Færsluflokkur: Ferðalög

Ef ég væri...

Fólk sem eitthvað veit um mig veit að ég hef stundum tuðað yfir að vera að rolast í útlandinu. Oft er fínt að vera fjarri ruglinu heima, en það er sennilega oftar sem ég pirrast yfir að vera ekki heima. Er alltaf að missa af einhverju. Nú er ég að upplifa þannig tilfinningu.

Ef ég væri á Íslandi, myndi ég örugglega taka þátt í þessu. Strengja áramótaheit á stundinni, kaupa mér skó og úlpu og skella mér í Ferðafélagið. Sjá hvað úthaldið yrði. Hvað myndi ég þola mörg fjöll? Hvaða áhrif hefði svona ár á líf manns? Hvernig myndir gæti ég tekið af landinu? Hvernig fólki myndi ég kynnast?

En ég er ennþá að rolast í útlandinu. Óska bara ferðafélagsfólki til hamingju með skemmtilegt verkefni.


mbl.is Ætla að ganga á 52 fjöll á árinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Okrarar

Við ætluðum að heimsækja fjölskylduna á Íslandi en það verður að bíða betri tíma. Miðaverðið hefur rokið upp og við höfum ekki efni á að borga fyrir þriggja tíma flug. Það kostar okkur þrjú hátt í 1200 evrur að fljúga heim. Það kostar um 1500 á business class til New York. Svipað á túristaklassa til Taiwan. 300 evrur til Oslo.

Er ekki kominn tími á að FI fari á hausinn svo að við getum fengið alvöru samkeppni?


mbl.is Heimild til að auka hlutafé Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð Blessi Ísland

Þessi síðustu orð ræðunnar. Er þetta eitthvað meira en sljálfvirk orð trúaðs manns? Er eitthvað meira á bak við þau? Maður verður hálf smeykur við allan þennan hræðsluáróður og hálfkláraðar setningar. 

Ég yfirgef Ísland eftir atburðaríka viku. Ég hitti mikið af áhugaverðu fólki og sá mikið á athyglisverðum myndum. Það voru samt 2-3 manneskjur sem eg náði ekki að hitta, myndir sem ég náði ekki að sjá og hlutir sem ég kom ekki í framhvæmd. Framtíðarhugmyndirnar eru skýrari í hausnum. Það gerir kannski hreina loftið. Ég vona bara að kreppan flækist ekki fyrir og að hún fari ekki of hrjúfum höndum um almenning. Ekki að við í ESB eigum von á einhverju betra.

En hvað um það. Það var gott að koma heim og hitta fólkið sitt. Ég er aftur farinn til ESBsins þar sem allt er betra samkvæmt einhverjum krötum sem vita ekki alveg hvað þeir eru að segja.

Guð Blessi Ísland. 


mbl.is Ný lög um fjármálamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

I'm going in the Big Strætó in the Sky

Önnur ensk-slettandi bloggfyrirsögnin í röðinni. Það á líka vel við, því ég, óundirritaður, er á leiðinni til Íslandsins blanka. Er sennilega mættur þegar þetta er lesið, þó ég vilji ekki bera áburð á því. Sjaldan hefur mér kvítt eins mikið fyrir, enda komið haust og ég sá orðið slydda á MBL, efnahagurinn í rúst, afkvæmið skilið eftir, heilsa ástvina upp og ofan og svo er til fólk sem gæti hugsað sér að verðlauna verk mín ekki.

Til að gera stutta sögu langa, er ég á heimleið til að taka við verðlaunum fyrir frábæra mynd sem enginn hefur nennt að horfa á hingað til, reyna að setja kvikmynd í framleiðslu þótt handritið sé ekki tilbúið og síðast og jafnframt síst, vil ég nýta mér tækifærin sem felast í ódýrum krónum og fara í verslunarferð fyrr jólin og kem þar af leiðinni með með tiltölulega ófulla ferðatösku, fulla af hollensku lofti.

Þeir sem vilja hafa samband við mig á meðan á þessu bloggfríi stendur, því einhvern vegin hef ég aldrei tíma til að blogga á Íslandi, til að hjalpa mér að láta drauma mína rætast, er vinsamlegast bent á athugasemdafítusinn að neðan, emilinn til hliðar eða farsímanúmerið 8686976 sem ég nota jafnan á hjara veraldar.

Ég vil að lokum þakka þeim 2000+ heimsækjendum sem kíktu á röflið í mér síðasta sólarhringinn. Þið létuð mig trúa því að ég væri pínu þekktur í smá tíma og eigið þið þakkir skildar. 

Með kveðju,

Snobbið úr útlandinu 


Flökkukindin bundin, hugsar sér til hreyfings

Höfum það á hreinu. Ég er búinn að fá hundleið á Hollandi. Fólkið hér er fínt eins og annarsstaðar, en ég er ekki að finna mig hérna. Þegar ég kem heim líður mér eins og ég tilheyri því sem er í kring um mig. Ég hafði sömu tilfinningu þegar ég bjó í London. Það var eins og ég hafi alltaf átt að vera þarna. Mér fannst ég eiga meira heima í London eftir viku en í Hollandi eftir 11 ár.

Það er erfitt að vera íslendingur erlendis og vilja heim. Það er nefninlega svo ofboðslega dýrt fyrirtæki að koma sér heim. Svo getur verið erfitt að koma sér fyrir og láta sér líða vel. Það er ekki auðvelt að sannfæra hinn aðilann um að koma með, þegar hún mun sennilega þurfa að vinna 10 tíma á dag í fimm daga á viku fyrir svipuð laun og hún fær nú fyrir fjóra daga og átta tíma. Hana langar að koma heim því hún er sammála mér um leiðindi Hollandsins, en hún er ekki að finna neinn flöt á dæminu. Við fengjum þriggja herbergja íbúð í Breiðholti fyrir þriggja hæða raðhúsið okkar. Ísland er því ekki í myndinni. Ekki strax, allavega.

Það er til millivegur. Skandinavía! Ég finn fyrir mikið meiri samkennd með frændum okkar í norðri og passa örugglega betur inn í menninguna. Svíþjóð og Noregur eru barnavæn lönd. Hægt er að hafa í sig og á án þess að drepa sig á því og sjá aldrei barnið. Ég var að staulast gegn um Dagens Nyheder um daginn því einhver hafði skilið það eftir á Schiphol. Það gekk þokkalega, svo ég held ég næði sænskunni á kannski 2-3 mánuðum. Svo væri ég miklu sáttari við að gera kvikmyndir á sænsku en hollensku. Málið er svo ofboðslega ljótt og karakterlaust.

Er ekki fallegt í Malmö? Er Svíþjóð ekki málið? 


mbl.is Vandinn dreifist til Svíþjóðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var á svæðinu og sá...

Ég er á landinu í þrjá daga. Fer aftur í fyrramálið. Hafði það þó af að láta draga mig á Örkina í gærkvöldi að sjá Megas spila. Þetta var svo yndislega íslenskt. Heyrðu, Megas er að spila í Hveragerði. Eigum við ekki að skella okkur? Jú, endilega. Svo var brunað af stað.

Hann var bara flottur eins og búast mátti við. Hljómsveitin var frábær, Lóa á sínum stað, Paradísarfuglinn hló og Heimspekilegar vangaveltur um þjóðfélagsstöðu fóru fram.

Skemmtilegt kvöld. Gaman að koma heim. Nenni ekki að fara út aftur. Það er svo mikið að gera, margt fólk að sjá. Ég verð lengur næst.


mbl.is Blómstrandi dagar í Hveragerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rökræður um alls ekki neitt

Reynisfjara10Reynisfjara er yndislegur staður. Ég kom með hóp fólks þangað í ágúst 2006 til að taka upp atriði í stuttmynd. Þar á meðal voru þrír útlendingar. Öllum fannst þetta stórmerkilegur staður. Ég kom svo aftur viku seinna Reynisfjara01með ferðalang. Það var brennandi heitt, heiðskýrt og landslagið sérstakt. Jafn sérstakt og fyrri daginn, en allt öðruvísi því veðrið var allt annað. Myndirnar eru teknar í blíðviðrinu í lok ágúst 2006. Fleiri myndir eru í albúmi á síðunni.

Ég vissi ekki að Reynisfjara gæti verið svona varasöm, enda er ekkert sem varar mann við. Ég komst að því nokkrum mánuðum seinna þegar einhver sogaðist út. Það sem ég er ekki alveg að fatta er þetta vesen með hver á að borga eitthvað skilti. Meðan fólk er að drepast eða næstum því drepast er fólk að rífast yfir því hver eigi að borga fyrir skilti. Nú veit ég ekkiReynisfjara08 hvað skilti kostar, en fyrst það er hægt að planta þeim niður við öll gatnamót og víðar, geta þau ekki verið mikið dýrari en lítið álver.

Hættum að væla og hendum þessu upp. 


mbl.is Vilja kosta skilti í Reynisfjöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mannfyrirlitning eða "ekki ég"?

Eins og einhverjir vita, vinn ég mína dag (kvöld- helgar...) vinnu á alþjóðaflugvelli. Þeim fjórða stærsta í Evrópu, takk fyrir. Það er merkilegt hvað hlutirnir ganga oft vel fyrir sig í kaosinu. Málið er að vera með allt á hreinu, vita hvað maður er að gera og fylgja reglunum, á meðan þær eru ekki að flækjast fyrir.

bodyscan1Öryggismál eru orðin ansi þrúgandi. Ég hef séð framtíðina. Þú sennilega líka. Næst þegar þú flýgur erlendis, fylgstu með. Það eru myndavélar alls staðar. Allir eru skoðaðir. Stundum ferðu í gegn um öryggishlið sem pípir ef þú ert með lykla í vasanum, en oftar fer fólk gegn um skanna sem sýnir það sem fötin hylja. Allt sem fötin hylja.

Það sem ég vildi samt skrifa um er ekki öryggi eða framtíðin, heldur algert áhugaleysi okkar að hjálpa náunganum. Ég var að vinna á laugardag. Um 17:15 voru mér afhentir níu ferðamenn sem voru strand vegna þess að fluginu þeirra hafði seinkað. Ástæðan var víst að flugmaðurinn var of seinn út á flugvöll, en það er önnur saga, sem ég vona að hann fái að segja yfirmönnum sínum.

Þetta voru sjö ameríkanar og tveir marokkanar að koma frá Casablanca. Það var ekkert mál að redda könunum hóteli, kvöldverði, morgunverði og bóka þá í flug daginn eftir. Hinir voru vandamálið. Eru það enn þegar þetta er skrifað.

Marokkanarnir voru að fara á ráðstefnu á vegum IEEE (setur tölvustaðla, svo sem USB o.fl.) í mið-Austurlöndum. Þeir áttu að halda fyrirlestra á Sunnudagsmorgni. Það var útséð að það myndi ekki ganga upp, því það voru ekki flug þennan dag. Þeir þyrftu að fljúga daginn eftir. Því lofaði ég alla vega. Þeir voru ekki með áritanir fyrir Schengen, svo þeir gátu ekki yfirgefið flugvöllinn. Það er hótel fyrir svona strandaglópa á "airside" hluta flugstöðvarinnar. Ég lét bóka herbergi fyrir þá og fór með þá upp.

Klukkan var sex þegar hér er komið sögu. Truntan (afsakið) í móttökunni sagði, þeir geta komið hérna klukkan átta. Nú? sagði ég. Já, herbergin verða tilbúin þá. Allt í lagi, sagði ég. Hvenær vilja þeir vakna? spurði hún. Þú Þarft ekkert að vekja þá, sagði ég. Flugið fer ekki fyrr en um fimmleytið. Já, en þeir verða að vera farnir klukkan níu. Herbergið er bókað til níu. Vekja þá klukkan átta? Já, eins og þú vilt, sagði ég.

Schiphol_1Ég hringdi í mitt fólk og bað um að fá kvöldverðarmiða fyrir þá. Ég gæti ekki skilið þá eftir svona. Jú, auðvitað var það ekkert mál. Ég lét þá hafa tvo aukamiða svo þeir gætu fengið sér eitthvern morgunverð, því hótelið hefur ekkert. Þeir verða að sjá um sig sjálfir og kaupa sér samlokur á uppsprengdu verði í fríhöfninni. Ég skildi við þá tiltölulega sátta. Þeir höfðu engan farangur og voru of seinir á ráðstefnuna, en þeir vissu að ég hafði gert allt sem ég gat til að hjálpa þeim.

Á Sunnudagsmorgni var ég mættur aftur. Ég hafði annað að gera og átti ekkert að vera að stússast í vinum okkar. Ég ákvað samt að skrifa hjá mér símanúmer flugfélagsins í Hollandi svo þeir gætu látið vita af sér ef nauðsyn væri, eða ef þeir væru ekki sáttir. Ég rölti í átt að hliði E18, þar sem ég hafði verk að vinna við 747 vél sem var að koma frá Taiwan. Merkilegt nokk, ég rakst á kunningja okkar við T6 (transfer desk). Ég lét þá hafa númerið. Þeir þökkaðu fyrir sig. Gott ef þeir voru ekki fegnir að sjá mig, þótt ég hafi ekki haft tíma til að sinna þeim.

Þegar ég var að fara heim spurðist ég fyrir um þá. Hvort flugið væri á tíma. Ég fékk það svar að þeir færu ekki fyrr en á mánudag, því þeir höfðu ekki verið bókaðir í áframflugið. Það hefði upphaflega flugfélagið átt að gera, en það gleymdist. Þeir eru sem sagt strand á óspennandi flugvelli í 48 tíma. Þeir mega ekki fara út því þeir eru ekki með áritun. Ég vona að þeir reyki ekki, því það er hvergi hægt að reykja síðan 1 júlí. Það sorglegasta er að þeir lentu um 16:25. Við hefðum haft 35 mínútur til að koma þeim yfir í næstu vél. Það hefðu verið hlaup eða kappasktur í rafmagnsbíl þar sem flugvöllurinn er gríðarstór, en við hefðum átt að geta náð því. En við vorum ekki látin vita að þeir væri í þessari tímaþröng og því fór sem fór.

Sumum flugfélög og sumu fólki sem vinnur í ferðamannaiðnaðinum er slétt sama hvað verður um farþegana.


Útlit

Glöggir gestir sem eru ekki að líta við í fyrsta sinn hafa sennilega tekið eftir að bloggið er breytt. Ég valdi annað þema og breytti því smá til að fullnægja mínum óskum. Það væri samt gaman ef Mogginn setti inn fleiri þemu. Þau eru orðin ansi gömul og ekki mikið af þeim. Mér finnst allir vera að nota sömu 2-3 útlit.

Þess má geta að myndin af mávunum sem "prýðir" hausinn var tekin af mér í Oban, Skotlandi í maí (frekar en júní) 2006. Það var rigning. Það er alltaf rigning í Oban. Við leituðum skjóls í viskíbúð og smökkuðum hið ofurljúffenga Ben Nevis, sem drýpur að hverju strái í nágrenni Fort William á vesturströndinni, norður af Oban.

Að lokum má geta þess að ég var að setja inn Overload hér til hliðar. Þetta er lag af nýju plötu Uriah Heep, Wake the Sleeper. Þetta verður vafalaust í myndinni okkar í haust.


Löglegur Manndrápshraði

Svo lengi sem ég man eftir mér hefur hraða verið kennt um allt sem miður fer í umferðinni. Ef við keyrum bara nógu hægt deyr enginn og engin slys verða. Þetta er rétt, sé hraðanum still svo í hóf að allir hafi alltaf nógu langan tíma til að bregðast við öllum hugsanlegum hættum. Hver yrði hámarkshraði að vera til að gera umferðina örugga? Töluvert lægri en nú er.

En það er ekki hraði sem drepur. Lélegir ökumenn sem ekki kunna að keyra eftir aðstæðum drepa. Fólk sem blaðrar í símann undir stýri drepur. Léleg færð, hálka og slæmt skyggni drepur. Bílar í lélegu ástandi drepa, hugsanlega. Myndavélar sem hannaðar eru til að ná í aukapening fyrir stjórnvöld leysa engan vanda. Ef eitthvað er, bæta þær á hann. Fólk veit hvar þær eru og hægja á sér rétt á meðan keyrt er fram hjá þeim. Oft er snarbremsað rétt áður en keyrt er fram hjá myndavélinni og skapar það aukna hættu á aftanákeyrslum. Ég bý í landi hraðamyndavéla, ég ætti að vita þetta.

Þegar ég var krakki var 80 km hámarkshraði á þjóðvegum landsins. Þá keyrði fólk um á bílum sem engum er bjóðandi í dag, bílum sem voru töluvert óöruggari með verri bremsur og slæmir í stýri. Mestmegnis á malarvegum. Nú keyrum við um á bílum sem geta farið hringi kring um gömlu bílana vegna betri akstureiginleika. Við keyrum um á rennisléttum malbikuðum og oft upplýstum vegum, en hámarkshraði hefur varla breyst. 90, 10 km meira en þegar mælaborðið skrölti og rykið fyllti vitin.

Hér í Hollandi er mikil umferð. Það getur tekið u.þ.b. 70-90 mínútur að keyra 20-30 km leið kring um Amsterdam. Jafnvel meira. Mengunin er ansi slæm á hringveginum kring um borgina. Hvað var tekið til bragðs? Hámarkshraðinn var lækkaður úr 100 km í 80. Þetta átti að minnka stress og þannig greiða fyrir umferð, og minna mengun, þar sem keyrt yrði hægar. Áhrifin voru stórkostleg. Öngþveitið er nú algert. Hver bíll er lengur úti á götunum, sem eykur á umferðarþunga, þ.a.l. mengun og teppur. Slysum hefur ekki fækkað.

Er ekki kominn tími til að horfa á eitthvað annað en bara hraðann?


mbl.is Hraðamyndavélar á Suðurnesjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband