Tíu fyrir verð einnar?

Ég hef talað um það áður að íslenskar kvikmyndir eru of dýrar. Auðvitað er í lagi að gera eina og eina stórmynd ef sagan er sterk og líkur á að hún standi undir sér. Það getur ekki verið góðs viti ef allar íslenskar myndir eru fyrirfram dæmdar til að tapa peningum. Af fréttinni að dæma er það þó sigur ef myndir standa undir sér. 100 milljóna mynd þarf 100.000 gesti, og þá hef ég ekki tekið kostnað kvikmyndahúss inn í dæmið. Það er því afar ólíklegt að sú mynd muni skila hagnaði, nema hún sé stórkostlega vinsæl.

Kosti mynd 10 milljónir, þarf ekki nema 10.000 gesti. Það á ekki að vera svo mikið mál. Kannski 20.000 til að dekka allan kostnað allra aðila og skila hagnaði sem notaður yrði í næstu mynd. En hvernig er hægt að skera kostnaðinn niður um 90%?

Það þarf að byrja á handritinu. Engar hópsenur, engar risastórar leikmyndir sem þarf að byggja. Ekki mikið um sprengingar og klessta bíla. Handritið myndi byggja á sögum af fólki, yfirleitt í nútímanum. Ég hef ekki séð Blóðbönd, en sú saga er um mann sem kemst að því að tíu ára sonurinn er ekki hans. Myndin fylgir svo fjölskyldunni gegn um það erfiða tímabil sem kemur í kjölfarið. Ég veit ekki hvað hún kostaði, en svona mynd er hægt að gera fyrir lítið. Fólk hefur áhuga á fólki, svo það er endalaust hægt að finna leiðir til að gera einfaldar, en spennandi myndir. Með stafrænni tækni er hægt að spara milljónir við hverja mynd. Filmukostnaður er strokaður út og hægt er að klippa myndina á góðri ferðatölvu.

Eitt vandamálið við gerð ódýrra mynda er að Kvikmyndamiðstöðin veitir ekki styrki til kvikmynda sem kosta innan við 50 milljónir. Það þarf sjóð sem styrkir myndir sem kosta minna. Án þess munum við halda áfram að gera dýrar myndir sem geta engan vegin staðið undir sér. Eru það ekki leifar töffaraskapsins sem kom okkur í vandræði í fyrra? Við viljum vera stærri, flottari og betri en við erum?

Sumir eru kannski hræddir um að með lægri framleiðslukostnaði muni markaðurinn fyllast af lélegum myndum, en ég efast um það. Framleiðandi mun, eftir sem áður, vilja ná inn hagnaði og mun varla fara út í gerð lélegrar myndar. Kvikmyndagerðarmenn vilja fá tækifæri til að gera mynd eftir þessa. Slæm mynd mun sjálfsagt skila tapi og fólk mun síður fara að sjá aðrar myndir framleiðandans og leikstjórans. Íslendingar gefa út hundruð bóka á ári. Eru kvikmyndir eitthvað öðru vísi?


mbl.is Þegar kvikmyndir fara í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes H. Laxdal

"Sumir eru kannski hræddir um að með lægri framleiðslukostnaði muni markaðurinn fyllast af lélegum myndum"

Þetta er bæði slæmt og gott.  Allir verða að byrja einhverstaðar,  og það eru ekki allir sem gera stórgóða mynd í sinni fyrstu tilraun.  Það að gera þeim sem vilja gera kvikmyndir auðveldara fyrir, þótt það kosti nokkrar hundleiðinlegar myndir, getur í gegnum reynslu endað á því að skila af sér nokkrum góðum .

Jóhannes H. Laxdal, 7.1.2009 kl. 18:23

2 Smámynd: Villi Asgeirsson

Nákvæmlega. Með því að gefa öðrum möguleika á að gera kvikmyndir, er verið að opna dyrnar fyrir meisturum framtíðarinnar. Fólki sem annars hefði ekki komist inn. Það er auðvitað tap okkar allra. Það hafa yfirleitt verið 2-3 góðir leikstjórar starfandi á hverjum tíma á Íslandi á meðan rithöfundar skipta tugum.

Þar fyrir utan er sennilega mikið atvinnuleysi framundan og framleiðsla 10 kvikmynda í stað einnar heldur fleira fólki í vinnu.

Villi Asgeirsson, 7.1.2009 kl. 18:40

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Átti að vera, yrði tap okkar allra ef gott fólk kemst ekki að. Þannig erum við að missa af góðum myndum framtíðarinnar.

Villi Asgeirsson, 7.1.2009 kl. 18:41

4 identicon

Hljómar ágætlega, fyrir utan þessa kjánalegu kvöð um að myndir verði að vera dýrar til að fá styrki.  Það finnst mér eitthvað í ætt við 5% regluna á alþingi, svona hannað til að halda smælingjum frá kjötkötlunum.

En einfaldari myndir með meiri áherslu á persónusköpun, sögu og drama eru kærkomin hvíld frá þessum hollýwood myndum sem virðast snúast fyrst og síðast um leikmyndir og sprengingar.

Gullvagninn (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 22:57

5 Smámynd: Villi Asgeirsson

Ég veit hvað kvikmyndin mín mun heita.

Þrumufuglarnir.

Villi Asgeirsson, 14.1.2009 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband