Færsluflokkur: Kvikmyndir

Paradiso - einokunarverslunin afnumin

Það er ekki oft að það hlakki í mér við gjaldþrot, en ekki get ég sagt að ég hafi grátið í gær. Kvikmyndafyrirtæki hafði gert samning við tvo hljómleikastaði í Amsterdam, Paradiso þar á meðal. Þeir höfðu einkaleyfi á að kvikmynda það sem þar fram fór. Ég var beðinn um að taka upp hljómleika Maria Mena í Paradiso, en það gekk ekki upp því einkaleyfið var í fullu gildi. Ekki að hitt fyrirtækið hafi haft áhuga á að taka upp hljómleikana, heldur var málið að halda öðrum frá. Ekkert var tekið upp. Slæmt fyrir mig, slæmt fyrir salinn, skipti ekki máli fyrir kvikmyndafyrirtækið sáluga. Málið var að fái þeir ekki kökuna, fær hana enginn. Þetta var leiðinlegt ástand, því margir íslendingar sem spila hér í Hollandi, spila á þessum stöðum.

Það er vonandi að ég hafi möguleika á að taka upp fleiri hljómleika hér eftir. Hafi Hjaltalín áhuga á að tala við mig, og lesi þeir þetta, er þeim velkomið að vera í sambandi. Paradiso er open for business. Einokunarverslunin er dauð.


mbl.is Hjaltalín hefur upptökur á nýrri plötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Splittessu

Sena virðist eiga megnið af íslenskri menningu. Flestum kvikmyndum er dreift af Senu. Megnið af íslenskri tónlist er í eigu Senu. Hver sá sem eignast fyrirtækið, eignast íslenska menningu.

Ég vona að það verði vel staðið að þessu. Best væri þó ef fyrirtækið yrði bútað niður svo að enginn gæti "átt" menninguna okkar. 90% markaðshlutdeild, eða hvað Sena er með, getur ekki verið holl. 


mbl.is Sala Senu ófrágengin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

99 krónur á mann...

Þegar þjóðin stendur saman gerast kraftaverk. Í þetta skiptið var það Júróvisjón og 69.000 manns gerðu það að verkum að Síminn (eða einhver) græddi sjö milljónir. Auðvitað fylgdust miklu fleiri með útsendingunni, en rúm 20% þjóðarinnar borguðu 100 kall til að skipta máli.

Hvað er hægt að gera við 100 kall ef 20% þjóðarinnar tekur þátt? Það er hægt að gera bíómynd fyrir sjö milljónir, eins og ég hef skrifað um áður. Ef þetta er gert að áskrift, má framleiða og markaðssetja 5-10 myndir á ári. Það er hægt að gera fimm bíómyndir og senda áskrifendum á DVD. Það er hægt að framleiða framhaldsþætti, ótal stuttmyndir og aðra list. Það er hægt að borga rithöfundum til að þeir geti einbeitt sér að skrifum. Það má þýða íslenskar skáldsögur og annað yfir á útlensku. Fyrir 100 kall á mann.

Möguleikarnir eru óteljandi. Nú þegar fólk skilur að maður þarf ekki milljón til að koma sér fram úr, að það megi gera góða hluti fyrir lítið fé, mun íslensk menning kannski blómstra sem aldrei fyrr. 


mbl.is 69 þúsund atkvæði greidd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tunglmyrkvi ... og ský

Mig minnir að það hafi verið 3. mars 2007 sem ég sat útí garði með listmálara um nótt. Tilefnið var tunglmyrkvi. Það var kalt og rakt í lofti, en hann setti gasofn milli stólanna og borð þar sem við hrúguðum rauðvíni og ostum. Ég beindi vídeókamerunni til himins og tók herlegheitin upp. Það var svo hugmyndin að gera eitthvað skemmtilegt úr þessu. Ég var þá á kafi í því að klippa Svarta Sandinn og gaf mér ekki tíma í tunglið.

Eins og góðum kvikmyndagerðarmanni sæmir á ég fullt af hörðum diskum með efni. Sumt er klárað, annað ekki. Ég var að fara í gegn um diskana og rakst á þetta hálfkláraða verkefni. Ég opnaði þetta og var að klára að gera stutta mynd þar sem myrkvinn er sýndur á 7000% hraða. Það sem gerðist á fjórum tímum tekur nú þrjár og hálfa mínútu. Ég ákvað að setja lag undir, Sveitin Milli Sanda með Elly Vilhjálms. Vona að Sena geri mér ekki lífið leitt út af því.

Setti þetta á youTube í HD.

 


Stuttmyndir.com

Skemmtilegt að sjá þennan vef verða að veruleika. Ég var auðvitað með svipaða hugmynd fyrir einhverju síðan, nema að sá vefur myndi halda utan um íslenskar stuttmyndir. Kvikmyndir, sjónvarpsþættir og tónlistarmyndbönd koma sér til skila til áhorfenda, en stuttmyndir yfirleitt ekki.

Hugmyndin var að setja inn lista yfir allar íslenskar stuttmyndir frá upphafi. Eigendur þeirra gætu svo sett myndina á síðuna og annað hvort leyft fólki að horfa, sækja eða kaupa hana. Myndir væri hægt að kaupa á DVD eða sem niðurhal. Þannig væri til einn staður þar sem hægt væri að sjá framtíðarleikstjóra og -leikara Íslands og sjá hvað grasrótin er að gera.

Ég skráði lénið Stuttmyndir.com á sínum tíma, svo hafi einhver vit á vefjun og áhuga á að hljálpa mér er það velkomið.


mbl.is Samið um fjármögnun tónlistarvefjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíu fyrir verð einnar?

Ég hef talað um það áður að íslenskar kvikmyndir eru of dýrar. Auðvitað er í lagi að gera eina og eina stórmynd ef sagan er sterk og líkur á að hún standi undir sér. Það getur ekki verið góðs viti ef allar íslenskar myndir eru fyrirfram dæmdar til að tapa peningum. Af fréttinni að dæma er það þó sigur ef myndir standa undir sér. 100 milljóna mynd þarf 100.000 gesti, og þá hef ég ekki tekið kostnað kvikmyndahúss inn í dæmið. Það er því afar ólíklegt að sú mynd muni skila hagnaði, nema hún sé stórkostlega vinsæl.

Kosti mynd 10 milljónir, þarf ekki nema 10.000 gesti. Það á ekki að vera svo mikið mál. Kannski 20.000 til að dekka allan kostnað allra aðila og skila hagnaði sem notaður yrði í næstu mynd. En hvernig er hægt að skera kostnaðinn niður um 90%?

Það þarf að byrja á handritinu. Engar hópsenur, engar risastórar leikmyndir sem þarf að byggja. Ekki mikið um sprengingar og klessta bíla. Handritið myndi byggja á sögum af fólki, yfirleitt í nútímanum. Ég hef ekki séð Blóðbönd, en sú saga er um mann sem kemst að því að tíu ára sonurinn er ekki hans. Myndin fylgir svo fjölskyldunni gegn um það erfiða tímabil sem kemur í kjölfarið. Ég veit ekki hvað hún kostaði, en svona mynd er hægt að gera fyrir lítið. Fólk hefur áhuga á fólki, svo það er endalaust hægt að finna leiðir til að gera einfaldar, en spennandi myndir. Með stafrænni tækni er hægt að spara milljónir við hverja mynd. Filmukostnaður er strokaður út og hægt er að klippa myndina á góðri ferðatölvu.

Eitt vandamálið við gerð ódýrra mynda er að Kvikmyndamiðstöðin veitir ekki styrki til kvikmynda sem kosta innan við 50 milljónir. Það þarf sjóð sem styrkir myndir sem kosta minna. Án þess munum við halda áfram að gera dýrar myndir sem geta engan vegin staðið undir sér. Eru það ekki leifar töffaraskapsins sem kom okkur í vandræði í fyrra? Við viljum vera stærri, flottari og betri en við erum?

Sumir eru kannski hræddir um að með lægri framleiðslukostnaði muni markaðurinn fyllast af lélegum myndum, en ég efast um það. Framleiðandi mun, eftir sem áður, vilja ná inn hagnaði og mun varla fara út í gerð lélegrar myndar. Kvikmyndagerðarmenn vilja fá tækifæri til að gera mynd eftir þessa. Slæm mynd mun sjálfsagt skila tapi og fólk mun síður fara að sjá aðrar myndir framleiðandans og leikstjórans. Íslendingar gefa út hundruð bóka á ári. Eru kvikmyndir eitthvað öðru vísi?


mbl.is Þegar kvikmyndir fara í þrot
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sendu mér eintak og ég...

Súla

Hef ekki séð austurrísku frímerkin, en þetta er fallegt. Ég var einmitt að tala við einhvern um daginn um frímerki. Hollensk frímerki eru ofsalega óspennandi, ljót eiginlega. Forljót reyndar, enda frímerkjasafnarar af skornum skammti hér. Sjálfsagt jafn margir og aðdáendur Íslands eftir hrun.

Postzegel-44

En hvað um það. Ef þú, lesandi góður, sendir mér póstkort með fallegri sögu og þessu frímerki, skal ég senda þér eintak af stuttmyndinni Svartur Sandur á DVD. Þetta er ekki keppni. Sendirðu kortið, færðu myndina.

Heimilisfangið er:

V.G. Ásgeirsson 

Wilhelminastraat 7

1165 HA Halfweg

Holland 


mbl.is Friðarsúlan hlaut bronsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2008

Þegar litið verður til baka á árið 2008... æi nei, á ekki bara að sleppa því? Þetta var hlaupár. Við lok 2007 tók við 2009. 2008 var aldrei til. Þetta gerðist aldrei.

Ísland vann sigur með því að tryggja sér gull í Pekingandabæ. Það vann svo hrikalegan ósigur þegar það ákvað að herma eftir skíðalýsingu Ómars frá því um árið. Hann rennir sér með þvílíkum þokka, svo hratt og örugglega. Það er unun að horfa á. Þarna fór hann á hausinn!

Vinnulega séð var árið mitt handónýtt. Næstum því. Vinn enn á flugvellinum. Það er gaman en launin eru svo slöpp að ég þarf að setja launaseðilinn í frysti til að geta lesið hann. Svo þarf ég að taka erlend lán til að geta keypt mjólk handa barninu. Ég vann í smá kvikmyndavinnu í sumar við að kvikmynda hesta hlaupandi í hringi og hoppand yfir hindranir. Ég er ennþá að reyna að fá borgað fyrir það. Stuttmyndinni var boðið að taka þátt í hátíð heima en var ekki sýnd, eins og ég komst að á síðasta degi eftir að hafa gert mér ferð heim til að vera viðstaddur. Hitti þó Papriku Steen og ákvað að ég vil vinna með henni í framtíðinni. Hitti líka Dag Kára og hann þekkti mig af einhverju námskeiði sem við vorum á saman fyrir um 20 árum. Krípí hvað sumt fólk er mannglöggt. Tók upp frábæra hljómleika með Mugison í Hollandi, bara svona "youTube rugl" eins og hann kallaði það. Tók upp tvenna Uriah Heep hljómleika og það gekk vel. Verður flott afurð ef DVDinn verður gefinn út. Svo kláraði ég fyrsta kvikmyndahandritið. Nú er bara að finna fúsan framleiðanda. Svo er nýtt handrit að rembast við að ná athygli minni. Ég kalla það The Filmmaker, svona til að byrja með. Það er sem sagt ofboðslega mikið að gera en ekkert að gerast.

Mitt persónulega líf var óspennandi, nema í október þegar afi dó, en það var spenna sem ég, hann og allir sem þekktu hann hefðu getað verið án. Fegurri manneskju var ekki hægt að finna og er missirinn því erfiðari að eiga við en ella.

2008 var vonlaust. Gleymum því bara að það hafi bara yfirleitt verið til og vonum að 2009 verð betra. Vonum að spillingarliðinu verði hent út og þessir þrír íslendingar sem eftir verða lifi í sátt við hvorn annan og landið. Ég vona svo að Híp diskurinn verði borinn fyrir augu almennings sem lepur hann upp. Svo vona ég að Undir Svörtum Sandi verði tekin upp og verði komin vel inn í eftirvinnslu í árslok. Vona að við þurfum ekki að vera í þessu bévítans basli áfram. Ég tók ekki þátt í góðærinu og hef því ekki áhuga á hallærinu heldur.

Ég óska þér, lesandi góður, gæfuríks árs. Gerum eitthvað gott úr þessu.


Gleðileg Jól! - Gjöf til bloggvina

Kæru íslendingar.

Ég vil nota þetta tækifæri til að óska landsmönnum öllum Gleðilegra Jóla. Þetta er hátíð ljóss og friðar, vináttu og gjafmildi. Verið góð við hvert annað og knúsið þá sem ykkur þykir vænt um.

Þar sem ég er erlendis get ég engan hitt eða knúsað. Þó vil ég bjóða bloggvinum mínum jólagjöf. Sendið mér skilaboð og ég sendi ykkur upplýsingar um hvernig þið getið náð í stuttmyndina Svartan Sand. Sum ykkar eiga hana á DVD, en fyrir ykkur hin, látið bara vita og ég læt ykkur vita hvar þið getið dánlódað henni. Þessi er að vísu í hærri upplausn en sjónvarp, svo kannski vilja handhafar DVDsins líka ná í.

Þetta er Quicktime skrá, og þarf þann spilara, eða iTunes eða iPod eða iPhone. Skráin stendur til boða fram á annan dag jóla. Munið að þetta er stuttmyndin sem kvikmyndin Undir Svörtum Sandi verður byggð á, en hún fer í framleiðslu á árinu ef orkan er með ons.


hugMYNDAsamKEPPNI

Kæri lesandi. Viltu sjá nafn þitt í bíómynd?

Athygli mín hefur verið vakin á því að skrifstofuhúsnæði í grennd við mig, sem staðið hefur autt í 15 ár, mun verða rifið fljótlega. Staðsetningin er skemmtileg. Lítill vegur liggur að þessu húsi. Tvær vöruskemmur sem eru í notkun standa við hliðina á því, en þar fyrir utan er ekkert nema tré að sjá. Þetta er ástæðan fyrir fyrirhuguðu rifi. Staðsetningin er afskaplega óhentug fyrir skrifstofur, en það gerir þetta auðvitað að frábærum tökustað fyrir kvikmynd.

Þetta er tækifæri sem kemur ekki oft. Ef mér tekst að hósta upp nógu góðri sögu, vil ég taka upp kvikmynd í þessu húsnæði áður en það er rifið.

Mig vantar hugmynd að kvikmynd. Ekki endlega handrit eða úthugsaða sögu. Bara hugmynd sem hefur eitthvað sérstakt. Eitthvað til að koma mér af stað.

Sá eða sú sem kemur með hugmynd sem ég get notað mun að sjálfsögðu verða minnst í kvikmyndinni. Kannski meira.

Endilega gerið athugasemdir hér að neðan og látið hugmyndirnar koma. Skiptir ekki máli hversu bjánalegar þær virðast, láttu það flakka. Hún gæti verið neistinn sem kemur skriðunni af stað. Eða þannig.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband