Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
30.6.2010 | 22:10
Ísland og blekking hippans
Þegar maður kaupir sér lífrænt ræktað jurtate, kaffi eða annað, býst maður við því að seljandinn sé vinaleg miðaldra dama með einhverskonar hippafortíð. Kannski fór hún í keflavíkurgöngu. Hún veit allt um jurtirnar, veit hvað þetta blóm gerir fyrir líkamann, veit hvaða te virkar gegn þessum eða hinum krankleikanum. Kallar sig kannski norn í alvörugefnu gríni.
Veruleikinn er víst annar. Grasið er flutt inn að fagfjárfestingafyrirtæki sem hefur þann eina tilgang að afla ávaxta fyrir fjárfestana. Það sem betra er, sníkjudýrið er að kaupa öll grasafyrirtækin og því er hin argasta einokun í gangi.
Gömlu hipparnir og bláeygu grasaæturnar eru höfð að fíflum. Inspired by Iceland, I am not.
Auður eignast Yggdrasil | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.1.2010 | 16:17
Lygar?
Forsetinn mátti ekki skjóta Icesave til þjóðarinnar því það myndi gera IMF pirrað og setja stopp á ESB. Annað hefur komið í ljós. IMF er sama um Icesave á meðan við borgum þeim til baka. ESB er sama um Icesave, eða segjast vera það, því það mál er kolólöglegt hvort eð er. Hefur því engin áhrif á inngönguferlið.
Spurningin er, var ríkisstjórnin að ljúga eða hafa þau einfaldlega ekki hugmynd um hvað samningsaðilar okkar erlendis eru að hugsa? Veit ekki hvort það er, en veit að hvoru tveggja gerir þessa ríkisstjórn vanhæfa.
Verst er að stjórnarandstöðuflokkarnir eru þeir sem komu okkur í þetta vesen. Þeim er ekki treystandi heldur. Er ekki kominn tími á utanþingsstjórnina sem fólk hefur verið að biðja um síðan í október 2008?
Þar fyrir utan er það að komast á hreint að Grikkland, ESB- og evruland, þarf ekki að hafa áhyggjur af aðstoð vegna þeirra efnahagserfiðleika. Býst Samfó við því að við fáum aðstoð, frekar en þeir?
ESB og Icesave aðskilin mál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.1.2010 | 18:54
Væluskjóða
Er þetta ekki maður sem var fenginn í ráðherrastól utan úr bæ? Átti hann ekki að hafa vit á fjármálum og vera laus við flokkspólitískt bull?
Af hverju er hann orðinn kaþólskari en páfinn? Af hverju er hann að troða umræðunni í svaðið? Af hverju er hann að eyðileggja þetta tækifæri sem við fengum til að byggja betra land?
Er ekki bara málið að hann segi af sér sjálfur fyrst hann er svona ósáttur og láti ríkisstjórnina um að ákveða hvað hún vill gera?
Væluskjóða.
Gylfi: Stjórnin frá ef Icesave fellur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.1.2010 | 17:53
Spurning til Steingríms...
Kæri Steingrímur,
Gott að þú ert í beinu sambandi við kollega þína í Bretlandi og Hollandi. Ef þú komst ekki inn á það í dag, gætirðu þá spurt Wouter Bos af hverju hann heldur því staðfastlega fram í hollenskum fréttum að forsetinn hafi sett Icesave samkomulagið í hættu? Viltu spyrja hann af hverju hann heldur því fram að íslendingar hafi ákveðið að borga ekki krónu? Hann er nefninlega að segja það við landa sína. Ég hef það á tilfinningunni að hann sé að upphefja sigg á okkar kostnað, að veiða atkvæði með því að sverta okkur.
Takk fyrir að taka þetta til greina.
Steingrímur til Bretlands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.11.2009 | 19:17
Vorir Skuldunautar?
Ef skuldir ríkja heims aukast um 45% á þremur árum, hver á þessar skuldir? Hver er að lána þessa peninga? Hver er að græða á kreppunni? Hver er að þéna mörgþúsund milljarða á kreppunni?
Ekki eru það bankarnir sem vældu út ríkisaðstoð korteri eftir samdrátt. Bankarnir sem höfðu synt í hagnaði árin á undan...
Skuldir ríkja heims aukast um 45% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.10.2009 | 12:13
Lygar eða bundnar hendur?
Núverandi ríkisstjórn hefur alltaf haldið því fram að IMF lánin yrðu ekki notuð í neitt nema að styrkja tiltrú heimsins á krónunni og íslenska efnahagslífinu. Þessum peningum yrði ekki eytt. Þetta sögðu tvær fyrri ríkisstjórnir líka. Ekki að maður hafi trúað því, en það mátti auðvitað vona.
Hvað er að gerast þarna? Hvað er stjórnin að spá? Af hverju er logið hægri og vinstri? Hvers á fólk að gjalda? Fólkið og fyrirtækin í landinu eru að missa allt sitt til bankanna. Bankarnir eru að falla í hendur erlendra spekúlanta og fjárfesta. Og svo er logið í hvert sinn sem tækifæri gefst.
Annað hvort er stjórnin á mála IMF og erlendu fjárfestanna, eða hendur hennar eru bundnar. Sé hið fyrra rétt, eru þetta landráðamenn, upp til hópa. Sé hið seinna rétt, í guðs bænum, gerið hreint fyrir ykkar dyrum svo eitthvað traust skapist í þessu svokallaða þjóðfélagi.
Nota forðann í afborganir lána | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.8.2009 | 21:06
Okrarar
Við ætluðum að heimsækja fjölskylduna á Íslandi en það verður að bíða betri tíma. Miðaverðið hefur rokið upp og við höfum ekki efni á að borga fyrir þriggja tíma flug. Það kostar okkur þrjú hátt í 1200 evrur að fljúga heim. Það kostar um 1500 á business class til New York. Svipað á túristaklassa til Taiwan. 300 evrur til Oslo.
Er ekki kominn tími á að FI fari á hausinn svo að við getum fengið alvöru samkeppni?
Heimild til að auka hlutafé Icelandair | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.7.2009 | 18:20
1/250.000.000
Þessi þjófnaður er einn á móti tvöhundruðogfimmtíu milljónum Icesave skuldarinnar á gjalddaga. Ef Bjöggarnir yrðu dæmdir eins, yrðu þeir dæmdir í skilorðsbundið fangelsi í 7.5 milljarða daga. Það eru rúmlega 25.000 ár.
Einhverjar líkur á því?
Stal vodkafleyg og einum bjór | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.6.2009 | 21:35
Ljósin...
Hækkum skatta sem munu hækka framfærsluvísitöluna sem hækkar verðbólgu sem smyr á hjól verðtryggingarinnar sem er að setja fólk á hausinn og flæma úr landi.
Skjaldborg um heimilin?
Eins og þeir sögðu í den. Sá sem síðastur fer, vinsamlega slökkvið ljósin.
Boðar auknar álögur á áfengi og tóbak | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.6.2009 | 19:15
Kennitöluflakk bankanna
Ég ætla ekki að verja ákvarðanir þessarar fjölskyldu. Persónulega hefði ég ekki þorað að vera með þrjár eignir, jafnvel í góðæri. En það breytir því ekki að kerfið á Íslandi er alveg sérstaklega fjandsamlegt fólkinu í landinu. Þar virðist ekkert ætla að breytast.
Bankinn samþykkir að lána og tekur veð í eigninni. Þegar lántakandi getur ekki borgað, er veðið ekki nóg, heldur ákveður bankinn hvers virði veðið er og skellir restinni á lántakanda. Neitar svo að semja, vill ekki leysa málið. Þrátt fyrir hina meintu skjaldborg vinstri stjórnarinnar. Vinstri er yfirleitt fyrir launþegana, þótt raunveruleikinn hafi kannski yfirleitt sannað annað.
Fjölskylda tekur lán og byrjar að borga af því. Tveimur árum síðar hefur höfuðstóll skuldarinnar hækkað, þrátt fyrir að greitt hafi verið af láninu. Við erum ekki að tala um vexti, heldur lánið sjálft. Þetta kallast verðtrygging og er eins óréttlát og mögulegt er. Þetta þekkist ekki annars staðar.
Í þriðja lagi, og ég viðurkenni að ég hef ekki hugsað þetta til enda. Fólk sem vit hefur á þessu má endilega gera athugasemdir. Þau tóku sennilega lán hjá banka sem er kominn í gjaldþrot. Hvernig getur nýi bankinn rukkað og farið út í eignarnám þegar hann hafði ekkert með upphaflega lánið að gera? Keypti hann gömlu útlánin? Er það löglegt? Munu erlendir kröfuhafar i gömlu bankana samþykkja það? Ef ég kaupi á reikning í búð og hún fer í þrot, getur sami eigandi haldið áfram að rukka mig á annarri kennitölu meðan gamla búðin er gerð upp? Myndu bankarnir sem eiga kröfu í þrotabú fyrri búðarinnar samþykkja kennitölubrask eigandans?
Fjölskylda á hringekjunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |