Færsluflokkur: Kvikmyndir
18.5.2007 | 11:59
Seint í rass...
Svona er að horfast ekki í augu við staðreyndir. Til að halda einhverri virðingu hefði Framsókn átt að segja sig úr ríkisstjórninni strax eftir kosningar. Nú hljómar þetta eins og "úps, ætli við getum þá komist að með hinum?". Það er greinilegt að Framsókn vill vera í stjórn, hvernig sem þeir komast inn. Það er líka pínu klaufalegt þegar formaður stjórnmálaflokks lætur baktjaldamakk koma sér á óvart.
Framsókn hafði í raun bestu spilin á hendi eftir kosningarnar, en þeir spiluðu ekki rétt úr þeim. Eftir á að hyggja var vinstri stjórn kannski ekki svo galin hugmynd fyrir Framsókn, en það er ekki nóg að sjá það eftir á.
Jón Sigurðsson: Framsóknarmenn geta hugsað sér að Ingibjörg leiði viðræður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.4.2007 | 22:21
Summertime
It's summertime, and the living is easy...
Allavega hér í Hollandi. Ég held að opinber hiti hafi verið um 25 stig í dag, en mælirinn í garðinum fór í 33 stig. Mælirinn er í skugga. Þá er bara eitt að gera, grilla pulsurnar sem mamma kom með. Á laugardag var ég allan daginn á hestamannamóti að kvikmynda hross að hoppa yfir hindranir. Það er soldið fyndið fyrir íslending að gera þetta því hollendingarnir fara öðruvísi að. Hér eru engir pelar eða lopapeysur. Menn eru uppáklæddir í rauð föt og líta út eins og pínulitlir tindátar úr Napoleon stríðunum á risastórum hestunum.
Svo er ég að kynnast Mats betur og hann okkur eftir því sem hann eldist og þroskast. Ég hef tekið upp á því að vagga honum þegar hann er óvær. Ég set tónlist á og þá erum við bara tveir einir í heiminum. Það er ekki sama hvað spilað er, en Fade to Black með Dire Straits er vel þegið, lengri Pink Floyd lögin, Katie Meluha. Uppáhaldið er samt útgáfa Paul McCartney á Summertime. Þetta er skemmtilega hrá og blúsuð útgáfa og Mats róast um leið og hann heyrir upphafstónana. Hann er yfirleitt sofnaður þegar lagið endar. Merkilegt að hann skuli taka eitt lag fram yfir önnur, en svona er það samt.
Meira seinna. Nú þarf ég að fara að sofa. Löng vika framundan.
26.2.2007 | 22:12
Hver vill sjá myndina?
Eins og bloggvinum og öðrum er sennilega ljóst, er stuttmyndin Svartur Sandur um það bil tilbúin. Við erum ennþá að laga og bæta, en þetta eru smáhlutir sem pússast af með fínum sandpappír. Það eru ennþá smá vandamál með hljóð sem verða leyst í vikunni, örfáir staðir þar sem klippingin hefði mátt vera pínulítið öðruvísi.
Nú er spurningin einfaldlega, er eitthvað varið í ræmuna? Er þetta frábær mynd sem mun umbylta íslenskri kvikmyndagerð eða er þetta della, tímasóun fyrir alla sem komu að þessu? Hvorugt sennilega, en hvar á skalanum er hún? Ég get ekki dæmt um það. Ég samdi handritið, framleiddi og leikstýrði, hélt yfirleitt á kamerunni. Ég er svo samdauna myndinni að ég hef enga hugmynd um hvað fólki mun finnast um hana. Þannig að...
Ég var að spá í að fá vel valið fólk, sem þekkir mig og minn hugsanahátt sama og ekkert, til að horfa á myndina þegar hún er tilbúin. Hún er gerð á Íslandi, fyrir íslendinga. Ég hef hins vegar engan aðgang að íslendingum í mínu daglega lífi. Þessi síða er því staðurinn til að finna fólk sem maður þekkir lítið sem ekkert. Ef lesendur þessa bloggs vilja sjá myndina þegar þar að kemur, eftir 1-2 vikur, er um að gera að láta mig vita. Þetta er auðvitað endurgjaldslaust, en fólk verður að skrifa mér og segja mér hvað því fannst um myndina. Var hún vel gerð eða amatörsleg, spennandi eða leiðinleg, auðskiljanleg eða óskiljanleg? Skildi hún eitthvað eftir sig og þá hvað? Hvað hefði mátt vera öðruvísi? Það er sem sagt hægt að sjá myndina endurgjaldslaust, en það þarf að vinna fyrir því.
Látið mig endilega vita á info@oktoberfilms.com ef áhugi er fyrir hendi.
20.2.2007 | 10:25
Svartur Sandur í vinnslu
Við erum á fullu að klára myndina. Enski, íslenski og hollenski textinn er tilbúinn og ég er að klára DVD valmyndina, menuinn, whatever. Myndin sjálf ætti svo að vera tilbúin um helgina.
Hvað um það, mér datt í hug að henda inn smá óopinberu sýnishorni. Þetta er DVD Main Menu. Voða einfalt, en gefur kannski einhverja hugmynd.
Svo er bara að koma myndinni fyrir augu almennings, og ykkar sem hafið fylgst með hér á blogginu.
16.2.2007 | 17:25
SVARTUR SANDUR
Nú fer alveg að koma að því, myndin, sem hefur bara verið kölluð myndin fram að þessu, er svo gott sem tilbúin. Ég var að koma frá klipparanum þar sem við horfðum á hana og töluðum um hvað þarf enn að gerast.
Það þarf enn að leiðrétta örfá klippimistök og fínpússa hér og þar. Það þarf að velja stafagerð svo að allir titlar líti rétt út og leiðrétta pínulítið, þar sem ég virðist ekki geta pikkað án þess að pota í vitlausan takka. Mitt eigið nafn var meira að segja vitlaust stafað. Svo þarf ég að þýða myndina á hollensku og gera íslenska, enska og hollenska textann tilbúinn fyrir prufudiskinn. Við gerum ráð fyrir að þessi vinna verði búin í vikunni og að við getum gert prufudiska eftir viku.
Það sem gerist næst er að við sýnum völdu fólki myndina og heyrum hvað það hefur um hana að segja. Ef það sér mistök verða þau leiðrétt. Ef eitthvað er einstaklega hallærislegt verður það lagað ef hægt er en látið standa ef ekki.
Hvað finnst fólki svo um nafnið sem ég er loksins búinn að finna? SVARTUR SANDUR eða BLACK SAND eins og hún verður kölluð í erlandi?
Svo er bara spurningin, hvar á maður að sýna hana fyrst?
11.2.2007 | 09:38
Mats stækkar en myndin ekki
Fyrst er það Mats. Honum gengur vel að aðlagast heiminum. Stundum er hann ósáttur við okkur, sérstaklega þegar við tökum hann úr öllum fötunum, en hann er yfirleitt ljúfur sem lamb, eða kind eins og hollendingar kalla börn.
Svo var ég að horfa á myndina í gær. Hún er næstum því tilbúin. Það voru nokkrir smápunktar sem þurfti að lagfæra, en ég held við getum farið í litaleik um helgina og textun og DVD hönnun í næstu viku. Þetta er allt að koma. Ég held hún sé orðin eitthvað styttri en hún var. Er ekki viss.
Meira seinna. Ef einhver veit um tímastrekkingartæki vil ég endilega fá svoleiðis.
5.1.2007 | 08:50
Spáin fyrir 2007
Halló öll og Gleðilegt Ár! Seint í rassinn gripið að segja þetta núna þegar þrettándinn er innan seilingar, en það er bara svona. Ég ákvað að taka mig frekar hátíðlega og setja inn færslu á nýársdag, eitthvert Nýársávarp sem yrði svo fastur liður um alla framtíð, en tíminn var ekkert að bíða eftir mér. Sem sagt, hátíðleikinn fokinn og það er bara fínt.
Ár hvert er málið að strengja áramótaheit, en ég ákvað að sleppa því í ár. Árið 2007 verður ár breytinga svo ég læt það bara koma og við sjáum hvað eftir stendur í árslok. Hvað mun breytast? Einfalda svarið er allt, en hér er smá útskýring.
Til að skilja það sem er að gerast er best að fara í gegn um það sem þegar er breytt. Árið 2004 hóf ég nám í kvikmyndagerð. Það er búið og ég hef verið að byggja upp dæmið síðan. 2006 var undirbúningsárið mikla. Ég sagði upp góðri vinnu og tók stórt stökk inn í fjárhagslegt óöryggi. Spurning hvort ég hafi verið of fljótur á mér, en málið er að ég hefði ekki komið neinu í verk hefði ég haldið áfram. Kvikmyndir eru samt bara lítill hluti. Það er ungi á leiðinni og það þýddi að við þurftum að taka húsið í gegn. Eldhúsið var orðið einhverra áratuga gamalt. Unginn þarf herbrgi svo tómstundaherbergið þurfti að fjúka. Við erum búin að vera í byggingavinnu síðan í september, fyrst í eldhúsinu, síðan á háaloftinu þar sem tölvurnar eru nú og núna erum við að klára barnaherbergið.
Það er ekki hægt að segja að manni leiðist. Vinna, viðhald (ekki önnur kona samt) og breytingar og svo kvikmyndadæmið. 24 tímar á dag eru ekki nóg. Í gær var ég að vinna á Schiphol frá 5 um nótt til 2 eftir hádegi. Síðan var ég á fundi þar sem nýja fyrirtækið sem verður stofnsett á mánudag var rætt. Við ræddum líka um verkefnin sem framundan eru. Þar á meðal er heimildamynd um Rúmeníu, um Amsterdam-Dakar keppnina, einhverjar hljómleikamyndir og heimildamynd um hluti sem gerðust á Íslandi um aldamótin 1900. Svo erum við líka að plana íslenska framhaldsþætti, en framtíð þeirra veltur á því hvernig hugmyndinni verður tekið heima. Ég var kominn heim um 7, borðaði og fór svo í að svara emilum frá fólki sem er að taka þátt í stuttmyndinni og myndinni um Rúmeníu. Dagsverkinu var lokið um 21:30. Ég held ég hafi verið sofnaður rétt eftir tíu. Þetta er bara ósköp venjulegur dagur. Ég vona innilega að þetta dæmi fari að skila einhverju af sér.
Árið eins og það lítur nú út er einhvernvegin svona:
Janúar - fjárlögin fyrir Rúmeníu eru tilbúin.
lok-Janúar - tónlistin er tilbúin.
4. Febrúar - nýr einstaklingur kemur í heiminn.
mið-Febrúar - stuttmyndin er tilbúin.
lok-Febrúar - stuttmyndin hefur verið skoðuð og fínpússuð og er tilbúin fyrir DVD.
Mars - undirbúningi Rúmeníu lokið.
mið-Mars - DVD diskurinn er tilbúinn og stuttmyndin er tilbúin til dreyfingar.
2. Apríl - stuttmyndin frumsýnd.
Apríl - unnið að íslenskri heimildamynd.
Maí - upptökur í Rúmeníu.
Maí - undirbúningur framhaldsþáttanna hafinn.
Júní - undirbúningur að kvikmynd hafinn.
Júlí - Rúmenía tilbúin.
Ágúst - Amsterdam-Dakar (ég fer sennilega ekki með).
Ágúst - Rúmenía tilbúin til dreifingar.
Ég þori ekki að plana lengra. Ég vona að þetta gangi upp og ég sé ekki að drepa sjálfan mig. Það er að vísu svo að þó ég sé að mestu leyti sjálfur að vinna í þessum verkefnum enn sem komið er, mun ég fá annað fólk til að axla ábyrgð á nýja árinu. Þannig er ég í sambandi við fyrirtæki í Rúmeníu sem er að vinna í fjáröflun, við kvikmyndagerðarmann þar sem mun sjá um tökur og fyrirtæki í Rotterdam sem mun hjálpa til við undirbúning og að afla þekkingar. Það sama mun gerast á Íslandi þegar undirbúningur að framhaldsþáttunum hefst. Ég vil líka finna gott fólk í íslensku heimildamyndina. Ég fer ekki með í kappaksturinn (held ég). Þetta virðist því vera að færast meira í áttina að framleiðslu. Við sjáum til. Svo er bara að sjá hvort beibið éti upp allan minn tíma.
Hvort sem 2007 verður gott ár eða ekki, er það alveg a hreinu að það verður ekki langdregið. Ég býst við að halda upp á 2008 í næstu viku.
24.12.2006 | 22:15
Focus
Í tilefni jólanna hef ég ákveðið að setja inn myndband sem ég gerði fyrir hollenska söngkonu í fyrrahaust. Þetta gerðist svona...
Ég fór á tónleika sem voru kallaðir Live in the Living af því að hljómsveitir komu fram í stofu heima hjá fólki. Ein þeirra sem komu fram var Marike Jager. Röddin var heillandi og ég ákvað að ég yrði að gera eitthvað með henni. Það sem ég er siðvandur maður bauðst ég til að gera myndband við lag af þá óútkominni plötu hennar. Það var slegið til og ég fór að hugsa um hvað myndbandið skyldi vera.
Sagan var samin og við komum okkur saman um tökustaði og daga. Stór hluti var tekinn upp í sandöldum í Soest í mið-Hollandi. Café hlutinn og götuatriðið var svo tekið upp í Amsterdam. Við notuðum líka myndver með bláum vegg til að taka upp sum atriðin, eins og þar sem hún er tvisvar í mynd.
Myndbandið var svo klippt og litað af mér. Ójá, ég lærði tvennt af þessu verkefni. Ekki gera allt sjálfur án þess að biðja nokkrn mann (eða konu) um hjálp (þó að erfitt sé að fara eftir því) og hitt var...
Látið svo endilega vita hvað ykkur finnst. Og til þeirra sem ekki lásu síðustu færslu, Gleðileg Jól!
4.12.2006 | 21:14
Tunglmyrkvi 337
Ofboðslega getur heimurinn verið spennandi! Ég var að tékka á hvenær fullt tungl verður á næstunni. Það er nebbla þannig að kérlingabækurnar segja að börn eigi það til að fæðast við slík tækifæri. Þar sem tilvonandi afkvæmi undirritaðs er væntanlegt innan tveggja mánaða vildi ég sjá hvaða dagsetningar væru líklegastar.
Ég komst að þvi að almyrkvi verður 3. mars 2007. Hann verður vel sýnilegur í Evrópu ef veður leyfir. Þetta fannst mér voða spennandi og hef lesið heilmikið um þetta fyrirbæri. Spurning með að beina HD camerunni í átt að tunglinu og ná góðu vídeói af þessu. Gæti verið gaman.
Þetta er tíminn (CET þar sem ég er á meginlandinu). Ég held að íslendingar þurfi að draga klukkutíma frá.
Total Eclipse of the Moon
Zone: 1h East of Greenwich
Moon's
Azimuth Altitude
h m o o
Moonrise 2007 Mar 03 19:04 81.8 ----
Moon enters penumbra 2007 Mar 03 21:16.4 81.0 31.2
Moon enters umbra 2007 Mar 03 22:30.0 78.6 49.0
Moon enters totality 2007 Mar 03 23:43.8 71.6 66.7
Middle of eclipse 2007 Mar 04 00:20.9 61.4 75.2
Moon leaves totality 2007 Mar 04 00:58.0 29.5 82.1
Moon leaves umbra 2007 Mar 04 02:11.7 295.1 74.3
Moon leaves penumbra 2007 Mar 04 03:25.4 281.6 57.0
Moonset 2007 Mar 04 07:24 275.3 ----
1.12.2006 | 16:07
Myndin í klippingu
Vildi bara koma þessu að. Ég var að koma frá klipparanum. Hann er að vinna í að slípa þennan voðalega hrjúfa demant. Lítur vel út. Ég er fullur bjartsýni að þessi mynd verði bara asskoti fín þegar upp er staðið. Annars hef ég verið að rausa um það mánuðum saman án þess að sýna mikið. Ég vona að þetta fari að smella saman og að ég hafi eitthvað meira en lítil sýnishorn innan mjög skamms. Ég er ennþá að bíða eftir tónlistinni, svo ég get ekki gefir neinar dagsetningar, en þetta er að koma.
Svo er það líka... ég hef voðalegar áhyggjur af því að fólk skilji myndina ekki, því þótt þetta sé bara stuttmynd er komið svo víða við að meðal kvikmynd myndi skammast sín. Kona klipparans var að horfa á myndina í núverandi formi, illa klippta, hljóðið út um allt og engin tónlist. Henni fannst myndin góð og fattaði plottið, svo núna líður mér betur. Hún hafði nebblega enga hugmynd um havð myndin var.
Þaldég.