Hoofddoorp einkennið

Sameining og vöxtur eru flottustu orð nútímans. Þau eiga að leysa allt og sé einingin bara nógu stór, hlýtur allt að vera í góðu lagi. Þetta er þó oft byggt á misskilningi. Oft missir fólk yfirsýnina og báknið verður ómanneskjulegra en litlu einingarnar sem fyrir voru. Stór og fjölmenn lönd eru ekki endilega betri lönd. Ekki vildi ég vera venjulegur maður í Rússlandi. Bilið milli ríkra og fátækra í Bandaríkjunum er eins og úthaf. Skriffinnskan er svo gegndarlaus í ESB að enginn skilur hvert peningarnir fara né hvernig batteríið viirkar. Eða ekki virkar. Fólk hefur það yfirleitt betra, því smærri sem ríkin eru. Stórfyrirtæki sólunda fé og er nokkuð sama um starfsmennina meðan eigendur lítilla fyrirtækja vita hvað er í gangi og þekkja starfsmenn sína og þeirra aðstæður.

Ég bý í u.þ.b. 6000 manna þorpi í útjaðri Amsterdam. Hér var sundlaug, fótboltafélag, þokkalegar almenningssamgöngur, bókasafn, lestarstöð og fleira á árum áður. Fyrir um 10 árum var ákveðið að Hoofddoorp (Höfuðþorp) skyldi sjá um flest það sem opinbert er. 6000 manns er allt of lítil eining og kostar of mikið. Þetta átti að vera hagræðing og kosta minna. Það gerir það sennilega því sundlaugin er farin, bókasafnið er á við bókabíl og fótboltaklúbburinn er að deyja. Lestarstöðinni var lokað fyrir löngu. Sporvagninn sem stoppaði hér er löngu hættur að ganga. Það var meiri þjónusta og meira um að vera áður en ég kom hingað, sem ég veit ekki mikið um. Það merkilega er að þó allir eigi að sækja allt til Hoofddoorp, eru þetta góðir 15km og það tekur gott korter að keyra þangað. Það tekur um 90 mínútur að fara með strætó því hann þræðir öll þorpin sem sækja sína þjónustu þangað. Engin lest eða sporvagn er á leiðinni.

Þetta sparar sennilega einhverjar fjárhæðir, en það hefur ekki sést í lægri sköttum og þjónustugjöldum. Þvert á móti, er nú dýrara að búa hér en nokkru sinni fyrr.

Það er merkilegt að Albert minnist á að álverið hafi ekki skapað atvinnu, eins og virkjanasinnar vilja meina, heldur er það að blóðsjúga bæjarfélögin sem fengu enga töfralausn frá ríkinu. Það gerist sjálfkrafa, því fólk flytur þangað sem atvinnan er og með núverandi hugsanahætti skapast hún á örfáum stöðum. Hefði ekki verið betra að nota peningana sem fóru í Kárhnjúka til að byggja upp allt Austurland, ekki bara eitt pláss? Er þetta byggðastefnan, að drepa þorpin hægt og rólega og koma fólki fyrir á örfáum stöðum? Á það að vera hagkvæmara eða er þetta bara enn eitt dæmið sem ekki er hugsað til enda?

Það er vonandi að hugsanahátturinn breytist sem fyrst. Séu til peningar á annað borð, ætti að nota þá til að hjálpa allri landsbyggðinni að hjálpa sér sjálfri, ekki að gefa einu þorpi töfralausn og segja hinum að sameinast því. Ef það virkar ekki í hinu flata Hollandi, virkar það alls ekki á hinu fjalllenda og snævi þakta Íslandi.

Ég vil svo að lokum benda á færslu sem ég skrifaði í gær. Þar skoða ég muninn á húsnæðisverði í Reykjavík og á landsbyggðinni og hvernig það getur borgað sig að búa í bænum.


mbl.is Metnaður minnkar með sameiningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birnuson

„Enn eitt dæmið sem ekki er hugsað til enda“. Hárrétt greining.

Birnuson, 12.9.2008 kl. 13:03

2 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mikið svakalega er ég sammála þér.

Lára Hanna Einarsdóttir, 12.9.2008 kl. 13:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband