26.2.2008 | 17:12
Áhugi
Fyndið, fréttin orðin 36 tíma gömul og enginn hefur gert athugasemd. Er nokkuð ólíklegt að LiveWhateveryoucarefor dæmið sé orðið þreytt? Live Aid var mikill atburður, ekki síst vegna þess að svona hafði ekki verið gert áður. Að vísu hafði George Harrison sett Concert for Bangladesh á fót, en það var 14 árum áður og ekki eins stórt og Live Aid. Á eftir komu Ferry Aid, Net Aid og sennilega fleiri. Það var svo 2005 sem Live8 endurvakti þetta form. Það var mikið um dýrðir, en það toppaði ekki Live Aid. Svo kom Earth Aid og nú Peace Aid, eða hvað það mun heita. Er ekki bara soldið mikið að hafa svona árlegan viðburð? Kannski að sviknum loforðum og sömu gömlu eymdinni þrátt fyrir allt sé um að kenna? Það er sama hvað Bono öskrar, ekkert gerist.
Svo er kannski spurning hvort Bono sé ekki orðinn ansi heimilisvanur hjá fólki sem lætur sig eymd þriðja heimsins engu skipta.
![]() |
Stórtónleikar fyrir frið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.2.2008 | 23:38
Sérstakt
Það er ekki oft sem ég blogga um fjölskylduna en ég ákvað að gera það núna. Bara lítið. Miriam, mamma Mats er í París, svo við erum bara tveir heima. Það þýðir samt ekkert að detta í bjór og snakk. Hann er allt of ungur.
Ég lét vatn renna í baðið, notalega heitt. Á meðan það var að gerast hitaði ég mjólk. Þegar mjólkin var orðin heit, setti ég smá (hvað heita hvítu flögurnar sem maður setur í barnamjólk?) út í, setti túttuna á og hristi vel. Svo greip ég litla svínið og fór upp stigann og inn á baðherbergi. Ég klæddi litla dýrið úr og setti það í baðið. Mikið var buslað og ég henti 15 gúmídýrum út í vatnið. Kisan kom og stökk up á brúnina. Það var auðvitað skett smá vatni á hana, en hún lét sig hafa það.
Þegar Mats var orðinn hreinn, var hann þurrkaður með handklæði sem hafði verið hitað á ofninum. Hann var svo klæddur í náttföt og settur í rúmið. Loksins fékk hann að drekka mjólkina. Hann sofnaði um leið og pelinn var tæmdur.
Það er eitthvað sérstakt við að hugsa um eigið barn. Ég hef aldrei séð sjálfan mig sem "barnafólk". Geri það ekki enn, en þau geta bara verið svo mikil krútt.
Þess má svo geta að kökumyndin var tekin í eins árs afmælinu, 27. janúar.
![]() |
Pabbar auka hamingjuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.2.2008 | 22:35
Það er búið að leysa þessa gátu.
![]() |
Innbyggð trú rannsökuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.2.2008 | 22:18
Næsta mynd um tunglið?
Ég tók upp almyrkvann fyrir ári síðan. Hugmyndin var að gera mynd með fallegri tónlist, en ég hef ekki haft tíma til að koma þessu í verk. Vonandi kemst ég í þetta á næstu vikum. Trixið við þessa mynd verður að vera tónlistin. Sjáum til.
Annars notaði Hergé tunglmyrkvasöguna í bókinni Fangar Sólhofsins, þar sem Kolbeinn kom í veg fyrir að Tinni og felagar yrðu brenndir á báli. Þar var að vísu um sólmyrkva að ræða, en er þetta ekki sama sagan?
![]() |
Almyrkvi á tungli annað kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.2.2008 | 09:31
Eru allir þjófar?
Stutta svarið er nei. Langa svarið er aðeins lengra.
Eins og báðir fastagestir þessa bloggs vita gerði ég tilraun í desember. Þá var SMÁÍS mikið í fréttum og blogguðu margir um fasískar aðfarir þeirra gegn torrentsíðum á Íslandi. Allir voru stimplaðir þjófar, var sagt. Væri verði stillt í hóf og milliliðir fjarlægðir myndi fólk borga fyrir tónlist, kvikmyndir og tölvuforrit. Það vildi þannig til að ég var með tilbúna stuttmynd og ákvað ég að prófa hvort þetta væri rétt.
Stuttmyndin var sótt vel yfir 1000 sinnum á mína síðu. Hún var komin inn á nýja torrent síðu innan örfárra daga. Ég veit ekki hversu oft hún var sótt þangað, en ég geri ráð fyrir að heildarniðurhal sé ekki undir 1500. Það má því segja að myndin hafi slegið í gegn, þannig lagað, miðað við að hún var bara kynnt hér og í lítilli frétt á MBL.is. Þetta er allt gott og blessað, en ég lifi ekki á niðurhali annara. Það kostar mig reyndar, þar sem ég þarf að halda úti vefsvæði sem ræður við niðurhal upp á einhver gígabæt á mánuði. Hvernig yrði þetta fjármagnað?
Ég bauð fólki að sækja myndina og borga hvað sem það vildi. 100 kall, þúsundkall, milljón. Skiptir ekki máli, hugmyndin var að sem flestir borguðu eitthvað. Að vísu bauðst ég til að senda diskinn þeim sem borguðu 1100kr eða meira. Ég vildi sanna að fólk myndi styrkja þau verkefni sem væru boðin á skikkanlegu verði án milliliða. Ég gerði myndina og fólk gat ákveðið verðið sjálft. Það er hægt að gera ráð fyrir að fólk sem sækir myndina hafi áhuga á henni og ættu greiðslur að vera í einhverju samhengi. Það var þó ekki þannig. 15 manns hafa greitt fyrir myndina, eitt prósent hefur greitt fyrir niðurhalið. Það verður því miður að segjast að flestir vilja allt fyrir ekkert. Ég tek auðvitað ekki fyrir það að 99% hafi hreinlega fundist myndin leiðinleg og ekki þess virði að styrkja. Það get ég ekki dæmt um.
Í gær tók ég myndina af netinu. Sala verður að gerast með öðrum hætti. Það er ennþá hægt að kaupa diskinn með því að leggja inn á PayPal reikninginn eða reikning minn í Kaupþingi og hafi fólk áhuga er það vel þegið. Auðveldast er þá að leggja inn á reikning 39 á Selfossi, kt. 100569-3939. Boðið stendur enn, 1100 kall eða meira og ég sendi DVD.
Ég er ennþá sannfærður um að dreifing á netinu er framtíðin, en það þarf sennilega að skikka fólk til að borga fyrst og horfa svo.
![]() |
Sjóræningjar herja á Nintendo |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 21:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
18.2.2008 | 08:50
Blu-Ray is dead!
Þannig lagað. Auðvitað eiga eftir að seljast myndir á blágeisla diskum, en ég held að framtíðin sé niðurhal. AppleTV er að gera sniðuga hluti. Þetta er lítill kassi sem tengdur er við sjónvarpið í einn endann og netið í hinn. Hægt er að ná í youTube efni beint. Það sem betra er, fyrir HD áhugafólk er að hægt er að ná sér í HD myndir á iTunes á örfáa dollara. Minnir að það hafi verið 4-5 dalir, myndin. Maður situr sem sagt á sófanum með fjarstýringu í hendi, velur sér mynd, poppar og þegar poppið er tilbúið horfir maður á HD myndina. Einfalt og auðvelt. Sparar líka hillupláss.
![]() |
Hvítt flagg hjá HD-DVD? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.2.2008 | 08:42
Ha? Hvað áttu við? Pillur?
Nú verð ég að viðurkenna að ellin er farin að segja til sín. Ég les fyrirsögn sem virkar spennandi því ég er að reyna að rembast við að selja mynd. Þar sem ég á ekki búð er um póstverslun að ræða. Svo ég les.
Ég les um pillur. Ég er engu nær. Ég hefði sennilega þurft að vita meira um málið áður en ég las þessa frétt. Kannski er þetta framhald gamallar fréttar sem ég las ekki. Alla vega fannst mér skrítið að lesa fyrirsögnina "Liðkað fyrir póstverslun" og sjá svo að fréttin var um pillur, þó án þess að segja hvaða pillur eða hvað þær hafa með póstverslun að gera. Kannski fyrirsögnin hefði átta að vera "Pillur II: Póstverslun!" með tilvísun í gömlu fréttina.
Ekki vil ég setja út á fréttina. Ég skil hana ekki, svo ég get ekki dæmt um hana. Það er sennilega bara farið að rykfalla milli eyrnanna á mér.
Hvað um það, í tilefni þess að í dag er Sunnudagurinn 17. febrúar 2008, og að pillur koma fyrir í handritinu sem ég að vinna í vil ég endilega endursýna sýnishornið úr hinni margrómuðu stuttmynd Svartur Sandur.
![]() |
Liðkað fyrir póstverslun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.2.2008 | 16:17
Verðtrygging
Ef þetta er rétt, er þá ekki kominn tími til að leggja niður verðtryggingu á lánum? Var þetta ekki sett á í óðaverðbólgunni til að koma í veg fyrir að lán hyrfu á örfáum mánuðum?
Húsnæðislánið okkar, í Hollandi, er það sama og það var 1998, mínus það sem búið er að borga. Það bætist ekkert við það ef verðbólgan fer upp. Hér er hægt að taka tvenns konar lán, með sveigjanlegum vöxtum, og föstum. Engin lán, eftir því sem ég best veit, eru verðtryggð. Vextirnir eru einfaldlega breytilegir eftir því hvað verðbólgan er að gera á hverjum tíma.
Ef verðbólga á Íslandi er orðin sambærilegt við önnur lönd og hún helst þannig í einhver ár, eins og virðist vera, er verðtrygging þá ekki orðin tímaskekkja?
Ég vil endilega benda á bloggfærslu Höllu Rutar um svipað mál.
![]() |
Raunhæft að verðbólga náist niður segir Vilhjálmur Egilsson |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
12.2.2008 | 09:35
Óttinn er ekki svo slæmur
Fyrir rúmu ári stóð ég uppi á þaki fjölbýlishúss og horfði niður. Það var ekkert öryggisnet, en ég ákvað samt að stökkva. Ég er ennþá í fallinu og veit ekki hvort ég muni lenda á fótunum. Það verður að koma í ljós.
Líf okkar er ekki svo langt. Klisja, en það er bara svoleiðis. Flest látum við eins og við höfum ótakmarkaðan tíma. Það kemur þó að því að lokastundin nálgast og þá getur verið erfitt að horfa til baka. Hvað gerði ég? Var líf mitt einhvers virði? Skil ég eitthvað eftir mig? Skiptir það einhvern einhverju máli hvort ég hafi lifað eða ekki? Börnin manns eru yfirleitt fegin að við höfum verið til og þar með gert þeim mögulegt að vera til, en lífið gengur ekki bara út á að vera útungunarvélar.
Það er gott að geta skapað, hvort sem það er í frístundum eða ekki. Það er örugglega gaman að hafa skapað merkilega hluti og sjá börn manns komast á aldur og uppgötva hvað "sá gamli/gamla" gerði. Það hlýtur að vera frábær tilfinning að gramsa í gamla dótinu uppi á háalofti og uppgötva óútgefna bók eftir afa sinn, eða kannski bara vel skrifuð bréf eða greinar. Þetta gat hann þá, hugsar maður og veltir fyrir sér því sem maður vissi ekki um gamla manninn. Maður fer aftur í tímann og kynnist fólki sem er farið.
Þegar ég kláraði Svarta Sandinn um daginn, hugsaði ég með mér, ef ég dey á morgun mun Mats ekki þekkja mig. Hann mun ekki muna eftir pabba sínum. Allt sem hann hefur eru ljósmyndir og það sem aðrir hafa sagt honum. Kannski hann myndi kynnast mér betur ef hann fyndi eintak af myndinni uppi á hálofti eftir 20 ár. En ég er ekkert að spá í að hrökkva alveg strax.
Það er gaman að lesa um framtak Ólafar. Ég vona að sem flestir finni þetta eitthvað sem gerir líf þeirra pínulítið meira virði með því að stökkva fram að brúninni, hvort sem það er gert með öryggisneti eða ekki.
![]() |
Markmiðið að stíga inn í óttann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.2.2008 | 07:01
Flug í hríð
Ég er að missa af þessari lægð ein og friðarsúlunni, en eins og sönnum íslendingi ber, hef ég lent í ýmsu sem útlendingar varla trúa. Ekkert merkilegt á okkar mælikvarða, en þó gaman að rifja það upp.
Fyrstu hremmingarnar sem ég man eftir voru uppi á Hellisheiði. Amma átti Land Rover sem hún notaði meðal annars í póstflutningunum í flóanum. Þetta byrjaði eins og venjuleg vetrarferð en það skall á blindbylur og enginn sá neitt. Hún keyrði fram á trukk sem var fastur og þurfti að stoppa. Allt í einu heyrum við mikið brambolt aftur í. Það var Toyota sem hafði ekki séð okkur og var komin vel inn í Land Roverinn. Þetta endaði þannig að afturhurðin var bundin föst því ekki var hægt að loka henni aftur.
Löngu seinna var ég að keyra leigubíl. Þetta var snemma að morgni og ég hafði verið að alla nóttina. Veðrið hafði verið til friðs, að mestu leyti, strekkingur og smá skafrenningur. Ég sæki fólk og keyri af stað suður í Keflavík. Veðrið versnaði hratt og við Voga var kominn blind bylur. Aksturinn gekk hægt og að lokum var ég farinn að nota vögguaðferðina. Þegar bíllinn hallar til hægri, beygja til vinstri og öfugt. Fyrir ofan Njarðvík var þetta orðið vonlaust mál, brottfarartíminn að nálgast og bílar fastir út um allt. Þegar við festumst þversum gafst ég upp. ...í nokkrar sekúndur. Ég kallaði í stöðina, sem hringdi og lét vita af farþegunum. Ég fór út og gróf bílinn upp með höndunum, ákvað að kaupa skóflu við fyrsta tækifæri, og komst upp af stað með hjálp vinalegs jeppaeiganda sem var í því að draga fólk upp úr sköflum. Við komumst út á flögvöll og ég heyrði seinna frá konunum tveimur að þær hefðu komist út í vél og í fríið. Það var þó kvartað yfir mér. Syninum, sem hafði ekki verið með, fannst þetta hafa tekið og langan tíma og kvartaði. Þegar mamman kom heim féll málið dautt því hún var svo ánægð með hvernig þetta fór.
Síðasta ævintýrið var svo 2. janúar 2000 þegar við vorum sjálf að fara af landi brott. Færðin til KEF var allt í lagi en völlurinn sjálfur var á kafi í snjó. Ekki var hægt að nota brýrnar, svo fólk varð að rölta út í vél. Þegar allir voru sestir sagði flugstýran að þetta myndi taka svolítinn tíma. Það þyrfti að grafa flugvélina upp. Hún kæmist ekki af stað. Hún sagði eitthvað fallegra á ensku svo að útlendingarnir yrðu ekki hræddir. Íslendingarnir þoldu sannleikann, virtist hún vera að segja.
Afsakið hugsanlega heimskulega orðaðar setningar og innsláttarvillur. Ég pikkaði þetta á ofsahraða áður en ég fór í vinnuna útá Schiphol.
![]() |
Flutningi úr flugvélum lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)