðið að henda henni hér inn svo fólk geti rætt innihaldið. Það væri gaman að heyra hvað fólki finnst. Það fylgdi að vísu ekki slóð með greininni, en við sjáum til.

Íslenska kvikmyndavorið hófst árið 1980 með gerð myndarinnar Land og Synir. Upp að því hafði verið lítið um innlenda kvikmyndagerð. Átta myndir voru framleiddar á Íslandi frá 1949 til 1977. Fimmtán ár liðu á milli 79 af Stöðinni (1962) og Morðsögu (1977)[1]. Árin á eftir voru að meðaltali gerðar tvær til þrjár kvikmyndir á ári, þó að oft hafi þær ekki verið nema ein. Þó að eitthvað hafi framleiðslan aukist frá aldamótum koma enn í dag u.þ.b. þrjár til fjórar kvikmyndir út á ári.

Á vef Kvikmyndamiðstöðvarinnar má lesa að ekki færri en fjórar kvikmyndir verði framleiddar ár hvert. Þar stendur einnig. "Aðilar eru sammála um að miða við að meðalframleiðslukostnaður kvikmynda verði í lok samningstímans 210 milljónir króna."[2] Þar er átt við árið 2010. Aðilarnir sem átt er við eru menntamálaráðherra, fjármálaráðherra og samtök í íslenskri kvikmyndagerð. Ég er viss um að þessir aðilar vita hvað þeir eru að tala um og vil ég alls ekki draga það sem sagt er í efa. Spurningin er hins vegar, þarf þetta að kosta svona mikið og eru fjórar kvikmyndir á ári nóg?

210 milljónir er ekki mikið fyrir kvikmynd. Þetta er klink ef miðað er við Hollywood. Sé myndin tekin upp á hágæða (high-definition) video í staðinn fyrir filmu og þurfi hún ekki flóknar leikmyndir má sennilega taka upp kvikmynd í fullri lengd fyrir vel innan við 10 milljónir. Hvað þarf til?

Upptökuvél sem tekur upp HDV 1080i kostar um 500.000 krónur. Það er sama upplausn og var notuð við tökur nýju Star Wars myndanna. SinCity var einnig tekin upp með sömu tækni.[3]

Klipping færi fram í tölvu. Tölva með skjá í HD upplausn og forritin sem til þarf kostar um hálfa milljón. Þá er allt komið sem þarf til að taka upp og klippa bíómynd fyrir innan við milljón. Þetta er auðvitað hægt að nota við gerð margra kvikmynda. Þetta er startgjaldið.

Segjum að tökur stæðu yfir í fjórar til sex vikur. Tíu leikarar taka þátt, hver fær 150.000 fyrir ómakið. Þetta er jú "low-budget" mynd og sennilega ekki um fullan vinnutíma að ræða. Það er 1,5 milljónir. Leikstjóri, hljóð, kvikmyndataka, skrifta, bílstjórar, bílar, matur. Milljón? Gott handrit er undirstaða góðrar myndar, svo höfundur fær milljón. Klipping og önnur eftirvinnsla tekur mánuð, kannski tvo, ef vel er að staðið. Fimmhundruðþúsund. Setjum milljón í púkkið fyrir bensíni, spólum, bókhaldi og öðru tilfallandi.

Þessi mynd kæmi því til með að kosta fimm milljónir, gróft reiknað. Er þetta bjartsýni eða er þetta hægt? Væri ekki gaman ef til væri sjóður sem styddi eina mynd í mánuði? Það væru tólf nýjar íslenskar kvikmyndir á ári, fyrir utan stóru myndirnar. En hvaðan kæmu þessar 60 milljónir?

Hvað kostar að fara í bíó á Íslandi? Þúsundkall? Það þyrftu því aðeins 5000 manns að sjá hverja kvikmynd í bíó. 10.000 ef maður reiknar vask, kostnað kvikmyndahúss og allt það. Þetta er slatti af bíóferðum, en íslendingar eru duglegir við það. Svo er sjónvarp og DVD. Ef fyrirtæki styrktu gerð myndarinnar til að byrja með, er þá ekki um að gera að nota hana sem auglýsingu og hreinlega gefa hana á DVD? Það væri auðvitað auglýsing á diskinum þegar hann er settur í spilarann. Það væri auglýsing á hulstrinu. Kannski yrði diskurinn ekki gefinn einn og sér heldur með pylsupakka, gosdrykkjum eða hvað það er sem styrktaraðilinn er að selja. Gefur þetta ekki líka skattaafslátt?

Sé farið eftir þessu kerfi má gera ráð fyrir að hver mynd verði ekki lengi á markaði. Þar kemur einstaklingurinn inn. Ef hægt er að treysta því að ný mynd komi út mánaðarlega er hægt að selja áskrift. Fyrir 500 kr. á mánuði færðu alltaf nýjasta diskinn sendan heim og nafnið þitt á skjáinn í lok myndarinnar. Segjum að eitt prósent þjóðarinnar gerist áskrifendur, þá erum við að tala um 3000 manns, 1,5 milljónir á mánuði. Áskriftin gæti kostað meira, en við höfum áhuga á að sem flestir sjái myndirnar, ekki að þetta verði gróðafyrirtæki.

Hver á að setja svona sjóð á laggirnar? Mér finnst að kvikmyndagerðarfólkið sjálft eigi að eiga fordæmi um þetta. Þekktir og óþekktir listamanna myndu vinna við myndirnar. Þannig fengju þær athygli til að byrja með. Það yrði svo verk listafólksins að nógu góðar framleiða myndir til að halda áhuga fólks vakandi. Það er engin ástæða til annars en að gæðastaðallinn haldist. Á Íslandi koma árlega út vel yfir 1000 skáldsögur. Tólf handrit ættu ekki að vefjast fyrir þjóðinni.

Það verða alltaf til sögur sem þurfa meira. Það er ekki hægt að gera stórmyndir fyrir fimm milljónir. Það er hins vegar hægt að gera virkilega góðar myndir fyrir lítið. Þetta kæmi ekki í staðinn fyrir "alvöru" bíómyndir, teknar upp á filmu á stórum sviðsmyndum með toppfólki í hverri stöðu, frekar en að pylsa komi í staðinn fyrir steik. Þetta er eitthvað sem getur hjálpað hæfileikafólki við að komast af stað svo það geti gert stórmyndir í framtíðinni.

Vorið er búið. Það er komið sumar.


Heimildir:
1. http://is.wikipedia.org/wiki/Listi_yfir_%C3%ADslenskar_kvikmyndir
2. http://www.kvikmyndamidstod.is/log-og-reglugerd/
3. http://en.wikipedia.org/wiki/CineAlta


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Þetta var ansi áhugavert. Kunnátta mín er ekki stór á þessu svíði en þetta hljómar rétt hjá þér. Ég mæli með því að þú komir þessari hugmynd á framfæri...

Gunnar Helgi Eysteinsson, 27.8.2007 kl. 08:35

2 Smámynd: Jórunn Sigurbergsdóttir

Góð hugmynd. Og erum við ekki söguþjóð og því þá ekki að segja sögur í kvikmyndum. 

Jórunn Sigurbergsdóttir , 28.8.2007 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband