Færsluflokkur: Samgöngur

Spurning um spillingu?

Ein spurning brennur á mér. Í stjórn félagsins Greið Leið ehf situr Kristján nokkur Möller. Hann er þingmaður og mun því væntanlega fá að greiða atkvæði um það hvort skattpeningar verða notaðir í þetta verkefni. Hann situr því beggja megin borðsins. Hvernig getur þetta mál flækst um alla fjölmiðla landsins, þing og nefndir, án þess að nokkur geri athugasemd við það? Er þetta ekki gamla Ísland, spillingarlandið í hnotskurn?

Það er lítil hætta á öðru en að hann muni sitja áfram eftir kosningar og greiða atkvæði um þetta mál, því þetta er kjördæmapot af verstu gerð.

Svo eru aðrar spurningar eins og, hvernig á þetta að standa undir sér? Ef þetta er arðbært, af hverju fer ekki einhver einkaaðili í þetta, í stað þess að ríkið sé að eyrnamerkja pening sem það á ekki?

En aðal spurningin er, höfum við ekkert lært? Ætlum við að leyfa þingmönnum að vaða um allt á skítugum skónum? Er ekki kominn tími á lög sem banna þingmönnum að vera í viðskiptum, til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra?


mbl.is Vilja Vaðlaheiðargöng á áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr Bíll?

Við erum að spá og spekulera. Sunnyinn er fínn og honum höldum við um sinn, en Roverinn sem við keuptum fyrir þremur árum og ég bloggaði um á að fara. Fallegur bíll og virkar fínt, en... veit ekki. Dellan að koma aftan að manni?

Erum sem sagt að spá í tveggja dyra Benz. Ég vildi helst 500SEC eða 280CE frá því fyrir 1985 til að sleppa við skattinn, en þeir eru dýrir. Kannski maður láti sig hafa þennan 300CE frá 1988 í staðinn...

Mercedes-Benz 300CE Fallegur að innan...

 

Heyri nú að bíllinn sé skemmdur eftir umferðaróhapp, en að hann verði kominn í lag á miðvikudag. Ef viðgerðin gengur svona fjljótt fyrir sig, geri ég ráð fyrir að skaðinn sé lítill, en bað þó um mynd svo ég gæti ákveðið það sjálfur hvort ég fari í bíltúr að skoða. Það má láta sig hafa ýmislegt fyrir 1950 evrur.


Okrarar

Við ætluðum að heimsækja fjölskylduna á Íslandi en það verður að bíða betri tíma. Miðaverðið hefur rokið upp og við höfum ekki efni á að borga fyrir þriggja tíma flug. Það kostar okkur þrjú hátt í 1200 evrur að fljúga heim. Það kostar um 1500 á business class til New York. Svipað á túristaklassa til Taiwan. 300 evrur til Oslo.

Er ekki kominn tími á að FI fari á hausinn svo að við getum fengið alvöru samkeppni?


mbl.is Heimild til að auka hlutafé Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostaði mig svefninn

Ég var að vinna í nótt. Vél frá Pronair átti að fljúga til Marseilles með bullur eftir fótboltaleikinn í Amsterdam. Brottför var áætluð klukkan 1:30 í nótt. Starfsmenn Marseilles flugvallar voru í verkfalli, svo við biðum og biðum. Drukknir frakkarnir sem ekkert tala nema málið sem mamma þeirra kenndi þeim voru orðnir óþolinmóðir, því við gátum ekkert sagt þeim. Um þrjú leytið fengum við þær fréttir að búið væri að opna flugvöllinn, svo við drifum liðið útí vél og sendum það af landi brott. Ég var kominn heim korter í fimm, tveimur tímum áður en barnið vaknaði og vakti mig.

Þetta væri ekki svo slæmt, ef ég hefði ekki verið að taka upp tónlistarmyndband í fyrrinótt. Þá svaf ég í þrjá tíma. Spurning hvort ég halli mér áður en ég mæti í vinnu seinna í dag. En það er svo mikið að gera... Sennilega læt ég það ekki eftir mér.

En hvað um það. Auðvitað eru frakkarnir sér á báti hvað verkföll varðar, en kannski sýnir þetta að ekki er allt í sólskinsljóma í ESB landi. 


mbl.is Verkföll um allt Frakkland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blaður

Við fórum á borgarafund í morgun. Borgarstjórar Haarlemmermeer, þar sem Schiphol er staðsettur og Haarlemmerliede, þar sem við búum, vildu fræða fólk um flugslysið og ræða málin. Við entumst ekki lengi, því þeir blöðruðu um ekkert. Þeir fundu til með okkur sem hér búum, skildu áhyggjur okkar af flugumferðinni yfir hausunum á okkur. Þeir væru ekki bara sýslumenn, heldur eins konar feður fólksins sem yrðu að skilja okkur og hjálpa á erfiðum tímum. Bla bla bla.

Ég hafði búist við stuttum og hnitmiðuðum ræðum um það hvað gerðist og hvað á að gera. Mun þetta breyta einhverju. Í staðinn stóðu þeir þarna og blöðruðu eins og háfleygir prestar á sunnudagsmorgni. Hefði ég áhuga á innihaldslausu tilfinningavæli, færi ég í kirkju. Þetta var klúður, finnst mér, og við entumst ekki lengi.

Annars eru hollenskir fjölmiðlar að spekulera fram og til baka um orsakir slyssins. Upphaflega var sagt að flugmaðurinn hafi verið í þjálfun og hefði misst hraða með þessum afleiðingum. Turkish irlines hafa borið þetta til baka, segja hann hafa lokið þjálfun á Boeing 737-800 árið 2004. Líklegra er talið að vélin hafi lent í sogi eftir 757 vél sem lenti innan við tveimur mínútum fyrr.

Sjáum hvernig þetta endar. Kemur í ljós. 


mbl.is Fyrstu slysamyndirnar birtust á Twitter
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Níu

Samkvæmt hollenskum fjölmiðlum eru a.m.k. níu manns látnir. Fimmtíu manns eru slasaðir, þar af 20-30 mikið. Bæði farþegar og áhöfn eru meðal slasaðra, en engar fréttir hafa borist af hinum látnu. Slasaðir hafa verið færðir á sjúkrahús í Amsterdam, Haarlem og Hoofddoorp.

m1ezkqxa3u70

Við vorum að versla í matinn þegar þetta gerðist. Sírenuvælið heyrist enn allt í kring og þyrlur fljúga yfir, enda búum við innan við tvo kílómetra frá slysstað. Lokað var fyrir allt flug um Schiphol í einhvern tíma. Ég á að vera mættur í vinnu þar eftir einn og hálfan tíma, svo ég hringdi og spurði hvernig ástandið væri? Flugbrautin þar sem vélin kom niður er lokuð og verður það um óákveðinn tíma, eins og eðlilegt er. Aðrar brautir hafa verið opnaðar fyrir takmarkaðri umferð. Það má því búast við töfum, en engu flugi easyJet (sem ég vinn fyrir í dag) hefur verið aflýst enn sem komið er.

Öllum hraðbrautum kring um Schiphol var lokað og einhverjar eru enn lokaðar. Fólki sem ekkert erindi á á flugvöllinn er beðið um að vera ekki á ferð, því allir vegir eru tepptir. Ég þarf sennilega að fara tímanlega af stað ef ég á að komast í vinnuna. 

Það verður sennilega öðruvísi andrúmsloft á flugvellinum í dag og kvöld.


mbl.is Misvísandi fréttir um manntjón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppan er komin til mín

Sterling fór á hausinn. Menzies Aviation á Kastrup fór á hausinn í kjölfarið. Kreppan er komin til mín.

Ég vinn fyrir Menzies Aviation á Schiphol. Ég vann mikið fyrir Sterling. Þeir voru með fjögur flug á dag frá Amsterdam. Tvö til Köben, tvö til Osló. Þessi flug eru auðvitað horfin. Fleiri flugfélög á okkar vegum eru að draga saman seglin. Á sumrin var ekki óalgengt að ég ynni sex daga í viku. Vaktirnar voru mislangar, frá þremur tímum upp í 14 og stundum 16. Ég gat lifað á þessu. Nú er búið að skera mínar vaktir niður fyrir 50% og meiri niðurskurður er á leiðinni. Ég mun því finna illa fyrir kreppunni á komandi mánuðum. Þetta má, ég hef ekkert um málið að segja. Mér er ekki sagt upp, því það er of dýrt. Ég verð bara að sætta mig við styttan vinnutíma. Verði mér einhvern tíma sagt upp, verða bæturnar stórskertar, því þar er miðað við síðustu laun, og maður er ekki mikið á 50% eða minna. Ég heyrði reyndar útundan mér að sennilega verði 30% fljótlega nærri lagi.

Nýlega var framkvæmdastjóra Menzies á Schiphol sagt upp. Með honum fékk aðstoðarmaðurinn að fjúka, sem og yfirmaður, sem er kona, LCC deildarinnar. LCC er Low Cost Carriers og þar falla EasyJet, Jet2, Sterling, Sky Europe og fleiri undir. Ástæðan var spilling, fjárdráttur og klúður í stjórnun. Menzies fór í verkfall í sumar. Það var óþarfi, því aðeins 1.5% skildi á milli. Þetta þótti höfuðstöðvunum í Skotlandi ekki sniðugt, því verkfallið kostaði meira en launahækkunin sem farið var fram á. Enn ein ástæðan var að yfirmaður okkar sá um að setja upp Menzies Aviation á Kastrup, sem nú er komið í greiðslustöðvun. Hann þótti standa það illa að verkinu að HQ sagði allt það fé sem fór í verkið væri glatað og aðeins tímaspursmál hvenær það dótturfélag sykki. Það hefur nú gerst.

Það eru því blikur á lofti hér, eins og heima. Ég er kominn í vonda stöðu. Ég væri betur settur hefði ég verið rekinn strax. Ég býð mig því hér með lausan. Hafi einhver skemmtilegt og krefjandi starf á fyrir mig er ég til. 


mbl.is Keðjuverkun vegna gjaldþrots Sterling
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pönkstrætó

Rosalega er gamli strætó fallegur. Liturinn er hrikalegur, en það fer samt sæluhrollur um mig við að sjá hann. Ég man eftir grábrúna víniláklæðinu sem var kroppað í og plokkað þar til svampurinn kom í ljós og útkrotað og brennt. Ég held þessir vagnar hafi verið lengi í umferð, vel fram yfir 1980.

Pönkstrætó fylgir lúðri

Það var flottast að sitja aftast. Þeir sem sátu fremst voru kennarasleikjur og fífl sem lærðu heima. Alveg eins og í kennslustofunum. Gðmlu konurnar sátu í miðjunni. Stundum fremst þó.

Um svipað leyti og við fluttum upp í Breiðholt voru íslendingar loksins að fatta pönkið. Þetta kom sér illa fyrir mig, því ég þurfti oft að taka strætó. Ég fluttist neðar í fæðukeðjunni, því allir sem voru ekki pönkarar voru hræddir við pönkara og ég var allt of ungur til að vera pönkari. Pönkararnir sátu aftast og krotuðu á sætin og skáru það með vasahnífum. Stundum kveiktu þeir líka í sætunum. Þeir spýttu líka á gólfin. Aftasti þriðjungur vagnanna var þeirra svæði og enginn hætti sér þangað, vildi hann ekki enda með nælu í nefinu.

Svo man ég eftir að seinna vildi borgin kaupa einhverja Skódaútgáfu að strætó. Þeir voru kallaðir Ikarus. Hálf skondið, því Megas hafði gefið út pönkplötu undir nafninu Ikarus. Svona passar lífið yfirleitt við sjálft sig.

Nú eru komnir gulir vetnisstrætóar sem enginn tekur.

Hefur annars einhver spáð í hvað orðið lúður er fyndið? 


mbl.is Gamli og nýi strætó á rauðum dregli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hoofddoorp einkennið

Sameining og vöxtur eru flottustu orð nútímans. Þau eiga að leysa allt og sé einingin bara nógu stór, hlýtur allt að vera í góðu lagi. Þetta er þó oft byggt á misskilningi. Oft missir fólk yfirsýnina og báknið verður ómanneskjulegra en litlu einingarnar sem fyrir voru. Stór og fjölmenn lönd eru ekki endilega betri lönd. Ekki vildi ég vera venjulegur maður í Rússlandi. Bilið milli ríkra og fátækra í Bandaríkjunum er eins og úthaf. Skriffinnskan er svo gegndarlaus í ESB að enginn skilur hvert peningarnir fara né hvernig batteríið viirkar. Eða ekki virkar. Fólk hefur það yfirleitt betra, því smærri sem ríkin eru. Stórfyrirtæki sólunda fé og er nokkuð sama um starfsmennina meðan eigendur lítilla fyrirtækja vita hvað er í gangi og þekkja starfsmenn sína og þeirra aðstæður.

Ég bý í u.þ.b. 6000 manna þorpi í útjaðri Amsterdam. Hér var sundlaug, fótboltafélag, þokkalegar almenningssamgöngur, bókasafn, lestarstöð og fleira á árum áður. Fyrir um 10 árum var ákveðið að Hoofddoorp (Höfuðþorp) skyldi sjá um flest það sem opinbert er. 6000 manns er allt of lítil eining og kostar of mikið. Þetta átti að vera hagræðing og kosta minna. Það gerir það sennilega því sundlaugin er farin, bókasafnið er á við bókabíl og fótboltaklúbburinn er að deyja. Lestarstöðinni var lokað fyrir löngu. Sporvagninn sem stoppaði hér er löngu hættur að ganga. Það var meiri þjónusta og meira um að vera áður en ég kom hingað, sem ég veit ekki mikið um. Það merkilega er að þó allir eigi að sækja allt til Hoofddoorp, eru þetta góðir 15km og það tekur gott korter að keyra þangað. Það tekur um 90 mínútur að fara með strætó því hann þræðir öll þorpin sem sækja sína þjónustu þangað. Engin lest eða sporvagn er á leiðinni.

Þetta sparar sennilega einhverjar fjárhæðir, en það hefur ekki sést í lægri sköttum og þjónustugjöldum. Þvert á móti, er nú dýrara að búa hér en nokkru sinni fyrr.

Það er merkilegt að Albert minnist á að álverið hafi ekki skapað atvinnu, eins og virkjanasinnar vilja meina, heldur er það að blóðsjúga bæjarfélögin sem fengu enga töfralausn frá ríkinu. Það gerist sjálfkrafa, því fólk flytur þangað sem atvinnan er og með núverandi hugsanahætti skapast hún á örfáum stöðum. Hefði ekki verið betra að nota peningana sem fóru í Kárhnjúka til að byggja upp allt Austurland, ekki bara eitt pláss? Er þetta byggðastefnan, að drepa þorpin hægt og rólega og koma fólki fyrir á örfáum stöðum? Á það að vera hagkvæmara eða er þetta bara enn eitt dæmið sem ekki er hugsað til enda?

Það er vonandi að hugsanahátturinn breytist sem fyrst. Séu til peningar á annað borð, ætti að nota þá til að hjálpa allri landsbyggðinni að hjálpa sér sjálfri, ekki að gefa einu þorpi töfralausn og segja hinum að sameinast því. Ef það virkar ekki í hinu flata Hollandi, virkar það alls ekki á hinu fjalllenda og snævi þakta Íslandi.

Ég vil svo að lokum benda á færslu sem ég skrifaði í gær. Þar skoða ég muninn á húsnæðisverði í Reykjavík og á landsbyggðinni og hvernig það getur borgað sig að búa í bænum.


mbl.is Metnaður minnkar með sameiningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brú

Fyrir 12 árum fór ég til spákonu. Ekki að ég hafi haft neina sérstaka trú á svoleiðis hlutum, heldur var fólkið i kring um mig að tala um að þessi eina hafi vitað svo margt og að spádómarnir hafi verið að rætast. Ég ákvað að slá til. Ég hringdi, pantaði tíma og hún bað mig um að koma með spólu, svo ég gæti tekið allt upp. Svona var hún örugg með sjálfa sig.

Hún sagði mér að það væri erfitt að tímasetja atburði, 

800px-Hvalfjörður-Botnsdalur-Iceland-20030527

en hún klikkaði aldrei á því hvað myndi gerast. Þannig spáði hún að ég flyttist af landi brott (gerðist 9 mánuðum seinna), að ég myndi eignast einn son (hann kom 2007) og fleira sem ég nenni ekki að fara út í núna. Ég held að allt sem hún spáði hafi þegar gerst, nema eitt.

Ég mun ekki verða ellidauður í útlandinu (ekki bein tilvitnun í hana). Ég mun flytja heim og setjast að í Hvalfirði. Hún sagðist vera viss. Hún þekkti landslagið sem hún sá fyrir sér og það kom ekkert annað til greina en að þetta væri Hvalfjörður. Það eina sem hún skildi ekki var að það var brú yfir hann. Þá var verið að byggja göngin og hún sagðist ekki vita hvað yrði um þau, en það væri pottþétt brú yfir Hvalfjörðinn.

Nú er bara að sjá hvort að þessi síðasti spádómur rætist. Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað gæti gerst, en það er kannski ekkert merkilegra en að þau hætta að anna umferðinni og brú verði bætt við. Ég held að allt sem hún spáði hafi þegar komið fram, svo nú er að bíða og sjá. Ég hef svo sem ekkert erindi upp í Hvalfjörð, en hver veit. 


mbl.is Tvöfalda þarf Hvalfjarðargöng á næstu 5 til 10 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband