Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál

Ísland - Tilraunin sem mistókst

Vér mótmælum allir. 1918. 1944. Fallegar minningar þjóðar sem taldi sig geta staðið á eigin fótum í hörðum heimi. Danir höfðu kúgað okkur í aldir, kirkjan og kóngur höfðu haft okkur að fíflum, en sjálfstæð yrðum við eigin herrar í eigin landi. Við myndum byggja ríki sem aðrir öfunduðu okkur af.

Það hefði ekki átt að vera svo erfitt. Íslendingar eru harðduglegir, heiðarlegir, gestrisnir. Voru það allavega einhvern tíma. Hvenær það breyttist veit ég ekki.

Íslandssagan er ekki beysin. Við dunduðum okkur við að drepa hvert annað, gengum noregskonungi á hönd þegar útséð var að við gætum ekki séð um okkar mál sjálf, þræluðum fyrir kaþólsku kirkjuna, svo fyrir danakonunga. Vorum sjálfum okkar verst og vorum dugleg við að framfylgja furðulegum duttlungum og dómum erlendu herranna. Þegar við loksins fengum að ráða okkur sjálf, tóku við höft og skattpíning. Innflutningshöft, gjaldeyrishöft. Ofurskattar á áfengi því alþingismenn vildu hafa vit fyrir alþýðupakkinu. Óðaverðbólga hefur verið landlæg svo lengi sem elstu menn muna. Nema síðustu 15 ár, en þá var sukkað svo hroðalega að það mun taka okkur 2-3 sinnum þann tíma að jafna okkur. Þegar ég útskýrði verðtryggingu fyrir hollenskum vini í gær, datt hann næstum af stólnum. Hann hafði aldrei heyrt af eins frábæru kerfi fyrir bankana. Og hann vinnur í fjármálageiranum.

Það er rétt sem við sögðum fyrir hrun. Útlendingarnir skilja okkur ekki. 

Nú er sagan búin. Við klúðruðum sjálfstæðinu, erum komin á hausinn vegna óstjórnlegrar eyðslu og sofandaháttar. Ísland var sjálfstætt í nokkra áratugi. Við réðum ekki við það. Nú er um að gera að ganga nýjum konungi á hönd. Það rignir hvort eð er alltaf á 17. júní.


mbl.is Aukafundur EFTA ef Ísland sækir um aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirspurn til meðlima VG

Fyrir kosningar söng VG um sjálfstætt Ísland. Ekkert ESB, enga evru, ekkert Icesave, burt með IMF, auðlindinrnar skilyrðislaust í íslenskum höndum, glæfrafólkið sótt til saka. Nú er VG í stjórn og hefur tekið U-beygju í öllu. Sjaldan eða aldrei hef ég séð kosningaloforð svikin eins svakalega og nú. Við vissum hvar við höfðum Samfó, en VG er annað mál.

Ég hef áhuga á að heyra hvað kjósendum og meðlimum VG finnst.

Ég sá eftirfarandi brot úr Icesave samningnum á bloggi Róberts Viðars Bjarnasonar. Þetta lítur út eins og hreint valdaafsal til Bretlands og Hollands:

"16.3. Waiver of Sovereign Immunity

Each of the Guarantee Fund and Iceland consents generally to the issue of any process in connection with Dispute and to the giving of any type of relief or remedy against it, including the making, enforcement or execution against any of its property or assets(regardless of its or their use or intended use) of any order or judgment.  If either the Guarantee Fund or Iceland or any of their respective property or assets is or are entitled in any jurisdiction to any immunity from service of process or of other documents relating to any Dispute, or to any immunity from jurisdiction, suit, judgment, execution, attachment (whether before judgment, in aid of execution or otherwise) or other legal process, this is irrevocably waived to the fullest extent permitted by the law of that jurisdiction.  Each of the Guarantee Fund and Iceland also irrevocably agree not to claim any such immunity for themselves or their respective property or assets." 


mbl.is Spurning um daga hvenær leynd verður létt af Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ég þá...

...að skilja það þannig að fólk sé bara sátt? Bara borga og vera ekki með þetta væl? Atvinnuleysi og húsnæðislán sem hækka meðan húsnæði hrynur í verði? Eða er einhver önnur ástæða fyrir mætingarleysinu? Á ESB kannski að redda þessu?

Fyrir ESB sinna heima vil ég benda á samræður sem ég heyrði í útvarpinu hér í Hollandi í vikunni. Þar var því haldið fram að Holland hefði ekki nógu mikið um evrópumálin í Brussel að segja því landið væri svo lítið. Hollendingar eru 53 sinnum fleiri en íslendingar.

Það er hægt að kaupa u.þ.b. 10 milljón flatskjái fyrir Icesave skuldina. Kannski fimm milljónir, ef maður kaupir stóra. Eða 67.000 íbúðir. Hmmm...


mbl.is Fámenn Icesave mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið rétt að byrja?

Það eru ekki bara læknar sem munu láta sig hverfa. 18.000 atvinnulausir með lán sem hækka með hverri afborgun munu skilja lykilinn eftir í skránni þegar þeir fara úr landi. Við viljum ekki styggja útlendingana því án útflutningstekna erum við ekkert, en erum við ekki að leggjast lægra en 14 ára stelpa á heróíni?

Við getum ekki borgað Icesave. Við getum ekki heldur borgað 350 milljarða afglöp Seðlabankans frá því korteri fyrir hrun. Afskrifum það, eða reynum allavega að semja um hvað skal greiða. Að taka þetta á sig gerir ekkert annað en að steypa okkur í skuldir sem við ráðum ekki við. Gleymum ESB í bili. Innganga yrði í fyrsta lagi eftir 2-3 ár og evran kæmi mikið seinna. Þegar það er allt komið í gegn verður enginn eftir til að borga skuldirnar sem við tókum á okkur. Nema kannski fatlaðir og gamalmenni sem komast ekki úr landi.

IMF (neita að nota íslensku skammstöfunina því þessi stofnun á ekkert erindi á Íslandi) vinnur ekki að uppbyggingu íslenska efnahagslífsins. IMF hefur það markmið að fá íslendinga til að greiða eins mikið af skuldunum til baka og hægt er. Þeir eru ekki að vinna fyrir okkur. 3-6faldir vextir á við nágrannalöndin eru ekki til þess gerðir að koma atvinnulífinu í gang aftur. Það er verið að mjólka íslenska lántakendur eins og mögulega hægt er. Fyrirtæki og einstaklinga. Fyrirtæki geta ekki rétt úr sér meðan þau eru að borga skatt til erlendra auðhringa. Að stofna fyrirtæki á Íslandi hefur ekkert upp á sig. Fjölskyldur geta ekki komið sér út úr skuldafeninu meðan höfuðstóll lána hækkar við hverja afborgun, ofan á vexti sem þekkjast hvergi nema hér.

Ég var að skoða fasteignasíðu MBL. Ódýrasta íbúðin í Reykjavík kostar um 10 milljónir. Fyrir 18 milljónirnar sem var lágmarksverðið fyrir ári, er hægt að fá yfir 100 fermetra 4 herbergja íbúð með útsýni yfir sundin blá. Ég reiknaði út lán á 13 milljóna króna íbúð og fékk yfir 80.000 á mánuði, og það fór hækkandi vegna ofurvaxta og verðtryggingar. Dæmið gengur einfaldlega ekki upp, sérstaklega hjá þeim sem keypu sér íbúð eftir miðjan áratuginn.

Ísland er ekki að virka. Það gerist ekkert með því að tala kurteysislega og passa sig á að móðga engan. ESB er ekki töfralausn, allavega ekki skammtímatöfralausn. Það eru skammtímalausnir sem við þurfum, áður en vinnufæra fólkið lætur sig hverfa. Við erum fámenn þjóð og það munar um hverja 1000 íslendinga sem flytjast úr landi. Þegar skriðan er farin af stað, verður erfitt að snúa við. Hvar verðum við þá eftir 10 ár eða 20? Vakni stjórnvöld ekki strax, má gera ráð fyrir að hrunið sé rétt að byrja.


mbl.is Læknar flýja kreppuland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þökk sé Bob og Bono? - Nýlendustefna okkar tíma.

Í Afríku er nóg af gulli og demöntum, olíu og ræktarlandi. Þetta ætti því að vera ein ríkasta heimsálfa á jörðinni. Þó er hún sú fátækasta. Fáir búa við verri kjör en þeir sem vinna við það sem best gefur af sér, demantagröft og olíuvinnslu. Vesturlönd sjá til þess að Afríka haldist fátæk. Við viljum auðlindirnar á okkar kjörum og okkar skilmálum.

Fallegt

Þegar hinn almenni vesturlandabúi fær nóg og fer að rífa kjaft, er farið af stað með söfnun svo byggja megi trúboð sem útbýta hrísgrjónum og fiskimjöli svo fólkið þurfi ekki að drepast alveg. Í staðinn er því kennt hvernig Guð skapaði heiminn á viku og hvernig sonur hasn kom til að bjarga oss frá illu. Þeim líka.

Þetta virkar ekki. Afríka er jafn fátæk og hún var fyrir LiveAid hljómleikana í júlí 1985. Það er sama hversu mikið við gefum, það dugar ekki til. Ég get gefið fátækum manni að borða daglega, en ef ég gef honum ekki tækifæri til að bjarga sér sjálfum, mun hann koma á hverjum degi og biðja um meira.

Drop the Debt virtist vera falleg hugmynd. Loksins átti að fella niður skuldir svo afríkuríkin gætu byrjað upp á nýtt og komið sér upp úr skuldafeninu. Live8 var sett upp 2005, Bob Geldof barðist af krafti og Bono lét auðvitað sjá sig, enda sér hann sig sem einhvern mannúðarmessías (í boði BlackBerry). Pólitíkusar töluðu um bjartari framtíð og jafnrétti ríkjanna. En hvað gerist? Pólitíkusar og stjórnendur stórfyrirtækja geta ekki verið góðir, þeir geta ekki fellt niður skuldir og látið það duga. Nei, hugsunarhátturinn "what's in it for me" verður seindrepinn.

Til að skuldir verði felldar niður, verður viðkomandi land að taka upp vestræna viðskiptahætti. Fella niður innflutningstolla, því það er svo gott fyrir frjáls viðskipti. Eftir áratuga fátækt er kannski um 70% landsmanna kotbændur. Þeir framleiða korn og hrísgrjón og selja á mörkuðum nálægt heimilinu. Þegar öll innflutningshöft eru fjarlægð, fyllist markaðurinn af niðurgreiddum landbúnaðarvörum frá Evrópu og Bandaríkjunum. Okkar vörur eru ódýrari því ríkið er þegar búið að greiða hluta framleiðsluverðsins. Kotbændurnir geta ekki keppt, bregða búi og flytjast í fátækrahverfi í útjaðri stórborganna. Hefur líf þeirra batnað við að ríkið losnaði við skuldirnar? Nei, þvert á móti.

Þegar megnið af fátækum kotbændunum eru farnir á hausinn og fluttir burt, er það einfalt og ódýrt fyrir stórfyrirtæki á vesturlöndum og í Kína að kaupa upp heilu löndin í Afríku. Það kemur sér vel eftir 10-20 ár að eiga mikið ræktarland, því við horfum fram á gríðarlega fjölgun mannkyns, fólks sem þarf að éta. Ofan á það bætist græna hreyfingin sem heimtar græna orku. Biofuel verður að framleiða og þá þarf mikið flæmi lands.

Það er því engin tilviljun að stórfyrirtæki, og jafnvel erlend ríki, séu að kaupa upp land í Afríku akkúrat núna. Þetta er fjárfesting til framtíðar.


mbl.is Kínverjar kaupa upp Afríku í kreppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Paradiso - einokunarverslunin afnumin

Það er ekki oft að það hlakki í mér við gjaldþrot, en ekki get ég sagt að ég hafi grátið í gær. Kvikmyndafyrirtæki hafði gert samning við tvo hljómleikastaði í Amsterdam, Paradiso þar á meðal. Þeir höfðu einkaleyfi á að kvikmynda það sem þar fram fór. Ég var beðinn um að taka upp hljómleika Maria Mena í Paradiso, en það gekk ekki upp því einkaleyfið var í fullu gildi. Ekki að hitt fyrirtækið hafi haft áhuga á að taka upp hljómleikana, heldur var málið að halda öðrum frá. Ekkert var tekið upp. Slæmt fyrir mig, slæmt fyrir salinn, skipti ekki máli fyrir kvikmyndafyrirtækið sáluga. Málið var að fái þeir ekki kökuna, fær hana enginn. Þetta var leiðinlegt ástand, því margir íslendingar sem spila hér í Hollandi, spila á þessum stöðum.

Það er vonandi að ég hafi möguleika á að taka upp fleiri hljómleika hér eftir. Hafi Hjaltalín áhuga á að tala við mig, og lesi þeir þetta, er þeim velkomið að vera í sambandi. Paradiso er open for business. Einokunarverslunin er dauð.


mbl.is Hjaltalín hefur upptökur á nýrri plötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræður IMF ekki?

Ef IMF ræður peningastefnu Íslands, hefði IMF átt að vita þetta fyrir. Hafi þeir ekki viljað sjá Straum drepast, hefðu þeir getað komið í veg fyrir það því IMF ræður ekki bara hér, heldur allsstaðar. IMF er nefninlega angi alþjóðaklíkunnar sem vill heimsyfirráð og er að nota kreppuna til að koma alheimsstjórn á koppinn.

Ekkert er gert á Íslandi nema IMF leggi sína blessun yfir það.

Hvíl í friði, Lýðveldið Ísland. Hvíl í friði, frjálsi heimur. 


mbl.is Fall Straums tafði AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Splittessu

Sena virðist eiga megnið af íslenskri menningu. Flestum kvikmyndum er dreift af Senu. Megnið af íslenskri tónlist er í eigu Senu. Hver sá sem eignast fyrirtækið, eignast íslenska menningu.

Ég vona að það verði vel staðið að þessu. Best væri þó ef fyrirtækið yrði bútað niður svo að enginn gæti "átt" menninguna okkar. 90% markaðshlutdeild, eða hvað Sena er með, getur ekki verið holl. 


mbl.is Sala Senu ófrágengin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarlög II

Tortola Þetta fer langt í að borga upp skuldirnar sem hrunið olli, ef ég er ekki að fara með þvælu. Er ekki kominn tími á Neyðarlög II sem gera allar eignir í skattaskjólum ólöglegar og þar með eign ríkisins? Þannig getum við minnkað skuldir hvers íslendings og horft til bjartari framtíðar.
mbl.is Fé í skattaskjólum fimmtíufaldaðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

99 krónur á mann...

Þegar þjóðin stendur saman gerast kraftaverk. Í þetta skiptið var það Júróvisjón og 69.000 manns gerðu það að verkum að Síminn (eða einhver) græddi sjö milljónir. Auðvitað fylgdust miklu fleiri með útsendingunni, en rúm 20% þjóðarinnar borguðu 100 kall til að skipta máli.

Hvað er hægt að gera við 100 kall ef 20% þjóðarinnar tekur þátt? Það er hægt að gera bíómynd fyrir sjö milljónir, eins og ég hef skrifað um áður. Ef þetta er gert að áskrift, má framleiða og markaðssetja 5-10 myndir á ári. Það er hægt að gera fimm bíómyndir og senda áskrifendum á DVD. Það er hægt að framleiða framhaldsþætti, ótal stuttmyndir og aðra list. Það er hægt að borga rithöfundum til að þeir geti einbeitt sér að skrifum. Það má þýða íslenskar skáldsögur og annað yfir á útlensku. Fyrir 100 kall á mann.

Möguleikarnir eru óteljandi. Nú þegar fólk skilur að maður þarf ekki milljón til að koma sér fram úr, að það megi gera góða hluti fyrir lítið fé, mun íslensk menning kannski blómstra sem aldrei fyrr. 


mbl.is 69 þúsund atkvæði greidd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband