Kreppan er komin til mín

Sterling fór á hausinn. Menzies Aviation á Kastrup fór á hausinn í kjölfarið. Kreppan er komin til mín.

Ég vinn fyrir Menzies Aviation á Schiphol. Ég vann mikið fyrir Sterling. Þeir voru með fjögur flug á dag frá Amsterdam. Tvö til Köben, tvö til Osló. Þessi flug eru auðvitað horfin. Fleiri flugfélög á okkar vegum eru að draga saman seglin. Á sumrin var ekki óalgengt að ég ynni sex daga í viku. Vaktirnar voru mislangar, frá þremur tímum upp í 14 og stundum 16. Ég gat lifað á þessu. Nú er búið að skera mínar vaktir niður fyrir 50% og meiri niðurskurður er á leiðinni. Ég mun því finna illa fyrir kreppunni á komandi mánuðum. Þetta má, ég hef ekkert um málið að segja. Mér er ekki sagt upp, því það er of dýrt. Ég verð bara að sætta mig við styttan vinnutíma. Verði mér einhvern tíma sagt upp, verða bæturnar stórskertar, því þar er miðað við síðustu laun, og maður er ekki mikið á 50% eða minna. Ég heyrði reyndar útundan mér að sennilega verði 30% fljótlega nærri lagi.

Nýlega var framkvæmdastjóra Menzies á Schiphol sagt upp. Með honum fékk aðstoðarmaðurinn að fjúka, sem og yfirmaður, sem er kona, LCC deildarinnar. LCC er Low Cost Carriers og þar falla EasyJet, Jet2, Sterling, Sky Europe og fleiri undir. Ástæðan var spilling, fjárdráttur og klúður í stjórnun. Menzies fór í verkfall í sumar. Það var óþarfi, því aðeins 1.5% skildi á milli. Þetta þótti höfuðstöðvunum í Skotlandi ekki sniðugt, því verkfallið kostaði meira en launahækkunin sem farið var fram á. Enn ein ástæðan var að yfirmaður okkar sá um að setja upp Menzies Aviation á Kastrup, sem nú er komið í greiðslustöðvun. Hann þótti standa það illa að verkinu að HQ sagði allt það fé sem fór í verkið væri glatað og aðeins tímaspursmál hvenær það dótturfélag sykki. Það hefur nú gerst.

Það eru því blikur á lofti hér, eins og heima. Ég er kominn í vonda stöðu. Ég væri betur settur hefði ég verið rekinn strax. Ég býð mig því hér með lausan. Hafi einhver skemmtilegt og krefjandi starf á fyrir mig er ég til. 


mbl.is Keðjuverkun vegna gjaldþrots Sterling
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tækifæri fyrir Skjá 1

Eitt af því sem nefnt er í fréttinni er óvissa með verð erlends efnis. Það hlýtur að verða 2-3x dýrara en áður, eins og annað. En er þetta ástand endilega alslæmt?

Í morgun skrifaði ég um hugmynd Bjarkar og félaga þar sem atvinnulausum yrðu greidd 10-50% laun ofan á atvinnuleysisbætur. Þetta myndi halda fólki í vinnu og fyrirtæki gætu farið í verkefni sem annars væru of dýr.

Árlega eru framleiddir tugir eða hundruð stuttmynda á Íslandi. Þær sjást hvergi. Hvernig væri ef Skjár 1 tæki sig til og keypti fullt af stuttmyndum sem þegar hafa verið gerðar? Þeir gætu svo keypt myndir sem enn eru ógerðar, en eru ekki mjög dýrar í framleiðslu því launakostnaður er lægri en áður. Svo væri hægt að framleiða framhaldsþætti og kvikmyndir fyrir brot þess kostnaðar sem áður var.

Þetta er gullið tækifæri fyrir Skjá 1. Þar sem ekkert starfsfólk er eftir, geta þeir byjað með autt blað og gert það sem þeir vilja. Svona ná þeir sér í ódýrt efni, skapa fólki atvinnu og sér velvild þjóðarinnar.


mbl.is Skjárinn segir öllum upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minn Sproti - Allra Hagur

Ég horfði á Kastljós á netinu í gær. Björk hafði mikið til síns máls. Spa hugmyndin var frábær. Þetta er það sem sumir hafa verið að segja í mörg ár. Ekki öll eggin í sömu körfuna. Dreifum áhættunni og gerum eitthvað sem íslendingum finnst gaman að vinna við. Eitthvað sem bætir lífskjör okkar og ímynd út á við.

Hugmyndin með að atvinnulausir drýgi tekjurnar hjá fyrirtækjum sem hafa ekki efni á starfsfólki er ekkert annað en snilld. Þannig þarf fólk ekki að svelta á allt of lágum bótum, það fer út fyrir dyrnar í stað þess að rotna heima, fyrirtæki sem annars næðu ekki að byggjast upp geta það nú og atvinnu- og efnahagslíf staðnar ekki. Það er alveg sama hvernig ég skoða þetta, hugmyndin er tær snilld.

Hvernig myndi ég notfæra mér svona kerfi? Ég er að klára kvikmyndahandrit. Þar sem ég á ekki fullt af peningum, skrifaði ég það þannig að ekki þyrfti hópsenur eða stórar leikmyndir. Það væri ekki erfitt að taka upp mynd sem stæði undir sér ef ég væri að borga 10-50% laun til fólks sem annars sæti heima. Íslenskar myndir eru oft það dýrara að þær hafa enga möguleika á að standa undir sér. Þær geta ekki þrifist án styrkja. Með þessu kerfi, sterkum handritum sem tiltölulega einfalt er að taka upp og nútíma tækni væri hægt að framleiða fullt af íslenskum kvikmyndum sem stæðu undir sér. Því fleiri myndir sem gerðar yrðu, því stöndugra yrði fyirtækið og einn góðan veðurdag gæti það farið að borga full laun. Atvinnuleysisbæturnar hyrfu og þjóðin gengi inn í nýja tíma.

Þetta er mitt dæmi. Spa hugmyndin gerði það sama á öðrum vettvangi. Ef þúsundir íslendinga virkjuðu sína þekkingu, væri framtíðin björt. 

Björk, hvenær get ég byrjað? 

Þessi grein birtist líka á NyjaIsland.is


mbl.is Gríðarleg viðbrögð við grein Bjarkar í The Times
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

HJÁLP!!! - Nýja Ísland er dautt!

Eftirfarandi birtist á vefnum, Nýja Ísland.

Eins og þeir sem lesa bloggið mitt vita, var ég frá í viku af persónulegum orsökum. Ég gat því miður ekki gefið Nýja Íslandi þann tíma og umhyggju sem ný síða þarf. Þetta fór vel af stað. Mig minnir að skráðir notendur hafi verið orðnir 20 eftir sólarhring. Þeir eru nú 30. Enginn hefur bæst við í 3-4 daga. Umræðan er mikið til sofnuð.

Það var kannski bjartsýni að halda að ég, einn og óstuddur, gæti búið til eitthvað sem myndi breyta heiminum. Kannski hef ég ekki tengslin sem til þarf, þekki ekki rétta fólkið. En það var nákvæmlega hugmyndin á bak við Nýja ísland. Að allir geti skipt máli, hversu tengdir eða ótengdir þeir væru.

Ég mun gera meira fyrir síðuna á komandi dögum og vikum. Ég mun reyna að koma henni á flug. Það væri þó gaman ef einhver með vit á vefnum og almennri kynningu gæti slegist í hópinn.

Fólkið sem ég þarf er:
Vefstjóri - Einhver sem hefur vit á heimasíðugerð og gæti byggt síðu utan um spjallborðið.
Spjallstjóri - Einhver sem getur stjórnað umræðum, séð um að þær fari ekki úr böndunum og séu á réttum stað og að spjallið sé vinalegt, skemmtilegt og málefnalegt.
Kynningarstjóri - Einhver sem sér um að kynna síðuna út á við. Ef ég væri á Íslandi myndi ég láta prenta póstkort og dreifa þeim út um allt, en ég er ekki á landinu og þarf því að gera eitthvað annað eða fá aðra til að hjálpa.
Ritstjóri Fréttabréfs - Einhver sem er til í að taka að sér útgáfu vikulegs emils sem sendur er til skráðra notenda.

Auðvitað get ég gert allt sem að ofan er nefnt, en stundum hef ég ekki tíma og það er til fólk sem hefur meiri hæfileika en ég. Það væri því gaman ef fólk hefði samband og hjálpaði Nýja Íslandi að verða að aflinu sem það getur orðið.


✝ Guðgeir Sumarliðason - minningargreinar

Guðgeir Sumarliðason var fæddur á Feðgum í Meðallandi, V-Skaftafellssýslu, 2. apríl 1929. Hann lést 19. október á deild 11-E á Landspítalanum við Hringbraut. 

Foreldrar hans voru Sumarliði Sveinsson, f. 10.10. 1893 á Undirhrauni/Melhól, Meðallandi, d. 22.2. 1992, og kona hans Sigríður Runólfsdóttir, f. 1.12. 1899 í Neðra-Dal, Biskupstungum, frá Bakkakoti í Meðallandi, d. 16.8. 1986. Bróðir Guðgeirs er Sveinn, f. 3.9. 1922 á Feðgum, d. 9.8. 2002, bílstjóri í Þorlákshöfn. Hans börn: Þorvaldur Geir, Dagbjartur Ragnar og Halldóra Sigríður. 

Feðgar var torfbær sem stóð sunnanvert við Eldvatnið. Fjölskyldan fluttist þaðan vegna ágangs sands 1945. Þau fór til Hveragerðis og byggðu sér þar hús sem þau nefndu einnig Feðga, það var í Heiðmörk 51, seinna 28. Þá var Guðgeir 16 ára en Sveinn bróðir hans tæpra 23ja ára, fjölskyldan gisti að mestu í tjaldi á lóðinni þar til hægt var að flytja inn í nýja húsið í september. Sumarliði og Sigríður bjuggu þar svo til ársins 1985, er þau fluttu til sonar síns í Bitru. 

Í Hveragerði starfaði Guðgeir m.a. við byggingu Ölfusárbrúar og var með vörubíl að leggja veginn út í Selvog og var handmokað á og bílstjóranum ekki gerð nein undantekning. Skólabílstjóri var hann í Hveragerði og var þá ekki mikið eldri en elstu börnin. 17.4. 1954 kvæntist Guðgeir Hrefnu Ólafsdóttur, f. 9.1. 1932 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Ólafur G.H. Þorkelsson vörubílstjóri í Reykjavík, f. 16.11. 1905 á Ísafirði, d. 26.10. 1980 í R, og kona hans Guðrún H. Þorsteinsdóttir, f. 9.9. 1911 í  Vestmannaeyjum, d. 28.6. 1987 í Reykjavík.

Hann var góður penni og ritaði greinar í ýmis tímarit um áhugamál sín. Og ætíð ferðapistla um ferðir sínar með Samkór Selfoss þar sem hann söng bassa í fjölda ára og söng í kirkjukór Hraungerðiskirkju og var þar sóknarnefndarformaður. Eftir að þau hjón fluttu suður gekk hann til liðs við Árnesingakórinn í Reykjavík sem mun syngja honum til heiðurs við útförina. Guðgeir og Hrefna bjuggu í Reykjavík þar sem hann starfaði lengst af á Bæjarleiðum við leigubílaakstur, Guðgeir fékk ungur vélstjóraréttindi (pungapróf). Var hann á síld eina vertíð og seinna með tengdaföður sínum á mb. Hafþóri um tíma. 1972 söðlaði hann um og gerðist bóndi í Bitru í Hraungerðishreppi, Árn. Þau brugðu búi 2002 og fluttu þá á Bjarnhólastíg 24, Kópavogi, það hús ber einnig nafnið Feðgar. 

Börn Hrefnu og Guðgeirs eru 1) Jenný Kristín, f. 24.3. 1952, m. Hjörtur Hans Kolsöe, f. 22.2. 1953, börn: a) Halldór Úlfar, f. 8.2. 1973, sbk. Sara Sturludóttir, f. 18.7.1979, barn: Aron, f. 13.8. 2003, b) Arelíus Sveinn, f. 6.12. 1975, kona: Arna B. Boonlit, f. 1.1. 1982, barn: Sara Fönn, f. 6.9. 2001, og Guðgeir Hans, f. 8.3. 1982, 2) Sigrún f. 9.8. 1953, m. Ásgeir R. Sigurðsson, f. 27.2. 1948, d. 16.1. 1983, börn: a) Vilhjálmur Geir, f. 10.5. 1969, kona: Miriam Geelhoed, f. 5.10. 1972, barn: Mats Kilian, f. 27.1. 2007, b) Ásdís, f. 12.1. 1972, sbm. Eyþór Grétar Birgisson, f. 17.3. 1961, börn: Kristín Viðja, f. 11.6. 1994, og Karen Ósk, f. 23.3. 2003, sbm. SG Ólafur Ágúst Lange, f. 5.4. 1955, 3) Edda Lára, f. 24.9. 1954, börn: a) Helena Dögg, f. 23.7. 1973, barn: Tinna Líf, f. 12.1. 1998, b) Geir, f. 23.12. 1982, sbk. Bai Ying Ge, f. 26.8. 1987 og c) Arnar f. 8.12. 1988. 4) Auður Rut, f. 19.5. 1959, barn: Hrefna Líf, f. 28.7. 1986, 5) Þorkell Kristján, f. 28.4. 1962. Guðgeir verður jarðsunginn frá Hjallakirkju í dag kl. 11. 

Elsku „pabbaskat“. 
Mig langar að minnast þín með fáeinum orðum. Þú varst sá blíðasti og besti maður sem ég hef nokkurn tíma kynnst. Þú varst ekki margmáll en afskaplega fróður og vel lesinn maður, alltaf boðinn og búinn að rétta hjálparhönd ef á þurfti að halda. Svo lengi sem ég man eftir mér notaðir þú aldrei skírnarnafn mitt, þú ávarpaðir mig aldrei öðruvísi en með gælunafninu sem þú gafst mér þegar ég kom frá Danmörku eftir hjartaaðgerð aðeins 6 ára gömul. En því miður tók það mig 35 ár að vita hvað þetta orð þýddi, ég hélt einfaldlega að þetta væri bara gæluorð sem þú hefðir fundið upp handa mér, og mér fannst alltaf svo vænt um það, og ég var komin yfir fertugt þegar ég vissi hvað þetta orð þýddi, fjársjóður, ekki minnkaði væntumþykjan ánafninu og þér við það. Þú varst mikill og góður söngmaður og söngst í kórum lengst af. 

Þú varst alltaf á móti því að sálmar væru styttir. Vildir helst syngja þá í fullri lengd, svo að í kistulagningunni þinni var Ó, Jesú bróðir besti sungið í fullri lengd og ekkert múður, þannig hefðir þú viljað hafa það. 

Elsku pabbaskat, þín er sárt saknað af mér og minni fjölskyldu, Helenu, Tinnu, Geir og Arnari. 

Hvíl í friði, elsku pabbi minn. 
Þín „Lilleskat.“ 
Edda Lára. 



Guðgeir átti djúpan róm og dug í sinni og rætur austur á skaftfellskum söndum. Hann stundaði söngnám hjá Ingveldi Hjaltested og söng að staðaldri í tveim kórum. Ég kynntist honum meðan ég bjó á Flúðum og þangað kom hann úr hinum enda þessa söngglaða héraðs í söngtíma til kennarans og til að fá undirleik hjá mér. Nágrannar urðum við síðar og góðir vinir. Hann unni arfinum okkar sameiginlega, ljóðunum sem lögin prýddu eins og sögum af lífsþrautum og sigrum. Hann bjó yfir hógværð og festu.

Mæt er minning þessa góða drengs. 
Ingi Heiðmar Jónsson. 
 
 

Elsku Guðgeir. Það er komið að kveðjustund. Það var einkennileg tilfinning hér um árið þegar ég var á leið austur til ykkar Hrefnu til að dvelja hjá ykkur langdvölum. Ég hafði aldrei séð ykkur áður. En móttökurnar voru ekki slæmar, þið tókuð mér á allan hátt opnum örmum. Elsku Guðgeir, hvað þú varst mér góður þennan tíma, tókst mér sem þinni eigin dóttur. Það stytti stundirnar að fá að fara með þér í fjósið og gefa kálfunum, það var toppurinn á tilverunni í þá daga. Ég á eftir að sakna þín. 

Elsku Hrefna, Jenný, Sigrún, Edda Lára, Auður og Þorkell, Guð blessi ykkur öll og fjölskyldur ykkar. Minningin um gullmolann ykkar lifir. 

Kveðja, 
Björg Benjamínsdóttir. 



Með þessum fáu línum vil ég minnast Guðgeirs Sumarliðasonar. 

Ég kynntist Guðgeiri og hans fjölskyldu þegar ég var 11 ára eða fyrir 43 árum og leita því margar góðar minningar á hugann. 

Mér var tekið svo vel af Guðgeiri og Hrefnu að það var eins og ég væri fjölskyldumeðlimur, en svona var Guðgeir. 

Guðgeir hafði þann eiginleika að öllum leið vel í návist hans. En nú er kallið komið eftir veikindi síðustu ár. Ég er þess fullviss að svo góður drengur fær góðar móttökur á nýjum stað. 

Hrefna mín og þið öll. Megi Guð og góðar vættir styðja ykkur í ykkar sorg.
Margrét E. Kristjánsdóttir. 
Sigurður Pálsson. 
 
 

Ég vaknaði upp við vondan draum í London fyrir 15 árum. Mig dreymdi að þú værir farinn. Þú, af öllum. Ég var svo langt í burtu og ég átti þér svo margt að þakka. Sem betur fer var þetta draumur. Þegar ég hringdi í þig var allt í lagi. Þegar ég kom heim naut ég þess að vera nálægt þér. Ég vissi hvað ég var heppinn að þekkja þig.

Ég sagði þér aldrei frá því hvað mig dreymdi. Það skipti ekki máli. 

Fyrir rúmum tveimur árum vissum við að eitthvað var að. Vissum ekki hvað það var en þér leið illa. Þegar ég kom heim um sumarið vildi ég fara með þig austur í Meðalland svo þú gætir séð æskuslóðirnar einu sinni enn en þú varst of veikur. Sem betur fer náðir þú þér aftur. Þú gast notið lífsins þótt óveðursskýin neituðu að hverfa. Þegar fólk spurði hvernig ég hefði það, hvernig gengi, minntist ég aldrei á þig. Ekki vegna þess að ég vildi það ekki, ég vildi öskra til alheimsins að þarna færi fallegasta manneskja sem ég hef nokkru sinni kynnst. Ég vildi segja öllum heiminum að lífið væri óréttlátt gagnvart þeirri manneskju sem átti það síst skilið. Að ég hefði glaður skipt við þig, tekið á mig krabbameinið og barist fyrir þig. 

Ég sagði þér aldrei að allt sem ég hef gert síðan var fyrir þig. Mitt líf eins og það leggur sig var, er og verður tileinkað þér. Ég væri ekki sá sem ég er án þess að hafa kynnst þér og lært af þér. Allt það góða sem ég reyni að tileinka mér á ég þér að þakka. 

Ég er óendanlega þakklátur fyrir að hafa fengið að sýna þér Mats Kilian og sjá þig halda á honum. Ég mun aldrei gleyma litla augnablikinu áður en þið fóruð frá Skotlandi og þú komst inn í herbergi þar sem hann lá sofandi. Ég mun aldrei getað þakkað þér almennilega fyrir það en þess þarf ekki. 

Ég vildi að ég gæti verið hjá þér en þú ert kominn á betri stað þar sem þú þarft ekki að þjást. Þú munt lifa í hjarta mínu svo lengi sem ég lifi. 

Takk fyrir allt og Guð blessi þig. 
Vilhjálmur Geir Ásgeirsson. 



Nú er horfinn yfir móðuna miklu hjartkær vinur, svili og mágur Guðgeir Sumarliðason. Margir góðir kostir prýddu þennan dáðadreng. Hann hafði óvenju tæra og fallega söngrödd sem við nutum oftlega á góðum fundum á heimili hans og Hrefnu, konu hans, um leið og við nutum ríkulegra kræsinga á heimili þeirra. 

Guðgeir var mikill og einlægur trúmaður þar sem hann efaðist aldrei um tilveru og handleiðslu guðs og fannst öllu best borgið í hans hendi. Enda gaf hann kirkju sinni í Hraungerðishreppi mikið af sínum tíma sem formaður sóknarnefndar, forsöngvari, oft á tíðum einsöngvari, bæði þar og í öðrum kirkjum og taldi það ekki eftir sér. Kórmaður var hann mikill og söng með kirkjukór, samkór og karlakór enda lauk hann þriðja stigi í söngskóla á seinni árum sínum. 

Nærvara hans var einkar notaleg þar sem hógværð í fasi og orðum var gjarnan í fyrirrúmi. Áhugi og meðferð á íslenskri tungu var honum hugleikin og hafði hann áhrif á aðra í kringum sig hvað tunguna varðaði. Lagði oft til sínar hugmyndir til ýmissa útvarpsþátta í þeim efnum. Þá var hann mjög góður penni og skrifaði margar greinar í blöð og tímarit, einkanlega um þjóðleg mál. 

Guðgeir var sérlega skemmtilegur ferðafélagi, hvort sem var í fjallaferðum á vetrum eða sumarferðum þar sem hann var sérlega fróður um landið og sögu. 

Eitt sem lýsir Guðgeiri var elja hans við leitina að staðsetningu Hólmaselskirkju í Meðallandi, sem fór undir hraun í Skaftáreldum 1784. Saga þessarar kirkju og gossins var rík í huga hans, eins og annarra sveitunga þar. Kirkjan hafði verið flutt af upprunalega stað sínum, til Hólmasels, vegna uppfoks neðar í sveitinni, nokkrum árum áður með mikilli fyrirhöfn sóknarbarna. Þegar hraunflóðið stefndi að Hólmaselsbænum og kirkjunni flúði prestur með allt sitt, læsti kirkjunni en skildi eftir alla kirkjumuni og klukkuna, sem var forláta gripur fenginn að láni frá Þykkvabæjarklaustri. Þegar bændur áttuðu sig á hvernig skilið hafði verið við reyndu þeir að komast í kirkjuna en allt var læst og hraunið komið upp að henni. Þessi missir var Meðallendingum afar sár og presti lítið þakkað. Þar til nýverið vissi engin hvar Hólmaselskirkja hafði nákvæmlega staðið. Guðgeiri þótti það mjög miður, fór á kreik og las sér til og leitaði allra gagna sem mögulegt var að finna. Hafði loks upp á korti sem biskup hafði látið gera af Meðallandi og nærsveitum nokkru fyrir gos þar sem fram kom staðsetning allra bæja sveitarinnar, bæði þeirra sem fóru undir og eins hinna sem sluppu og standa enn. Næst fékk hann hjá Landmælingum ríkisins loftmynd af sveitinni og með hornamælingum og samburði við þekkta staði og óþekkta gat hann fundið hnit staðarins þar sem kirkjan liggur undir. Að þessu öllu loknu, sem tók langan tíma og fyrirhöfn, fékk hann okkur svila sína og fleira gott fólk með sér með gps-tæki í hendi og gengum yfir hraunið eftir gps-tækinu, staðurinn fundinn og kross reistur á staðnum. Þessi ferð gekk mjög brösuglega og nefndi Guðgeir ákveðinn draug sem líklega var að stríða okkur. 

Veru sæll, kæri vinur. 
Ástvaldur Eiríksson og 
Katla Margét Ólafsdóttir. 


Ég get ekki tjáð mig um málið á þessari stundu

Blaðamaður: Er lán frá IMF í höfn?

Formaður Aðfaraflokksins: Við erum að skoða ýmislegt og margt kemur til greina.

B: Hvað annað er hægt að gera í stöðunni?

FA: Gát er best með forsjá. Við getum ekki rasað að neinu. Það ber að skoða okkar möguleika á erlendum vettvangi og útiloka ekki neitt.

B: Væri heppilegt ef seðlabankastjóri segði af sér?

FA: Það held ég ekki. Við eigum ekki að vera að ráðast á einstaka menn í þjóðfélaginu. Við verðum að standa saman og leysa úr málunum. Það hjálpar engum ef við erum í einhverjum benda-á-mann leik. Nú verðum við að standa saman.

B: Má ekki gera ráð fyrir að við verðum tekin alvarlegar erlendis ef seðlabankastjóri og ríkisstjórnin færi frá?

FA: Það held ég ekki. Við erum með traust fólk og ættum að gefa þeim vinnufrið.

B:Finnst þér ekki að stjórnmálamenn megi vera hreinskilnari við fólkið í landinu? Er ekki allt of mikill feluleikur í gangi?

FA: Það held ég ekki. Fólk fær að heyra hvað við erum að gera þegar þar að kemur. Það hjálpar engum að vera að gaspra út um allt. Við verðum að standa saman og vera yfirveguð. 

B: Sagt er að IMF sé ljót stofnun, að ráðskast sé með heilu löndin og að auðurinn komi í hendur örfárra auðmanna. Er þetta besti kosturinn fyrir Ísland?

FA: Það er auðvitað bara bull að IMF séu einhver glæpasamtök. Ég vísa svoleiðis samsæriskenningum á bug. Enda er ekkert annað í stöðunni.

B: Hvað með Ghana?

FA: Það varð að nútímavæða það land, en annars get ég ekkert verið að tala um einstaka lönd. Við erum öðruvísi, enda stofnfélagar IMF.

B: Stórnmálamenn áttu mikinn þátt í að skapa þá stöðu sem við erum í.

FA: Nei nei, við gerðum það ekki...

B: Þið settuð reglurnar og sváfuð svo á verðinum. Stunguð skírslum undir stól.

FA: Við í Aðfaraflokknum gerðum það ekki. Það voru Sjálfstæðismenn. Við höfum alltaf barist gegn...

B: Þið áttuð þátt í einkavæðingunni og sögðuð ekkert meðan spilaborgin var reist.

FA: Sko, við höfum oft bent á að kapp sé best með nauðsyn og að of hratt væri farið.

B: Hvenær?

FA: Ha?

B: Hvenær bentuð þið á að of hratt væri farið?

FA: Oft.

B: Hvenær?

FA: Á fundum.

B: Hvaða fundum?

FA: Er þetta ekki að verða gott?

Kæru lesendur. Þetta viðtal var aldrei tekið, en það hljómar eins og þau öll. Hvenær ætlum við að vakna og gera eitthvað? Ríkisstjórn xD og xB einkavæddi bankana. Kaupendur voru ekki hæstbjóðendur, heldur vinir og kunningjar. Bankarnir okkar voru gefnir. Svo var farið í víking. Íslendingar voru orðnir forríkir, en auðurinn var þó ekki til. Þetta var allt tekið á lánum. Það má kannski kenna þjóðinni um, en voru allar upplýsingar réttar? Var ástandinu lýst rétt? Fengu allir góðar ráðleggingar?

Ríkisstjórn xD og xS hefði átt að sjá hrunið fyrir en gerði ekkert fyrr en það var orðið of seint. Þegar farið var af stað, var farið með þvílíku offorsi að allt kerfið hrundi eins og spilaborgin sem það var. Ríkisvæðing Glitnis voru mistök sem eru að kosta þjóðina sex milljarða dala. Ég reyni ekki einu sinni að nefna krónutölu, því hún verður gjörbreytt á morgun. Við sem engan þátt tóku í sukkinu og byggingu spilaborgarinnar megum borga lán frá IMF sem er þekkt fyrir allt annað en vettlingatök. Við og okkar afkomendur verðum að borga fyrir sukkið og mistökin. 20.000 dollara á mann, meira ef við tökum vexti inn í dæmið. það eru allir að taka lán upp á þrjár milljónir. Smábörn og gamalmenni líka. Og ófædd börn.

Við vitum ekki einu sinni hvort 3.000.000 á mann er nóg því það er ekki allt komið í ljós. Við vitum ekki hvort 20.000 dollarar séu þrjár milljónir eða fimm, því enginn veit hvað krónan er lítils virði. Fólk, sveitarfélög og félagasamtök í útlöndum eru að undirbúa mál á hendur íslendingum. Við megum borga brúsann, meðan þeir sem settu reglurnar og gleymdu að veita aðhald sitja sem fastast. Við megum borga meðan þeir sem létu milljarða lán falla þá þjóðina láta sig hverfa í einkaþotum, svo þeir geti slappað af á snekkju í sólarlöndum, langt frá pirrandi væli fólksins.

Við verðum að gera eitthvað. Standa saman, breyta Ísland í þjóðfélagið sem við viljum búa í. Ekki eitthvert gjörspillt bananalýðveldi. Ef við notum ekki tækifærið núna, breytist ekkert.

Endilega kíkið á Nýja Ísland og takið þátt í að breyta samfélaginu til hins betra. Komum umræðunni af stað! Ef við vinnum saman, getum við skipt máli. Ef ekki, fer allt aftur í sama horfið. Bara með hærri lánum. 


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gobbildígúgg

Heimurinn er eitt stórt gobbeldígúgg.

Fyrst talað er um ING í Hollandi. ING er risastór banki. Ég er nokkuð viss um að hann sé á topp 5 yfir stærstu banka í heimi. Fyrir helgi var talað um að hann þyrfti hjálp upp á níu milljarða evra. Í dag var sagt á forsíðu De Telegraaf að bankinn hefði fengið 10 milljarða innspýtingu frá hollenska ríkinu. Ég var að gefa ING 625 evrur í dag. Þá er ég að miða við höfðatölu hér í landinu flata, ekki skattgreiðendur.

Ég gæti komið í heimsókn til fjölskyldunnar tvisvar fyrir þann pening. Mér er nokkuð sama um ING vil ekkert gefa honum 2/3 af nýrri MacBook sem ég vil frekar því batteríið í PowerBókinni er næstum dautt.

Munurinn á 9 og tíu milljörðum, upphæðinni fyrir og eftir helgi, er fjórðungur þess sem Ísland þarf til að rétta sig af.

Margir spyrja sig hvernig sveitarfélög geti verið með hundruð milljóna evra inni á bankareikningum meðan útsvar er hækkað vegna þess að það vantar pening til að mála ráðhúsið. Ég heyrði viðtal í útvarpi hér í Hollandi í gær þar sem endurskoðandi talaði um landlægt bókhaldssvindl. Hann hefur skoðað ársreikninga 300 ag 420 sveitarfélögum hér í landi og heldur því fram að ekki eitt einasta sé hreinskilið þegar kemur að tekjuafgangi. Hann tók Amsterdam sem dæmi. Í þeirra ársskýrslu stendur að tekjuafgangur hafi verið 164 milljónir evra. Samt voru 2.5 milljarðar lagðir inn á bankareikninga og hafa ekki verið snertir. 2500 milljónir evra (62% þess sem íslenska ríkið þarf til að koma sér á flot) voru lagðar inn á reikning. Hvernig? Fjárfestingar í verkefnum sem eru bara til á pappírum.

Heimurinn mun aldrei verða eins eftir þessa kreppu. Það er svo mikið tað að koma upp á yfirborðið að fólk hlýtur að vakna og gera eitthvað. Ég trúi allavega ekki að við séum svo miklir sauðir að við látum þetta yfir okkur ganga og bíðum þolinmóð eftir að hlutirnir lagist af sjálfu sér svo við getum farið að sofa aftur í alsælu blekkingarinnar.

Endilega kíkið á síðuna Nýja Ísland svo við getum öll lagt okkar að mörkum og breytt heiminum til hins betra.


mbl.is Málshöfðun hugsanlega innan nokkurra vikna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

.

Ég vaknaði upp við vondan draum í London fyrir 15 árum. Mig dreymdi að þú værir farinn. Þú, af öllum. Ég var svo langt í burtu og ég ég átti þér svo margt að þakka. Sem betur fer var þetta draumur. Þegar ég hringdi í þig var allt í lagi. Þegar ég kom heim naut ég þess að vera nálægt þér. Ég vissi hvað ég var heppinn að þekkja þig.

Ég sagði þér aldrei frá því hvað mig dreymdi. Það skipti ekki máli.

Þegar ég byrjaði að blogga, fyrir rúmum tveimur árum, vissum við að eitthvað var að. Vissum ekki hvað það var, en þér leið illa. Þegar ég kom heim um sumarið, vildi ég fara með þig austur í Meðalland svo þú gætir séð æskuslóðirnar einu sinni enn, en þú varst of veikur. Sem betur fer náðir þú þér aftur. Þú gast notið lífsins, þótt óverðursskýin neituðu að hverfa. Ég minntist aldrei á þig á þessari síðu. Ekki vegna þess að ég vildi það ekki, ég vildi öskra til alheimsins að þarna færi fallegasta manneskja sem ég hef nokkru sinni kynnst. Ég vildi enda hverja færslu á kveðju til þín. En ég gerði það ekki því ég vildi láta þitt stríð í friði. Leyfa þér að berjast án þess að draga athygli að því.

Ég sagði þér aldrei að allt sem ég hef gert síðan, var fyrir þig. Ég tileinkaði þér ekki stuttmyndina því þú varst enn meðal okkar. Þú ert það enn, sem betur fer. En ég vil að þú vitir að ég gerði hana fyrir þig. Þegar ég geri kvikmyndina verður hún tileinkuð þér því ég hefði aldrei fengið hugmyndina án þín. Ég væri ekki sá sem ég er án þess að hafa kynnst þér og lært af þér. 

Ég er óendanlega þakklátur fyrir að hafa fengið að sýna þér Mats Kilian og sjá þig halda á honum. Ég mun aldrei gleyma litla augnablikinu áður en þið fóruð frá Skotlandi og þú komst inn í herbergi þar sem hann lá sofandi. Ég mun aldrei getað þakkað þér almennilega fyrir það, en þess þarf ekki. 

Ég vildi að ég gæti verið hjá þér í nótt. 


Nýja Ísland

Eins og dómsmálaráðherra segir, verðum við að byrja upp á nýtt. Við verðum að berjast fyrir frelsi okkar og sjálfstæði, bæði pólitísku og efnahagslegu. Það er fyrir öllu að við föllum ekki í sömu gryfjuna, að við segjum skilið við flokkapólitík í rikisfyrirtækjum, spillingu í kerfinu og óhemda veraldarhyggju. Auðvitað er gott að njóta lífsins, en kapp er best með forsjá eins og við höfum verið minnt all harkalega á.

Til að Ísland verði sem best, til að þjóðfélagið verði það sem við viljum hafa það, verðum við öll að standa saman. Við verðum öll að leggja okkar af hendi. Þá á ég ekki bara við vinnu, heldur verðum við öll að koma með hugmyndir. Hvenig þjóðfélag viljum við byggja?

Ég setti upp síðuna Nýja Ísland svo við getum öll lagt okkar að mörkum. Þar getum við öll sagt hvað við viljum, komið með hugmyndir að nýju samfélagi og gert athugasemdir við það sem okkur þykir miður fara. Það er um að gera að sem flestir skrái sig og taki þátt. Hver veit, ef við erum nógu mörg, hlusta ráðamenn kannski á okkur. Þeir gætu jafnvel tekið þátt í umræðunni ef vel gengur.

Vonandi sé ég sem flesta á NyjaIsland.is 


mbl.is Ný sjálfstæðisbarátta óhjákvæmileg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í góðu...

Ég er jafn pirraður út í breta og hver annar, en skiptir þetta einhverju máli? Það er ólíklegt að RAF geri loftárásir á Ísland, þótt bretinn brúni sé skapstyggur. Það er líka ólíklegt að RAF geri ekki sitt besta, verði landinu ógnað. Þar fyrir utan er hættan á ógn lítil. Rússar eru bestu vinir íslendinga og kanadamenn hafa verið vinveittir hingað til. Noregur hefur sennilega ekki áhuga á að yfirtaka Ísland því þá þyrftu þeir að yfirtaka skuldirnar með. Þetta er því dautt mál og það myndi ekki hjálpa neinum að gera pólitískt óveður úr því.

Annað mál á dagskrá. Mér finnst að íslendingar verði að hafa einn stað þar sem hugmyndir og athugasemdir við stjórnun þjóðarinnar koma fram. Við getum öll bloggað, en það fá ekki allir 1000 gesti á dag. Komi einhver með frábæra hugmynd en fimm manns lesa hana, dettur hún dauð niður. Ég hef því sett upp síðuna www.NyjaIsland.is þar sem allir geta skráð sig og tjáð sig. Ef við byggjum upp sterkt og lifandi samfélag, getum við haft áhrif. Hver veit, kannski fara þingmenn að venja komur sínar til okkar? Það er möguleiki, en aðeins ef við búum til virkt og málefnanlegt samfélag.

Sjáumst á www.NyjaIsland.is 


mbl.is Bretar sjá um varnirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband