19.1.2009 | 23:51
Alvöru tónlistarkona
Amy fór út í búð. Amy fór út með hundinn. Amy fór í frí. Amy fór á fyllerí. Amy söng lag. Nei, tek til baka þetta síðasta. Það er aldrei talað um það sem Amy hefur að atvinnu, enda varð hún ekki fræg á því.

Það er alltaf jafn erfitt að sætta sig við það að 0.1% góðra tónlistarmanna ná eyrum fjöldans. Ef svo mikið. Við störum á 3-4 nöfn og sjáum ekkert annað, enda er öðru ekki haldið að okkur. Við vitum allt um þetta fólk en ekkert um alla hina sem eru kannski ennþá hæfileikaríkari.
Ég fékk emil frá þýskri vinkonu um daginn. Hún er að spila í Hollandi og bauð mér að koma að sjá hana. Ég fór í kvöld, sá hana í Paradiso í Amsterdam. Hún var auðvitað fullkomin eins og alltaf. En hefur einhver heyrt á hana minnst? Ekki margir. Hún hefur ekki verið poppuð upp að einhverjum poppguði og markaðssett.
Ég kynntist henni í fyrra þegar ég féll fyrir lagi sem ég heyrði einhvers staðar. Ég varð að vita hver þessi K.C. McKanzie var. Stuttu seinna tók ég upp pínulitla hljómleika sem hún hélt í Amsterdam. Hún var ekki viss um að þetta væri rétti staðurinn til að kvikmynda. Þetta var minnsti staðurinn sem hún spilaði á. En það var ekki um annað að velja. Vegna anna var þetta eini dagurinn sem við gátum notað.
Nú fór ég og sá hana aftur. Núna sem áhorfandi og aðdáandi. Við spjölluðum eftir á og hún sagði mér að ný plata væri á leiðinni í september. Hvort ég væri ekki til í að gera myndband fyrir hana. Við fórum að spá í staði og enduðum í Berlín, heimaborg hennar. Það er því möguleiki að ég verði floginn eða lestaður til Berlínar í sumar til að taka upp myndband fyrir þessa elsku. Minn er heiðurinn.
Hér að neðan er eitt lagið sem við tókum upp í fyrrasumar á þessum ómögulega litla stað í Amsterdam. Lagið heitir Hammer and Nail. Endilega kíkið á mySpace síðuna hennar og hlustið á lag eða þrjú. Hún spurði mig hvort ég væri á leiðinni heim, hún hafi vilja koma til Íslands, svo hver veit. Kannski getið þið notið þess að sjá hana einhvern daginn.
![]() |
Vill ekki skilja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.1.2009 | 16:17
Heilaþvottur?
Ég er bara að spá og fólki er velkomið að leiðrétta mig ef ég er að bulla, en...
Er það rétt sem ég sé að þegar talað er um ESB aðild, er það alltaf sett upp sem lausn? Af hverju sé ég aldrei gagnrýni á hugsanlega ESB aðild? Ég er ekki að segja að hún sé endilega slæm hugmynd, enda á þjóðin öll að ákveða það, en hvernig á það að vera hægt ef maður sér bara fréttir um að allt muni lagast með ESB aðild? Eða að allt muni fara fjandans til án hennar?
![]() |
Voru í raun án Seðlabanka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2009 | 09:55
Tölum við Norðmenn
Ráðamenn Íslands. Ekki gera neitt bjánalegt ofan á það sem þegar er gert. Tölum við norðmenn. Sjáum hvað við getum gert saman. ESB er ekki svarið. Treystið mér, ég bý í hjarta Evópusambandsins og lífið er ekkert betra hér.
Norðmenn eru frændur okkar og munu koma betur fram við okkur en þjóðverjar, frakkar og þjóðverjar sem hafa sannað það í gegn um aldirnar að þeir hugsa bara um sjálfa sig á kostnað nágrannanna. Síðustu mánuðir hafa sannað að það er ekkert breytt.
![]() |
Norðmenn búa sig undir ESB-umsókn Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.1.2009 | 21:23
Sjaldan launar álfurinn ofbeldið
Danir láta bankana fá einhverjar þúsundir milljarða. Svipað er að gerast hér í Hollandi. Bankar og stórfyrirtæki eru að fá einhverja tugi eða hundruð milljarða evra til að fara ekki á hausinn. Það er nefninlega þannig að ef þetta fer á hausinn missir fólk vinnuna og allir fara á hausinn. Skil það svo sem, en hvar er hagnaður síðustu ára? Stórfyrirtæki kepptust um að sýna hagnað upp á milljarða (króna, evra, dollara, whatever). Hvar eru þessir peningar núna? Hvar er þessi hagnaður? Gufaði hann bara upp?
Þegar ég les að 83 af 100 stærstu fyrirtækjum heims eiga leynireikninga á bananaeyjum (þetta eru bara þau sem eru staðfest) og svo einum degi seinna að ég þurfi að borga skatta svo að þeir geti farið í að styðja við fyrirtæki sem eru að blóðmjólka mig og alla svo að þau geti borgað mér laun svo ég geti borgað skatta sem er notaður til að halda þeim uppi... Ég skil að list, gamalmenni og sjúklingar þurfi stundum hjálp hins opinbera, en fyrirtæki sem skila hagnaði upp á milljarða? Kerfið er ekki að virka. Það er kominn tími á eitthvað annað. Allt annað.
Svo las ég í einhverju dagblaðinu hér í þessu ostalandi að þessi fyrirtæki eru ekki ánægð með björgunarpakkann. Hann nær ekki nógu langt. Við erum rétt að byrja. Það sem við höfum séð er ekki nema brot af þeirri kreppu sem mun koma. Ef fyrirtæki þola ekki smá samdrátt í sex mánuði, látum þau fara á hausinn. Hvar verðum við eftir tvö ár ef þau eru farin að væla núna? Þau eru eins og fullur unglingur sem er orðið flökurt um 10. Ekki séns að hann lifi nóttina.
![]() |
|
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.1.2009 | 11:28
Post Collapse Stress Disorder
Þetta hljómar ansi skemmtilega. Mig dauðlangar að gera mynd eða eitthvað, byggt á hruninu. Ekki endilega um hrunið, heldur um mannlega þáttinn. Hvernig fer fyrir fólkinu í landinu sem fór á hausinn?
Ég hef verið að skoða og spá. Kannski að maður hósti einhverju upp einhvern daginn.
Allavega, nú er að sjá hvort ég geti hlustað á leikritið hérna langt útí heimi.
![]() |
Þjóðmenningarhúsið löðrandi í blóði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.1.2009 | 10:57
Steve Jobs lætur af störfum vegna veikinda
Steve Jobs, stofnandi og forstjóri Apple hefur tekið sér sex mánaða frí frá störfum vegna veikinda. Hann fékk krabbamein í brysi fyrir fimm árum en jafnaði sig af því. Á síðasta ári mátti sjá að hann hafði horast mikið og þegar ákvörðun var tekin að hann kæmi ekki fram á MacWorld Keynote, nú í janúar, urðu Apple notendur og fjárfestar órólegir. Hann hefur nú tekið sér frí, en margir efast um að hann komi aftur.
Í ræðunni hér að neðan tekur Steve Jobs fram að hann kláraði aldrei framhaldsnámið. Hann segir reyndar þrjár sögur sem eiga erindi til allra. Ég mæli með að sem flestir gefi sér 14 mínútur til að hlusta á hann.
7.1.2009 | 11:05
Tíu fyrir verð einnar?
Ég hef talað um það áður að íslenskar kvikmyndir eru of dýrar. Auðvitað er í lagi að gera eina og eina stórmynd ef sagan er sterk og líkur á að hún standi undir sér. Það getur ekki verið góðs viti ef allar íslenskar myndir eru fyrirfram dæmdar til að tapa peningum. Af fréttinni að dæma er það þó sigur ef myndir standa undir sér. 100 milljóna mynd þarf 100.000 gesti, og þá hef ég ekki tekið kostnað kvikmyndahúss inn í dæmið. Það er því afar ólíklegt að sú mynd muni skila hagnaði, nema hún sé stórkostlega vinsæl.
Kosti mynd 10 milljónir, þarf ekki nema 10.000 gesti. Það á ekki að vera svo mikið mál. Kannski 20.000 til að dekka allan kostnað allra aðila og skila hagnaði sem notaður yrði í næstu mynd. En hvernig er hægt að skera kostnaðinn niður um 90%?
Það þarf að byrja á handritinu. Engar hópsenur, engar risastórar leikmyndir sem þarf að byggja. Ekki mikið um sprengingar og klessta bíla. Handritið myndi byggja á sögum af fólki, yfirleitt í nútímanum. Ég hef ekki séð Blóðbönd, en sú saga er um mann sem kemst að því að tíu ára sonurinn er ekki hans. Myndin fylgir svo fjölskyldunni gegn um það erfiða tímabil sem kemur í kjölfarið. Ég veit ekki hvað hún kostaði, en svona mynd er hægt að gera fyrir lítið. Fólk hefur áhuga á fólki, svo það er endalaust hægt að finna leiðir til að gera einfaldar, en spennandi myndir. Með stafrænni tækni er hægt að spara milljónir við hverja mynd. Filmukostnaður er strokaður út og hægt er að klippa myndina á góðri ferðatölvu.
Eitt vandamálið við gerð ódýrra mynda er að Kvikmyndamiðstöðin veitir ekki styrki til kvikmynda sem kosta innan við 50 milljónir. Það þarf sjóð sem styrkir myndir sem kosta minna. Án þess munum við halda áfram að gera dýrar myndir sem geta engan vegin staðið undir sér. Eru það ekki leifar töffaraskapsins sem kom okkur í vandræði í fyrra? Við viljum vera stærri, flottari og betri en við erum?
Sumir eru kannski hræddir um að með lægri framleiðslukostnaði muni markaðurinn fyllast af lélegum myndum, en ég efast um það. Framleiðandi mun, eftir sem áður, vilja ná inn hagnaði og mun varla fara út í gerð lélegrar myndar. Kvikmyndagerðarmenn vilja fá tækifæri til að gera mynd eftir þessa. Slæm mynd mun sjálfsagt skila tapi og fólk mun síður fara að sjá aðrar myndir framleiðandans og leikstjórans. Íslendingar gefa út hundruð bóka á ári. Eru kvikmyndir eitthvað öðru vísi?
![]() |
Þegar kvikmyndir fara í þrot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.1.2009 | 13:47
Sendu mér eintak og ég...

Hef ekki séð austurrísku frímerkin, en þetta er fallegt. Ég var einmitt að tala við einhvern um daginn um frímerki. Hollensk frímerki eru ofsalega óspennandi, ljót eiginlega. Forljót reyndar, enda frímerkjasafnarar af skornum skammti hér. Sjálfsagt jafn margir og aðdáendur Íslands eftir hrun.

En hvað um það. Ef þú, lesandi góður, sendir mér póstkort með fallegri sögu og þessu frímerki, skal ég senda þér eintak af stuttmyndinni Svartur Sandur á DVD. Þetta er ekki keppni. Sendirðu kortið, færðu myndina.
Heimilisfangið er:
V.G. Ásgeirsson
Wilhelminastraat 7
1165 HA Halfweg
Holland
![]() |
Friðarsúlan hlaut bronsið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.1.2009 | 06:49
Sleppum bara loðfeldinum
Allir sem eitthvað til þekkja í kínverskri framleiðslu vita að það eru engar reglur um meðferð dýra. Það er illa séð um þau, þau eru flað lifandi, þau eru pyntuð vegna galls sem drýpur úr sári sem hefur lækningamátt eða eitthvað. Kannski að gaukurinn trúi að hann geti hossast lengur ef eitthvað dýr deyr kvalafullum dauðdaga fyrir hann. Þegar þú kemur inn á fínan veitingastað, velur þú þér dýr sem enn er lifandi, og því er slátrað fyrir þig.
Ég hef bara eitt að segja um þessar ferðir Cintamani. Ef Apple og önnur storfyrirtæki eiga fullt í fangi með að halda verksmiðueigendum hérna megin við mannrétindi, get ég ekki ímyndað mér að lítið íslenskt fyrirtæki hafi mikið að segja. Eða hafa aðstandendur farið í skoðunarferð þangað án þess að láta vita fyrir fram?

![]() |
Harma umfjöllun um Cintamani |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 06:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.1.2009 | 14:22
Kowalski einkennið
Það er ekki á hverjum degi sem maður fær bréf frá heimsþekktum rithöfundi, svo ég var hissa þegar ég tékkaði á emilnum í nótt.
Við buðum vinum í heimsókn og þar sem þetta fólk á flest börn, var ballið búið um tvö. Það er svo leiðinlegt að vakna með allt í rúst, svo ég fór í að taka til. Um þrjú var þetta orðið gott og ég ákvað að athuga hvort ég hefði fengið einhverjar skemmtilegar áramótakveðjur um kvöldið. Jú, þarna kom emill frá William Kowalski, höfundi Eddie's Bastard og fleiri frábærra bóka. Hann sagðist hafa fylgst með fréttum frá Íslandi undanfarna mánuði og var að enda við að horfa á frétt í sjónvarpi þar sem sýnt var frá mótmælum í Reykjavík. Hann veit að ég bý í Hollandi, en vildi vita hvort fjölskyldan væri nokkuð í vandræðum. Hann vildi heyra það frá íslendingi hvernig málin væru. Ég sendi honum langt svar þar sem ég útlistaði ástandið, ástæðurnar fyrir mótmælunum og reiðina í samfélaginu.
Hann vildi líka vita hvort hrunið myndi hafa áhrif á fjármögnun kvikmyndarinnar, Undir Svörtum Sandi. Þar gat ég lítil svör gefið, þar sem framleiðslan, kostnaður og allt henni viðkomandi er á frumstigi.
Það er fátt skemmtilegra en að hitta listamenn sem maður dáir af verkum sínum og komast svo að því að þeir eru yndislegt fólk. Það er svo auðvelt að ofmetnast og verða hrokanum að bráð. Ég hafði lesið allar bækurnar hans og fannst þær með því besta sem ég hef rekist á. Eftir að hafa kynnst honum sjálfum, sé ég hvaðan snilligáfan og kærleikurinn kemur. Sumt fólk hefur einhverja gáfu, eitthvað meira en við hin.
Einhver spurði mig í gærkvöldi hvort ég ætlaði að strengja einhver áramótaheit. Ég sagði svo ekki vera. Nennti ekki að standa í svoleiðis. En kannski breytti þessi tölvupóstur því. Kannski er það lærdómur dagsins. Sama hversu fræg og dáð eða gleymd og snjáð við erum, ef við sýnum öðrum áhuga og kærleik, skiptum við máli. Jákvæðni okkar hefur áhrif á fólk, þótt við vitum það ekki alltaf sjálf. Það sem við segjum við annað fólk getur haft áhrif. Við vitum aldrei hvaða orðum fólk gleymir og hverjum fólk man allt sitt líf. Ef við brosum til kassadömu sem er að berjast við baslið, fer hún kannski að brosa líka og erfiðleikarnir virðast yfirstíganlegri. Við höfum unnið góðverk án þess að hafa fyrir því, án þess að reyna á okkur. Við getum líka eyðilagt dag ókunnugra með því að vera með frekju, neikvæðni og yfirgang. Hvaða rétt höfum við til að ráðast inn í líf annarra á þann hátt. Oftast ráðumst við á fólk sem við þekkjum ekki því við þurfum útrás fyrir gremju sem einhver annar orsakaði. Þá er einfalt að ráðast á verslanafólk, ketti eða börnin okkar sem ekkert hafa gert af sér.
Kannski er það veganestið inn í nýtt ár. Verum jákvæð. Og burt með spillingarliðið, auðvitað!
Ætla svo að klára þetta með því að segja GLEÐILEGT 2009 áður en ég missi mig út í einhverja ofurvæmni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)