24.4.2008 | 11:02
Engar íslenskar kvikmyndir á netinu?
Fyrir 2-3 árum fékk ég stórsnjalla hugmynd, að selja íslenskar kvikmyndir á netinu. Ég setti mig í samband við kvikmyndafyrirtæki sem hafa framleitt vinsælustu íslensku kvikmyndirnar á undanförnum árum og áratugum. Yfirleitt fékk ég ekki svar, en ef þau komu voru þau ekki mjög jákvæð. Þessi á höfundarréttinn, við erum ekki tilbúin í svona.
Oft er kastað til hendinni þegar Íslenskar kvikmyndir eru settar á DVD diska. Myndin er annað hvort í "full screen" þótt hún hafi ekki verið sýnd þannig í bíó. Ef hún er wide screen er það oft plat, því hún er í raun full screen með svörtum röndum að ofan og neðan. Upplausnin er því töluvert lægri en ef fólk hefði verið að vanda sig. Svo er oft sama og ekkert aukaefni. Þetta eru því diskar svipaðir útsöludiskunum erlendis, sem eru að seljast á 3-5 evrur og 5-fyrir-10 evrur.
Hugmyndin var að taka hverja mynd fyrir sig, setja hana á stafrænt form ef ekki var til góð útgáfa af henni og setja eitthvað aukaefni á diskinn. Það hefði getað verið eitthvað einfalt, eins og viðtöl, trailerar og fleira. Myndin yrði svo textuð á helstu evrópumálin. Diskarnir yrðu svo seldir gegn um netið til íslendinga og útlendinga, hverra þeirra sem hefðu áhuga á íslenskri kvikmyndagerð. 4-6 titlar yrðu gefnir út ár hvert. Einfaldari hugmynd var bara að selja diskana og vera ekki með neitt vesen.
Kannski var þetta bjánaleg hugmynd, en ég er ekki svo viss. Það er allavega ótrúlega lítið úrval af íslenskum diskum í búðum og á netinu.
![]() |
Eldra fólk kaupir á netinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.4.2008 | 10:20
Ekki gagnrýna trúarbrögð!
Þetta er í annað skiptið á stuttum tíma sem að blogg er tekið fyrir og lokað. Í þetta sinn var enginn kærður, en slæmt er það samt. Ég las færslur og athugasemdir Skúla af og til. Ég var svo til alltaf ósammála honum, en þannig er lífið. Hann átti það til að vera öfgafullur, en hann er ekkert einn um það. Ég ætla ekki að nefna neina bloggara, en það eru harðir andstæðingar Íslam, Ísraels, Palestínumanna, trúarbragða, Samfylkingarinnar, stóriðju og náttúruverndar enn að. Það er líka hið besta mál, enda búum við við málfrelsi. Svo er okkur allavega sagt.
Bloggið býður upp á að gerðar séu athugasemdir við færslur. Segi Skúli eða aðrir eitthvað sem fer fyrir brjóstið á fólki eða er einfaldlega rangt, er um að gera að skrifa athugasemd. Að grenja og kvarta í mömmu var aldrei talið neinum til framdráttar.
Það má gagnrýna allt nema trú. Skúli gagnrýndi trú. Skamm á Skúla. Eða hvað?
![]() |
Óánægja með lokun umdeilds bloggs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vefurinn | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
19.4.2008 | 13:39
Kilian
Ég er hissa að það taki fólk ekki meira en 45 klst. að finna nöfn á barnið sitt. Við vorum lengur að því. Hér í Hollandi er það þannig að barnið þarf að vera komið með nafn strax við fæðingu. Mig minnir að ég hafi haft þrjá virka daga til að skrá hann hjá sýslumanni, og þá auðvitað undir fullu nafni.
Við sátum yfir barnanafnabókum síðustu þrjá mánuði meðgöngunnar. Nafnið mátti ekki vera sérhollenskt eða íslenskt. Það varð að virka alls staðar. Það var ekki svo auðvelt. Mörg hollensk nöfn er erfitt að bera fram og íslensk nöfn eru síst betri. Við fundum þó stráka- og stelpunöfn sem við vorum sátt við að lokum. Það var svo laugardaginn 26. janúar að ég fékk efasemdakast. Mamman var ekkert hress með mig. Þegar ég sagði að það væri bara seinna nafnið, andaði hún léttar. Ég fór á netið og leitaði eins og brjálaður maður. Ég fann nafnið, bar það undir hina óléttu og hún var himinlifandi. Mats Kilian fæddist svo 24 tímum síðar.
![]() |
Rétta nafnið skiptir máli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.4.2008 | 14:26
Rétta leiðin?
Það er kannski ekkert nema gott um það að segja að konurnar séu stikkfrí, enda eru þær fórnarlömb vændisins. En er þetta rétta leiðin? Væri ekki betra að gera dólgana refsiverða og sleppa kúnnanum og vændiskonunni?
Dólgar eru yfirleitt forkertir glæpamenn sem notfæra sér neyð kvenna. Þeir notfæra sér eiturlyfjaneytendur og innflytjendur, fólk sem á oft ekki margra kosta völ. Kúnninn er að ýta undir þessa misnotkun með því að greiða fyrir þjónustuna. Stærstur hluti greiðslunnar fer yfirleitt til dólgsins.
Vændiskonur eru misjafnar. Lang flestar hafa farið út í vændi vegna þess að þær höfðu ekki um annað að velja. Þær eru ólöglegir innflytjendur sem ekki geta farið út á almennan vinnumarkað, eða hafa hreinlega verið rænt og fluttar úr landi og eru ekkert annað en þrælar. Eiturlyfjaneytendur eru stór hluti. Kerfið hefur oft brugðist þeim. Svo eru til vændiskonur sem völdu þetta starf. Þær eru þó líklega lang fæstar.
Ef dólgarnir eru teknir úr umferð, verður sennilega allt ferlið heilbrigðara. Þar sem eru karlmenn sem vilja kynlíf og konur sem geta ekki unnið fyrir sér öðruvísi, mun vændi verða til staðar. Það er ekki hægt að útrýma því. Það er hins vegar hægt að taka milliliðinn út.
![]() |
Kaup á kynlífsþjónustu gerð refsiverð í Noregi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.4.2008 | 07:58
Hvers virði skyldi gamla gula vera?
Eins og flestir fór ég í gegn um frímerkjatímabil. Þetta byrjaði, minnir mig, þegar amma gaf okkur frímerkin sem voru á póstinum. Ég átti því margar kisur, hrafna og önnur dýr sem voru í umferð upp úr 1980. Fljótlega fór að bætast í safnið og innan nokkurra vikna var maður kominn með hátt í fullt albúm. Þar voru íslensku frímerkin í hásæti, en ekki var þó fussað við útlendum heldur. Ég man sérstaklega eftir að frímerki frá Óman voru stór og litskrúðug. Maður kynntist svolítið heiminum gegn um frímerkin.
Mikið var um heklumerki þar sem gosið 1947 var sýnt á dramatískan hátt. Surtsey var líka vinsæl. Annars er ég búinn að gleyma þessu flestu. Hef ekki séð safnið mitt í 20 ár, held ég. Einu frímerki man ég þó eftir. Ég keypti það af Magna á Laugaveginum á unglingsárunum. Það var gult og gefð út fyrir aldamótin 1900. Ártalið man ég ekki nákvæmlega. Ef ég man rétt var það skildingsfrímerki með haus eða merki Friðriks eða Kristjáns danakonungs. Ef ég væri með safnið við höndina myndi ég skoða málið, en það er í geymslu á Íslandi og ég er í Hollandi. Það verður því að bíða betri tíma.
![]() |
Gamalt frímerki á eina milljón? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 08:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.4.2008 | 05:41
É G L Í K A ! ! !
Þessi frétt er sólarhrings gömul og ekki ætlaði ég að blogga um hana. Það hefði hvort eð er bara farið út í eplatilbiðslu. Ég varð samt, eftir að ég fékk emil rétt í þessu.
Í augum flestra er Microsoft eitthvert nattúrulögmál. Þú kaupir tölvu og tölvur eru með Windows og Office. Þannig er það bara. Windows er líka best, því Linux virkar ekki fyrr en 50 nördar hafa sett hausinn í bleyti í viku og Makkinn er bara fyrir homma sem hanna föt og kannski 101 týpur og grænmetisætur sem búa til auglýsingar og eru í einhverju listamakki.
Raunveruleikinn er eitthvað öðruvísi. Síðasta Linuxið sem ég skoðaði var Ubuntu. Það leit skemmtilega út og gat, virtist vera, allt sem tölvunotandi þarf að gera. Þetta var þó fyrir fimm árum og ætla ég ekki að tjá mig um hvernig það er í dag. Sennilega betra þó.
En af hverju skrifa ég ÉG LÍKA að ofan á svona frekjulegan hátt? Vegna þess að svona virkar Örmjúka Fyrirtækið. Ég man ekki eftir neinu sem Microsoft fann upp (athugasemdir eru velkomnar ef ég er að bulla). Stýrikerfið er byggt á Mac OS sem er aftur fengið að láni frá Xerox. Office er stæling á Lotus 1-2-3, Word Perfect og fleiri forritum. Xbox kom á markaðinn þegar MS sá að aðrir voru að græða á leikjatölvum. Microsoft Messenger stældi ICQ illa en stal þó markaðinum. Windows95 var billjardgrænt ljósrit af MacOS enda kvartaði Apple á sínum tíma. Windows Vista er gljáfægð, enda kalla þeir þetta AeroGlass eða eitthvað. Sami effekt var kallaður Aqua á Makkanum þegar hann var kynntur kring um 2000. Gluggar sem færa sig svo maður sjái hvað er opið eru sniðugir. Þeir heita Exposé í OSX og hafa verið í kerfinu síðan 2003. Gadgets eru stæling á Widgets sem hafa verið til staðar síðan 2004 og eru aftur fengnir að láni úr Konfabulator sem er enn eldra. Svo nenni ég ekki að fara út í iPod (Zune?), iTunes (hvað hét MS sjoppan?) of nýja undrið frá MS, síma! Það hefur örugglega ekkert með iPhoninn að gera.
Það er þó ekki bara Makkinn sem er brunnur andagiftar fyrir Microsoft. Google er annað fyrirtæki sem virkilega reynir að koma með sniðug forrit. Þeim gengur vel, og auðvitað er Microsoft farið að skoða hvaða hugmyndum megi stela. Hotmail breyttist eftir að Gmail kom, Office á að fara á netið eftir að Google kom með svoleiðis hugmyndir. Í morgun komst ég svo að því að eitthvað er til sem heitir Microsoft Virtual Earth. Það er sem sagt búið að stela Google Earth.
Það sem ég vil vita, en mun sennilega aldrei gera, er af hverju kemur Microsoft aldrei með nýjar hugmyndir? Af hverju getur fyrirtæki sem veltir milljónföldum íslenskum fjárlögum ekki fundið upp eitthvað rosalega sniðugt forrit sem fær mann til að finnast þeir flottir? Af hverju er þeir alltaf að herma eftir og stela frá miklu minni fyrirtækjum? Af hverju hefur maður alltaf séð "nýjungar" þeirra áður. Hvað er svona spes við Apple og Google? Af hverju geta þau fundið upp nýja hluti en Microsoft ekki?
![]() |
Hvetja Microsoft til að taka Windows xp ekki af markaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.4.2008 | 07:59
Umhverfisvernd um að kenna?
Síðan Al Gore byrjaði að predika yfir okkur um hinn óþægilega sannleika, hefur umhverfisvernd farið úr böndunum. Nýlega var ESB að gæla við þá hugmynd að skriðdrekar þyrftu að verða minna mengand. Gott að vita að þegar hús einhvers er sprengt í tætlur er rykið eina mengunin sem viðkomandi þarf að lifa við, lifi hann yfir höfuð. Já, og geislavirki úrgngurinn úr sprengjunni, en það er allavega ekkert CO2 í loftinu. Hybrid bílar eru í tísku, þótt sumir hafi allt of lítinn rafgeymi til að vera að notum. Fyrir utan það að framleiðslu- og förgunarferlið er allt annað en umhverfisvænt.
Þótt við séum öll orðin græn eins og engisprettur bruðlum við samt með hráefni. Ég get keypt plastleikfang með batteríum fyrir 500 kall því það er svo ódýrt að framleiða allt í Kína. Stundum furða ég mig á því hvernig það er hægt, hráefni, framleiðsla, þúsundir kílómetra í skipi, vaskur og álagning. Ef batteríið er búið kaupi ég bara nýtt dót, því það er hvort eð er ekkert mikið dýrara en að skipta um batterí, og svo miklu auðveldara. Ef ég kaupi kex, get ég verið viss um að fá ekki matareitrun, því hver kexkaka er sérpökkuð í pakkanum. Þetta er soldið vesen, því ég þarf að fara út með ruslið daglega, sem fullt er af umbúðum, en ég lifi þó annan dag og get farið út með ruslið aftur. Við látum eins og við séum að bjarga umhverfinu en virðumst hafa misst sýn á vandanum.
Eitt af því versta sem umhverfisvakningin hefur komið af stað er biodiesel. Það sem áður var matur er notað í eldsneytisframleiðslu, því öll vitum við að olían er að klárast. Gallinn er bara sá að framleiðsluferlið er dýrt og mengandi og það þarf gífurlegt magn af maís og öðru í framleiðsluna. Við erum ekkert að velta okkur upp úr því að einhver lítill brúnn kall á Haiti eða í Afríku getur ekki étið. Fyrir okkur er vandinn sá að kexpakkinn fer úr 100 kalli í 200. Bömmer, en við höfum efni á því. Litli brúni kallinn hefur það ekki og sveltur fyrir vikið. Skiptir ekki máli, því við getum verið ánægð með okkar framlag til umhverfismála, keyrandi um á poppkornsknúnum jeppa.
![]() |
Fjármálaráðherrar í áfalli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
14.4.2008 | 10:48
Er vinkonan of ung? Sjáum til...
Lita hárið eða ekki? Hann um það. Richard Gere og Clooney sjálfur líta bara vel út með silfur í hári. Það er þó spurning hvort mann myndi ekki bregða við að sjá sjá gráhærða Paul Mccartney og David Bowie. Ég held að það geti verið erfitt að snúa aftur eftir margra ára litun án þess að virðast hafa elst um 20 ár á viku.
Hitt er svo annað mál, er hann ekki of gamall fyrir vinkonu sína, hana Söru. Sjáum til. Það er til formúla sem auðveldar manni að velja sem yngst án þess að búa til vesen og lenda í slúðrinu. Maður tekur aldur hans, deilir með tveimur og bætir sjö við. Þannig er maður kominn með lágmarksaldur hugsanlegrar kærustu.
Clooney er 46 / 2 = 23 + 7 = 30. Var hún ekki 29? Jæja, það er bara að bíta á jaxlinn, því eftir tvö ár er hann orðinn fimmtugur og hún 32. 50 / 2 = 25 + 7 = 32.
Nú er bara að reikna út hvað þú, lesandi góður, mátt leika þér með.
![]() |
Litar Clooney hárið? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2008 | 20:07
Misskildi þetta
Það fyrsta sem mér datt í hug var að einhver hefði strokið úr fangelsi og hans væri nú leitað erlendis eftir að hafa sloppið úr landi. Þetta er ekki ádeila á moggamenn, íslenskan bauð bara upp á þetta.
Annars er ég að leita fanga erlendis. Fór meira að segja úr landi til að finna hamingju og ríkidæmi. Það eina sem ég fann voru grá hús og feitar franskar með majonesi. Jú, og túlipana á vorin.
Best að slútta þessari færslu áður en einhver potar í óviðeigandi hnappinn að neðan.
---
PS. Það fæddist lítill drengur við hliðina um 5:30 í morgun. Ég varð ekki var við neitt, þótt ég hefði vaknað klukkan fimm og farið í vinnuna um sex. Hvað um það, var að kíkja á hann og hann er bara ansi snotur, og segi ég það ekki oft um nokkurra klukkutíma gömul börn.
![]() |
Auðurinn kemur að utan |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.4.2008 | 12:49
Af hverju...
![]() |
Tíbetskir munkar handteknir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |