Færsluflokkur: Kvikmyndir
16.9.2007 | 10:33
Rick Treffers II - Pissstaur í vindi
Hér er falleg færsla á Sunnudegi, laus við væl, vesen og vandræði heimsins. Eins og ég sagði fyrir viku eða tveim er ég að vinna við að búa til kvikmyndahluta sviðsmyndar Ricks nokkurs Treffers fyrir hljómleikaferðina sem verður haldin í vetur og kannski fram á sumar. Ekki sat ég á fingrum mér, heldur notaði æeg þá til að munda myndavél og pota í hnappa forritsins Final Cut Pro, sem landsmenn þekkja kannski ekki af fenginni reynslu.
Verkefnið var tiltölulega einfalt. Ljósmyndir voru teknar af kappanum. Þær eru svo notaðar í bókina sem kemur með disknum. Þetta eru flottar myndir, skotnar á Hasselblad myndavél. Þegar hann innti mig eftir hugmyndum, hvað skyldi nú spilast fyrir aftan hann og spilafélagana, var ég ekki lengi að svara. Nei, mér leist ekki á hugmynd hans um að fara að spila VJ, allt of mikið verk og myndi kosta hann of mikið. Kannski texta? Nei, það er næstum vonlaust að synca það þannig að textinn sé á réttum stað þegar spilað er live. Nei, sagði ég, KISS. Ha, KISS? Já, Keep It Simple Stoopid, eigum við ekki bara að endurskapa ljósmyndirnar? Já, sagði hann, asskoti gæti það virkað.
Þannig var þetta sem sagt unnið. Ljósmyndirnar voru fyrirmyndin og við reyndum að gera hreyfanlegar útgáfur með því að fara aftur á sama stað og myndin var tekin og reyna að ná sama effect. Þetta er sem sagt ekki tónlistarmyndband eða músikkvídíó og ekki hannað til að vera kúl sem slíkt. Þetta á að fylla upp í reynsluna af hljómleikunum, án þess að draga óþarflega mikla athygli frá tónlistarmönnunum.
Hvað finnst ykkur, landar góðir? Hér er eitt sýnishorn af tólf. Ég má til með að vara við því að textinn er á hollensku.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 10:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.9.2007 | 15:29
Perrar
Á þetta að vernda börn fyrir ósæmilegum myndum sem gætu spillt þeim? Ég hef á tilfinningunni að ef einhverjir notfæra sér þetta séu það perrarnir.
Eða er ég kannski að misskilja þetta?
Varað við nöktum börnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 16:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.9.2007 | 15:53
Þetta er grátbroslegt...
Ég horfi í kring um mig og sé níu ára stelpur hlaupandi í götunni. Þær eru að klifra yfir steinvegg, toga í greinar á tréi og hjólandi fram og til baka. Þetta eru börn að leika sér. Kynlif er sennilega það siðasta sem þeim kemur hug. Svo kemur frændi i heimsokn færandi gjafir. Ekki velkomnar gjafir.
Er það ekki nogu slæmt að buið er að leggja lif hennar i rust, an þess að einhverjir truboðar dæmi hana til dauða lika?
En af hverju segi ég grátbroslegt? Ég var að skifa færslu um fæðingu Guðs. Sé sú kenning rétt sem þar kemur fram er allt þetta trúardæmi svo sorglega mikil sóun. Þetta er sóun á mannslífi, en fyrir þetta?
Hvaðan kemur hugmyndin um Guð?
9 ára barnshafandi stúlka í Mæðrahúsi í Níkaragva | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.8.2007 | 14:08
Kvikmyndalandið Ísland?
Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í dag, Sunnudag 26 ágúst. Ég hef ákveðið að henda henni hér inn svo fólk geti rætt innihaldið. Það væri gaman að heyra hvað fólki finnst. Það fylgdi að vísu ekki slóð með greininni, en við sjáum til.
Íslenska kvikmyndavorið hófst árið 1980 með gerð myndarinnar Land og Synir. Upp að því hafði verið lítið um innlenda kvikmyndagerð. Átta myndir voru framleiddar á Íslandi frá 1949 til 1977. Fimmtán ár liðu á milli 79 af Stöðinni (1962) og Morðsögu (1977)[1]. Árin á eftir voru að meðaltali gerðar tvær til þrjár kvikmyndir á ári, þó að oft hafi þær ekki verið nema ein. Þó að eitthvað hafi framleiðslan aukist frá aldamótum koma enn í dag u.þ.b. þrjár til fjórar kvikmyndir út á ári.
Á vef Kvikmyndamiðstöðvarinnar má lesa að ekki færri en fjórar kvikmyndir verði framleiddar ár hvert. Þar stendur einnig. "Aðilar eru sammála um að miða við að meðalframleiðslukostnaður kvikmynda verði í lok samningstímans 210 milljónir króna."[2] Þar er átt við árið 2010. Aðilarnir sem átt er við eru menntamálaráðherra, fjármálaráðherra og samtök í íslenskri kvikmyndagerð. Ég er viss um að þessir aðilar vita hvað þeir eru að tala um og vil ég alls ekki draga það sem sagt er í efa. Spurningin er hins vegar, þarf þetta að kosta svona mikið og eru fjórar kvikmyndir á ári nóg?
210 milljónir er ekki mikið fyrir kvikmynd. Þetta er klink ef miðað er við Hollywood. Sé myndin tekin upp á hágæða (high-definition) video í staðinn fyrir filmu og þurfi hún ekki flóknar leikmyndir má sennilega taka upp kvikmynd í fullri lengd fyrir vel innan við 10 milljónir. Hvað þarf til?
Upptökuvél sem tekur upp HDV 1080i kostar um 500.000 krónur. Það er sama upplausn og var notuð við tökur nýju Star Wars myndanna. SinCity var einnig tekin upp með sömu tækni.[3]
Klipping færi fram í tölvu. Tölva með skjá í HD upplausn og forritin sem til þarf kostar um hálfa milljón. Þá er allt komið sem þarf til að taka upp og klippa bíómynd fyrir innan við milljón. Þetta er auðvitað hægt að nota við gerð margra kvikmynda. Þetta er startgjaldið.
Segjum að tökur stæðu yfir í fjórar til sex vikur. Tíu leikarar taka þátt, hver fær 150.000 fyrir ómakið. Þetta er jú "low-budget" mynd og sennilega ekki um fullan vinnutíma að ræða. Það er 1,5 milljónir. Leikstjóri, hljóð, kvikmyndataka, skrifta, bílstjórar, bílar, matur. Milljón? Gott handrit er undirstaða góðrar myndar, svo höfundur fær milljón. Klipping og önnur eftirvinnsla tekur mánuð, kannski tvo, ef vel er að staðið. Fimmhundruðþúsund. Setjum milljón í púkkið fyrir bensíni, spólum, bókhaldi og öðru tilfallandi.
Þessi mynd kæmi því til með að kosta fimm milljónir, gróft reiknað. Er þetta bjartsýni eða er þetta hægt? Væri ekki gaman ef til væri sjóður sem styddi eina mynd í mánuði? Það væru tólf nýjar íslenskar kvikmyndir á ári, fyrir utan stóru myndirnar. En hvaðan kæmu þessar 60 milljónir?
Hvað kostar að fara í bíó á Íslandi? Þúsundkall? Það þyrftu því aðeins 5000 manns að sjá hverja kvikmynd í bíó. 10.000 ef maður reiknar vask, kostnað kvikmyndahúss og allt það. Þetta er slatti af bíóferðum, en íslendingar eru duglegir við það. Svo er sjónvarp og DVD. Ef fyrirtæki styrktu gerð myndarinnar til að byrja með, er þá ekki um að gera að nota hana sem auglýsingu og hreinlega gefa hana á DVD? Það væri auðvitað auglýsing á diskinum þegar hann er settur í spilarann. Það væri auglýsing á hulstrinu. Kannski yrði diskurinn ekki gefinn einn og sér heldur með pylsupakka, gosdrykkjum eða hvað það er sem styrktaraðilinn er að selja. Gefur þetta ekki líka skattaafslátt?
Sé farið eftir þessu kerfi má gera ráð fyrir að hver mynd verði ekki lengi á markaði. Þar kemur einstaklingurinn inn. Ef hægt er að treysta því að ný mynd komi út mánaðarlega er hægt að selja áskrift. Fyrir 500 kr. á mánuði færðu alltaf nýjasta diskinn sendan heim og nafnið þitt á skjáinn í lok myndarinnar. Segjum að eitt prósent þjóðarinnar gerist áskrifendur, þá erum við að tala um 3000 manns, 1,5 milljónir á mánuði. Áskriftin gæti kostað meira, en við höfum áhuga á að sem flestir sjái myndirnar, ekki að þetta verði gróðafyrirtæki.
Hver á að setja svona sjóð á laggirnar? Mér finnst að kvikmyndagerðarfólkið sjálft eigi að eiga fordæmi um þetta. Þekktir og óþekktir listamanna myndu vinna við myndirnar. Þannig fengju þær athygli til að byrja með. Það yrði svo verk listafólksins að nógu góðar framleiða myndir til að halda áhuga fólks vakandi. Það er engin ástæða til annars en að gæðastaðallinn haldist. Á Íslandi koma árlega út vel yfir 1000 skáldsögur. Tólf handrit ættu ekki að vefjast fyrir þjóðinni.
Það verða alltaf til sögur sem þurfa meira. Það er ekki hægt að gera stórmyndir fyrir fimm milljónir. Það er hins vegar hægt að gera virkilega góðar myndir fyrir lítið. Þetta kæmi ekki í staðinn fyrir "alvöru" bíómyndir, teknar upp á filmu á stórum sviðsmyndum með toppfólki í hverri stöðu, frekar en að pylsa komi í staðinn fyrir steik. Þetta er eitthvað sem getur hjálpað hæfileikafólki við að komast af stað svo það geti gert stórmyndir í framtíðinni.
Vorið er búið. Það er komið sumar.
Heimildir:
1. http://is.wikipedia.org/wiki/Listi_yfir_%C3%ADslenskar_kvikmyndir
2. http://www.kvikmyndamidstod.is/log-og-reglugerd/
3. http://en.wikipedia.org/wiki/CineAlta
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.8.2007 | 07:08
Verkefni með Rick Treffers
Dagurinn í dag verður spennandi. Þetta er fyrsti upptökudagur af þremur sem ég vinn með Rick Treffers. Hann er hollendingur og er að gefa út geisladisk í október. Eins og lög gera ráð fyrir verður farið í hljómleikaferðalag til að vekja athygli á afurðinni.
Hann hefur verið að í rúm tíu ár, mest með hljómsveitinni Mist. Þetta verður hins vegar sólódiskur.
Hann hafði samband við mig fyrir einhverjum vikum síðan og bað mig að hanna video hlutann. Ég notast við ljósmyndir sem voru teknar fyrir bæklinginn. Hugmyndin er að gæða þær lífi og nota þær sem bakgrunn meðar hann spilar. Í dag förum við sem sagt í upptökur.
Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þessu. Læt vita.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 07:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.8.2007 | 20:44
Ekki huxa svona mikið!
Ég skreif færslu nýlega um fimm milljóna myndir. Þetta var hugdetta og ég ákvað að skrifa hana niður áður en hún færi leið flestra minna hugmynda... hver sem sú leið er. Ég var búinn að skrifa þetta og hélt að þar með væri málinu lokið, en svo var ekki. Ekki af minni hálfu að minnsta kosti. Nú er þetta að verða einhver árátta sem mun ekki láta mig í friði fyrr en hún hefur sannfærst um að ég muni ekki gera neitt í málinu.
En er þetta ekki bara málið, búa til kvikmynd í fullri lengd með aðstoð Egils, SS, ISAL eða hvers sem vill láta merki sitt sjást. Fá litlar fimm millur sem engan munar um, gera góða kvikmynd, henda henni á DVD og gefa hann svo. Ekki selja ódýrt, ekki láta borga burðargjald. Nei, gefa diskinn og biðja um ekkert í staðinn.
Damn, mig langar að gera þetta. Mig langar eiginlega meira að gera þetta svona en fá mynd eftir mig sýnda í bíó.
Þetta mun sennilega ganga yfir.
7.7.2007 | 11:01
Svartur Sandur, fyrstu þrjár mínúturnar
Í tilefni þess a það er 7.7.7. í dag, að fólk er að hugsa um umhverfismál og að Svartur Sandur er tilbúinn...
The sýnishorn. Þetta er ekki trailer, sem slíkur, heldur fyrstu þrjár minúturnar af myndinni.
Njótið!
27.5.2007 | 07:44
Ísland, allra vinur.
Það sem íslendingar gætu gert til að auka á öryggið heima og erlendis.
Ísland er land án hers. Útlendingum finnst það stórmerkilegt. Jú, við erum meðlimir í NATO en þð er allt í lagi því við látum gott af okkur leiða. Þetta var allavega svona. Ísland hafði engan her og hafði aldrei tekið þátt í styrjöld. Orðstýr Íslands var hreinn, okkur var treyst af öllum heiminum.
Að hafa komið sér á sauðalistann um árið voru stærri mistök en margir gera sér grein fyrir. Það sem núverandi ríkisstjórn mætti gera er:
1. Draga til baka stuðning Íslands við stríðið í Írak. Þetta voru mistök sem þjóðin sá fyrir, þó að ríkisstjórnin hafi verið blind.
2. Hætta við öll áform um íslenskan her og leyniþjónustu. Þetta hljómar allt eins og einhver hafi horft of mikið á Stöð 2 og spæjaraþættina þar. Íslenskur her yrði hvort eð er bara hlægilegur. Hvern myndi leynisþjónustan svo njósna um?
3. Tryggja að Ísland haldi áfram að vera opið og frjálst samfélag.
Hinum norðurlöndunum hefur gengið tiltölulega vel að leysa alþjóðadeilur. Til að vera tekinn alvarlega verða hlutirnir að vera í lagi heima hjá manni og maður getur ekki hengt sig í pilsið hjá einum aðilanum. Er ekki komið að okkur að vera besta land í heimi? Möguleikarnir eru til staðar, málið er bara að klúðra þeim ekki.
Íslendingar á tímamótum í öryggismálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.5.2007 | 13:17
Skiptir það máli?
Hálslón er að fyllast og við gátum ekkert gert í því. Alcoa og Alcan eru að sameinast og við getum ekkert gert í því nema vonað að þetta fyrirtæki sem kaupir hátt í 80% raforku Íslands verði ekki með leiðindi. Nú á að fara að virkja það sem eftir er af Þjórsá svo að fleiri pólverjar geti komið til Íslands til að framleiða ál í kókdósir.
Ekki að ég hafi neitt á móti Pólverjum, mér finnst bara svo leiðinlegt að sjá hvernig farið er með landið okkar. Mér verður reyndar svolítið óglatt við þetta allt saman. Þetta er svo mikið virðingarleysi við landið. Þetta er svo óafturkallanlegt. Þetta er svo ónauðsynlegt.
Ísland samþykkti Íraksstríðið, svo það er greinilegt að það eru skrítin sjónarmið sem ráða ferðinni. Kannski er bara best að hætta að láta þetta fara í taugarnar á sér.
Tilboði tekið í ráðgjafaþjónustu við undirbúning virkjana í Þjórsá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2007 | 06:07
Lúmsk Fjara
Það er hrikalegt þegar aldan grípur mann. Ég var á litlum gúmmíbát í Florida um árið í fjörunni við St. Augustine. Honum hvolfdi og ég sveif í lausu lofti án þess að hafa nokkra hugmynd hvað væri upp eða niður. Ég hélt ég sæi ljós og byrjaði að synda. Ég rak hausinn í botninn og vissi því að ég var að synda niður, snéri við og komst upp. Ég var heppinn. Sjórinn var ekki nema 2-3 metra djúpur þar sem ég var og hann var auðvitað hlýr. Þó að þetta hafi líka verið úthafsalda sem skall á mér (St. Augustine er Atlantshafsmegin), er ég viss um að hún er mikið verri á Íslandi, svo ekki sé talað um hitastigið. Það er full ástæða til að hafa augun opin þegar maður gengur í fjöruborðinu og einhver alda er.
Ég tók upp hluta af stuttmynd í Reynisfjöru í fyrrasumar. Það var þokkalegt brim en ekkert til að tala um, hélt ég. Ég get ímyndað mér að Reynisfjaran sé hættulegri en hún lítur út fyrir að vera. Það er því um að gera að setja upp skilti þarna sem vara við hættunni.
Hægt er að sjá sýnishorn úr myndinni, þar sem Reynisfjara kemur fyrir, hér: http://www.oktoberfilms.com/Cinema/Emily/index.html
Kona sem hvarf í sjó í Reynisfjöru fannst látin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |