Flökkukindin bundin, hugsar sér til hreyfings

Höfum það á hreinu. Ég er búinn að fá hundleið á Hollandi. Fólkið hér er fínt eins og annarsstaðar, en ég er ekki að finna mig hérna. Þegar ég kem heim líður mér eins og ég tilheyri því sem er í kring um mig. Ég hafði sömu tilfinningu þegar ég bjó í London. Það var eins og ég hafi alltaf átt að vera þarna. Mér fannst ég eiga meira heima í London eftir viku en í Hollandi eftir 11 ár.

Það er erfitt að vera íslendingur erlendis og vilja heim. Það er nefninlega svo ofboðslega dýrt fyrirtæki að koma sér heim. Svo getur verið erfitt að koma sér fyrir og láta sér líða vel. Það er ekki auðvelt að sannfæra hinn aðilann um að koma með, þegar hún mun sennilega þurfa að vinna 10 tíma á dag í fimm daga á viku fyrir svipuð laun og hún fær nú fyrir fjóra daga og átta tíma. Hana langar að koma heim því hún er sammála mér um leiðindi Hollandsins, en hún er ekki að finna neinn flöt á dæminu. Við fengjum þriggja herbergja íbúð í Breiðholti fyrir þriggja hæða raðhúsið okkar. Ísland er því ekki í myndinni. Ekki strax, allavega.

Það er til millivegur. Skandinavía! Ég finn fyrir mikið meiri samkennd með frændum okkar í norðri og passa örugglega betur inn í menninguna. Svíþjóð og Noregur eru barnavæn lönd. Hægt er að hafa í sig og á án þess að drepa sig á því og sjá aldrei barnið. Ég var að staulast gegn um Dagens Nyheder um daginn því einhver hafði skilið það eftir á Schiphol. Það gekk þokkalega, svo ég held ég næði sænskunni á kannski 2-3 mánuðum. Svo væri ég miklu sáttari við að gera kvikmyndir á sænsku en hollensku. Málið er svo ofboðslega ljótt og karakterlaust.

Er ekki fallegt í Malmö? Er Svíþjóð ekki málið? 


mbl.is Vandinn dreifist til Svíþjóðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppni

Það er sorglegt að að koma heim og sjá hvernig farið er fyrir þjóðinni. Ein matvöruverslun (Bónus), ein verslun með afþreyingarefni (Skífan). Auðvitað eru aðrar verslanir, en þessir aðilar eru svo stórir að þeir stjórna markaðnum. Ég fór úr búð í búð að leita af diskum með Megasi um helgina. Ég fann loks tvo... í fríhöfninni á leiðinni út.

Auðvitað myndi frjáls verslun að utan ekki hjálpa mikið við að finna íslenskar vörur, en allt annað yrði auðveldara. Geti íslendingar farið að versla á netinu af einhverju viti, er það aðhald og samkeppni fyrir íslenskar verslanir. Betra fyrir neytendur. Myndi sennilega vera betra fyrir verslanirnar líka, því þær myndu bjóða upp á betra úrval og verða betri fyrir vikið.

Allt sem losar íslendinga undar fákeppninni sem nú ríkir hlýtur að vera af hinu góða. 


mbl.is Vill fella niður tolla og skatta af ódýrustu pökkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað myndi ég gera við 65 milljónir?

Ef ég ynni 65 mijlljónir, myndi ég kaupa mér einfalda íbúð á Íslandi og flytja kvikmyndafyrirtækið, Oktober Films, norður undir heimskautsbaug. Ég myndi setja 20 milljónir inn í það og fara út í kvikmyndaframleiðslu. Ég myndi auðvitað vilja gera eigin myndir, en það væri gaman að sjá hvað grasrótin heima gæti gert. 20 milljónir eru kannski ekki stór upphæð, en ég hef áhuga á "low budget" kvikmyndagerð og myndi vilja prófa að gera íslenskar kvikmyndir sem stæðu undir sér. Einhvern tíma bloggaði ég um sjö milljóna myndir. Ég myndi henda þeirri hugmynd í framkvæmd.

En ég vann ekki 65 milljónir. 


mbl.is „Nauðsynlegt að róa sig niður"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var á svæðinu og sá...

Ég er á landinu í þrjá daga. Fer aftur í fyrramálið. Hafði það þó af að láta draga mig á Örkina í gærkvöldi að sjá Megas spila. Þetta var svo yndislega íslenskt. Heyrðu, Megas er að spila í Hveragerði. Eigum við ekki að skella okkur? Jú, endilega. Svo var brunað af stað.

Hann var bara flottur eins og búast mátti við. Hljómsveitin var frábær, Lóa á sínum stað, Paradísarfuglinn hló og Heimspekilegar vangaveltur um þjóðfélagsstöðu fóru fram.

Skemmtilegt kvöld. Gaman að koma heim. Nenni ekki að fara út aftur. Það er svo mikið að gera, margt fólk að sjá. Ég verð lengur næst.


mbl.is Blómstrandi dagar í Hveragerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maðurinn hét...

Maðurinn sem lést í Gori hét Stan Storimans og vann sem kvikmyndatökumaður fyrir RTL Nieuws. Hann var 39 ára. Hann má sjá á meðfylgjandi mynd, sem tekin var í Hebron.


mbl.is Hollenskur fréttamaður lést
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

WWF - umhverfissamtök eða...

Flestir virðast gleypa við því sem WWF segir, enda eru þetta falleg umhvefissamtök sem vilja vernda náttúruna. Eða hvað? Eru þetta kannski samtök sem vilja vernda stórfyrirtæki? Hverjir eru á bak við WWF? Lesið endilega þessa grein.

Gott að vita að það eru ekki alvöru náttúruverndarsinnar sem eru að fetta fingur út í það sem við erum að gera. Þetta er auðvitað bisniss eins og allt annað. 


mbl.is Tekist á um réttinn til að stýra fiskveiðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðtrygging

Þetta skiptir engu máli meðan verðtryggingin er við lýði. Hún er tímaskekkja og á ekki við lengur. Ég veit ekki til þess að hún sé til í öðrum löndum, þótt vaxtaprósentan sé svipuð.
mbl.is Lækkun vaxta jákvæð skilaboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðatuð

Er ekki komið nóg af þessu helveðske guðatuði þar sem ekkert má segja um trúarbrögð án þess að allir brjálist? Hvað er svona heilagt við Múhameð, Ésú, Mosa og alla þá? Það er ofsalega hallærislegt að allir verði að þegja þegar kemur að trúmálum.

Það er ekki spurning að hafi Múði verið að pota í barn, má það alveg koma upp á yfirborðið. Ekki að ég hefði áhuga á að lesa þann viðbjóð, en það hjálpar engum nema skeggjuðum múllum að fela það. Tímarnir voru aðrir, en fjandinn hafi það, níu ára barn.


mbl.is „Ljósblátt klám“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vindur um eyru

Var ég að missa af einhverju? Er búið að ákveða að virkja neðri hluta Þjórsár? Ef ekki, er þá eðlilegt að undirbúningur og útboð fari núna af stað? Sé þetta ákveðið, hver gerði það og bak við hvaða dyr?
mbl.is Byrjað á Búðarhálsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómar, óskabarn Íslands?

Er einhver sem hefur snert þjóðina eins og Ómar? Hann fékk mig til að grenja úr hlátri á grænu og rauðu plötunum og í sjónvarpi. Pabbi vann sem útsendingarstjóri hjá Sjónvarpinu og ég fékk stundum að fara með. Sjónvarpsheimurinn var stórkostlegur. Eitt sinn var ég í stjórnklefanum, við hliðina á herberginu sem þulurnar notuðu til að segja frá dagskrá kvöldsins. Við upphaf dagsrár var spilað lag og ég fékk að velja það. Ég valdi Refinn í Hænsnakofanum. Ætli ég hafi ekki verið 6-7 ára. Á svipuðum tíma var ég að uppgötva grænu og rauðu plöturnar með lögum eins og Botníu, Þremur Músum, Þremur Hjólum og Skíðakeppninni. Ég skrifaði athugasemd við færslu á síðunni hans í gær. Læt hluta hennar fylgja með.

Til hamingju Ómar! Þú átt þau margfalt skilið. Það tekur ótrúleganviljastyrk og þor að gera það sem þú ert að gera. Það er mikill munur áað vera elskaður og dáður sem skemmtikraftur og fréttamaður, og að veraumdeildur og jafnvel fyrirlitinn fyrir að vera "latte þambandi skáld101 hippi haus í skýjum" og allt það. Ég efast um að það sé til mikiðaf fólki sem hefði þorað að fórna því sem þú fórnaðir fyrirsannfæringuna. Það hefði verið mikið þægilegra að breyta engu og njótaefri áranna í friði. Þú átt virðingu skilið, hvort sem fólk er sammálaþér eða ekki. Það sem Bono sagði við David Bowie á 50 ára afmæli hinssíðarnefnda á svo sannarlega við um þig. "The world should get down ontheir knees and kiss your arse". Set þetta inn á frummálinu því þettaþýðist svo illa.

Rakst á þetta gamla gullkorn á netinu. Njótið!

 


mbl.is Ómar Ragnarsson verðlaunaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband