Færsluflokkur: Kvikmyndir

4 dagar - Anna Brynja Baldursdóttir

Eins og fram hefur komið mun ég setja Svartan Sand á netið á laugardaginn. Ég ætla að reyna að vera með daglega pistla meðan ég geri hana tilbúna.

Er einhver spurning með höfunarrétt? Sá sem býr til efni á réttinn, nema sá hinn sami hafi samið hann af sér. Það er sennilega stóra vandamálið í þessu öllu saman. Listamenn eru að semja af sér sín eigin verk sem lenda svo í höndum stóru útgefendanna sem neitendur hafa enga samúð með. Samúðarleysið á sér margar ástæður, en það sem maður heyrir mest er okur á kaupendum og að listamaðurinn sjálfur sjái aðeins lítið brot teknanna. Það var vegna þessa að ég ákvað Anna Brynja og Jóelað setja Svarta Sandinn á netið. Ég á höfundarréttinn og ef fólk sem nær í mynina borgar, fer það allt til mín og þeirra sem hjálpuðu til við gerð myndarinnar. Kaupandinn er því beint að styrkja gerð fleiri mynda en ekki borga lögfræðikostnað eða eitthvað álíka.

Í dag ætla ég að tala um aðal leikkonuna. Ég hafði snemma samband við þekkta íslenska leikkonu. Ég segi ekki hver hún er, en hún er nafna einnar bloggvinkonu minnar. Hún hafði áhuga, vildi skoða þetta, en á endanum gekk það ekki upp, því hún var að fara í annað verkefni. Ég var því í smá vandræðum. Rúmur mánuður til stefnu, Anna Brynjaég var leikkonulaus og erlendis. Áhugasamir geta farið aftur í tímann á þessu bloggi og séð færslur þar sem ég er að biðja leikkonur um að vera í sambandi. Einn daginn fékk ég emil frá Önnu Brynju. Hún hafði séð sömu auglýsinguna og Jóel og ákvað að reyna, þótt seint væri. Ég hafði ekki um margt að velja, svo hún fékk hlutverkið án þess að ég hefði nokkurn tíma séð hana. Hún hafði verið í Stelpunum og leit vel út, svo ég sló til.

Það kom fljótt í ljós að hún var fullkomin. Hún var í stöðugu sambandi, hafði hugmyndir og vildi vita allt um Emilíu, konunaAnna Brynja í bíl sem hún myndi leika. Ég man eftir einu skiptinu þar sem hún spurði mig hverjar stjórnmálaskoðanir Emilíu væru. Anna Brynja fer eins djúpt og hún kemst til að skapa trúverðugan karakter og það sést þegar horft er á myndina.

Þegar ég kom til Íslands sá ég að hún var rétta manneskjan í hlutverkið. Hún leit út eins og Emilía átti að líta út. Þar að auki var hún brosmild, skemmtileg, blíð og til í allt. Stundum þurftum við að leggja af stað klukkan fimm að morgni, en það var ekki vandamál. Þegar við tókum upp á Eiríksstöðum vorum við lögð af stað um fimm og komin til baka upp út ellefu um kvöldið. Enginn kvartaði. Þvílíkur hópur, hversu heppinn getur maður verið? Þessar tvær vikur var hún leikkona í myndinni og ekkert annað komst að.

AnnaBrynja3smallAnna Brynja notaði hverja mínútu til að fullkomna leikinn. Á löngum bílferðum lagði hún sig, las textann, lærði handritið utan af. Ég held ég hafi aldrei unnið með mannseskju sem gaf sig verkefninu eins algerlega og hún, enda sá ég ekki handrit þegar tökur hófust. Þetta var allt í hausnum á henni. Hún vildi alltaf vita hvað yrði tekið upp og hvenær, svo hún gæti verið eins vel undirbúin og hugsanlegt var. Ef að hlutirnir breyttust, eins og í Bláfjöllum, var hún sveigjanleg og gerði sitt besta. Hennar besta var betra en ég hafði þorað að vona.

Svo má ekki gleyma hárinu. Myndin AnnaBrynjaSmallgerist á fjórum tímabilum. Við ákváðum að hún myndi lita á sér hárið til að skapa andstæður. Hún er ljóshærð og við notuðum það á víkingastúlkuna (nema hvað) og dívuna frá 1927. Konan í bílnum varð auðvitað að vera dökkhærð. Það má því segja að tökur myndarinnar hafi verið skipulagðar með tilliti til háralits Önnu Brynju.

Svo má minnast á að hún er tungumálaséní. Hún sótti um hlutverkið vegna þess að ég var að biðja um enskumælandi leikara. Hún hefði líka getað svarað hefði ég beðið um spænsku, þýsku eða norðurlandamálin.

Það er með hana eins og Jóel, ég vil endilega vinna með henni aftur. Ég er að vinna í því að búa til nýtt verkefni svo við getum sameinast aftur. Get ekki beðið

Fyrri færslur um Svartan Sand:
5 dagar - Jóel Sæmundsson
6 dagar - um gerð Svarta Sandsins
Oft ég Svarta Sandinn leit...


mbl.is Hart barist um höfundarréttinn á torrent-síðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5 dagar - Jóel Sæmundsson

Eins og fram hefur komið mun ég setja Svartan Sand á netið á laugardaginn. Ég ætla að reyna að vera með daglega pistla meðan ég geri hana tilbúna.

Jóel Sæmundsson er án efa einn besti leikari sem íslendingar eiga. Stór orð, en ég stend við þau.

Veturinn 2006 setti ég auglýsingu á netið. Ég var að leita að leikurum. Skylirði var að þeir töluðu Jóelfullkomna ensku. Ég hafði skrifað handrit að stuttmynd með vinnutitilinn The Darling Stones. Myndin yrði tekin upp á Íslandi, en á ensku. Jóel var einn þeirra sem svöruðu. Hann var í leiklistarnámi í Bretlandi og hafði lagt áherslu á að læra tungumálið og ná hreimnum.

Þegar ég kom heim í páskafrí hitti ég hann á Prikinu. Það var kalt úti, slydda og ég hélt um cappuchino bollann þegar hann kom inn. Hann pantaði sér Malt í gleri, íslendingurinn búsettur erlendis. Við fórum í gegn um handritið, sem var ennþá á ensku og mér leist ágætlega á hann.

Honum hafði ekki tekist að sannfæra mig, en eftir að ég fór aftur til Hollands hugsaði ég málið og ákvað að hann væri maðurinn sem ég var að leita að. Ég átti ekki eftir að sjá eftir þeirri ákvörðun.

Við hittumst aftur í byrjun ágúst. Ég var þá kominn heim til að taka myndina upp. Það var augljóst, strax við æfingar, að hann var hlutverkinu vaxinn. Hann hafði látið sér vaxa skegg fyrir tíundu aldar atriðin, hann kunni handritið og var mjög sannfærandi. Þær tvær vikur sem tökur fóru fram var hann hrókur alls fagnaðar. Stundum var ég smeykur um að hann væri ekki að taka hlutina alvarlega, en um leið og myndavélin fór í gang umbreyttist hann. Ég hefði ekki getað fengið betri mann í aðalhlutverkið. Hann skemmti sér konunglega á tökustað og smitaði það út frá sér. Leikarar þurfa oft að bíða lengi meðan sett er upp, aðrar senur eru teknar og oft þurftum við að keyra langar leiðir til að komast á tökustaði, en hann lét það aldrei hafa áhrif á sig.

Jóel er ennþá í námi í Rose Bruford skólanum í Bretlandi. Ég efast ekki um að hann á eftir að gera góða hluti og verða einn besti leikari sem íslendingar hafa átt.

Fyrri færslur um Svartan Sand:
6 dagar - um gerð Svarta Sandsins
Oft ég Svarta Sandinn leit...


6 dagar - um gerð Svarta Sandsins

Eins og fram hefur komið mun ég setja Svartan Sand á netið á laugardaginn. Ég ætla að reyna að vera með daglega pistla meðan ég geri hana tilbúna.

Stuttmyndin Svartur Sandur er að hluta til byggð á eigin reynslu. Það var að minnsta kosti lítið atvik í mínu lífi sem varð grunnurinn. Fyrsta uppkastið var skrifað í febrúar 2006 og handritið var að mestu leyti tilbúið í mars. Ég fór í páskafrí til Íslans og hitti þar aðalleikarann Jóel Sæmundsson. Stuttu seinna fékk Anna Brynja Baldursdóttir aðal kvenhlutverkið vegna fyrri reynslu. Ég hafði aldrei séð hana leika, en hún hafði verið í Stelpunum, svo hún hlaut að vera í lagi.

Myndin er það sem stundum er kallað búningadrama, hún gerist að miklu leyti fyrr á öldum. Hún var tekin upp á Íslandi í ágúst 2006. Upptökustaðir voru meðal annars Skógasafn, Eiríksstaðir (Eiríks Rauða) og Reynisfjara við Vík í Mýrdal. Ýmsir tökustaðir í og við Reykjavík voru líka notaðir, þar á meðal Café Pravda sem brann seinna. Bílaatriðin voru tekin upp á Bláfjallaveginum.

Tónlistin var samin og spiluð af Guy Fletcher, hljómborðsleikara Dire Straits og seinna Mark Knopfler. Hann hefur reynslu af kvikmyndatónlist og mun ég ræða það í seinni pistli.

Myndin var tekin upp á Sony HDV vél sem ég keypti fyrir tveimur árum. Það er því til High Definition (hágæða?) útgáfa af myndinni. Hafi einhver áhuga, látið bara vita. Myndin var svo klippt í Final Cut Pro. Upphaflega klippti ég grófa útgáfu þar sem klipparinn, Johan, er hollenskur og skildi ekki mælt mál. Hann tók svo við og klippti myndina að mestu leyti með hjálp handritsins á ensku. Ég tók svo við myndinni í vor og kláraði dæmið. Ég vildi fínpússa myndina sjálfur þar sem litir og smáatriði skipta miklu máli og hafa meira með leikstjórn en klippingu að gera. Svo voru líka atriði sem voru of löng eða pössuðu ekki og ég þorði að henda þeim, þetta var mín mynd.

Myndin var tilbúin í ágúst 2007, heilu ári eftir upptökur. Ástæðan er einföld, enginn fékk borgað svo fólk gerði þetta þegar tími var aflögu. Þetta var skemmtileg reynsla og ég er þakklátur öllum sem komu að gerð myndarinnar, en ég vona að ég geti borgð fólki næst.

Eins og ég sagði að ofan mun myndin verða sett á netið 1. desember. Þetta verður iPod útgáfa, hún ætti að spilast á öllum tölvum, en hún er gerð fyrir iPod spilara. Fyrirkomulagið verður þannig að fólk getur sótt myndina frítt. Boðið verður upp á að fólk geti lagt í púkkið með PayPal. Þeir sem borga 1200,- eða meira fá sendan DVD disk. Þeir sem borga minna eiga þakklæti mitt allt. Ég vil reyna að ná einverju af fjárfestingunni til baka og ef vel gengur, borga fólkinu sem hjálpaði til.

Ég vona að þeir sem lesa þetta komi aftur og nái í myndina. Ef þið eruð bloggarar, endilega látið ykkar lesendur vita. 


Oft ég Svarta Sandinn leit...

Bara svo þið vitið það, 1. desember, eftir rétta viku, verður hægt að ná í stuttmynina Svartan Sand hér á vga.blog.is. Þetta verður eini staðurinn, fyrst um sinn, þar sem hægt verður að nálgast hana, Moggiebloggie exclusive, eða eitthvað svoleiðis. Hmmm... spurning með að fá Moggann til að öskra á þjóðina.

Látið mig enilega vita hvort þið hafið hugsað ykkur að ná í hana eða ekki.


Engill Dauðans

Ef heimurinn væri eins og bíómynd...

Stelpan fengi sér Colt .45 þegar hún losnaði úr fangelsi og hvíldist ekki fyrr en allir úr klefanum væru dauðir.

En heimurinn er ekki svoleiðis. Réttlætinu verður aldrei fullnægt, heldur verður hún einfaldlega ein þúsunda kvenna sem lifa sem fórnarlömb um allan heim. 


mbl.is 15 ára stúlka sett í fangaklefa með 20 mönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framleiðslufyrirtæki í boði

Ég býð hér með Skjánum að frumsýna stuttmyndina Svartur Sandur.


mbl.is 13 starfsmönnum sagt upp á Skjánum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Launaþrælar

Það er vont að vita til þess að í alsnægtarþjóðfélaginu á Íslandi hafi 60% þjóðarinnar ekki efni á að kaupa sér húsnæði. Maður hefði haldið að þróunin yrði í hina áttina, en svo er ekki. Hverju er um að kenna? Kapítalisma? Of mikilli íhlutun stjórnvalda? Röngum flokkum í stjórn? Röngum áherslum stjórnvalda þar sem hlutfallslega mörg láglaunastörf eru sköpuð? Hver sem ástæðan er, þá er það greinilegt að á Íslandi er ekki það þjóðfélag sem við vildum, unnum að og héldum að við byggjum í.

Ég er í svipaðri stöðu. Það er að vísu svolítið mér að kenna. Ég var í góðri vinnu, en sagði henni upp. Þegar ég segi góðri, á ég við að hún hafi verið þokkalega borguð. Þetta var leiðinleg vinna og ég hafði lært kvikmyndun, svo ég sagði starfi mínu lausu, fór að vinna hlutavinnu og setti upp eigið kvikmyndafyrirtæki. Í hlutastarfinu er ég með rúmlega helmingi lægra tímakaup en áður. Þetta eru miðlungslaun, en ég gæti aldrei lifað af þeim. Sem betur fer er konan enn á góðum launum, en þó finnum við all hrottalega fyrir peningaleysinu. Þetta, þrátt fyrir að hafa keypt okkar húsnæði fyrir níu árum síðan. Það er því augljóst að báðir aðilar þurfa að hafa góðar tekjur til að lifa af. Ég tek það fram að við erum í Hollandi, en ástandið er síst betra heima.

Af kvikmyndadæminu er það að segja að innkoman þar er ekki upp á marga fiska. Þau störf sem ég vinn fyrir aðra eru illa borguð og vonlaust að lifa af því. Ég tók upp stuttmynd á Íslandi í fyrra. Þá var ég enn í gamla starfinu. Ég gæti ekki gert þetta aftur því það er ekki til peningur. Vandamálið við myndina er að hún er stutt, og því lítill markaður fyrir hana.

Þessi frétt og fréttin um Torrent.is í gær hefur fengið mig til að hugsa málið. Ég ætla að setja myndina á netið 1. desember og leyfa hverjum sem er að ná í hana og horfa á. Hafi fólk gaman af henni vona ég að það borgi fyrir. Svo er ég að reyna að koma henni á hátíðir. Eftir það er ekkert annað að gera en að snúa sér að næsta máli sem verður að vera kvikmynd í fullri lengd. Spurning með að taka á vandamálum líðandi stundar. Hvað er að þjóðfélaginu? Hvernig má bæta það? Ef íslendingar geta ekki lifað af launum sínum, hver getur það þá? Ég er ekki að tala um skandinavíska vandamálamynd, en það gæti verið gaman að kryfja þjóðfélagið og skoða hvað er í gangi. Allar hugmyndir eru velkomnar.

Ég sendi samúðar- og baráttukveðjur til allra sem ekki geta fengið þak yfir höfuðið. Stöndum saman og gerum Ísland að draumalandinu sem það ætti að vera. 


mbl.is Meðaltekjur duga ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

í Býtið - The Small Hours

Ég gerði stuttmynd árið 2005 um leigubílstjóra og kvenkyns farþega hans. Það fer auðvitað allt í klessu, enda væri engin mynd ef allt væri í góðu lagi.

 

Ég setti myndina í heild á netið um daginn. Hér er hún.

PS. Ef einhver vill segja mér hvernig maður setur youTube myndir inn á moggabloggið skal ég setja hana beint inn í færsluna.


Framtíð - Umhverfi - Hugmyndasamkeppni

Kjarnorkan er á undanhaldi, en hvað tekur við? Erfitt að segja.

Ég fann stórmerkilega frétt í gærkvöldi um ísbreiðuna á norðurpólnum. Þar fylgdi líka kort sem sýnir þóun síðustu ára. Mér líst ekkert á þetta. Það er spurning hvort það skipti máli hvort þetta sé okkur að kenna eða ekki, við verðum að bregðast við, hvort heldur sem er. Ég hvet alla til að skoða.

Svo er það IDFA, alþjóðleg hátíð  heimildamynda sem haldin er árlega í Amsterdam. Næsta hátíð verður helguð umhverfismálum. Því er kvikmyndafólk beðið um að senda inn litlar heimildamyndir um gróðurhúsaáhrifin. Myndin skal ekki vera lengri en ein múnúta, en skilafrestur er 1. nóvember.

Ég ætla að taka þátt og hef einhverjar hugmyndir, en ég held þeim fyrir mig í bili svo að ég sé ekki að hafa áhrif á ykkar hugsanir. Það væri nefninlega gaman að heyra ef einhverjum dettur eitthvað betra í hug. Myndin yrði gerð á einum degi í Hollandi, svo ég bið fólk að halda þessu einföldu, kraftmiklu og jökulsárlausu (það eru engar jökulár í Hollandi).

Ég er að fara til Spánar á Sunnudag og kem til baka viku síðar. Ég geri ráð fyrir að taka myndina upp og klippa milli 16. og 20. október.

Endilega látið heyra í ykkur! 


mbl.is Kæliturnar elsta kjarnorkuvers Breta jafnaðir við jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hestar og aðrir fylgifiskar vændis.

Nú er aldeilis að setja drusluna í fimmta og gefa í. Þannig er mál með vexti að ég er að undirbúa handrit að íslenskri kvikmynd sem gerist að stórum hluta í Amsterdam, þ.á.m. rauða hverfinu. Ég mun svo sem ekkert sjá eftir hverfinu og því sem þar fer fram, en ég vona af eintómri eiginhagsmunasemi að það verði mikið til óbreytt fram á vor.

Rauða hverfið í AmsterdamAnnars er það að segja af frjálsræðinu hér í Hollandi að það virkar sem eins konar kúaskítur, dregur brúnu flugurnar að sér. Hér er allt fullt af hollenskum og erlendum dópistum sem sækja í ódýrt efni. Að reykja gras er næstum því eins sjálfsagt mál og að reykja sígarettur. Þó að hörðu efnin séu ólögleg virðist kerfið vera umburðarlyndara en annars staðar. Það sést á þjóðverjunum og frökkunum sem koma hingað til að ná í nammið. Það er líka vitað að Holland, og þá sérstaklega Rotterdam, er miðpunktur dreifingar eiturlyfja í Evrópu.

Annar fylgifiskur þessarar menningar er að mikið er um klíkur og það er oft í fréttum að gengið hafi verið frá þessum eða hinum meðlim einhverrar klíkunnar. Oft eru þetta "drive-by-shootings" þar sem tveir menn á skellinöðru skjóta á hinn óæskilega. Fólk kippir sér ekki upp við þetta því þeir eru yfirleitt að ganga frá hverjum öðrum og láta óbreytta borgara að mestu leyti í friði. Til að gefa hugmynd um hvað þetta er nálægt manni, þá var ég í heimsókn í Den Bosch fyrir 2-3 árum og þetta gerðist úti á horni við skindibitastað sem þar er. Þegar við fórum heim, seint um kvöldið, var gatan full af löggum og gulur borði í kring um veitingastaðinn.

Algert bann er kannski ekki lausnin, þar sem allt þetta færi einfaldlega undir yfirborðið. Vændi er skattlagt hér og þar af leiðandi er tiltölulega auðvelt að fylgjast með því, en einhver hluti þess er þú ekki sjáanlegur, sérstaklega þegar ólöglegir innflytjendur eða fólk undir lögaldri á í hlut. Það er lítið mál að ná sér í ungar stelpur frá Úkraínu, þó þær séu að sjálfsögðu ekki til sýnis útí glugga. Svo er það klámið. Ég held það hafi verið í fyrra sem lögreglan réðst inn í vöruskemmu þar sem verið var að taka upp klámmynd með austur evrópskri stelpu og dýri. Gott ef það var ekki hestur, þó ég þori ekki að fara með það.

Spurningin er því, yrði vandamálið stærra með því að gera vændi og eiturlyf ólögleg, eða myndi það koma í veg fyrir eitthvað af þessum fylgifiskum? Þetta er erfið spurning og ég vona að Job Cohen og félagar taki rétt á þessu, frekar en að nota þetta í atkvæðaveiðar.


mbl.is Rauða hverfinu í Amsterdam breytt í verslanir og íbúðir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband