Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skjóta gæðinginn í hausinn

Ísland er alveg sérstaklega fallegt land... ennþá.

Ísland er sjálfstætt ríki... ennþá.

Ísland er ríkt... ennþá.

Hvers vegna er þessi árátta að virkja allt í bort, selja það fyrir tombóluverð, selja svo stóra hluti í fyrirtækjum til útlendinga svo hægt sé að græða eitthvað á landinu fallega.

Á meðan Írland, Svíþjóð og Finnland eru á hraðri leið inn í framtíðina eru íslendingar að rembast við að fara aftur um 100 ár. Af hverju þurfum við að halda baráttu Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti áfram? Höfum við ekkert lært á þeim 100 árum sem liðin eru síðan hún barðist á móti gráðugum íslendingum og útlendingum sem vildu virkja Gullfoss og þannig eyðileggja eina af fallegustu perlum Íslands?

Það er kannski best að hætta þessu væli, virkja allt í botn strax og klára dæmið, því þegar skaðinn er skeður hefur vælið ekkert upp á sig. Skjótum gæðinginn í hausinn. Þá þurfum við ekki að rífast um það hvernig hann skal nýttur. 


mbl.is Goldman Sachs að kaupa hlut í Geysi Green?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver vill vera húsbóndinn minn?

Ég hef búið í Hollandi í tíu ár, í hjarta Evrópusambandsins. Meðan Ísland hefur verið í bullandi uppsveiflu siðustu ár, hefur atvinnuleysi og (óopinber) verðbólga varað hér, sérstaklega eftir að evran var tekin upp. Það er ekki svo að Holland sé fátækt land eða að það gangi svo illa hér, heldur draga stóru löndin sem eru ekki að gera það svo gott restina á eftir sér. Þýskaland hefur verið að berjast í bökkum síðan það sameinaðist. Frakkland hefur alltaf verið eftir á fjárhagslega, Spánn og Ítalía líka. Þetta eru þó löndin sem munu ákveða hvað íslenska efnahagslífið er að gera. Það þarf að ausa peningum í austur-Evrópu svo að hún komist á sama plan og gamla vestur-Evrópa. Svo eru það miðin, sem verða ekki okkar lengur. Voru þorskastríðin tímasóun?

En svo maður setji þetta í form sem fólk skilur. Jón er ekki ríkur, en er í vinnu og á eitthvað eftir um hver mánaðamót. Hann safnar því saman og getur þannig keypt sér nýjan bíl á þriggja ára fresti og farið í utanlandsferð allavega einu sinni á ári. Hann er ekki ríkur, en honum líður vel.

Einhverjum datt í hug fyrir tíu árum að ef allir vinirnir keypu saman stórt hús og settu launin sín inn á sameiginlegan reikning myndi mikið sparast. Þetta hljómar vel, það er líklegt að Jón geti keypt sér jeppa næst. Hann slær því til og bætist í hópinn. Hann rekur sig þó fljótt á að um leið og launin eru komin inn á reikninginn þurfa allir að vera sammála um hvernig á að ráðstafa fénu. Það geta því liðið mánuðir áður en allir 25 vinirnir samþykkja að Jón geti keypt sér nýjan bíl. Hann þarf samþykki allra til að kaupa sér nýja tölvu. Hann þarf að hætta að reykja vegna þess að hópurinn er ekki samþykkur eyðslu í svoleiðis hluti.

Þetta var bara ákvarðanatakan. Þetta hafði verið hópur 15 þokkalega vel efnaðra vina, en á síðustu mánuðum hafa bæst við 10 vinir sem eiga lítið annað en gjaldfallin lán og gamlar druslur sem verður að endurnýja því þær kosta of mikið viðhald. Jón verður því að sætta sig við að það sem hann átti aflögu fer í að rétta nýju vinina af svo allir geti verið á svipuðu róli fjárhagslega. Þeir verða að ganga fyrir því annars verða verstæðisreikningarnir og gjaldföllnu lánin að stóru vandamáli fyrir alla 25 vinina.

Jón er fastur. Bíllinn er orðinn sex ára, hann hefur ekki komist í utanlandsferð í þrjú ár og húsið hans var sett í púkkið. En það þýðir ekkert að suða, hann tók sína ákvörðun.


mbl.is Stuðningur við ESB-aðild eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við viljum stríð!!!

Árið er 2000. Einhver api vinnur kosningar í "vöggu lýðræðisins" af því að pabbi hans er svo áhrifamikill og af því að hann svindlaði, eyddi kjörseðlum og fékk einhverja Hitler-ungliða wannabes til að banna þeldökkum að kjósa. Ég man að ég hugsaði með mér að þetta vissi ekki á gott. Ég var hræddur um að nú færi allt til fjandans.

Allt fór til fjandans. Apinn byrjaði að vísu á að vera bara grátbroslega heimskur, en hann vann lottóið þann 11 september 2001. Hann fór í stríð við Afghanistan. Maður kannski skildi það því það var gróðrastía ofstækis og ógeðs. Þetta varð svo mikið turn-on og apinn kominn í ham að nú varð að klára það sem pabbi hafði skilið eftir. Íraksstríðið fór af stað með "shock and awe" látum. Margir sáu að þetta myndi enda með ósköpum. Næstum allir nema einhverjir ráðherrar á Íslandi og víðar.

Það eru komin fjögur ár síðan Írak fór af stað og apann er farið að klæja í rassinn. Tíminn er líka að renna út. Hann þarf að hætta eftir ár. Síðustu forvöð að upplifa enn eitt orgy-ið. Það er sem betur fer nóg af hermönnum til staðar, herinn er ekki ofþaninn, þjóðin sem kaus hann reyndar í seinna skiptið (2000 var svindl, 2004 var amerísk heimska) styður sem betur fer við bakið á yfirapanum sínum. Heimurinn, sem hefur ekkert með kosningar í USA að gera en þarf samt að lifa við fáránleikann sem þaðan kemur, er kominn í stuð. Allt sem við viljum er stríð, helst kjarnorkustríð á meðan það helst í mið-austurlöndum og það eru bara arabar sem verða að frumeyndum eða kolum. Það verður svo spennandi að horfa á CNN ef sveppurinn verður sýndur í beinni. Þetta þarf ekkert að vera stór sveppur, lítill er í lagi. Það verður líka gaman að sjá hvað Rússland og Kína gera þegar USA fer endanlega yfir um.

Nú er bara spurningin, Dabbi og Dóri eru farnir. Mun Ísland styðja þriðju útilegu apans? 


mbl.is Segir Bandaríkjastjórn vilja gera árás á Íran
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kærleikur Guðs sé með þér...

Þú þarfnast hans þegar blóðþyrstir geðsjúklingar með brenglaða heimssýn pynta þig til dauða í Hans nafni.

Kannski er bara gott mál að láta umskera stelpurnar. Þá lenda þær ekki í svona.


mbl.is Á yfir höfði sér dauðadóm fyrir að giftast tveimur körlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltaf er það Bush!

Hver verður arfur Bush stjórnarinnar? Stríð í mið-austurlöndum, njósnað um bandaríska þegna, lýðræðið (eða bandaríska útgáfa þess) mölbrotið, fólki rænt úti á götum í Evrópu og kalda stríðið endurvakið. Þegar ég las að rússar væru að pirrast hafði ég á tilfinningunni að Bandaríkin stæðu á bak við það og viti menn, það var líka raunin.

Er ekki kominn tími á að Evrópa standi upp og segi hingað og ekki lengra? Bandaríkin eiga að vera vinveitt þjóð, en það er spurning hvort við séum ekki í slæmum félagsskap. Bandaríkjaforseti lætur eins og hann sé alheimsforseti. Hann er kosinn af misvitru fólki sem hefur verið heilaþvegið með þjóðsöngvum og þjóðrembu. Flestir vita lítið sem ekkert um umheiminn en fá þó að kjósa fífl sem vaða yfir heiminn eins og þeir eigi hann. Það versta er að "við" gerum þeim ekki erfitt fyrir.

Það er kominn tími á að kæla samband okkar við Bandaríkin og halda því sambandi "kúl" þar til maður eða kona með heila kemst að í Washington. Ég vil ekki verða skotmark vegna tilbúinnar hættu. Við lifðum kalda stríðið af þrátt fyrir Kúbudeiluna, misskilninginn 1982 og fleiri atvik. Viljum við virkilega fá það ástand aftur?


mbl.is Pútín hótar mótaðgerðum komi Bandaríkjamenn upp eldflaugavarnakerfi í Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun kirkjan breytast?

cross_300Einhvers staðar las ég að kirkjuþing hefði ákveðið að þjóðkirkjan væri andsnúin hjónaböndum samkynhneigðra. Það að þetta mál sé yfir höfuð í umræðunni ber vott um að fólk sem kallar sig kristið á enn langt í land með að skilja hinn sanna boðskap biblíunnar. Kannski ég sé að gefa færi á mér með því að minnast á boðskapinn, en það kemur bara í ljós.

Hvað er það sem fer svna fyrir hjartað á kristnu fólki? Finnst því samkynhneigðir vera öðruvísi? Eru þeir ekki verðugir náðar drottins? Fara þeir kannski beint niður í kjallara þar sem þeir eru guði ekki þóknanlegir?

Ég er enginn sérfræðingur í krisnum fræðum, en eftir því sem ég best sé er þetta vandamál, því biblían segir að fólk eigi að fjölga sér. Það gera samkynhneigðir sjaldan, og því meiga þeir ekki kvænast. Best væri ef þeir skildu hvað þeir eru á röngum vegi og afhommuðust svo þeir geti líka fjölgað sér. En þá er annað mál sem verður að taka með í umræðuna. Getnaðarvarnir vinna gegn hlutverki hjónabandsins. Á þá ekki að banna þær líka? Sem betur fer skilur kaþólska kirkjan þetta. Hefur hún unnið gott starf í þróunarlöndunum og séð til þess að fólk fjölgi sér eins og kanínur þó efni séu ekki til. Betra er að fæðast og deyja úr hungri en fæðast alls ekki.

Ef þetta er ekki það sem málið snýst um, vil ég endilega heyra hvað málið nákvæmlega er. Ef þetta er bara mismunun á einum þjóðfélagshópi vil ég vita hvers vegna hjónabönd við útlendinga, svertingja og fleiri eru ekkert vandamál. Af hverju eru samkynhneigðir annars flokks fólk?

Kirkjan verður að koma með alvöru rök. Annars getur hún ekki ætlast til að vera tekin alvarlega. 


mbl.is Kirkjan þarf að breytast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiptir það máli?

422365AHálslón er að fyllast og við gátum ekkert gert í því. Alcoa og Alcan eru að sameinast og við getum ekkert gert í því nema vonað að þetta fyrirtæki sem kaupir hátt í 80% raforku Íslands verði ekki með leiðindi. Nú á að fara að virkja það sem eftir er af Þjórsá svo að fleiri pólverjar geti komið til Íslands til að framleiða ál í kókdósir.

Ekki að ég hafi neitt á móti Pólverjum, mér finnst bara svo leiðinlegt að sjá hvernig farið er með landið okkar. Mér verður reyndar svolítið óglatt við þetta allt saman. Þetta er svo mikið virðingarleysi við landið. Þetta er svo óafturkallanlegt. Þetta er svo ónauðsynlegt.

Ísland samþykkti Íraksstríðið, svo það er greinilegt að það eru skrítin sjónarmið sem ráða ferðinni. Kannski er bara best að hætta að láta þetta fara í taugarnar á sér.


mbl.is Tilboði tekið í ráðgjafaþjónustu við undirbúning virkjana í Þjórsá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5%

Það þýðir ekki að gráta úrslit kosninganna. Þetta er búið og gert. Eitt er það þó sem nagar mig, þetta með fimm prósentin. Einhverjum datt í hug að útiloka flokka sem ná ekki 5% fylgi. Ég hafði ekki hugmynd um þetta fyrir kosningar en það er bara mín fáfræði. Ég hef samt reynt að skilja hugsunina á bak við þetta ákvæði en get bara séð eina ástæðu, að útiloka minni flokka og sjá til þess að þeir flokkar sem settu þessi lög haldi sínum mönnum inni á þingi. Einhver skrifaði að þetta væri til að koma í veg fyrir að alls konar sérhagsmunasamtök kæmust inn á þing með einn þingmann. Það eru skrítin rök, því ef þessi "sérhagsmunasamtök" ná þeim atkvæðum sem til þarf hljóta þau að hafa stuðning nógu stórs hluta þjóðarinnar. Þau hljóta þá að hafa rétt á sér. Það er hugmyndin á bak við lýðræði, ekki satt?

Þetta eru mikil vonbrigði fyrir Ísland, íslendinga og lýðræðið í landinu. Ég hélt að kosningalöggjöfinni hefði verið breytt á undanförnum árum til að gera vægi atkvæða jafnara og dreifingu þingsæta réttlátari. Við virðumst hinsvegar vera á svipuðu róli og Bandaríkin þar sem atkvæði eru ekki það sem skiptir mestu máli.

Það er mikið talað um að Ómar Ragnarsson hafi hjálpað ríkisstjórninni að halda meirihluta en mér sýnist hún hafa gert það sjalf með því að setja þessi skrítnu lög. Ég vona að hann gefist ekki upp. Það er mikið verk fyrir höndum og við höfum ekki efni á að láta þetta bitna á landinu sem við og framtíðarkynslóðir byggjum.

Þessar kosningar skilja eftir sig súrt bragð. Ég hélt að Ísland væri fyrimyndarland þegar lýðræði er annars vegar.


mbl.is Líklegast að stjórnin sitji áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnin fallin!

Þegar þetta er skrifað hafa 99.4% atkvæða verið talin.

Væri Ísland eitt kjördæmi hefði stjórnin nú 48.4% atkvæða, hún væri því fallin. Sennilega með 30 eða 31 þingmann. Við eru enn föst í gamla kjördæmakerfinu og því er komin upp sama staða og í Bandaríjunum árið 2000 að eiginlegur sigurvegari hefur tapað. Al Gore hafði meirihluta kjósenda á bak við sig en George Bush komst inn í Hvíta Húsið með þeim afleiðingum sem við öll þekkjum. Stjórnin heldur velli með minnihluta kjósenda á bak við sig, þökk sé kerfi sem mismunar atkvæðum eftir búsetu.

Hvað um það, raunveruleikinn er sá að stjórnin stendur, naumlega þó. Hvaða möguleikar eru í stöðunni?

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn (32 þingmenn) gætu haldið núverandi stjórn lifandi, þó sjúk sé. Það er þó ólíklegt, held ég. xB er þreyttur flokkur og þjóðin vill hann ekki í stjórn. Verði það þó ofan á má gera ráð fyrir óvinsælli stjórn sem nær ekki að lifa fram að næstu kosningum, árið 2011.

Kaffibandalag Samfylkingar, VG og Frjálslyndra (31 þingmaður) yrði minnihlutastjórn og því afar veik. Það er ólíklegt að þessi stjórn kæmi miklu í verk nema að gert væri samkomulag við Framsókn um að standa ekki í vegi fyrir frumvörpum. Þetta gæti kannski verið sniðugur leikur fyrir Framsókn, vera í stjórnarandstöðu, en hafa þó mikil völd og tækifæri til að laga almenningsálitið í leiðinni.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar (42 þingmenn) yrði sterkasta stjórnin í stöðunni eins og hún er núna, með 42 þingmenn á móti 21. Ég spái að þetta verði ofan á. xD er hægriflokkur og Samfylkingin er meira á miðjunni en til vinstri, svo þeir ættu að geta unnið saman. Auðvitað eru ágreiningsmál sem þyrfti að strauja út en það er yfirleitt svoleiðis. Þessi stjórn myndi sennilega halda áfram á svipaðri braut og gamla stjórnin þar sem sjálfstæðismenn eru sterkari flokkurinn. Það er hugsanlegt að eitthvað verði hægt á stóryðjumálum í bili, en þegar hægir um og stjórnin er búin að koma sér fyrir fer það allt af stað á ný. Vilji Samfylkingarinnar til að stoppa stóriðju er ekki nógu sterkur til að eitthvað gerist í þeim málum.

Sjálfstæðisflokkur og Vinstri Grænir (33 þingmenn). Sjá VG hér að neðan um af hverju þetta gæti verið góð hugmynd.

En hvað er best fyrir flokkana?

xB - Framsókn er best að koma sér úr stjórn og leita til vinstri flokkanna. Komandi kjörtímabili væri best varið í að hreinsa af sér núverandi ímynd spillingar og gamaldags hugsanaháttar. Framsókn gekk vel í kosningunum 1995 og hún þarf ekki að vera dauð, en best væri að halda sig frá stjórnarsetu í a.m.k. fjögur ár og koma með nýjan lista með nýju fólki fyrir næstu kosningar.

xD - Sjálfstæðisflokkurinn er að gera það gott, enda tók Framsókn á sig allt skítkastið sem stjórnin fékk. Það eru allar líkur á að flokkurinn haldi áfram í stjórn og að Geir sitji áfram sem forsætisráðherra. Þetta gæti þó orðið erfitt kjörtímabil og sjálfstæðismenn verða að vanda sig vilji þeir ekki lenda í vandræðum með almenningsálit og spillingu. Það sýnir óánægja með tiltekna alþingismenn og möguleikar til stjórnarsamstarfs.

xF - Frjálslyndir eru smáflokkur sem náði að halda sínu með því að búa til hávaða. Þeir eiga litla sem enga möguleika á að komast í stjórn. Þeirra stærsta mál næstu fjögur árin er að lifa af.

xI - Íslandshreyfingin kom fram með fallegar hugmyndir en dæmið gekk ekki upp. Þau væru með tvo þingmenn væri Ísland eitt kjördæmi, en það er ekki svo. Spurning hvað fór úrskeiðis, en ég er hræddur um að liðhlaupar úr öðrum flokkum hafi ekki hjálpað til. Mitt persónulega álit var alltaf að Ómar og co. hefðu virkað betur sem þrýstihópur. Spurning hvort það verði hlutverk Íslandshreyfingarinnar, því framtíð á þingi er ólíkleg.

xS - Samfylkingin er í erfiðri stöðu. Kaffibandalagið er dautt nema Samfylkingin og Framsókn neiti að vinna með xD. Það yrði veik minnihlutastjórn og ekki líkleg til að bæta ímynd vinstri flokkanna. Veik vinstristjórn yrði bara til að sópa atkvæðum til hægri í næstu kosningum. Stjórn með sjálfstæðismönnum yrði sterk ef flokkarnir vinna saman, en Samfylkingin hefur átt erfitt með að spila samhljóða svo það er erfitt að segja til um hvað gerist í stjórn. Samfylkingin er milli steins og sleggju, að fara í stjórn sem kjósendur hennar styðja ekki, fara í minnihlutastjórn sem brotnar sennilega við fyrsta skerið eða halda sig í stjórnarandstöðu og sjá hvað setur. Þetta er sennilega sá flokkur sem á erfiðustu valkostina fyrir höndum.

xV - Vinstri Grænir eru í góðum málum. Þeir vinna á og geta farið í stjórn eða ekki og haldið andlitinu. Þeir fljóta með. Hér eru þrír valkostir. Stjórnarandstaða, minnihlutastjórn eða stjórn með Sjælfstæðismönnum. Já, því ekki? Sjálfstæðismenn eru ágætir í fjármálum og VG sér til þess að græðgin fari ekki úr böndunum og að vel verði haldið á umhverfismálum. Þetta er sennilega besta stjórnin sem hugsanleg er eftir kosningarnar í gær.

Það verður gaman að sjá hvort að Hægri-Vinstri stjórn verði rædd á næstu dögum.


mbl.is Miklar sviptingar í þingsætum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðfaraflokkurinn III

Fyrir um ári síðan skrifaði ég tvær færslur þar sem Aðfaraflokkurinn var kynntur. Því miður hef ég verið vant við látinn og kosningabarátta okkar ekki fengið þá athygli sem nauðsynleg er til að komast í Kastljós. Við munum því ekki komast á kjörseðla heldur. Hér til vinstri hef ég því sett upp skoðanakönnun þar sem fólki gefst kostur að kjósa þann flokk sem það vill. Þetta eru okkar mini-kosningar. Aðra flokka þekkja lesendur sennilega, svo ég læt mér nægja að kynna stefnuskrá Aðfaraflokksins

Áttir og Meðlimir:
Aðfaraflokkurinn sér sig hvorki sem vinstri eða hægri flokk. Það er kerfi er löngu úrelt. Dæmi hver fyrir sig hvar við erum. Athugasemdir eru vel þegnar svo við getum valið lit á lógóið. Meðlimir flokksins eru ekki á veggspjöldum hér og þar því við trúum því að stefnumál, ekki sæt fés og vinapólitík skipti máli.

Fjárlög og Skattar:
Skattar munu haldast óbreyttir. Ísland er ekki það ofurskattland sem það var. Við viljum sem minnst aðhafast beint á vinnumarkaði, en ríkið hefur sínar skyldur sem því ber að sinna og þar þarf fjármagn til. 

Almannaheill:
Spítalar, dagheimili, skólar og almenningssamgöngur skulu vera á vegum ríkisins. Einkavæðing banka og margra fyrirtækja er hið besta mál, en stofnanir sem fara með almannaheill skulu ekki einkavædd því það stríðir gegn þjónustuhlutverki þeirra. Þau eru best sett sem eign þjóðarinnar.
Landsvirkjun má undir engum kringumstæðum verða einkavædd.
Langvarandi atvinnulausir (3 mán.) skulu eyða þremur dögum í viku á þartilgerðum skrifstofum þar sem þeim er veittur aðgangur að blöðum, netinu og ráðgjöf. Eftir 12 mánaða atvinnuleysi er fólki sköffuð atvinna, sem getur verið allt frá gatnavinnu til hreingerninga og annars viðhalds á almannastöðum. Enginn á að þurfa að vera atvinnulaus á Íslandi.

Atvinnumál:
Atvinnuleysi er hverfandi á Íslandi. Flestir vinna hjá fyrirtækjum sem ekki eru rekin af ríkinu. Þetta er stefna sem Aðfaraflokkurinn mun fylgja og skerpa. Ríkið hefur það hlutverk að hlúa að fyrirtækjum, sérstaklega sprotafyrirtækjum, og skapa umhverfi sem hvetur einstaklinga og fyrirtæki til að skapa auðævi. Hátækni- og ferðamannaiðnaður munu fá sérstakan stuðning því fjölbreytni og menntun er lykillinn að bjartri og öruggri framtíð.

Stóriðja:
Stóriðja á rétt á sér upp að vissu marki. Því marki hefur verið náð og mun Aðfaraflokkurinn beita sér fyrir stoppi á frekari virkjun landsins. Ástæðurnar eru þrjár:
- Náttúra landsins er meira virði en það sem fæst fyrir rafmagn í stóriðju. Sé svo ekki nú, verður það svo í náinni framtíð og er því engin ástæða til að eyða þeim möguleika fyrir fullt og allt
- Menntaðir íslendingar vilja fjölbreytt atvinnulíf. Þó að vinna í álveri sé ekki endilega slæm eru sennilega flestir sammála því að fjölbreytt atvinnulíf er meira virði en einhæft.
- Þeir peningar sem ríkið annars hefði fjárfest í stíflum er betur varið í aðrar atvinnugreinar. Erlend lán og þensla er ekki að borga sig, vextir eru of háir, aðrar framkvæmdir eru látnar sitja á hakanum.

Innflytjendur:
Ísland er frjálst og opið land. Fólki er því frjálst að flytjast hingað ef það vill. Þó skal það vera skilyrðum háð:
- Allir innflytjendur skulu tala íslensku innan tveggja ára. Ríkið mun sjá til þess að allir geti sótt námskeið. Þótt það sé ekki skylda að sæjka námskeið, skulu innflytjendur þó þurfa að standast próf.
- Á Íslandi ríkir trúfrelsi. Fólki er ekki mismunað eftir trú, en trú gefur heldur engin auka réttindi.
- Sömu atvinnuleysisreglur skulu gilda um alla. Innflytjendur munu þurfa að vinna til að eignast rétt á bótum á Íslandi.

Alþjóðamál:
Ísland er friðsamt land og þjóðin skal gæta fyllsta hlutleysis á alþóðavettvangi. Þetta þýðir þá líka að Ísland mun ekki taka þátt í stríði, nema það sé bundið til þess, svo sem með NATO sáttmálanum. Ísland skal aldrei styðja innrás í annað land.

Þetta er fyrsta uppkast svo ég hef sennilega gleymt einhverju, en athugasemdir eru vel þegnar og ég mun reyna að svara þeim eftir bestu getu. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband