Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
26.2.2008 | 17:12
Áhugi
Fyndið, fréttin orðin 36 tíma gömul og enginn hefur gert athugasemd. Er nokkuð ólíklegt að LiveWhateveryoucarefor dæmið sé orðið þreytt? Live Aid var mikill atburður, ekki síst vegna þess að svona hafði ekki verið gert áður. Að vísu hafði George Harrison sett Concert for Bangladesh á fót, en það var 14 árum áður og ekki eins stórt og Live Aid. Á eftir komu Ferry Aid, Net Aid og sennilega fleiri. Það var svo 2005 sem Live8 endurvakti þetta form. Það var mikið um dýrðir, en það toppaði ekki Live Aid. Svo kom Earth Aid og nú Peace Aid, eða hvað það mun heita. Er ekki bara soldið mikið að hafa svona árlegan viðburð? Kannski að sviknum loforðum og sömu gömlu eymdinni þrátt fyrir allt sé um að kenna? Það er sama hvað Bono öskrar, ekkert gerist.
Svo er kannski spurning hvort Bono sé ekki orðinn ansi heimilisvanur hjá fólki sem lætur sig eymd þriðja heimsins engu skipta.
![]() |
Stórtónleikar fyrir frið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.2.2008 | 16:50
Ólafur Ragnar Grímsson...
...forseti Íslands staðfesti í dag stjórnarskrá landsins með því að skjóta málinu til þjóðarinnar...
Það væri allavega gott ef hann gerði það. Eitt er ég viss um, ef af þessu verður mun Samfó missa mikið af þingmönnum í næstu kosningum. Annars er ég ekkert viss, gullfiskaminni kjósenda er alþekkt fyrirbæri.
![]() |
Þjórsárvirkjanir hafa forgang |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.2.2008 | 12:15
Leifsstöð er ekkert sprungin!
Eins og kemur fram í fréttinni er Keflavíkurflugvöllur notaður í tvo tíma, tvisvar á dag. Það er alls ekki hægt að segja að flugstöð sem er tóm 20 tíma á dag sé sprugin. Þetta er bara léleg nýting, nema á háannatímum.
Eftir því sem ég get best séð eru tvær lausnir í málinu. Fara út í framkvæmdir sem munu sjálfsagt kosta milljarða, eða að lækka lendingargjöld hlutfallslega utan annatímans.
Ég vinn á Schiphol, með um 40 milljónir farþega á ári. Munurinn á flugvöllunum er ranafjöldi, 11 í Keflavík, um 110 á Schiphol, en líka að Schiphol er í fullri notkun frá morgni til kvölds.
Það að nota rútur er svo ekkert sér fyrirbæri. Á Schiphol þarf líka að nota þessa lausn yfir háannatímann. Þar fyrir utan nota öll lággjaldafélög H-hliðin, sem eru ranalaus. Allt til að spara tíma og kostnað. Ef einhver vill ráða mig í vinnu við að gera Keflavíkurflugvöll betur í stakk búinn til að taka við fjórum milljónum farþega á ári, er ég til í að flytja heim.
![]() |
Leifsstöð sprungin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.2.2008 | 20:52
Varnarmálaráðherrann seinheppni
Aumingja Gates. Honum getur ekki komið saman við evrópubúa. Fyrir 2-3 vikum féllu tveir hollenskir hermenn í Afghanistan. Það var mikið talað um málið í fjölmiðlum hér í landi, eins og gefur að skilja. Mig minnir að það hafi verið daginn eftir sem að hann lét hafa eftir sér að hollendingar væru slappir, hefðu hvorki getu né vilja til að halda úti friðargæsluliði. Orð hans höfðu ekkert með föllnu hermennina að gera, mér skilst að hann hafi ekki vitað af því.
Það er óhætt að segja að Gates var ekki beint vinsæll, sérstaklega þar sem Holland heldur úti stóru liði og var að framlengju veru sína til 2009 þar sem ekkert land var tilbúið til að taka við verkinu. Þetta endaði í diplómatískum leiðindum, Gates sagðist hafa verið misskilinn en endaði á að biðjast afsökunar.
Hér er greinilega öðlingur mikill á ferð, maður sem kann sig.
![]() |
Bandaríkin gera kröfur til Þjóðverja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.1.2008 | 06:06
Bleikar nærbuxur
Ég er að klóra mér í hausnum meðan ég spái í hvernig ég geti orðað þetta.
Hér er lítil spurning. Er Alþingi íslendinga óhæft? Er komið inn betra fólk eftir síðustu kosningar eða er kannski betra að leggja upp laupana og ganga Brussel á hönd?
Meðan rifist er um hvort börn megi klæðast bleikum og bláum nærbuxum, hvort ráðherra sé frú, hvort byggja eigi göng til Vestmannaeyja og flugvöll á skeri eru lög landsins hálfkveðnar vísur. Það er eitt að alþingi geti ekki lokað reykherbergi (sem það leyfir sjálfu sér að njóta), en þegar ríkisstjórn Íslands skilur ekki hvernig leiga virkar er ég svo hissa að ég fer að skrifa færslu um nærbuxur.
Hvernig er þetta þegar maður leigir bíl? Þarf ég að hendast niður í TM, VÍS eða hvað og tryggja áður en ég get farið af stað? Þarf ég að koma aftur að kvöldi og aftryggja? Nei, ég leigi bílinn, borga uppgefið verð og hef ekki áhyggjur af sköttum, tryggingum og skoðun. Þetta virkar eins með starfsmannaleigur. Segjum að mig vanti mann til að planta einhverjum blómum og byggja hundakofa. Ég nenni ekki að ráða mann í vinnu fyrir dagsverk, gefa hann upp til skatts og borga honum eftirlaun. Ég fer til starfsmannaleigu, borga þeim 2000 kall á tímann, þeir senda mann sem þeir borga 1000 kall á tímann og nota restina til að borga opinber gjöld og skila hagnaði. Einfalt mál, ekki satt?
Stundum eru íslendingar soldil krútt.
![]() |
Impregilo krefst 1,2 milljarða í endurgreiðslu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.1.2008 | 11:57
Vel heppnað grín?
Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki séð þáttinn, þar sem ég er að rolast um í Hollandi. Það er þó deginum ljósara að ef Spaugstofan er þetta mikið í umræðunni eru þeir að gera eitthvað rétt. Var það ekki David Bowie sjálfur sem sagði að það væri ekkert til sem héti slæmt umtal? Meðan fólk er að tala um mann er allt í góðu. Ekkert er verra en að vera gleymdur í skemmtanabransanum. Stjórnmálamenn verða auðvitað að gera ráð fyrir að gert sé grín af þeim, sérstaklega ef þeim gengur vel og tekst að næla sér í lykilstöður.
Þetta er auðvitað smámál miðað við það sem er að gerast hér í Hollandi. Maður að nafni Gert Wilders, sem er svolítið líkur Ólafi, hefur verið mikið í fréttum síðustu árin. Hann er töluvert til hægri og hefur eytt miklum tíma í að tala á móti Islam. Hann er nú að vinna við kvikmynd um trú Múhameðs og hans áhangendur og er andrúmsloftið svo lævi blandið að honum hefur verið ráðlegt að fara úr landi. það sé bara tímaspursmál hvenær hann hljóti sömu örlög og Pim Vertuin og Theo van Gogh, sem voru báðir myrtir af öfgamönnum. Ég tók reyndar á móti honum um daginn þar sem hann var að koma inn á Schiphol og það biðu tveir svartir BMWar, sennilega skotheldir, eftir honum við útganginn. Hann fór ekki gegn um flugstöðina.
Það er svo af mér að frétta að ég er gleymdur. Allavega miðað við suma. Stuttmyndin Svartur Sandur er endanlega tilbúin, diskarnir eru tilbúnir og fara í póst á morgun eða hinn og ég er að senda hana á kvikmyndahátíðir. Mér datt í hug að senda hana á Winnipeg International Film Festival sem fer fram í maí og júní. Spurning hvað vestur-íslendingunum finnst um hana. Ég er með fleiri hátíðir í sigtinu, en meira um það seinna. Allavega, þeir sem pöntuðu myndina í desember ættu að fá hana inn um lúguna eftir helgi.
Svo er það málið með íslenska bankareikninginn. Hann er tilbúinn, ég hef fengið aðgang að gamla Búnaðarbankareikningnum mínum á Selfossi. Þeir sem vilja myndina á DVD eða vilja einfaldlega styrkja íslenska, sjálfstæða stuttmyndagerð er bent á að leggja hvað það sem aflögu er fært inn á reikning:
0325-26-000039
Á íslensku er þetta reikningur 39 í Kaupþing banka á Selfossi. Sé fólk að leggja inn, vinsamlega látið mig vita. Emilinn er að finna efst á þessari síðu. Vilji fólk sjá sýnishorn, bendi ég á færsluna að neðan.
Ég vonast svo til að sjá dóma hér á blogginu þegar diskurinn er kominn í hús!
![]() |
Ekki yfir strikið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
27.12.2007 | 17:40
Til fjandans...
...með allt þetta helvítis pakk sem ekkert getur skilið nema það standi í einhverri helvítis skruddu sem einhverjir valdagráðugir barnanauðgarar settu saman og eru svo notaðar sem stýritæki af hálfvitum sem ekkert vilja nema dauða þeirra sem í vegi standa fyrir því að þeir geti kúgað auðtrúa sálir.
Það var einhver von fyrir Pakistan á meðan Bhutto lifði. Þetta lið er búið að skrifa undir eigin dauðarefsingu.
![]() |
Hörmuleg áminning um fórnir sem færðar eru fyrir lýðræði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.12.2007 | 16:18
Tvær vikur á netinu
Stuttmyndin Svartur Sandur hefur nú verið tvær vikur á netinu. Eins og lesendur fyrri færsla vita var þetta tilraun til að sjá hvort það væri hægt að setja efni á netið og biðja fólk fallega um að greiða fyrir.
Við lifum í heimi kaupsýslu þar sem ekkert fæst fyrir ekkert og allt er til sölu. Þegar viss hagsmunasamtök lokuðu á vissa heimasíðu sem miðlaði skemmtiefni og forritum reis fólk upp og hrópaði óréttlæti. Það myndi greiða fyrir ef verðið væri ekki svona hátt og benti á, með réttu, að 2000 kr. og meira er ansi mikið fyrir kvikmynd á DVD diski.
Svartur Sandur hefur verið sóttur 799 sinnum síðan hann var settur á netið, 1. desember. Þetta er fínn árangur og meira en ég bjóst við. Mest var um niðurhal fyrstu dagana. Þess má geta að talan var 797 í gær, svo fokviðrið er farið hjá. Það má segja að myndin hafi fengið mikla dreifingu miðað við að flestir sem að henni komu eru óþekkt nöfn. Hins vegar er auðvelt að gera sér upp vinsældir þegar ekki þarf að greiða fyrir.
Af þessum 799 hafa tíu greitt fyrir myndina. Samkvæmt könnun hér til hliðar hefðu fleiri gert það ef birt hefði verið íslenskt bankareikningsnúmer. Ég er að reyna, en það er erfitt þar sem ég er í Hollandi. Getur einhver sagt mér hvað það kostað að millifæra til Hollands? Kannski að það sé lausnin.
Tíu greiðslur erum 1.2% sækjenda. Ef ég margfalda dæmið með fimm, samanber könnunina, yrðu það fimmtíu greiðslur fyrir 799 niðurhöl, um 6%. Gott eða slæmt? Dæmi hver sem vill.
Smá reikningsdæmi. Myndin kostaði um 350.000 kr. Sé þeirri upphæð skipt milli 799 manns, er útkoman 438 krónur. Það þarf ekki mikla kynningu til að koma niðurhölum í 3500. Þá þyrfti hver að greiða 100 krónur til að myndin stæði undir sér.
Ég er óendanlega þakklátur öllum þeim sem hafa, og munu, leggja eitthvað til hliðar fyrir myndina. Þó er ég ekki viss um að þetta sé dreifingaraðferð framtíðarinnar. Er ekki iTunes dæmið það sniðugasta? Borga 200 kall og þú færð þáttinn eða stuttmyndina. Fá marga til að borga lítið? Þannig munar fólki ekki um greiðsluna, margir sjá myndina og hægt er að fjárfesta í næstu mynd.
Tvær vikur eru stuttur tími, jólaönnin og útlát að drekkja fólki, svo kannski er ekki alveg að marka dæmið enn sem komið er. Við sjáum til.
10.12.2007 | 12:45
Erum við frjáls?
Frjálsir fjölmiðlar hljóta að vera grundvöllur frjáls þjóðfélags. Ef við fáum ekki að heyra allan sannleikan er hægt að gera ljóta hluti í skugga fáfræðinnar. Það eru til mörg dæmi um þjóðfélög sem kúguð hafa verið með samþykki þegnanna, vegna þess að þeir vissu ekki betur. Sárasta dæmið í nútímanum er sennilega Bandaríkin. Fjölmiðlar eru frjálsir að nafninu til, en ef málið er skoðað kemur annað í ljós.
Stórfyrirtæki eiga flesta stóra fjölmiðla á vesturlöndum. Þeir flytja fréttir af því sem þeir vilja að þú vitir. Komi eitthvað illa við þá eða stóru viðskiptavinina sem kaupa dýrustu auglýsingatímana, sleppa þeir þeim fréttum. Séu ríkisstjórnir með puttana í vafasömum hlutum, eins og stríðum sem erfitt er að réttlæta, hóta sömu ríkisstjórnir að hlunnfara þá fjölmiðla sem ekki haga sér vel. Ef þú ert ekki fyrstur með fréttirnar og enginn auglýsir hjá þér ferðu á hausinn. Það vill enginn, svo fréttastofum er sett fyrir hvað megi tala um og hvað ekki.
Talandi um frelsi, ég rakst á frétt á The Register þar sem talað er um ritvörn á nýjum flökkurum frá Western Digital. Um er að ræða 1TB USB drif. Drifið leyfir ekki að flestum tónlistar- og videoskrám sé deilt. Hér er greinilega, enn og aftur, verið að stimpla alla sem þjófa. Það vill þannig til að ég keypti svona drif um daginn. Það var að vísu 500GB, svo ég vona að þessi ritvörn eigi ekki við þar. Ég er nefninlega ekki að skiptast á skrám, heldur er ég að vinna í mínum verkefnum og kæri mig ekki um að einhvert bindi útí heimi ráði hvað ég geri við mínar skrár. Ég er að nota tvær tölvur. Það er nauðsynlegt, þar sem önnur er oft upptekin við að skrifa diska eða annað sem tekur tíma. Meðan PowerMakkinn er að byggja DVDinn nota ég PowerBókina til að uppfæra síðuna, prenta umslög og fleira. Og stundum til að opna önnur verkefni sem voru unnin í PowerMakkanum. Ég get ekki sætt mig við að drifið skikki mig til að nota sömu tölvuna gegn um allt verkefnið.
Ég skil ekki hvað það kemur Western Digital við hvað ég geri við diskana mína. Ef ég væri að gera eitthvað ólöglegt, væri það í verkahring yfirvalda að skoða málið. Þetta kemur WD hreinlega ekkert við. Fyrir áhugasama er hægt að lesa hvaða skrám er ekki hægt að deila hér.
Frelsið er viðkvæmt. Það er auðvelt að taka það af okkur og erfitt að fá aftur þegar það er farið. Það er þrennt sem auðvelt er að nota til að svipta okkur frelsinu; hryðjuverk, falskar fréttir eða fréttir sem sleppt er og tölvurnar okkar. Það er bara eitt sem getur komið í veg fyrir að frelsið verði tekið af okkur, við sjálf.
Það er svo af stuttmyndinni að frétta að hún hefur verið sótt 767 sinnum. Ég veit ekki hversu margir hafa sótt hana í Víkingaflóa. Tíu hafa greitt fyrir hana. Endilega takið þátt í skoðanakönnuninni hér til hliðar.
Teikningin að ofan er "fengin að láni" af síðu Inga Jenssonar. Endilega kíkja!
![]() |
Skiptar skoðanir um frelsi fjölmiðla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.12.2007 | 15:37
Pappírslaus heimur?
Fyrir mörgum árum var talað um pappírslausu skrifstofuna. Tölvur áttu að leysa þykkar möppur, skjala sem enginn las, af hólmi. Þetta gerðist ekki, heldur hefur pappírsnotkun aukist stórkostlega. Heilu bækurnar eru prentaðar út, lesnar (eða ekki) og hent. Margir prenta út emilinn. Stofnanir á vegum ríkisins (sem hefur allt í einu áhuga á umhverfinu) krefst þess að allar nótur og reikningar séu geymdir á pappír. Við erum því lengra frá pappírslausu skrifstofunni en nokkurn tíma í fortíðinni, held ég.
Ég setti stuttmyndina Svartan Sand á netið fyrir viku. Ég setti hana ekki á DVD með tilheyrandi bók og pappaumslagi. Hún fór beint á netið. Við, framleiðendur kvikmynda, verðum að líta fram á veginn og reyna að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. Síðast þegar ég gáði hafði myndin verið sótt 745 sinnum. Ég bauð fólki upp á að greiða hvað sem það vildi fyrir myndina, 100 kall, 100.000 kall, fólk ræður því sjálft. Nú hafa níu borgað. Við sjáum til hvað gerist á komandi dögum.
Ég er viss um að þetta, eða eitthvað þessu líkt, er framtíðin. Segjum að Hollywood mynd slái í gegn. Hvað verða seld mörg eintök á DVD, sem kostar olíu, timbur og ál til að framleiða? 100.000? Milljón? Tíu milljónir? Það fer gríðarlega mikið hráefni í að framleiða diskana. Svo er það olían sem fer í að flytja þá milli staða. Það má því segja að tónlistar- og kvikmyndaiðnaðurinn hafi gríðarleg völd yfir regnskógum og olíuforða jarðarinnar. Sé milljón eintökum af kvikmynd dreift á netinu kostar það sáralítið, ef miðað er við núverandi kerfi. Af hverju að borga 2000 kr. fyrir DVD þegar hægt væri að dreifa myndinni á netinu fyrir 300 kr?
Svartur Sandur er stuttmynd og virkar því svolítið öðru vísi. Venjulega eru þær ekki seldar á DVD, heldur sýndar í sjónvarpi eða á hátíðum. Markaðurinn er sáralítill, svo þær fáu sem gerðar eru sjást aldrei. Fjölmiðlar hafa verið að tala um stuttmyndir sem eru að gera það gott erlendis, en hver hefur séð þær? Hafi fólk ekki verið að horfa á RÚV klukkan 23:30 á þriðjudagskvöldi hefur það sennilega ekki séð hana. Þá er ég að gera ráð fyrir að hún hafi yfir höfuð verið sýnd. En hvað ef fólk borgar 150kr. fyrir stuttmyndir sem því líkar og 300-400kr. fyrir kvikmyndir í fullri lengd?
Ef allir þeir 745 sem sótt hafa myndina borguðu 150kr, værum við komin með fyrir fjórðung kostnaðarins sem lagt var út í. Með betri markaðssetningu væri sennilega lítið mál að ná til 2500 manns og ef þeir allir borguðu 150kr, væri myndin komin á slétt. Við, kvikmyndafólk, höfum það ekkert slæmt. Við erum bara ekki að nota þá möguleika sem til eru.
Svo er það auðvitað næsta spurning. Mun fólk borga ef það er því í sjálfs vald sett, eða þurfum við að halda áfram að loka á neytendur, læsa skrám og hleypa engum inn nema þeim sem greitt hafa fyrir fram? Þurfum við að halda áfram að láta eins og listamenn og fólk sem nýtur verka þeirra séu tveir ólíkir þjóðflokkar sem rembast við að féfletta hvern annan? Getum við treyst fólki til að borga fyrir efni sem það hefur gaman að eða þurfum við (eða viljum við) halda áfram að kæra hina og þessa?
Náttúruvernd þarf ekki að kosta okkur lífskjörin. Ef við breytum áherslunum, hættum að kaupa diska og sækjum þá löglega á netið, erum við að vernda Amazon og aðra regnskóga, spara pening og styrkja listamenn.
Hver tapar á því?
![]() |
Meira en helmingur Amazon regnskógarins gæti eyðst fyrir 2030 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |