Ég verslaði á Íslandi í dag

Það er ljótt ef millifærslur eru ekki að virka milli landa. Hver stoppar þær og hvers vegna? Nú er ég erlendis og veit ekkert um ástandið nema að sem ég les á netinu. Er farið að bera á vöruskorti heima?

Annars var ég að versla í dag. Ég fór inn á síðu Isnic og tók NyjaIsland.is á leigu. Þetta kostaði slatta, en með ykkar hjálp verður þetta þess virði. Þess má geta að það virtist ekki vera vandamál að borga með korti.

En um lénið. Ég minntist á það um daginn að mig langaði að setja upp síðu þar sem fólk gæti komið saman og rætt málin. Komið með hugmyndir sem gætu hjálpað okkur að komast út úr þessu ástandi. Síðan er tilbúin. Hún er einföld en spjallborðið verðuð aðal málið. Það eina sem er ekki að virka er nafnaþjónadæmið. Hafi einhver vit á þessu, má hinn sami hjálpa. Ég setti upp DNS þjón hjá xName.org því hitt .is lénið mitt er þar. Ég er að nota nákvæmlega sömu stillingar, en samt segir Isnic síðan þetta:

Niðurstaða prófa á "NS1.XNAME.ORG": Ekki tókst að fletta upp nafnaþjónum fyrir lénið NYJAISLAND.IS
Niðurstaða prófa á "NS0.XNAME.ORG": Ekki tókst að fletta upp nafnaþjónum fyrir lénið NYJAISLAND.IS 

 Ég er ekki að fatta. Nenni einhver sem vit hefur á þessu að vera í emil sambandi á morgun, mun ég verða ofurhappí og síðan vonandi verða nothæf.


mbl.is Greiðslur stöðvaðar á leið til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geir, passaðu þig...

...og okkur. Ég var að horfa á fréttatíma í hollenska ríkissjónvarpinu og þar var enn og aftur talað um Icesave og Landsbankann. Sveitarfélög hér eru að undirbúa mál á hendur íslenska ríkinu vegna 200 milljóna evra sem þau áttu á reikningum hjá Icesave. Þetta eru peningar sem fara langt yfir 20.000 evrurnar sem ríkið hefur ábyrgst. Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sagði að málið væri þeim í vil, því FME þeirra hollendinga hefði fengið rangar upplýsingar frá FME á Íslandi um stöðu bankanna. Veit ríkisstjórnin af þessu? Er hún að undirbúa vörn?

Þetta var fyrsta fréttin. Frétt númer tvö var að evrópuríki hafa komið sér saman um hvernig eigi að koma í veg fyrir hrun innan ESB. Hvernig stendur á því að Evrópa stendur saman en leikur sér af dauðrotuðu músinni, Íslandi? Hvað höfum við, venjulega fólkið sem lendir í súpunni, gert þeim?


mbl.is Hafa kvartað við NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvað svo?

Það er auðvitað hið besta mál ef þokkalegt verð fæst fyrir Baug og hans fyrirtæki. Eitt vil ég þó vita. Fer söluverðið upp í skuldir? Mun íslenska ríkið geta notað fjármagnið til að mýkja fallið eða hverfur það inn á reikninga auðmanna?
mbl.is Baugseignum líkt við fullan pott af spaghetti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur til 1984 og til baka

Ísland var alltaf land óðaverðbólgu, flokkaspillingar, vinagreiða og einangrunar. Í kjölfar hernáms breta í maí 1940 breyttist flest, en þó ekki allt. Einangrunin hvarf með hersetunni, inngöngu í Nato og Sameinuðu Þjóðirnar og svo endanlega 1994 með undirritun samningsins um EES. Óðaverðbólgan hvarf eftir þjóðarsáttina og var komin niður í eðlilega tölu upp út 1990. Spillingin og vinagreiðarnir héldu þó velli.

Í kjölfar hrunsins í síðustu viku er Ísland komið í sömu spor og við vorum í 1984. Við erum einangruð með ónýtan gjaldmiðil, óðaverðbólga og fjöldagjaldþrot framundan. Allt er breytt. Ísland verður aldrei eins og það var. Auðvitað munum við vinna okkur út úr þessu veseni, en hvað mun það taka langan tíma? Erum við að tala um ár eða áratugi?

Traust okkar í milli hefur aldrei verið mikilvægara en nú. Við höfum ekki efni á að vera í innbyrðis deilum. Við verðum að standa saman og vinna okkur upp úr þessu. Við verðum að veita stjórnmálamönnum og öðrum sem fara með okkar vald aðhald. Flokksskírteini eiga ekki að skipta máli lengur. Vinagreiðar verða að heyra sögunni til. Íslenskt þjóðfélag verður að vera eins krystaltært og gegnsætt og mögulegt er.

Fyrir einhverju síðan skráði ég lénið FreeIceland.com. Er ekki kominn tími til að nota það? Ég ætla að setja upp spjallvef þar sem fólk getur tjáð sig um hvað sem það vill, komið með hugmyndir að betri framtíð og sagt sína sögu. Bloggið er fínt, en almennur spjallvefur er annars eðlist. Það hittist fólk og ræðir málin. Þar verður hægt að setja þrýsting á ráðamenn og aðra. Sjái fólk þörf fyrir aðgerðir, verður hægt að skipuleggja þær þar sem allir sjá til. Umfram allt verður hægt að sameina krafta sem flestra. Í staðinn fyrir að tuða hvert í sínu horni, getur fólk talað saman og sameinast gegn því sem miður fer. Stjórnmála- og viðskiptamenn eru bara menn (hér er auðvitað átt við bæði kynin) og þeir þurfa líka hönd til að halda í. Það verður hægt að gagnrýna það sem miður fer, en hrósa því sem vel er gert. Vonandi verður umræðan þess eðlis að fólk í stjórnunarstöðum geti notað vefinn til að sjá hvað fólkinu í landinu finnst um hin ýmsu mál.

Ég mun setja síðuna upp sem fyrst. Ég vonast til að hafa hana tlbúna og á netinu fyrir helgi. Hafi fólk hugmyndir um það hvers konar spjallrásir eigi að byrja á, má setja það í athugasemdir hér að neðan. Ég vona að síðan dafni og muni skipta máli í umræðunni.


mbl.is Spáir 75% verðbólgu á næstunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

IMF ÞÝÐIR ENDALOK ÍSLANDS

Ég ætla að hafa þetta stutt.

IMF segist hjálpa löndum, en þeir hjálpa stórfyrirtækjum að fjárfesta í löndunum. Þannig virðast þeir hjálpa, en það sem gerist er að fyrirtækin verða rík og fólkið fátækt. Er það sem við viljum? Allar auðlindir fullnýttar og þjóðin fátækari en nú?

IMF hjálpaði Argentínu. Forsetinn sagði hins vegar að IMF hefði verið orsök vandans. Sjá þessa frétt á BBC. Það þarf reyndar ekki að gera meira en tikka imf argentina inn í Google til að finna endalausar slæmar fréttir af því samstarfi.

IMF mútar þjóðarleiðtogum. Vinni þeir ekki með sjóðnum eru þeir teknir úr umferð. Forseti Equador var myrtur því hann lét ekki múta sér. Þetta segir fyrrverandi starfsmaður sjóðsins.

Ég hvet alla til að lesa færslu Neo um málið. Horfið á myndbandið ef ykkur stendur ekki á sama um land og þjóð. 


mbl.is IMF tilbúinn að hjálpa Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýji Landsbankinn og nýja spillingin

Það er ótrúlegt að horfa upp á Landsbankann. Auðvitað eiga þeir að vinna eftir þeim reglum sem þeim eru settar. Þeir eiga alltaf að gera það, en að brjóta reglur nú, meðan allt er í uppnámi er virkilega óábyrgt. Það sem öllu máli skiptir nú er að íslendingar fari nákvæmlega eftir settum reglum og lögum. Það má engan höggstað á okkur finna á meðan ekki hefur verið samið um lán til að rétta þjóðarbúið við. Sérstaklega ef við höfum áhuga á að leita réttar okkar gagnvart bretum.

Ég trúði og vonaði að eftir hrun íslensku bankanna og gjaldþrot Íslands, myndum við læra eitthvað. Við myndum leggja gömlu góðu flokkapólitíkina frá okkur og reyna að byggja betra samfélag. Talað hefur verið um að við skulum ekki skvetta skít, ekki leita af blórabögglum. Við skyldum standa saman.

Því miður virðast stjórnmálamenn leggja annan skilning í samstöðu. Þeir og þeirra smáa klíka stendur saman. Ég var að lesa grein á Eyjunni þar sem segir að fyrrverandi yfirmaður Icesave hafi verið settur yfir innri endurskoðun Nýja Landsbanka. Það er tvennt sem ég ekki skil og væri gaman að fá svör við.

1. Er maðurinn besti kosturinn? Ég er ekki mikið inni í bankastarfsemi og þekki manninn ekkert, en á innri endurskoðun ekki að skoða það sem betur mætti fara? Er ekki líklegt að þessi maður muni koma til með að rannsaka eigin verk? Hvernig getur hann verið besti maðurinn í starfið? Ég verð að spyrja, hvernig tengist hann stjórnmálamönnum?

2. Erum við alveg úti á þekju þegar kemur að almannatengslum, eða PR? Það er háð áróðursstríð úti í heimi, eins og ég skrifaði um í gær. Við erum máluð sem vondu kallarnir sem stálu sparifé saklausa fólksins. Ég vona svo sannarlega að breska og hollenska pressan komist ekki að þessu. Þá er fjandinn laus og við búin að tapa áróðursstríðinu. Þetta gæti kostað okkur, þjóðina, einhverja milljarða í viðbót.

Við höfum ekki efni á að halda áfram á spillingarbraut. Við verðum að taka okkur saman í andlitinu ef við höfum minnstan áhuga á að komast út úr þessu ölduróti. Ég hafði ekki mikið álit á forsætisráðherra áður en efnahagurinn hrundi. Það breyttist þegar hann virtist taka málin föstum höndum og virtist vera að vinna í okkur málum af yfirvegun og festu. Ég vona að hann hafi gæfu til að leiðrétta eða útskýra þetta mál strax, eða segja af sér annars. Svo alvarlegt er þetta mál.


mbl.is Landsbankamenn svari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Daginn eftir...

Ólafur Ragnar gekk of langt og viðurkenndi það, bretinn brúni lét eins og fífl og mun tapa næstu kosningum, Ísland er í skítnum og framtíðin er björt.

Það sem mér fannst athyglisverðast í þessu viðtali var bjartsýnin. Það getur vel verið að þetta hafi verið silkiorð stjórnmálamanns, en ég vil trúa því sem ÓRG sagði. Íslendingar eru sterk þjóð og munu komast í gegn um þá erfiðleika sem framundan eru. Við lifðum Móðuharðindin af. Auðvitað voru það gallharðir bændur og sjómenn sem kölluðu ekki allt ömmu sína, en við þurfum ekki að gera annað en fara inn á vef íslendingabókar til að sjá hvað við erum náskyld þeim. Ég þarf ekki annað en að hugsa til afa sem nú háir sitt stríð og hans foreldra sem voru ekkert frábrugðin þeim sem horðu upp á allar sínar skepnur drepast, rúri öld fyrir þeirra fæðingu. Við erum sama fólkið og beit á jaxlinn þá, sama fólkið og lifði af sjö aldir í frosnum moldarkofum, sama þjóðin og mótmælti í Köben í den. Rassarnir okkar hafa kannski mýkst í Range Rover sætum undanfarinna ára, en við erum hörð inni við beinið.

Annað sem ÓRG minntist á er að við megum ekki missa fólk úr landi. Það hlýtur þá líka að þýða að komi týndu sauðirnir heim, séum við betur sett. Þar kæmi auðvitað tungumálakunnátta og þekking á umheiminum inn í landið. Ég er að spá í hugmynd sem gæti laðað okkur, íslendinga erlendis, heim. Ég blogga um það seinna. 

Framtíðin er björt ef við tökum forfeður okkar til fyrirmyndar og stöndum saman.


mbl.is Ólafur Ragnar: Ótrúleg ósanngirni breskra stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rothöggið í undirbúningi?

Hér í Hollandi er auðvitað talað allt öðruvísi um bankavesenið á Íslandi. Íslendingar eru málaðir sem fjárglæframenn. Það er ekki gert upp á milli bankamanna, stjórnmálamanna og húsmæðra. Áróðursstríðið er enn í fullum gangi, þótt samið hafi verið um Icesave. Ísland er daglega í fréttum og þær eru litaðar, okkur í óhag.

Í annari frétt á MBL er talað um að austurrískir bankar hafi fjárfest þrjá milljarða í íslensku bönkunum. Munum við þurfa að koma til móts við þá? Lögmannastofa í Amsterdam er að undirbúa málssókn á hendur íslenska ríkinu. Fólk sem átti 100.000 evrur eða meira á Icesave reikningum er hvatt til að hafa samband við lögfræðistofu Wiersma Van Campen Vos (“WVCV”). Því fleiri sem gefa sig fram, því sterkari verður málssóknin, segja þeir. Þetta er auðvitað í blöðunum hér, svo það má búast við að margir flykki sér á bak við WVCV. Ég vona að íslensk stjórnvöld viti af þessu og séu tryggð lagalega gegn kröfu sem gæti þýtt rothöggið endanlega. Það þarf ekki að margfalda 100.000 evrur (15 milljónir) oft til að fá út tölu sem við munum svelgjast á.

Mig langar að þýða frétt sem var á forsíðu De Telegraaf, mest lesna dagblaði Hollands í gær. Þar er talað um samningana sem íslendingar og hollendingar gerðu. Greinin er svo bjánalega skrifuð og full að þjóðernisrembu að ég hló og grét þegar ég las hana. Ég var ekki viss hvort væri meira viðeigandi. Svona er verið að tala um okkur á forsíðum erlendra blaða. Þess má geta að Wouter Bos hefur aldrei verið vinsælli en nú.

ÍSLAND BER ÁBYRGÐ ÞRÁTT FYRIR ALLT

Hollensku ríkisstjórninni hefur tekist að fá Ísland til að viðurkenna ábyrgð á fyrstu 20.000 evrum hollendinga sem áttu reikninga hjá íslenska bankanum Icesave.

Það sagði Wouter Bos, fjármálaráðherra, í Washington í gær (11.10): "Íslendingarnir hafa skrifað undir samninga þess efnis að þeir ábyrgist þetta fé og muni endurgreiða. Við munum hjálpa þeim með því að lána þessa upphæð, en á endanum koma þessir peningar frá Íslandi"

Aðhlátursefni.

Viðræðurnar voru erfiðar til að byrja með, þangað til Bos bauð fram hjálp hollenska ríkisins. "Á Íslandi skilur fólk líka að standi það ekki við skuldbindingar, verður landið aðhlátursefni í alþjóða fjármálaheiminum".


mbl.is Ástandið verra en þjóðargjaldþrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölum við rússa fyrst!

Rússar hafa boðið okkur lán. Það er ólíklegt að þeir vilji ráðskast með okkur. Það hefði ekkert upp á sig og þeir kæmust aldrei upp með það. Bandaríkjamenn og NATO myndu sjá til þess. Kaninn kom kannski í veg fyrir lán til okkar, en hann fer ekki að láta rússa vinna neitt sérstaklega á, hernaðarlega.

Rússar vilja ekki hjálpa okkur af því þeir eru svo góðir eða þakklátir fyrir hálf rotinn fisk sem við seldum þeim fyrir olíu. Þeir vilja sennilega vinna sér inn stig á vesturlöndum með því að hjálpa þurfandi (NATO) þjóð "aþþíbara". Þeir vilja líta út fyrir að vera góði kallinn. Svo er mögulegt að þeir hafi áhuga á aðgengi að olíulindum framtíðarinnar. Við því segi ég, af hverju ekki? Er kaninn eitthvað betri? Er hann ekki bara fallegri á yfirborðinu?

IMF hefur orðstýr á sér. Þeir lána ekki vegna þess að hjartað er að springa af ást og kærleik til þeirra sem minna mega sín. Þeir setja skilyrði sem fæstar þjóðir hafa komist frá ólaskaðar. Við getum hjálpað okkur sjálf með hjálp rússa og Norðmanna. Er það eðlilegt að ef einhver hendir okkur út í tjörn, biðjum við hann um hjálp, þegar annar býður okkur aðstoð? Það er óþarfi að hrinda IMF í burtu, en það er líka allt í lagi að gefa rússunum séns fyrst.

Lesið endilega færsluna Þjóðstjórn, sem ég skrifaði á undan þessari um endurbyggingu Íslands. Það væri gaman að heyra hvað fólki finnst. 


mbl.is Fundað stíft með IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðstjórn

Enginn veit hversu mikil verðmæti eru eftir í fyrirtækjum útrásarmanna. Það sem við vitum er að ætlast er til að við, þessar 300.000 hræður, borgum helmingi fleiri sparifjáreigendum erlendis. Við berum ábyrgð, hvernig sem á því stendur. Skuldlausa Ísland heyrir sögunni til. Við virðumst vera komin aftur til þess tíma þegar allt var í ólestri. Þjóðarsáttin var til einskis. Ísland virkar ekki. Eða hvað?
 
Hvernig getum við komið okkur út úr þessu klúðri, án þess að skuldsetja þjóðina áratugi fram í tímann? Hvernig getum við endurheimt tandurhreint mannorðið sem er nú jafn fjarlægt og sjáfstæði Tíbet? Hvernig getum við komið í veg fyrir að svona gerist aftur? Hvernig getum við haldið okkar sjálfstæði, efnahagslegu og pólitísku?
 
Alger uppstokkun er sennilega það eina sem virkar. Ísland er hrunið, brunnið til grunna og það hefur lítið upp á sig að reyna að gera við. Við verðum að byrja upp á nýtt, hugsa dæmið frá grunni. Ég tel að það besta sem við getum gert í stöðunni er að sættast við nágrannaþjóðirnar, hversu sárt sem það er. Við verðum að vinna aftur velvild heimsins, almennings að minnsta kosti. Þegar komið er á hreint hvað við skuldum, yrði sett þjóðstjórn fólks úr öllum flokkum og utan flokka. Besti maður í starfið yrði ráðinn, hvort sem hann væri stjórnmálamaður eða ekki. Forsætisráðherra yrði sterkur maður (eða kona) með afgerandi stjórnunarhæfileika. Fjármálaráðherra yrði einstaklingur með vit á fjármálum. Mér dettur Ragnar Önundarson í hug þar sem hann sá þetta fyrir og reyndi að vara okkur við, en það getur verið að betra fólk finnist. Svona yrði stjórnin sett fólki sem hefði vit og áhuga á að koma okkur út úr kviksyndinu sem við erum búin að festa okkur í. Stjórn Seðlabankans yrði stokkuð upp á sama hátt.
 
Allt það fólk sem tæki sæti í stjórn landsins og bankans má ekkert hafa með vandann að gera sem kominn er upp. Það yrði að vera yfir allan vafa hafið, því hlutleysi gagnvart fyrirtækjum og ákvörðunum síðustu ára yrði að vera tryggt.
 
Þegar stjórnkerfi landsins væri komið í gagnið og versta óveðrið gengið yfir, yrði að skoða hvað gerðist. Hverjir eru sekir um spillingu, sofandahátt eða annað sem orsakaði hrunið. Það fólk yrði sótt til saka og látið bera ábyrgð á sínum ákvörðunum. Allar eignir sem tengdust bönkunum yrðu teknar upp í skuldir. Það er óvenjulegt að fyrirtæki beri ábyrgð á einhverju utan eigin kennitölu, en tímar formsatriða eru liðnir. Kennitöluflakk á ekki lengur við. Glitnir var ekki bara Glitnir og dótturfélög. Glitnir var í eigu Baugs og annara félaga. Baugur á því að ganga upp í greiðslur. Þjóðin á ekki að þurfa að borga úr eigin vasa, vegna formsatriða með kennitölur. Jón Ásgeir á ekki Baug eftir það sem hefur gerst. Við eigum Baug og öll dótturfyrirtæki. Dugi þau fyrir skuldum og hafi Jón Ásgeir ekki gert neitt saknæmt, getur hann fengið restina til baka. Á meðan það er að koma í ljós, tæki ríkið við fyrirtækjunum. Seljist Debenhams ekki fyrir þokkalegt verð nú vegna ástands á alþjóðamörkuðum, heldur ríkið því þangað til almennilegt verð fæst, hvort sem það er eftir þrjá mánuði eða þrjú ár. Það sama á við um alla hina sem komu okkur á hausinn. Stjórnmálamenn og flokkar yrðu líka að gera hreint fyrir sínum dyrum og yrðu rannsakaðir. Margir hafa sennilega verið orðaðir við spillinu en voru það ekki. Þeirra nafn yrði hreinsað, meðan aðrir yrðu látnir svara til saka. Nú er tækifæri til að gera Ísland að því spillingarlausa landi sem útlendingar héldu að það væri. Þetta er kannski eitthvað svipað og IMF myndi gera, en er ekki betra ef við gerum þetta sjálf?
 
Þegar þessi mál eru komin á hreint getum við sætt okkur við þær skuldir sem eftir eru, hugsanlega leitað réttar okkar gagnvart öðrum þjóðum sem brugðust og litið fram á veginn í besta landi í heimi.

mbl.is Ísland enn í kastljósinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband