Allar hliðar skoðaðar og þetta líka... og svo burt með spillingarliðið!

Ég ætla að blogga út frá fyrirsögninni, ekki fréttinni. Ég nenni nebblekki að leika hagfræðiprófessor í bili.

Því svo bar til um þær mundir að ég fór að dullast í kvikmyndagerð. Gangi allt eftir, klára ég handritið að Undir Svörtum Sandi fyrir jól. Ef allt fer ekki í rugl kem ég svo að taka hana upp í sumar. En þetta er auðvitað bara ein mynd. Allir eru að gera bara eina mynd af og til. Þeir duglegustu rembast kannski við að verpa einu eggi á 2-3 ára fresti. Eggið er svo gullið að það stendur aldrei undir sér, svo styrki þarf til. Þetta er auðvitað handónýtt. Maður fékk útrás fyrir sköpunarkláðann og allir geta verið stoltir af því að við íslendingar séum svo æðisleg, en þetta stendur ekki undir sér. Ekki gott þegar allir eru á hausnum.

Ég var veikur í gær og er enn ekki búinn að jafna mig. Ligg þó ekki lengur á sófanum í hálfgerðu móki á milli ælukasta, svo þetta er allt í áttina. Ég notaði timann og horfði á Casablanca, klassíkina með ofurtöffaranum Bogart og hinni ofurfallegu Ingrid Bergman. Þetta er tvöfaldur viðhafnarDVD og ég lét mig hafa það að skoða aukaefnið á seinni diskinum. Þar var farið í líf Hömpa og gamla stúdíókerfið í Hollywood þar sem myndunum var dælt út. Ein mynd frumsýnd í viku. Ég fór að hugsa.

Við eigum ekkert að vera að vesenast í þessum Títanik myndum, allavega ekki bara. Ef einhver á stofnfé handa mér vil ég setja upp fyrirtækið "10". Það myndi pumpa út 10 kvikmyndum á ári og ekki setja meira en 10 milljónir í hverja mynd. Þetta er auðvitað bráðsnjöll hugmynd og framkvæmanleg. Allir eru atvinnulausir og heimta ekki tíuþúsundkall á tímann. Við værum ekkert að vesenast í að byggja rosalegar leikmyndir. Handritin yrðu skrifuð þannig að staðir sem eru til yrðu notaðir. Það má nota eitthvað af tæknibrellum ef þær kosta ekki milljónir á pixel og klessa einstaka bíl ef hann er ekki of dýr. Það væri hægt að gera spennumyndir, gamanmyndir, drama og hvað sem er. Það sem öllu máli skiptir er að handritin yrðu góð.

Ef kostnaður er ekki yfir 10 milljónir á mynd ætti þetta að standa undir sér því myndirnar yrðu sýndar í bíó, sjónvarpi og færu á DVD. 

Er ekki einhver til í þetta?  


mbl.is Allar hliðar séu skoðaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ó boí ... burt með spillingarliðið

Loksins kemur svona hálfsæmilega þokkaleg frétt og hun er staðfest að einhverri konu hjá fjármálaráðuneytinu pólska, en þá kemur Geir af fjöllum. Ég geri ráð fyrir því að hann viti hvað er í gangi. Hafi þetta farið fram hjá honum, hefur hann örugglega farið fyrst í fjármálaráðuneytið íslenska og spurst fyrir. Hefði hann ekki átt að hringja til Póllands og tala við Magdalenu áður en hann skellir þessu í blöðin? Maður er nebbla orðinn svo þreyttur á fréttum sem eru út um allan völl. Hann segir nebbla nei meðan hún segir já og við erum engu nær um hvaðan misskilningurinn er sprottinn.

Ó vell. Fastir liðir eins og venjulega.

 

 PS. "burt með spillingarliðið" er átak einhverra bloggara. Við bætum þessu við titla til að minna fólk á að við viljum spillingarliðið burt. 


mbl.is Kannast ekki við pólskt lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegt framtak ... burt með spillingarliðið

Þetta er stórskemmtileg hugmynd. Enn og aftur segi ég, ef ég væri á landinu... þetta er að verða alvarlegt. Verð ég ekki að fara að plana endurkomu? Mig langar að kaupa listaverk á 5000 kall, mig langar á borgarafundinn í Iðnó, mig langar að byggja upp nýtt og betra samfélag. Mig langar að vera á staðnum svo ég geti byggt upp síðuna Nýja Ísland. Mig langar svo margt.

Í fyrradag minntist ég á hugmynd sem ég fékk. Mig langar að gera kvikmynd um lífið í kjölfar hrunsins. Mér datt í hug að hún gæti orðið fjölskyldudrama. Rakel lét sér detta í hug að gera einhverskonar háðsádeilu um ástandið, sem ég held að gæti verið skemmtilegt verkefni. Gullvagninn kom svo með þá hugmynd að gera samsærismynd um þá sem að baki hruninu standa. Það er sjálfsagt full þörf á að kafa svolítið ofan í það og gera mynd. Kíkið endilega á þá færslu og látið heyra frá ykkur.

Svo er það stóra fréttin frá því í sumar sem er orðin svo lítil í samanburði við allt. Uriah Heep hljómleikarnir verða teknir upp á fimmtudag og föstudag. Maður hefur þá eitthvað að gera hér í afdalarassgatinu Hollandi.

 

PS. "burt með spillingarliðið" er átak einhverra bloggara. Við bætum þessu við titla til að minna fólk á að við viljum spillingarliðið burt. 


mbl.is Selja verk á 5.000 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kommon! og burt með spillingarliðið!

Ég ætla ekki að tala um tónlist eða karakter Bubba. Ég ætla ekki að spekúlera um það hvort tónlist geti breytt heiminum. En kommon!

Það vantar eina og hálfa milljón upp á að dæmið gangi upp. Á borgin það ekki til?

Hver svo sem staða borgarsjóðs er, geta þau að minnsta kosti druslast til að svara. Nei er betra en ekkert. Við vitum þá allavega hvað við höfum þau. Við vitum það svo sem, því þögnin er hávær. 

PS. "burt með spillingarliðið" er átak einhverra bloggara. Við bætum þessu við titla til að minna fólk á að við viljum spillingarliðið burt.


mbl.is Ekkert svar við styrkumsókn Bubba
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið - kvikmynd um fall Íslands : og burt með spillingarliðið!

Ég er að ljúka við gerð handrits sem ég vonast til að geta kvikmyndað í sumar. Mundin Undir Svörtum Sandi verður lauslega byggða á næstum því samnefndri stuttmynd. Þar sem þessi skrif eru að klárast, væri gaman að finna sér nýtt viðfangsefni.

Mér var að detta í hug að gera myndina Hrunið. Kannski að titillinn breytist eftir því sem sagan þróast. Myndin ætti að fjalla um íslenskan raunveruleika í kjölfar bankahrunsins. Hér er hugmynd.

Pabbi rekur lítið fyrirtæki og mamma er kennari. Skuldir fyrirtækisins verða óyfirstíganlegar og það fer á hausinn. Húsið og bílarnir missa verðgildi sitt meðan lánin rjúka upp. Mamma reynir að halda heimilinu gangandi, en það gengur illa á kennaralaununum. Pabbi reynir að sinna heimilisverkum þegar hann er ekki að leita sér að vinnu, en finnur út að hann er alveg hand ónýt húsmóðir. Þetta ástand hefur auðvitað hrikalegar afleiðingar. Táningarnir tveir skilja ekki hvers vegna þau geta ekki haldið áfram að eyða peningum og þar kemur enn ein togstreytan.

Pabbi var víst ekki alveg þar sem hann var séður. Fljótlega fer síminn að hringja og miður skemmtilegir menn fara að láta sjá sig. Þegar jeppinn fuðrar upp í innkeyrslunni, fer allt endanlega í hundana. Kannski að unglingarnir finni á sér nýja hlið og berjist við vondu kallana.

Ég get svo sem hóstað þessu upp, en það væri alveg ofboðslega skemmtilegt ef þetta yrði samvinnuverkefni. Ef fólk gerði athugasemdir, kæmi með persónur og atburði. Það væri gaman að sjá hvort hægt væri að þróa handritið hér á blogginu. Það sem ég skrifa hér að ofan er bara hugmynd. Handritið gæti þróast í allt aðra átt.

Látið endilega vita hvað ykkur finnst og sjáum hvort við getum gert kvikmynd allra landsmanna! 


Er hálfur sannleikur betri en enginn?

Auðvitað bera stjórnvöld ábyrgð á ástandinu, en aðeins að hluta. Sofandaháttur og pólitík stjórnvalda, bankarnir og lánasukk almennings kom okkur í þessa stöðu. Stjórnvöld verða að gera sitt besta til að koma okkur út úr þessu, en við berum öll ábyrgð og verðum öll að leggja okkar á skálarnar. Þá á ég ekki síst við fyrirtækin í landinu, sem mörg virðast frekar reyna að græða á ástandinu, en að hjálpa til.

Orkufrek stóriðja er alls ekki lausnin. Virkjanir kalla á enn meiri erlenda skuldsetningu, sem er það síðasta sem við þurfum. Það skapast fá störf miðað við kostnað og framkvæmdir sem fara ekki af stað fyrr en eftir 2-3 ár í fyrsta lagi munu ekki laga neitt, því við þurfum aðgerðir sem virka strax. Það eina sem getur komið í veg fyrir atvinnuleysi er ef hlúið er að sprotafyrirtækjum og öðrum sem þegar eru á markaðnum og ef ríki og sveitarfélög fara út í mannfrekar aðgerðir, svo sem vegagerð, viðhald á opinberum byggingum og öðru sem ekki hefur verið tími eða peningur fyrir.

Það síðasta sem við þurfum eru frekari erlend lán. 


mbl.is Segir stjórnvöld ábyrg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákveðinn misskilningur í gangi

Síðast þegar ég tékkaði á málunum skildaði ég og landar mínir 600 milljarða. Sú tala mun breytast eitthvað þegar Seðlabankinn sleppir krónunni lausri. Við megum eiginlega ekkert við því að vera að gefa dýrar jólagjafir í ár.

Kaupþing, Nýja Kaupþing, IOU eða hvað hann heitir er ríkisbanki, og þar með í eigu okkar skuldahalasafnaranna. Ég vil því koma því áleiðis til réttra aðila að ákveðinn misskilningur sé í gangi. Ég fer fram á það við fjölskyldu mína að vera ekkert að gefa mér jólagjafir í ár. Þess þarf ekki, enda hafa allir nóg með sitt. Ég vil því draga það til baka að ég og við séum að gefa bankamönnum jólgjafir upp á einhverja milljarða.

Vonandi verður þetta leiðrétt sem fyrst. Annars sé ég mig knúinn til að tuða þar til ég er orðinn ansi óþolandi. 


mbl.is Þurfa ekki að greiða fyrir hluti í Kaupþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elsku Björn

Ég er svo ofboðslega til í að trúa þér. Ég vil að allt verði í lagi og að tekið verði á málunum af festu og sanngirni. Ég vil trúa að aðdragandi hrunsins verði rannsakaður af hlutlausum aðilum sem þora að horfast í augu við sannleikann, sama hve sár hann er. Ég vil að öll spilin verði lögð á borðið og að við fáum öll að vita hvað gerðist. Það er nefninlega líf okkar og heimili sem lögð voru að veði. Það er því gott að þú takir á þessu máli með meinta hagsmunaárekstra og skýrir það út fyrir okkur.

Málið sem þú minnist á snýst um tvo menn og syni þeirra. Viltu vera svo góður að rökstyðja á mannamáli að þar séu engir hagsmunaárekstrar í gangi? Viltu sýna okkur svo ekki verði um villst að uppgjörið verði sanngjarnt og gegnsætt? Þá skal ég vera þægur og góður og ekki vera með þetta endalausa tuð í garð ráðamanna.


mbl.is Björn Bjarnason: Ákveðinn misskilningur í gangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta mál, en...

...á meðan við tökum ekki til í stjórn landsins og ríkisfyrirtækja eigum við ekki skilið að fá svona gjöf. Verði sett á þjóðstjórn sem veit hvað hún er að gera og er laus við spillingu, getum við tekið við þessari höfðinglegu gjöf og farið að hugsa um það hvernig við getum þakkað fyrir okkur á jafn höfðinglegan hátt.
mbl.is Vill gefa Íslendingum 300 milljónirnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til fréttamanna og kvenna sem hafa of mikinn tíma framundan

Nýja Ísland lýsir eftir fréttamönnum og konum sem hafa lítið að gera á næstunni. Síðan getur ekkert greitt fyrir unna vinnu, enda er þetta óháð og frjáls hugsjónasíða. Eins og er, er þetta ekkert meira en spjallrás fyrir þá sem vilja breytingar, en það mun breytast á næstu dögum og vikum. Spjallið verður sjálfsagt undirstaðan, en við viljum líka bjóða upp á óháðar fréttir.

Þau sem áhuga hafa á að taka þátt geta skráð sig á síðuna eða sent mér póst. Hlekkir á síðuna og netfang er að finna hér til vinstri.


mbl.is BÍ með áhyggjur af fjölmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband