Færsluflokkur: Kvikmyndir

Stuttmynd - Fyrsta sýnishornið

Þetta var fyrsta sýnishornið sem ég setti á netið. Þetta átti ekki að verða neitt, ég var að vinna við að klippa draum sem átti að vera í myndinni. Ég ákvað svo að setja þetta á heimasíðuna svo að samstarfsaðilar gætu séð hvað ég væri að gera. Síðan hefur komið í ljós að sumum finnst þetta flottara en seinna hornið, sem kom reyndar fyrst inn á bloggsíðuna. Sýnir bara hvað maður getur haft litla tilfinningu fyrir eigin verkum.

Það er einmitt þess vegna sem að ég hef látið annan klippara hafa myndina. Best að fá óháðan aðila til að klára dæmið. Nú er ég að bíða eftir tónlistinni og þá er hægt að klára dæmið. Við erum sem sagt að komast á endasprettinn. Ég læt vita þegar nær dregur. 

PS. Eftir að hafa horft á hornið hér á síðunni verð ég að segja að gæðin eru ekki yfirdrifin. Ég reyni að laga það, en læt þetta þó standa þangað til. 


Skamm!

Ég ætla að vona að hann skammist sín. 

Hvað er að íslensku dómskerfi? Maðurinn misnotar börn í fleiri ár og MBL.is hefur eftir Héraðsdómi Reykjavíkur "að maðurinn eigi sér engar málsbætur." Það hefði ég túlkað þannig að hann fengi dóm sem væri a.m.k. í einhverju samræmi við brotið. Í staðinn er hann skammaður góðlátlega og vinsamlegast beðinn um að gera þetta ekki aftur.

Þetta er móðgun við fórnarlömbin.


mbl.is Dæmdur í 3½ árs fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 2 stúlkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að texta mynd...

...sökkar. Þvílíkt starf. Allavega, ég skulda ykkur ekki kvikmyndablogg, svo hér er það.

Anna Brynja í bílÉg var frekar upptekinn í gærkvöldi, var að klippa til fjegur um morguninn. Það var fluga í hausum á mér sem hætti ekki að suða. Klára röffköttið fyrir miðvikudaginn. Þá er hægt að texta og koma þessu frá sér. Ég kláraði sem sagt að búta saman myndinni og horfði á hana frá upphafi til enda í fyrsta sinn. Þetta var mikil stund, vegna þess að þarna var ég að sjá sköpunarverkið mitt í fyrsta skipti og af því myndin er svo löng. Mér er talin trú um að mynd er stuttmynd svo lengi sem hún nær ekki klukkutímanum. Þessi er 37 mínútur. Það er 1/3 af bíómynd. Spáið í það. Það held ég að maður sé léttskrítinn að fara út í svona dæmi.

Það var skrítin tilfinning að sjá myndina frá upphafi til enda. Ég var ekkert alveg viss um að þetta væri að virka. Þá minnti ég mig á að það á eftir að fínpússa klippinguna, laga liti og hljóð og semja tónlist. Þetta er ekki tilbúið. Í dag fór ég í að prufa liti og lagaði klippinguna til. Þetta er bara að virka, svei mér þá. Ég hef trú á þessu. Ójá.

Það skemmtilega var að leikaranir (here I go again) voru að skila sínu. Ég horfði upp á persónurnar falla í gryfjurnar sem ég hafði skrifað og hugsaði með mér, ekki gera þetta. Farðu varlega. Það verður gaman að sjá hvað öðrum finnst um þetta allt saman.

En af hverju er ég að texta þetta? Það er nebbla þannig að tónskáldið er enskt og skilur ekki baun í íslensku. Ég þarf því að texta alla myndina áður en ég set hana á DVD og sendi hana til hans. Það er voðaleg vinna. Svo mikil vinna að ég hlýt að vera fífl að vera að taka mér pásu til að pikka þetta blogg. Það er eins og sé ekkert líf nema maður hafi lyklaborðið undir nefinu.

Allavega, ég er spenntur. Svo spenntur að nú hætti ég þessu svo ég geti farið að texta svo ég geti sent diskinn svo ég geti heyrt hvers konar tónlist myndin fær heimsfrægan tónlistarmann til að semja. Ojá, hann er heimsfrægur. Ég er viss um að flestir íslendingar, flestir vesturlandabúar reyndar, undir fimmtugu eigi plötu sem hann spilar á.

Gleymið svo ekki að tilnefna fyndnasta bloggarann hér! 


Hvar er leyniþjónustan...

...þegar maður þarf á henni að halda? Það er alveg ljóst að það er fólk á meðal okkar sem þarf að taka í tuskuna.

spys_180x135Þegar litið er á úrslit könnunnar hér til vinstri er ljóst að flestir eða 35% vilja sjá myndina í kvikmyndahúsi. Gott mál. Næstum jafn margir vilja sjá hana í sjónvarpi. Allt í lagi svo sem, nema að eftir að allir fengu sér víðskjárvörp (eða hvað wide screen er á ísl.) er fólk annað hvort of feitt eða of mjótt því enginn virðist kunna að stilla það.

25% vilja sjá myndina á netinu. Það vill hins vegar enginn sjá myndina á DVD. Enginn. Núll prósent. Ég sem ætlaði að búa til svo mikið aukaefni.

Það sem mér finnst verst er að heil 10% segjast alls ekki vilja sjá myndina. Þetta eru ekki nema tvær hræður, svo að það er spurning með að siga leyniþjónustunni á þær (þau, þá).

Ég biðst afsökunar á þessari færslu. Þetta er næst-tilgangslausasta færsla mín frá upphafi. 


Stuttmynd - Sýnishorn tvö

Ég var að klára að setja saman nýtt sýnishorn. Eins og síðast er þetta ekki kynningarmyndband (trailer), þar sem myndin er ekki komin það langt í vinnslu. Tónlistina gerði ég sjálfur, þar sem eiginleg tónlist myndarinnar er ekki tilbúin. Þetta er meira til að gefa fólkinu sem hjalpaði til möguleika á að sjá hvað er að gerast.

Myndbandið hér á blogginu er í venjulegru vef upplausn, 320x240 pixlar, en hægt er að nálgast iPod útgáfu í hærri upplausn á Oktober Films heimasíðunni.

Látið svo endilega vita hvað ykkur finnst og hvort það sé góð hugmynd að setja myndbönd beint inn í færslu eins og hér er gert.

 


Samkeppni?

Við vesturlandabúar erum heppin að búa í frjálsu þjóðfélagi. Þangað til annað kemur í ljós. Ég var að vinna fyrir heildsölu sem sérhæfir sig í IBM tölvum. Þar sem ég er að vinna við kvikmynd og setja upp mitt eigið fyrirtæki í kvikmyndagerð og þarf tíma til að koma því í gang vildi ég vinna þrjá daga í viku. Það var í lagi í fyrstu en þegar til stóð að efna það var fyrirkomulagið ekki nógu gott fyrir yfirmanninn og þurfti ég því að velja, halda áfram í vinnunni og gefa kvikmyndir upp á bátinn eða halda fyrir nefið og stökkva ofan í djúpu laugina, segja upp vinnunni og vona það besta.

Ég hætti. Mér var fljótlega boðin vinna hjá þýskum samkeppnisaðila. Ég myndi setja upp söluskrifstofu í Hollandi. Þrír dagar í viku eru ekkert mál og ég vinn að heiman til að byrja með. Ég keyrði til Þýskalands í síðustu viku til að hitta fólk og er skemmst frá því að segja að þar eru skemmtilegar hugmyndir í gangi. Ég myndi því byrja að vinna fyrir þjóðverjann um mánaðamótin. Fullkomin áætlun, þar sem ég er á launum, hef tíma fyrir kvikmyndir og næ mér i reynslu við að reka fyrirtæki.

Þá kom babb í bátinn. Það er lenska að setja klausu í ráðningarsamninga hér í landi að maður megi ekki vinna fyrir samkeppisaðila í heilt ár eftir að maður hættir hjá viðkomandi. Það er því búið að loka fyrir þann möguleika að ég geti unnið fyrir mér, að ég geti brúað bilið þar til kvikmyndirnar fara að gefa eitthvað af sér.

Þetta þykir víst sjálfsagður hlutur, þar sem ég þekki viðskiptavinina og veit hvernig markaðurinn er. Ég lærði þetta hjá fyrrverandi vinnuveitenda og þar með skulda ég honum víst eitthvað. Mér finnst hins vegar að hefði hann haft áhuga á að leysa þriggja daga málið á sínum tíma væri ég ennþá að vinna fyrir hann. Okkur er sagt að við búum í fjálsu þjóðfélagi, en ef þetta eru ekki nútíma átthagafjötrar, þá veit ég ekki hvað. Nú er bara að sjá hvort hægt sé að leysa málið, með góðu eða lögfræðingi ef með þarf.

Skemmtilegra málefni að lokum, ég geri ráð fyrir að hafa annað sýnishorn af myndinni tilbúið á næstu dögum. 


Íslenskar Stuttmyndir

Það vita sennilega flestir lesendur bloggsins að ég er að vinna við að gera stuttmynd. Eftirvinnsla er í fullum gangi og þetta lítur vel út. Það er því augljóst að ég hef áhuga á stuttmyndum. Það vita færri að ég lærði fjölmiðlun á árum áður og sú veira verður seint drepin. Bætum svo við að RÚV er að fara að setja mikið meiri pening í kaup á íslensku efni, og við gætum farið að sjá markað fyrir íslenskar stuttmyndir. Því var mér að detta svolítið í hug.

Erum við að fara að upplifa annað íslenskt kvikmyndavor? Kannski meira tengt sjónvarpsefni? Það er fullt af þekkingu á Íslandi. Margir sem vilja búa til kvikmyndir, en einhvers staðar þarf að byrja. Er ekki um að gera að gefa íslenskum stuttmyndum þá athygli sem þeim ber?

íslensk vefsíða sem fjallar um íslenskar stuttmyndir á að vera til.  Einn staður þar sem fólk getur komið og lesið um myndir, leikara, leikstjóra, hvað er á döfinni, hvað er hægt að sjá og hvar. Það væri jafnvel hægt að horfa á myndir á síðunni, allavega kynningarmyndir svo að fólk geti ákveðið hvað það vill sjá. Þetta getur svo undið upp á sig og orðið DVD útgáfa, þar sem samansafn bestu íslensku stuttmyndanna er hægt að kaupa.

Annað sem ég myndi vilja gera er að gefa út einhverskonar tímarit, sennilega á þriggja mánaða fresti, þar sem talað er við fólk og sagt frá því helsta sem er í gangi. Þetta yrði sennilega gefið út sem PDF skrá sem hægt væri að sækja og prenta út ef fólk vill.

businesscardbackÞetta eru stórar hugmyndir og munu kosta mig mikinn tíma, en ef áhugi er fyrir hendi getur þetta orðið mjög skemmtilegt og þess virði. Það veltur allt á því hvað maður hefur úr miklu efni að moða. Ég vil því biðja fólk að hafa samband ef það hefur eitthvað að segja. Einnig væri það vel þegið ef þú, lesandi góður, segðir vinum og kunningjum sem eru í kvikmyndahugleiðingum frá þessari hugmynd.

Ég er búinn að skrá netfang fyrir þessa síðu, Stuttmyndir.com, svo nú er bara að koma dæminu af stað. 


Til Hamingju Ísland!

Við erum öll voða stolt af Íslandi og hvað svona smá þjóð getur komið í framkvæmd. Íslendingar geta allt.

Nú er málið að setja upp leyniþjónustu svo við getum fylgst með öllum og kannski er málið að setja upp geimferðaáætlun líka. Við misstum af því þegar norðmenn og fleiri voru að ná sér í búta af suðurskautslandinu fyrir hundrað árum, við klúðruðum Ameríku fyrir þúsund árum, en við erum komin út úr moldarkofunum. Nú er málið að ná sér í feita spildu á tunglinu.

Íslendingar geta allt. Það sannar hið mikla mannvirki við Kárahnjúka. Ísland er málið. Til hamingju Ísland! Þú er best.


mbl.is Hálslón sextán metra djúpt, Jökla er horfin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trick or Treat?

Fleiri fréttir úr kvikyndaheiminum í Niðurlandi. Ég veit hvað ég verð að gera á hrekkjavökunni þetta árið. Ef halloween heitir hrekkjavaka á íslensku. Var það ekki? Minnir það. Ég var að komast að því að mín er vænst á kvikmyndasetti þá nóttina. Ég verð á flækingi um allt Holland mundandi kameru framan í leikara sem eru að þykjast éta einhvern blaðamann lifandi. Eitthvað  svoleiðis. Þetta verður kvikmynd í fullri lengd. Ég er bara einn af crewinu í þetta skiptið, en það er bara fínt því ég þarf líka að klára mína eigin mynd.

Af henni er allt fínt að frétta. Ég vildi geta klippt meira, en ég er enn fastur í kleprunni (sjá gamla færslu) og verð það til mánaðamóta. Þá taka við spennandi tímar með skemmtilegum verkefnum og engri innkomu. Þið megið biðja fyrir mér eða senda pening. Eða bara segja mér að vera ekki með þessa vitleysu og finna mér aðra vinnu.

Svo að lokum, ef þið lítið hér til hliðar vinstra megin getið þið séð nýja skoðanakönnun. Sú gamla er farin, þar sem spurt var á hvaða tungumáli myndin ætti að vera. Íslenskan vann og myndin var tekin upp á íslensku. Nú er spurningin, hvar er best að sjá myndina?

Bless í bili. Þarf að fara að sofa og safna kröftum fyrir morgundaginn. Ekki gleyma að það er ennþá hægt að sjá litla sýnishornið á www.oktoberfilms.com


Loksins hægt að sjá eitthvað

Ég er búinn að vera að rausa um þetta í einhverja mánuði. Ég er búinn að vera að vinna í þessu síðan í febrúar, þegar ég fékk hugmyndina. Það er loksinskomið að því að ég geti sýnt eitthvað. Þetta er ekki mikið. Vesælar 54 sekúndur. Þetta er heldur ekki alvöru treiler. Þetta er bara smá bútur sem ég var að vinna við og ákvað að deila með heiminum. Það var um að gera, því að kemur svo margt fyrir í þessu broti.

Njótið endilega, því ég geri ráð fyrir að það muni líða einhver tiimi þangað til alvöru treilerinn kemur á netið. Og endilega haldið áfram að koma með nöfn. Svartur Sandur (Black Sand) er allt í lagi, en er það hið eina sanna?

Myndbrotið er hægt að finna á OktoberFilms.com 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband