Færsluflokkur: Kvikmyndir
15.12.2007 | 16:18
Tvær vikur á netinu
Stuttmyndin Svartur Sandur hefur nú verið tvær vikur á netinu. Eins og lesendur fyrri færsla vita var þetta tilraun til að sjá hvort það væri hægt að setja efni á netið og biðja fólk fallega um að greiða fyrir.
Við lifum í heimi kaupsýslu þar sem ekkert fæst fyrir ekkert og allt er til sölu. Þegar viss hagsmunasamtök lokuðu á vissa heimasíðu sem miðlaði skemmtiefni og forritum reis fólk upp og hrópaði óréttlæti. Það myndi greiða fyrir ef verðið væri ekki svona hátt og benti á, með réttu, að 2000 kr. og meira er ansi mikið fyrir kvikmynd á DVD diski.
Svartur Sandur hefur verið sóttur 799 sinnum síðan hann var settur á netið, 1. desember. Þetta er fínn árangur og meira en ég bjóst við. Mest var um niðurhal fyrstu dagana. Þess má geta að talan var 797 í gær, svo fokviðrið er farið hjá. Það má segja að myndin hafi fengið mikla dreifingu miðað við að flestir sem að henni komu eru óþekkt nöfn. Hins vegar er auðvelt að gera sér upp vinsældir þegar ekki þarf að greiða fyrir.
Af þessum 799 hafa tíu greitt fyrir myndina. Samkvæmt könnun hér til hliðar hefðu fleiri gert það ef birt hefði verið íslenskt bankareikningsnúmer. Ég er að reyna, en það er erfitt þar sem ég er í Hollandi. Getur einhver sagt mér hvað það kostað að millifæra til Hollands? Kannski að það sé lausnin.
Tíu greiðslur erum 1.2% sækjenda. Ef ég margfalda dæmið með fimm, samanber könnunina, yrðu það fimmtíu greiðslur fyrir 799 niðurhöl, um 6%. Gott eða slæmt? Dæmi hver sem vill.
Smá reikningsdæmi. Myndin kostaði um 350.000 kr. Sé þeirri upphæð skipt milli 799 manns, er útkoman 438 krónur. Það þarf ekki mikla kynningu til að koma niðurhölum í 3500. Þá þyrfti hver að greiða 100 krónur til að myndin stæði undir sér.
Ég er óendanlega þakklátur öllum þeim sem hafa, og munu, leggja eitthvað til hliðar fyrir myndina. Þó er ég ekki viss um að þetta sé dreifingaraðferð framtíðarinnar. Er ekki iTunes dæmið það sniðugasta? Borga 200 kall og þú færð þáttinn eða stuttmyndina. Fá marga til að borga lítið? Þannig munar fólki ekki um greiðsluna, margir sjá myndina og hægt er að fjárfesta í næstu mynd.
Tvær vikur eru stuttur tími, jólaönnin og útlát að drekkja fólki, svo kannski er ekki alveg að marka dæmið enn sem komið er. Við sjáum til.
10.12.2007 | 12:45
Erum við frjáls?
Frjálsir fjölmiðlar hljóta að vera grundvöllur frjáls þjóðfélags. Ef við fáum ekki að heyra allan sannleikan er hægt að gera ljóta hluti í skugga fáfræðinnar. Það eru til mörg dæmi um þjóðfélög sem kúguð hafa verið með samþykki þegnanna, vegna þess að þeir vissu ekki betur. Sárasta dæmið í nútímanum er sennilega Bandaríkin. Fjölmiðlar eru frjálsir að nafninu til, en ef málið er skoðað kemur annað í ljós.
Stórfyrirtæki eiga flesta stóra fjölmiðla á vesturlöndum. Þeir flytja fréttir af því sem þeir vilja að þú vitir. Komi eitthvað illa við þá eða stóru viðskiptavinina sem kaupa dýrustu auglýsingatímana, sleppa þeir þeim fréttum. Séu ríkisstjórnir með puttana í vafasömum hlutum, eins og stríðum sem erfitt er að réttlæta, hóta sömu ríkisstjórnir að hlunnfara þá fjölmiðla sem ekki haga sér vel. Ef þú ert ekki fyrstur með fréttirnar og enginn auglýsir hjá þér ferðu á hausinn. Það vill enginn, svo fréttastofum er sett fyrir hvað megi tala um og hvað ekki.
Talandi um frelsi, ég rakst á frétt á The Register þar sem talað er um ritvörn á nýjum flökkurum frá Western Digital. Um er að ræða 1TB USB drif. Drifið leyfir ekki að flestum tónlistar- og videoskrám sé deilt. Hér er greinilega, enn og aftur, verið að stimpla alla sem þjófa. Það vill þannig til að ég keypti svona drif um daginn. Það var að vísu 500GB, svo ég vona að þessi ritvörn eigi ekki við þar. Ég er nefninlega ekki að skiptast á skrám, heldur er ég að vinna í mínum verkefnum og kæri mig ekki um að einhvert bindi útí heimi ráði hvað ég geri við mínar skrár. Ég er að nota tvær tölvur. Það er nauðsynlegt, þar sem önnur er oft upptekin við að skrifa diska eða annað sem tekur tíma. Meðan PowerMakkinn er að byggja DVDinn nota ég PowerBókina til að uppfæra síðuna, prenta umslög og fleira. Og stundum til að opna önnur verkefni sem voru unnin í PowerMakkanum. Ég get ekki sætt mig við að drifið skikki mig til að nota sömu tölvuna gegn um allt verkefnið.
Ég skil ekki hvað það kemur Western Digital við hvað ég geri við diskana mína. Ef ég væri að gera eitthvað ólöglegt, væri það í verkahring yfirvalda að skoða málið. Þetta kemur WD hreinlega ekkert við. Fyrir áhugasama er hægt að lesa hvaða skrám er ekki hægt að deila hér.
Frelsið er viðkvæmt. Það er auðvelt að taka það af okkur og erfitt að fá aftur þegar það er farið. Það er þrennt sem auðvelt er að nota til að svipta okkur frelsinu; hryðjuverk, falskar fréttir eða fréttir sem sleppt er og tölvurnar okkar. Það er bara eitt sem getur komið í veg fyrir að frelsið verði tekið af okkur, við sjálf.
Það er svo af stuttmyndinni að frétta að hún hefur verið sótt 767 sinnum. Ég veit ekki hversu margir hafa sótt hana í Víkingaflóa. Tíu hafa greitt fyrir hana. Endilega takið þátt í skoðanakönnuninni hér til hliðar.
Teikningin að ofan er "fengin að láni" af síðu Inga Jenssonar. Endilega kíkja!
Skiptar skoðanir um frelsi fjölmiðla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.12.2007 | 15:37
Pappírslaus heimur?
Fyrir mörgum árum var talað um pappírslausu skrifstofuna. Tölvur áttu að leysa þykkar möppur, skjala sem enginn las, af hólmi. Þetta gerðist ekki, heldur hefur pappírsnotkun aukist stórkostlega. Heilu bækurnar eru prentaðar út, lesnar (eða ekki) og hent. Margir prenta út emilinn. Stofnanir á vegum ríkisins (sem hefur allt í einu áhuga á umhverfinu) krefst þess að allar nótur og reikningar séu geymdir á pappír. Við erum því lengra frá pappírslausu skrifstofunni en nokkurn tíma í fortíðinni, held ég.
Ég setti stuttmyndina Svartan Sand á netið fyrir viku. Ég setti hana ekki á DVD með tilheyrandi bók og pappaumslagi. Hún fór beint á netið. Við, framleiðendur kvikmynda, verðum að líta fram á veginn og reyna að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. Síðast þegar ég gáði hafði myndin verið sótt 745 sinnum. Ég bauð fólki upp á að greiða hvað sem það vildi fyrir myndina, 100 kall, 100.000 kall, fólk ræður því sjálft. Nú hafa níu borgað. Við sjáum til hvað gerist á komandi dögum.
Ég er viss um að þetta, eða eitthvað þessu líkt, er framtíðin. Segjum að Hollywood mynd slái í gegn. Hvað verða seld mörg eintök á DVD, sem kostar olíu, timbur og ál til að framleiða? 100.000? Milljón? Tíu milljónir? Það fer gríðarlega mikið hráefni í að framleiða diskana. Svo er það olían sem fer í að flytja þá milli staða. Það má því segja að tónlistar- og kvikmyndaiðnaðurinn hafi gríðarleg völd yfir regnskógum og olíuforða jarðarinnar. Sé milljón eintökum af kvikmynd dreift á netinu kostar það sáralítið, ef miðað er við núverandi kerfi. Af hverju að borga 2000 kr. fyrir DVD þegar hægt væri að dreifa myndinni á netinu fyrir 300 kr?
Svartur Sandur er stuttmynd og virkar því svolítið öðru vísi. Venjulega eru þær ekki seldar á DVD, heldur sýndar í sjónvarpi eða á hátíðum. Markaðurinn er sáralítill, svo þær fáu sem gerðar eru sjást aldrei. Fjölmiðlar hafa verið að tala um stuttmyndir sem eru að gera það gott erlendis, en hver hefur séð þær? Hafi fólk ekki verið að horfa á RÚV klukkan 23:30 á þriðjudagskvöldi hefur það sennilega ekki séð hana. Þá er ég að gera ráð fyrir að hún hafi yfir höfuð verið sýnd. En hvað ef fólk borgar 150kr. fyrir stuttmyndir sem því líkar og 300-400kr. fyrir kvikmyndir í fullri lengd?
Ef allir þeir 745 sem sótt hafa myndina borguðu 150kr, værum við komin með fyrir fjórðung kostnaðarins sem lagt var út í. Með betri markaðssetningu væri sennilega lítið mál að ná til 2500 manns og ef þeir allir borguðu 150kr, væri myndin komin á slétt. Við, kvikmyndafólk, höfum það ekkert slæmt. Við erum bara ekki að nota þá möguleika sem til eru.
Svo er það auðvitað næsta spurning. Mun fólk borga ef það er því í sjálfs vald sett, eða þurfum við að halda áfram að loka á neytendur, læsa skrám og hleypa engum inn nema þeim sem greitt hafa fyrir fram? Þurfum við að halda áfram að láta eins og listamenn og fólk sem nýtur verka þeirra séu tveir ólíkir þjóðflokkar sem rembast við að féfletta hvern annan? Getum við treyst fólki til að borga fyrir efni sem það hefur gaman að eða þurfum við (eða viljum við) halda áfram að kæra hina og þessa?
Náttúruvernd þarf ekki að kosta okkur lífskjörin. Ef við breytum áherslunum, hættum að kaupa diska og sækjum þá löglega á netið, erum við að vernda Amazon og aðra regnskóga, spara pening og styrkja listamenn.
Hver tapar á því?
Meira en helmingur Amazon regnskógarins gæti eyðst fyrir 2030 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.12.2007 | 21:27
Borgar sig að gefa út á netinu?
Eins og margir vita er ég að gera svipaða tilraun og Radiohead. Eftir því sem ég best veit er dæmið að ganga vel hjá þeim félögum. Spurningin er þó, virkar þetta bara ef maður er frægur eða er þetta framtíðin fyrir alla sem eru að búa til frumsamið efni, tónlist eða kvikmyndir?
Ég setti stuttmyndina Svartan Sand á netið fyrir tæpri viku. Hún hafði verið sótt 732 sinnum fyrr í dag. Eins og fram kemur í athugasemdum við fyrri færslu er hún líka komin inn á nýja íslenska torrent síðu. Ég hef ekki aðgang að henni, svo ég get ekki sagt um hvað er að gerast þar.
Átta manns hafa borgað fyrir myndina, rúmt eitt prósent. Það segir þó ekki alla söguna, því margir hafa sennilega ekki enn haft tækifæri til að sjá hana. Einnig hafa verið gerðar athugasemdir við að einungis er hægt að nota greiðslukort eða PayPal. Væri hægt að millifæra beint í heimabanka myndu fleiri geta borgað.
Ég hef sett inn nýja skoðanakönnun þar sem fólk getur látið vita. Komi í ljós að fólk vill frekar greiða fyrir myndina með millifærslu, mun ég bæta þeim möguleika við.
Af einhverjum ástæðum get ég bara haft eina skoðanakönnun inni í einu, svo sú fyrri þar sem spurt var um álit fólks á myndinni verður sett inn aftur þegar þetta mál er farið að skýrast.
Takk fyrir áhugann!
Radiohead tilkynnir tónleikaferð um Evrópu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.12.2007 | 20:00
SVARTUR SANDUR
Hér að neðan er hægt að nálgast stuttmyndina Svartur Sandur. Myndin var kvikmynduð á Íslandi í ágúst 2006 en var sett á netið á fullveldisdaginn, fyrsta des. 2007.
Bíllinn æðir áfram á ógnarhraða á fjallveginum. Pétur tekur ekki eftir konunni sem stendur við veginn fyrr en það er of seint. Sem betur fer meiddist enginn. Emilía fær far, þar sem bíllinn hennar fer ekki í gang. Fljótlega fer hún þó að haga sér undarlega.
Hvað hefur andvana barnið, jarðað seint á 18. öld með þau að gera? Eða parið í kirkjugarðinum rétt fyrir 1930? Þegar þau upplifa bílslysið aftur, verða þau að horfast í augu við kaldan raunveruleikann.
Náið í stuttmyndina Svartur Sandur...
Listi yfir alla sem tóku þátt í gerð myndarinnar (í stafrófsröð):
Anna Brynja Baldursdóttir: aðal kvenhlutverk
Guy Fletcher: samdi tónlist fyrir myndina
Hans Ris: aðstoð við upptökur, bóma
Helena Dögg Harðardóttir: hárgreiðsla
Johan Kriegelstein: klipping, bóma
Jóel Sæmundsson: aðal karlhlutverk
Kristinn Ingi Þórarinsson: bóma
Kristín Viðja Harðardóttir: leikkona í aukahlutverki
Oddný Lína Sigurvinsdóttir: leikkona í aukahlutverki
Rhona Wiersma: leikmunir, skripta
Sonja Berglind Hauksdóttir: farði
Villi Asgeirsson: kvikmyndataka, leikstjórn, klipping, framleiðandi, höfundur
William Kowalski: aðstoð við handrit
Einnig vil ég þakka Ásdísi Ásgeirsdóttur og Eyþóri Birgissyni fyrir keyrsluna og gistinguna, Hrefnu Ólafsdóttur fyrir að redda hlutunum á síðustu stundu, Guðgeiri Sumarliðasyni fyrir að segja mér frá konunni á heiðinni, Sigurlínu Konráðsdóttur fyrir minkinn, Leikfélagi Selfoss fyrir búningana, Eiríksstöðum í Haukadal fyrir aðstöðuna, Skógasafni sömuleiðis, Café Pravda líka, Þorkeli Guðgeirssyni fyrir afnot af skrifstofunni, Sigrúnu Guðgeirsdóttur fyrir hjálpina við að finna tökustaði, Erlingi Gíslasyni og Brynju Benediktsdóttur fyrir æfingahúsnæðið og öllum hinum sem ég gleymdi að nefna.
Ég vona að þið njótið myndarinnar. Endilega skrifið hér að neðan hvað ykkur finnst.
Kvikmyndir | Breytt 4.12.2007 kl. 12:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
3.12.2007 | 19:53
Auglýsing!
Þessi er að vísu algerlega frí og endurgjaldslaus, en hvað um það. Kíkið á færsluna hér að ofan. Þar er boðið upp á glænýja íslenska stuttmynd. Hægt er að ná í hana og horfa á, setja á iPottinn og borga svo það sem fólk vill. Ekki krónu meira eða minna.
Annars er ég að skoða spennandi verkefni. Mig langar til að búa til þáttaröð sem dreift verður á netinu endurgjaldslaust. Þáttaröðin yrði fjármögnuð með auglýsingum. Meira um það seinna. Kíkið nú á færsluna SVARTUR SANDUR hér að ofan.
Netið að verða þriðji stærsti auglýsingamiðillinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.12.2007 | 11:35
Strætó og Netið - Svartur Sandur og Hellvar
Það er gaman að fylgjast með því hvernig fólk kynnir sig og sína list. Það er um að gera að fara ótroðnar slóðir, gera það sem ekki hefur verið gert áður. Ég óska Hellvari alls hins besta og vona að bílveikin láti ekki sjá sig.
Þá er komið að því. Stuttmyndin Svartur Sandur er á netinu.
Eins og ég minntist á í gær er þetta tilraun. Þegar torrent.is var lokað, reis fólk upp og hrópaði að SMÁÍS. Íslendingar eru ekki þjófar! Við erum tilbúin til að borga fyrir það sem ekki er okrað á. Við myndum styrkja listamenn ef ekki væri fyrir milliliðina.
Í dag gefst fólki tækifæri til að sanna sitt mál. Sýnum þeim sem sjá vilja að íslendingum sé treysandi. Við þurfum ekki ritvörn. Við þurfum ekki diskaskatt. Á næstu dögum mun ég fylgjast með niðurhali á myndinni og birta hér á síðunni. Einnig mun ég láta vita hvað fólk er að borga.
Hægt er að nálgast myndina hér. Hún er í iPod formi og ætti því að spilast með Quicktime spilaranum. Hægt er að setja hana inn á iPod spilarann gegn um iTunes. Þeir sem ná í hana, geta því haft hana og horft á um ókomna framtíð.
Ég þakka stuðninginn.
Tónleikar í strætó | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
30.11.2007 | 15:13
1 dagur - Tjáningafrelsi
Þetta er sorgleg frétt og erfitt að átta sig á því hvað fær fólk til að haga sér eins og þeir sem krefjast að kennslukona verði skotin fyrir litlar sakir, ef sakir skyldi kalla. Þetta er auðvitað ekkert annað en gamla, góða múgæsingin sem fékk þýsku þjóðina til að loka augunum á fjórða áratugnum og skipti heiminum í kommúnista og kapitalista. Á meðan fólk er tilbúið að hlusta á rödd þess sem hæst öskrar, frekar en eigin samvisku, er ekki við góðu að búast. Frelsi er það dýrmætasta sem við eigum og við verðum að vernda það með kjafti og klóm. Svo er það spurning hvar múgæsing sleppur og eigin sannfæring tekur við. Hvernig getur samviska manns sagt að skjóta eigi kennara fyrir að skíra bangsa eftir Mohammed, Jésu, Búdda, Dalai Lama eða David Beckham? Hvað er búið að kenna fólki og hvernig? Hver græðir á því, nema sá sem kennir? Eða á að orða þetta svona; hvers konar heilaþvottur hefur verið í gangi þarna? Fólk vill í eðli sínu ekki drepa fólk, en það má sannfæra fólk um ýmislegt ef þjóðfélagið sefur á verðinum. Einstaklingsfrelsið er heilagt og það ber okkur að vernda.
Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég er að setja stuttmyndina á netið. Ég vil ekki að tónlistar- og kvikmyndaútgáfa sé í höndum fárra stórfyrirtækja sem segja höfundi og leikstjóra hvað má og hvað ekki. Ég vil ekki að dreifing sé í höndum fólks sem sér list sem afurð, og því meiri sala, því betri er listin. Ég er á móti boðum og bönnum. Það hljómar kannski barnalega, en ég trúi á fólk. Ekki á ríkisstjórnir, stofnanir og fyrirtæki, heldur fólk. Við eru öll spillt upp að vissu marki. Við verðum að vera það. Þjóðfélagið sem við höfum búið til býður ekki upp á annað. Þó vil ég trúa því að fólk sé að eðlisfari sanngjarnt og réttlátt.
Þegar torrent málið fór af stað voru uppi háværar raddir um að torrent.is síðan hafi ekki verið ólögleg. Notendur voru að ná í efni sem þeir höfðu þegar greitt fyrir með áskriftum af sjónvarpsstöðvum, kaupum á geisladiskum og öðru. Margir sögðu að þeir hefðu ekki áhuga á að borga milliliðum. Hefðu þeir möguleika á að kaupa beint af listamanninum myndu þeir gera það. Ég tek það fram að ég fæ ekkert af diskaskattinum og meðan myndin er ekki sýnd í íslensku sjónvarpi hafa afnotagjöld ekki skilað sér til mín.
Á morgun fer stuttmyndin Svartur Sandur á netið. Þetta er tilraun. Ég hef verið að gera myndir og myndrænt efni í nokkur ár í Hollandi og hef þar af leiðandi áhuga á sölu og dreifingu þessa efnis. Netið er komið til að vera. Niðurhal er komið til að vera. Við sem búum til efnið höfum ekkert um það að segja. Við getum látið sem ekkert hafi gerst og haldið áfram að selja okkar diska, við getum reynt að stoppa flóðið eða notfært okkur þau nýju tækifæri sem eflaust leynast á netinu. Ég held að framtíðin verði einhver málamiðlun áskrifta, auglýsinga og gamaldags sölu diska. Þegar lögbann var sett á torrent.is mótmæltu margir og bloggið logaði. Frá morgundeginum geta íslendingar sannað að þeir séu tilbúnir til að ná í efni á netinu á þess að þurfa að kaupa diska, og að þeim sé treystandi í hinum stafræna heimi sem hræðir okkur kvikmyndagerðar- og tónlistarmenn. Ég mun setja tölur inn eftir viku þar sem hægt verður að sjá hversu margir hafi náð í myndina og hvort greitt hafi verið fyrir. Þessi tilraun mun segja mér hvort netið sé raunhæfur vettvangur fyrir nýjar myndir, hvort það gefi óþekktum listamönnum möguleika á að dreifa eigin efni og hvort það geti verið áhugavert að framleiða efni fyrir netið. Ég hef trú á þessu, en verð að viðurkenna að ég hræðist þetta pínulítið. Sjáum hvað setur.
Krefjast aftöku Gibbons | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.11.2007 | 16:30
2 dagar - Kvikmyndalandið Ísland?
Íslenska kvikmyndavorið hófst árið 1980 með gerð myndarinnar Land og Synir. Upp að því hafði verið lítið um innlenda kvikmyndagerð. Átta myndir voru framleiddar á Íslandi frá 1949 til 1977. Fimmtán ár liðu á milli 79 af Stöðinni (1962) og Morðsögu (1977)[1]. Árin á eftir voru að meðaltali gerðar tvær til þrjár kvikmyndir á ári, þó að oft hafi þær ekki verið nema ein. Þó að eitthvað hafi framleiðslan aukist frá aldamótum koma enn í dag u.þ.b. þrjár til fjórar kvikmyndir út á ári.
Á vef Kvikmyndamiðstöðvarinnar má lesa að ekki færri en fjórar kvikmyndir verði framleiddar ár hvert. Þar stendur einnig. "Aðilar eru sammála um að miða við að meðalframleiðslukostnaður kvikmynda verði í lok samningstímans 210 milljónir króna."[2] Þar er átt við árið 2010. Aðilarnir sem átt er við eru menntamálaráðherra, fjármálaráðherra og samtök í íslenskri kvikmyndagerð. Ég er viss um að þessir aðilar vita hvað þeir eru að tala um og vil ég alls ekki draga það sem sagt er í efa. Spurningin er hins vegar, þarf þetta að kosta svona mikið og eru fjórar kvikmyndir á ári nóg?
210 milljónir er ekki mikið fyrir kvikmynd. Þetta er klink ef miðað er við Hollywood. Sé myndin tekin upp á hágæða (high-definition) video í staðinn fyrir filmu og þurfi hún ekki flóknar leikmyndir má sennilega taka upp kvikmynd í fullri lengd fyrir vel innan við 10 milljónir. Hvað þarf til?
Upptökuvél sem tekur upp HDV 1080i kostar um 500.000 krónur. Það er sama upplausn og var notuð við tökur nýju Star Wars myndanna. SinCity var einnig tekin upp með sömu tækni.[3]
Klipping færi fram í tölvu. Tölva með skjá í HD upplausn og forritin sem til þarf kostar um hálfa milljón. Þá er allt komið sem þarf til að taka upp og klippa bíómynd fyrir innan við milljón. Þetta er auðvitað hægt að nota við gerð margra kvikmynda. Þetta er startgjaldið.
Segjum að tökur stæðu yfir í fjórar til sex vikur. Tíu leikarar taka þátt, hver fær 150.000 fyrir ómakið. Þetta er jú "low-budget" mynd og sennilega ekki um fullan vinnutíma að ræða. Það er 1,5 milljónir. Leikstjóri, hljóð, kvikmyndataka, skrifta, bílstjórar, bílar, matur. Milljón? Gott handrit er undirstaða góðrar myndar, svo höfundur fær milljón. Klipping og önnur eftirvinnsla tekur mánuð, kannski tvo, ef vel er að staðið. Fimmhundruðþúsund. Setjum milljón í púkkið fyrir bensíni, spólum, bókhaldi og öðru tilfallandi.
Þessi mynd kæmi því til með að kosta fimm milljónir, gróft reiknað. Er þetta bjartsýni eða er þetta hægt? Væri ekki gaman ef til væri sjóður sem styddi eina mynd í mánuði? Það væru tólf nýjar íslenskar kvikmyndir á ári, fyrir utan stóru myndirnar. En hvaðan kæmu þessar 60 milljónir?
Hvað kostar að fara í bíó á Íslandi? Þúsundkall? Það þyrftu því aðeins 5000 manns að sjá hverja kvikmynd í bíó. 10.000 ef maður reiknar vask, kostnað kvikmyndahúss og allt það. Þetta er slatti af bíóferðum, en íslendingar eru duglegir við það. Svo er sjónvarp og DVD. Ef fyrirtæki styrktu gerð myndarinnar til að byrja með, er þá ekki um að gera að nota hana sem auglýsingu og hreinlega gefa hana á DVD? Það væri auðvitað auglýsing á diskinum þegar hann er settur í spilarann. Það væri auglýsing á hulstrinu. Kannski yrði diskurinn ekki gefinn einn og sér heldur með pylsupakka, gosdrykkjum eða hvað það er sem styrktaraðilinn er að selja. Gefur þetta ekki líka skattaafslátt?
Sé farið eftir þessu kerfi má gera ráð fyrir að hver mynd verði ekki lengi á markaði. Þar kemur einstaklingurinn inn. Ef hægt er að treysta því að ný mynd komi út mánaðarlega er hægt að selja áskrift. Fyrir 500 kr. á mánuði færðu alltaf nýjasta diskinn sendan heim og nafnið þitt á skjáinn í lok myndarinnar. Segjum að eitt prósent þjóðarinnar gerist áskrifendur, þá erum við að tala um 3000 manns, 1,5 milljónir á mánuði. Áskriftin gæti kostað meira, en við höfum áhuga á að sem flestir sjái myndirnar, ekki að þetta verði gróðafyrirtæki.
Hver á að setja svona sjóð á laggirnar? Mér finnst að kvikmyndagerðarfólkið sjálft eigi að eiga fordæmi um þetta. Þekktir og óþekktir listamanna myndu vinna við myndirnar. Þannig fengju þær athygli til að byrja með. Það yrði svo verk listafólksins að nógu góðar framleiða myndir til að halda áhuga fólks vakandi. Það er engin ástæða til annars en að gæðastaðallinn haldist. Á Íslandi koma árlega út vel yfir 1000 skáldsögur. Tólf handrit ættu ekki að vefjast fyrir þjóðinni.
Það verða alltaf til sögur sem þurfa meira. Það er ekki hægt að gera stórmyndir fyrir fimm milljónir. Það er hins vegar hægt að gera virkilega góðar myndir fyrir lítið. Þetta kæmi ekki í staðinn fyrir "alvöru" bíómyndir, teknar upp á filmu á stórum sviðsmyndum með toppfólki í hverri stöðu, frekar en að pylsa komi í staðinn fyrir steik. Þetta er eitthvað sem getur hjálpað hæfileikafólki við að komast af stað svo það geti gert stórmyndir í framtíðinni.
Vorið er búið. Það er komið sumar.
Heimildir:
1. http://is.wikipedia.org/wiki/Listi_yfir_%C3%ADslenskar_kvikmyndir
2. http://www.kvikmyndamidstod.is/log-og-reglugerd/
3. http://en.wikipedia.org/wiki/CineAlta
100 starfsmenn Glitnis í mat fyrir 500 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.11.2007 | 06:08
3 dagar - Guy Fletcher
Eins og fram hefur komið mun ég setja Svartan Sand á netið á laugardaginn. Ég ætla að reyna að vera með daglega pistla meðan ég geri hana tilbúna.
Tónlist er mikilvægur hluti kvikmyndarinnar. Hún setur tóninn, byggir upp spennu og hjálpar til við að búa til rétta andrúmsloftið. Tónlist sem passar myndinni getur lyft henni á hærra plan og er Jaws sennilega þekktasta dæmið. Fólk var hrætt við stefið, enda sást hákarlinn varla í myndinni. Slæm tónlist eða tónlist sem ekki passar getur skemmt annars ágæta mynd. Ég sá einhverja mynd um daginn þar sem tónlistin passaði engan veginn. Þetta var ágætis mynd en tónlistin var svo úr takt að ég var feginn þegar myndin var búin. Ég man ekki hvaða mynd þetta var. Það var því augljóst frá upphafi að tónlistin yrði að passa og vera góð.
Þau sem hafa skoðað Oktober Films síðuna hafa sennilega séð tónleikaupptökurnar af hollensku hljómsveitinni Nits. Upphaflega var ætlunin að söngvai og gítarleikari þeirrar hljómsveitar semdi tónlistina, en þegar til kom var enginn timi. Ég sneri mér því að næsta manni...
Guy Fletcher gekk til liðs við Dire Straits árið 1984. Hann spilar því hljómborð á Brothers in Arms og öllum plötum Mark Knopfler síðan. Ég hafði séð Knopfler á hljómleikum árið 2005 og þeim gamla tókst að gera mið að aðdáenda. Ég las, skoðaði, horfði á auka DVD-inn sem kom með Shangri-La og komst fljótt að því að Guy Fletcher var heilinn á bak við flestar plötur Marks. Ég ákvað að reyna, þó að líkurnar væru auðvitað engar...
Guy Fletcher er kunnugur kvikmyndatónlist. Hann hefur unnið við margar kvikmyndir með Mark Knopfler, en einnig samið tónlistina við 3-4 myndir sjálfur. Hann var því rétti maðurinn, en var mín mynd og skilmálar eitthvað fyrir hann?
Mér til mikillar undrunar sló hann til. Vikurnar kring um áramótin 2006-2007 voru spennandi. Guy var að vinna við hljómleikaplötu Mark Knopfler og Emmilou Harris. Í jólafríinu samdi hann tónlistina og við vorum í sambandi. Allt þurfti að vera tilbúið sem fyrst, því Mark vildi taka upp nýja plötu.
Fólk sem séð hefur myndina er sammála um að tónlistin er góð, falleg, passi við, undirstriki samband persónanna. Það er allt gott og blessað og ég er í skýjunum yfir að hafa frumsamda tónlist í myndinni. Það er gott til þess að vita að sumir af stærri tónlistarmönnum samtímans eru að semja og spila vegna þess að þeir hafa gaman af því. Í stað þess að taka því rólega yfir hátíðirnar, samdi og spilaði Guy Fletcher tónlistina fyrir Svarta Sandinn.
Guy Fletcher er nú að vinna við sólóplötu en fer í hljómleikaferðalag með Mark Knopfler eftir áramót.
Fyrri færslur um Svartan Sand:
4 dagar - Anna Brynja Baldursdóttir
5 dagar - Jóel Sæmundsson
6 dagar - um gerð Svarta Sandsins
Oft ég Svarta Sandinn leit...
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 06:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)