Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Um Land, Þjóð, Fána og Þjóðsöng

Spaugstofan grínaðist með þjóðsönginn og virðist þar með hafa opnað box Pandoru. Margir eru móðgaðir yfir þessu "virðingarleysi". Það eru jú lög sem kveða á um að ekki megi flytja hann í breyttri mynd. En hvað er þjóðsöngur og hvert er hlutverk hans?

ReykjanesÞað er engin spurning að af hinni þjóðlegu þrenningu, landinu, fánanum og söngnum er landið dýrmætast. Án landsins er fáninn og söngurinn einskis virði.

Þjóðsöngurinn á að fjalla um landið, hversu dásamlegt það er og okkur dýrmætt. Þjóðsöngurinn okkar fjallar hins vegar um Guð meira en hvað annað. Kristin trú er þjóðtrúin og nenni ég því ekki að kvarta um það. Að söngurinn sé torsunginn hafa aðrir skrifað um. Það er sennilega rétt. Allavega kann ég hann ekki og gæti sennilega ekki sungið hann þó svo væri. Ekki að ég hefði neinn sérstakan áhuga, því ef ég hugsa um landið mitt vil ég ekki endilega blanda Guði eða trú inn í það. Ísland, landið sjálft, er það dýrmætasta sem íslenska þjóðin á og landið á skilið alla þá virðingu og ást sem við getum gefið. Landið er okkar, landið ar þeirra sem á undan lifðu og landið er þeirra sem á eftir koma. Það er merkilegt að sjá fólk sem styður stórvægilegar skemmdir á landinu, óafturkræfar skemmdir, móðgast þegar þjóðsöngurinn er notaður til að verja landið. Þjóðsöngurinn ætti að vea eign allra landsmanna, sameiningartákn. Ef að gerð er þungarokksútgáfa er það betra en núverandi ástand þar sem flestum er nokkuð sama um þetta "kórlag".

Fáninn er líka svolítið skemmtilegt fyrirbæri. Hann er kross, tákn trúarinnar, en litirnir tákna eld, ís og haf. Það sem mér finnst hvað merkilegast hér er að fáninn má ekki snerta jörðina, jörðina sem hann er tákn fyrir. Það er sennilega ástæða fyrir því, en ég get ekki ímyndað mér hver hún er.

Þjóðin sem býr í landinu hefur rétt á að nýta það, njóta þess og elska. Þjóðin hefur ekki rétt til að þurrmjólka það svo að ekkert standi eftir fyrir komandi kynslóðir.

Það að standa vörð um fánann og þjóðsönginn en eyðileggja landið er hræsni. Á sennilega mikið sameiginlegt með fólki sem ver kirkjuna en gengur þvert á það sem trúin boðar. Þjóðsöngvar og fánar eru tákn fyrir landið, rétt eins og kirkjur og krossar eru tákn trúarinnar. Okkur væri hollast að bera virðingu fyrir því sem virkilega skiptir máli, landinu sjálfu og þjóðinni. Þá kemur virðing fyrir öðrum hlutum af sjálfu sér.


mbl.is Spaugstofumenn brutu lög um þjóðsönginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru Íslendingar Meðsekir?

Björn Bjarnason hefur alltaf getað gert mig orðlausan, þannig lagað.  Samkvæmt honum bera íslendingar enga ábyrgð á innrásinni í Írak. Hún hefði gerst hvort eð var.

Það er auðvitað satt sem hann segir að innrásin hefði gerst hvað sem íslendingar hefðu sagt eða gert. Spurningin er hins vegar, erum við ekki meðsek? Ef ég er í hópi sem ákveður að fremja glæp, innbrot, hópnauðgun, morð, og ákveð að standa ekki bara hjá heldur segja að þetta sé bara allt í lagi. Er ég ekki orðinn meðsekur þótt ég taki ekki beinan þátt í glæpnum? Glæpurinn hefði gerst hvort eð var því ekki gat ég stoppað hópinn.

Þetta hlýtur lögmaðurinn Björn Bjarnason að skilja. 


mbl.is Björn: Ríkisstjórn Íslands bar enga ábyrgð á innrásinni í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður án nafns II - The Möppudýr Strikes Again

Eins og hægt var að lesa hér, áttum við í smá veseni við möppudýr hér í Hollandi þegar við vildum votta að hinn óborni ungi sé minn og að ég muni koma til með að sjá um hann. Möppudýrið á skrifstofunni vildi meina að ég héti ekkert og án nafns gæti ég ekki átt barn. Ekki að ég væri alveg nafnlaus, heldur að ég bæri ekkert eftirnafn. Ég skal fúslega viðurkenna fyrir hverjum sem er að ég ber ekki ættarnafn, en að ég hafi ekki eftirnafn er auðvitað bara della.

Það var sem sagt engin leið að fá "manninn" til að skilja að eftirnafn mitt væri eftirnafn. Ég hafði samband við Þjóðskrá (takk mamma) og þau sendu mér bréf á ensku sem vottar að Ásgeirsson sé eftirnafn mitt. Glæsilegt, hugsa ég með sjálfum mér og panta tíma hjá Sýslumanni. Við þurfum bæði að mæta, svo hún tók sér frí í vinnunni í tilefni dagsins. Við mætum á sýslumannsskrifstofu klukkan níu með vegabréfin og hið gullna bréf merkt Þjóðskrá.

Til að gera stutta sögu langa get ég sagt að þetta gekk ekki upp. Við sáum sama möppudýrið standandi þarna. Hann sagði góðan morgunn án þess að meina það. Tók vegabréfin og pappírana og ljósritaði og spurði svo hvenær við vildum koma til að votta faðernið. Núna, segi ég og velti fyrir mér hvaða bull sé nú í gangi. Nei, það er ekki hægt. Ef ég leiðrétti eftirnafnið þitt í kerfinu verðum við að bíða þangað til á morgun. Ókei, slepptu þá að leiðrétta nafnið og vottum faðernið. Ég get komið seinna án hinnar óléttu móður til að leiðrétta kerfið. Nei, það er ekki hægt. Það verður að leiðrétta kerfið fyrst og það tekur dag. Af hverju sagður þú það ekki fyrr? Hún tók sér frí til að koma hingað. Af hverju spurðir þú ekki, svaraði hann og snéri við í átt að tölvunni. Hann pikkaði eitthvað og sagði svo að við gætum komið afur á morgun til að votta faðernið.

Við létum hann heyra að við værum ekki sátt og snérum við til að fara. Viljið þið bóka tíma til að ganga frá faðerninu, heyrði ég rödd hans segja fyrir aftan okkur. Nei, sagði ég, fyrst verður hún að sjá hvenær hún getur tekið sér frí aftur. Verður sennilega í desember, bætti hún við. Gleðileg jól.

Nú er bara að sjá hvenær hún kemst úr vinnu til að redda þessu. Ég hefði getað farið í gær til að ganga frá nafninu svo að allt væri klárt í dag. Máli er bara að þessi mannfýla virðist hafa gaman að því að gera fólki lífið leitt. Skiptir ekki máli, við göngum frá faðerninu og kvörtum svo í sýslumann. Þessi maður er ekki starfi sínu vaxinn. 


Hvað eru fordómar?

Eftir því sem ég best veit eru fordómar það að dæma fyrirfram, og þá án þess að skilja málið til fulls. Endilega leiðréttið mig ef ég er að bulla. Ég hef ekki búið á Íslandi í 13 á og get verið farinn að ryðga eitthvað.

Þessi umræða um útlendinga og moskur er komin út í þvílíkt rugl. Íslenskir stjórnmálaflokkar virðast vera fastir í einhverjum pólitískum rétttrúnaði (political correctness) sem hefur ekkert með raunveruleikann að gera. Frjálslyndi Flokkurinn segir eitthvað um að það væri kannski allt í lagi að skoða innflytjendalöggjöfina því við erum svo fá og meigum við svo litlu. Hvað ætti að gerast? Þeir sem eru á móti því ætti að koma með mótrök, þeir ætti að útskýra af hverju þeir séu á móti því að takmarka magn innflytjenda. Hvað gerist? Þeir koma með ómálefnanlegt bull og skítkast.

Hefur einhverjum dottið í hug að skoða þá þróun sem átt hefur séð stað í Evrópu á síðustu áratugum? Er það kannski slæm hugmynd að gera það? Maður vill auðvitað ekki vera stimplaður rasisti.

Ef Ísland er ekki að gera mistök, útskýrið þá af hverju. Að láta eins og smábörn á róló lítur ofsalega hallærilega út. Mér hafði aldrei dottið í hug að ég ætti nokkurn tíma eftir að eiga samleið með Frjálslyndum. Það hafa sennilega verið einhverjir fordómar af minni hálfu í þeirra garð.


mbl.is Lýsa yfir vonbrigðum með trúarbragðafordóma meðal Frjálslyndra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fullkomið jafnrétti trúarbragða?

Það hefur verið töluverð umræða á blogginu síðan íslenskum múslimum var neitað um lóð undir mosku. Það mátti búast við heitum umræðum og þær létu ekki á sér standa. Það er alltaf svona þegar trú á í hlut.

Það er endalaust talað um virðingu fyrir hinum og þessum trúarhópum. Ef einhver segir að hann trúi á einhverja veru verð ég sjálfkrafa að bera virðingu fyrir því. Það er svo sem allt í lagi, mér er sama á hvað fólk trúir og sé enga ástæðu til að sýna einhverjum vanvirðingu af því hann trúir á eitthvað sem ég er kannski ósammála. Það er eins og að líta niður á Volvo eigendur af því mér finnst Volvo bílar ljótir. Maðurinn getur verið hin besta sál, vel gefinn, fyndinn og skemmtilegur. Það að hann keyri um á Volvo gerir það ekki að verkum að mér finnist hann vitlaus, heimskur, asnalegur eða að hann tilheyri ekki mér og mínum. Ég myndi ekki kaupa bílinn af honum, en þar fyrir utan get ég umgengist hann án vandræða.

Þó að mér finnist allt í lagi að þessi maður keyri um á Volvo, er ekki þar með sagt að ríki og sveitarfélög eigi að styrkja hann og hans líka í Volvodellunni sinni með skattpeningunum mínum. Af hverju á að innræta barninu mínu í skóla að Volvo séu fallegir bílar og að öryggið sem því fylgir að keyra um á Volvo réttlæti hærra verð? Svo kemur barnið heim og kvartar yfir því að ég eigi ekki Volvo. Ég þarf að reyna að útskýra fyrir barninu að Volvo sé ekki endilega besti og fallegasti bíllinn í heimi. Á meðan börnum er kennt að Volvo sé fallegur og öruggur bíll fær Félag Volvoeigenda úthlutaða lóð svo að þeir geti sett upp félagsheimili með litlu Volvo safni. Það er líka bara sanngjarnt, því Toyotaklúbburinn fékk líka lóð. Svo er Audiklúbburinn að sækja um.

Það er sennilega auðséð að Volvoinn í þessum pistli er Guð og þá einhver ein útfærsla á honum. Skiptir ekki máli hvort hann heiti Guð, Allah, Jahwed, Óðinn eða hvað. Það eru til ótal útgáfur af Guði. Það er hið besta mál að fólk fái að iðka sína trú í friði fyrir fordómum. Það er líka mikilvægt að það sé ekki gert upp á milli trúarbragða. Síðast en ekki síst er mikilvægt að trúleysingjar njóti sama jafnréttis.

Eftir því sem ég hugsa meira um þetta mál styrkist ég í þeirri trú að fullkomið trúfrelsi geti aðeins orðið að veruleika ef ríki og sveitarfélög hafa ekkert með trúfélög að gera. Það yrði engin þjóðkirkja, a.m.k. ekki þekki kirkja sem fólk gengur sjálfkrafa í. Þjóðkirkjan yrði sjálfstætt félag sem þyrfti að fleyta sér áfram á framlögum félaga. Sama myndi gilda um múslima, ásatrúarmenn, búddista og hverja þá sem finna þörf fyrir eigið trúfélag. Ef öll trúfélög yrðu sjálfstæð, fengju engar lóðir, enga styrki eða sérstaka meðferð frá hinu opinbera, kæmist á fullkomið trúfrelsi. Þá þyrfti enginn að kvarta yfir að sér væri mismunað því það fengi enginn neitt.

Látum Volvoeigendur byggja sitt eigið félagsheimili sjálfir.


Múslimar vilja byggja?

Þetta er það fyrsta sem ég heyri af þessu máli og fréttin segir svo sem ekki mikið um málið.

Skil ég það rétt að trúfélög fái lóðir endurgjaldslaust, eða er þetta einfaldlega spurning um skipulag?

Hvað eru margir meðlimir í félagi múslima á Íslandi? Ég geri ráð fyrir að þeir vilji byggja mosku. Verður hún öllum opin, eða verður sama viðkvæmispukri og maður sér erlendis viðhaft, þar sem múslimar eiga sér samastað, innfæddir (hér notað um þjóðina sem bjó fyrir í landinu) eru ekki velkomnir og klerkar tala um að steypa stjórninni, taka af venjur og setja á fót islamskt ríki? Ég geri ráð fyrir að bænum sem farið er með fimm sinnum á dag verði ekki útvarpað um hverfið um hátalara á byggingunni eins og tíðkast víða? Fyrsta bænin fer oft í loftið milli fjögur og fimm á morgnanna. Eins og ég segi geri ég ekki ráð fyrir þessu, en það er sjálfsagt að koma því á hreint áður en framkvæmdir fara af stað.

Hvað finnst íslenskum múslimum um slæður, almennt frelsi borgarans, trúfrelsi og jafnrétti kynjanna?

Það er sjálfsagt mál að gefa múslimum sömu möguleika og öðrum, en það er líka nauðsynlegt að þeir virði reglur, lög og venjur heimalands síns fyrst og trúar sinnar þá. Íslensk lög og venjur verða að hafa meira vægi en Múhameð spámaður. Annars get ég ekki ímyndað mér að moska í Reykjavík gæti gengið upp. 


mbl.is Félag múslima undrast að félagið fái ekki lóð í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður án nafns

Hollendingar eru klikk og ef ég væri ekki fastur hér kæmi ég heim hið fyrsta. Spurning með að búa til eitthverja áætlun, plan sem miðar að því að koma manni heim. Spurningin er svo hvort Ísland sé eitthvað betra. Veit ekki, því þar sem möppudyrin skjóta rótum er voðinn vís.

Þannig er mál með vexti að það er ungi á leiðinni. Hann eða hún á að koma í heiminn í byrjun febrúar. Þetta er þó komið það langt að ef unginn kemur í heiminn núna, eru góðir möguleikar á að hann spjari sig bara fínt og vaxi úr grasi. Það var því kominn tími á að "viðurkenna" faðernið. Ef maður er ógiftur á maður ekkert tilkall til barnsins. Komi eitthvað fyrir mömmuna er pabbinn réttlaus og foreldrar hennar fá forræði. Móðurbróðirinn á meira tilkall til barnsins. Fjarskyld frænka mömmunnar á meira tilkall. Það þarf því að "viðurkenna" faðernið áður en unginn kemur í heiminn.

Við fórum til sýslumanns í gær til að ganga frá þessu formsatriði. Ætti ekki að vera stórt mál, nema skriffinnska setji strik í reikninginn. Í þessu landi er lítil hætta á öðru. Við vorum spurð hvað barnið ætti að heita. Furðu lostin sögðumst við ekki vita það. Nei, ættarnafnið. Ó, ég skil. Ættarnafn dömunnar er ekki yfir drifið fallegt, svo við völdum föðurnafn mitt. Í Hollandi getum við ekki fylgt íslenskum reglum, svo ég get ekki kennt barnið við mig. Við erum send inn í einhverja kompu, þar sem við bíðum í góðan hálftíma. Þá kemur sleggjan.

Möppudýr kemur inn í kompuna og segir að það sé vandamál. Allt í lagi, hugsa ég. Eitthvað formsatriði sem hægt er að leysa. Onei. Málið er að föðurnafn mitt er ekki ættarnafn. Ég má ekki búa til ættarnafn úr því, samkvæmt íslenskum lögum. Þar fyrir utan er einn reitur fyrir nafn á íslensku fæðingarvottorði og þar stendur mitt fullt nafn. Það er því ekki sagt skýrum stöfum hvað eftirnafnið er. Ég heiti því þremur eigin nöfnum og er á eftirnafns. Ef ég streytist á móti og krefst þess að mitt nafn verði notað, mun unginn fá eigið nafn og svo mitt fullt nafn sem eftirnafn. Nema að það eru eigin nöfn og ekki ættarnöfn og því má það ekki. Möppudýrið snérist því í hringi en lét okkur vita að hann gæti ekki hjálpað okkur. Ekki nema barnið fengi ættarnafn móðurinnar. Á þessu stigi vorum við orðin harðákveðin að það myndi ekki gerast.

Þetta er sem sagt möppudýravandamál á versta stigi og eins og hollendingum er lagið er svarið, því miður getum við ekkert gert. Bless. Það besta var að hann fór að líkja þessu við það hvernig múslímar blanda saman nöfnum pabbans, afans og langafans. Þannig átti ég að skilja að það sé ekki hægt að þjóna endalausum sérhagsmunum minnihlutahópa. Ég sagði honum að þetta hefði ekkert með múslíma að gera, ég væri ekki að blanda neinu saman og hvort hann vildi ekki bara skella eftirnafi mínu á barnið. Nei, það var ekki hægt.

Það er vonandi að svör og lausn fáist á Íslandi, því hér er enga lausn að fá. Frekar en fyrri daginn. 


Erum við að skemma mannorð íslensku þjóðarinnar?

Ég var að fá emil frá vinkonu minni hér í Hollandi með titlinum, "Þar fór mannorð þitt". Maður hafði svo sem átt von á þessu. Málið er að það er í fréttum hér úti að íslendingar séu farnir að veiða hvali á ný og nú þykjast þeir ekki einu sinni vera að gera þetta fyrir þekkingu og vísindi. Nú er þetta einfaldlega veiðar til að selja kjöt og ná í gjaldeyri.

Það hefur verið talað mikið um hvalveiðar á Íslandi, með og á móti. Erlendis eru allir á móti. Ég ætla ekki að dæma um það hvort hvalveiðar séu hættulegar hvalastofnunum, aðrir vita meira um það. Samt hef ég skoðun og hún er einföld. Það ætti að banna hvalveiðar þar til heimurinn er tilbúinn til að samþykkja þær.

Það er ekki gaman, þegar maður býr erlendis, að lenda alltaf í samræðum um hvalveiðar. Það gerist nú samt. Fólk kemur að manni í samkvæmum og matarboðum og spyr hvað íslendingar séu að spá. Það er fátt um svör hjá mér því ég veit það hreinlega ekki. Það helsta sem mér dettur í hug er þjóðremba og moldarkofar, en ég læt vera að minnast á það.

Annað sem hvalveiðar gera er að skemma atvinnutækifæri íslendinga. Hvalaskoðanir eru þekkt dæmi, ferðamannaiðnaðurinn einnig, en ég sé aðra hlið á málinu sem íslendingum á Íslandi er ósýnileg. Stærsta matvöruverslun í Hollandi gefur út tímarit sem dreift er frítt í verslanir. Blaðið er fullt að upplýsingum um mat, uppskriftir og hvaðan hráefni koma og hvernig viss vara er framleidd. Ísland var tekið fyrir í vor. Þar var talað um hvernig fiskurinn er innan við tveggja daga gamall þegar hann er seldur til neytandans hér í Hollandi. Ferlinu var lýst, myndir af togara, af löndun, úr frystihúsi, frá pökkun sem fer fram í Belgíu og loks hvernig best er að elda íslenskan fisk svo að ferska bragðið njóti sín sem best.

Það er alveg ljóst að þessi grein myndi ekki birtast í dag. Ef verslanakeðjan vill yfir höfuð halda áfram að selja íslenskan fisk, þá vill hún svo sannarlega ekki vekja athygli neytenda á því hvaðan hann kemur. Þeir færu sennilega annað í mótmælaskyni.

Það skiptir því alls engu máli hvort hvalir séu í útrýmingarhættu eða ekki, hvort markaður sé fyrir hvalkjöt, eða hvort japanir og norðmenn veiði svo við meigum líka. Það sem skiptir máli er að hvalveiðar skemma mannorð íslendinga og tækifæri erlendis. Ekki svo léttvægt hjá þjóð sem á allt sitt undir útflutningi.


mbl.is Hvalur 9 væntanlegur að hvalstöðinni um hálf tíuleytið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppni?

Við vesturlandabúar erum heppin að búa í frjálsu þjóðfélagi. Þangað til annað kemur í ljós. Ég var að vinna fyrir heildsölu sem sérhæfir sig í IBM tölvum. Þar sem ég er að vinna við kvikmynd og setja upp mitt eigið fyrirtæki í kvikmyndagerð og þarf tíma til að koma því í gang vildi ég vinna þrjá daga í viku. Það var í lagi í fyrstu en þegar til stóð að efna það var fyrirkomulagið ekki nógu gott fyrir yfirmanninn og þurfti ég því að velja, halda áfram í vinnunni og gefa kvikmyndir upp á bátinn eða halda fyrir nefið og stökkva ofan í djúpu laugina, segja upp vinnunni og vona það besta.

Ég hætti. Mér var fljótlega boðin vinna hjá þýskum samkeppnisaðila. Ég myndi setja upp söluskrifstofu í Hollandi. Þrír dagar í viku eru ekkert mál og ég vinn að heiman til að byrja með. Ég keyrði til Þýskalands í síðustu viku til að hitta fólk og er skemmst frá því að segja að þar eru skemmtilegar hugmyndir í gangi. Ég myndi því byrja að vinna fyrir þjóðverjann um mánaðamótin. Fullkomin áætlun, þar sem ég er á launum, hef tíma fyrir kvikmyndir og næ mér i reynslu við að reka fyrirtæki.

Þá kom babb í bátinn. Það er lenska að setja klausu í ráðningarsamninga hér í landi að maður megi ekki vinna fyrir samkeppisaðila í heilt ár eftir að maður hættir hjá viðkomandi. Það er því búið að loka fyrir þann möguleika að ég geti unnið fyrir mér, að ég geti brúað bilið þar til kvikmyndirnar fara að gefa eitthvað af sér.

Þetta þykir víst sjálfsagður hlutur, þar sem ég þekki viðskiptavinina og veit hvernig markaðurinn er. Ég lærði þetta hjá fyrrverandi vinnuveitenda og þar með skulda ég honum víst eitthvað. Mér finnst hins vegar að hefði hann haft áhuga á að leysa þriggja daga málið á sínum tíma væri ég ennþá að vinna fyrir hann. Okkur er sagt að við búum í fjálsu þjóðfélagi, en ef þetta eru ekki nútíma átthagafjötrar, þá veit ég ekki hvað. Nú er bara að sjá hvort hægt sé að leysa málið, með góðu eða lögfræðingi ef með þarf.

Skemmtilegra málefni að lokum, ég geri ráð fyrir að hafa annað sýnishorn af myndinni tilbúið á næstu dögum. 


Hræsni?

Ég ætlaði að svara athugasemd við þetta blog, þar sem Gestur Pálsson talar um hræsni andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar, en það varð lengra en ég gerði ráð fyrir, svo ég ákvað að setja það inn hér.  

Þetta er sorglegt. Íslendingar framleiða nú þegar tvöfalt meiri orku en þeir þurfa (eða var það jafnvel meira?). Restin fer í álver. Ég get ekki talað fyrir aðra, en hræsnin í þessu máli er alfarið þeirra sem eru tilbúnir til að eyðileggja Ísland fyrir erlend stórfyrirtæki.

Það er merkilegt að fólk skilji ekki hvernig þessi fyrirtæki virka. Þau eru ekki að byggja álver af því að þau vilja hjálpa innfæddum að lifa góðu lífi. Nei, þau eru að græða peninga. Það er það sem fyrirtæki gera. Þau reyna að borga sem minnst fyrir hráefni og mannskap og vilja svo fá eins hátt verð fyrir vöruna og hægt er. Þannig virka fyrirtæki og svo sem ekkert athugavert við það. Það myndi heldur ekki skipta mig neinu máli ef það kostaði ekki mig og aðra íslendinga landið sem þeim er annt um.

Hvers vegna er ferið að fórna Íslandi fyrir gróða þessara útlendinga? Það á enginn Ísland, þ.á.m. ríkisstjórning og Samfylkingin. Það er ekki þeirra að stórskemma landið svo að afkomendurnir eigi ekkert annað en mengað og uppblásið sker það sem allir vinna í álverum af því fiskurinn er allur dauður og allur peningingurinn fór í að niðurgreiða álævintýrið. Þeir sem óska íslendingum þeirri framtíð hafa ekkert á Alþingi að gera.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband