Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
30.11.2007 | 15:13
1 dagur - Tjáningafrelsi
Þetta er sorgleg frétt og erfitt að átta sig á því hvað fær fólk til að haga sér eins og þeir sem krefjast að kennslukona verði skotin fyrir litlar sakir, ef sakir skyldi kalla. Þetta er auðvitað ekkert annað en gamla, góða múgæsingin sem fékk þýsku þjóðina til að loka augunum á fjórða áratugnum og skipti heiminum í kommúnista og kapitalista. Á meðan fólk er tilbúið að hlusta á rödd þess sem hæst öskrar, frekar en eigin samvisku, er ekki við góðu að búast. Frelsi er það dýrmætasta sem við eigum og við verðum að vernda það með kjafti og klóm. Svo er það spurning hvar múgæsing sleppur og eigin sannfæring tekur við. Hvernig getur samviska manns sagt að skjóta eigi kennara fyrir að skíra bangsa eftir Mohammed, Jésu, Búdda, Dalai Lama eða David Beckham? Hvað er búið að kenna fólki og hvernig? Hver græðir á því, nema sá sem kennir? Eða á að orða þetta svona; hvers konar heilaþvottur hefur verið í gangi þarna? Fólk vill í eðli sínu ekki drepa fólk, en það má sannfæra fólk um ýmislegt ef þjóðfélagið sefur á verðinum. Einstaklingsfrelsið er heilagt og það ber okkur að vernda.
Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ég er að setja stuttmyndina á netið. Ég vil ekki að tónlistar- og kvikmyndaútgáfa sé í höndum fárra stórfyrirtækja sem segja höfundi og leikstjóra hvað má og hvað ekki. Ég vil ekki að dreifing sé í höndum fólks sem sér list sem afurð, og því meiri sala, því betri er listin. Ég er á móti boðum og bönnum. Það hljómar kannski barnalega, en ég trúi á fólk. Ekki á ríkisstjórnir, stofnanir og fyrirtæki, heldur fólk. Við eru öll spillt upp að vissu marki. Við verðum að vera það. Þjóðfélagið sem við höfum búið til býður ekki upp á annað. Þó vil ég trúa því að fólk sé að eðlisfari sanngjarnt og réttlátt.
Þegar torrent málið fór af stað voru uppi háværar raddir um að torrent.is síðan hafi ekki verið ólögleg. Notendur voru að ná í efni sem þeir höfðu þegar greitt fyrir með áskriftum af sjónvarpsstöðvum, kaupum á geisladiskum og öðru. Margir sögðu að þeir hefðu ekki áhuga á að borga milliliðum. Hefðu þeir möguleika á að kaupa beint af listamanninum myndu þeir gera það. Ég tek það fram að ég fæ ekkert af diskaskattinum og meðan myndin er ekki sýnd í íslensku sjónvarpi hafa afnotagjöld ekki skilað sér til mín.
Á morgun fer stuttmyndin Svartur Sandur á netið. Þetta er tilraun. Ég hef verið að gera myndir og myndrænt efni í nokkur ár í Hollandi og hef þar af leiðandi áhuga á sölu og dreifingu þessa efnis. Netið er komið til að vera. Niðurhal er komið til að vera. Við sem búum til efnið höfum ekkert um það að segja. Við getum látið sem ekkert hafi gerst og haldið áfram að selja okkar diska, við getum reynt að stoppa flóðið eða notfært okkur þau nýju tækifæri sem eflaust leynast á netinu. Ég held að framtíðin verði einhver málamiðlun áskrifta, auglýsinga og gamaldags sölu diska. Þegar lögbann var sett á torrent.is mótmæltu margir og bloggið logaði. Frá morgundeginum geta íslendingar sannað að þeir séu tilbúnir til að ná í efni á netinu á þess að þurfa að kaupa diska, og að þeim sé treystandi í hinum stafræna heimi sem hræðir okkur kvikmyndagerðar- og tónlistarmenn. Ég mun setja tölur inn eftir viku þar sem hægt verður að sjá hversu margir hafi náð í myndina og hvort greitt hafi verið fyrir. Þessi tilraun mun segja mér hvort netið sé raunhæfur vettvangur fyrir nýjar myndir, hvort það gefi óþekktum listamönnum möguleika á að dreifa eigin efni og hvort það geti verið áhugavert að framleiða efni fyrir netið. Ég hef trú á þessu, en verð að viðurkenna að ég hræðist þetta pínulítið. Sjáum hvað setur.
![]() |
Krefjast aftöku Gibbons |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.11.2007 | 16:30
2 dagar - Kvikmyndalandið Ísland?
Íslenska kvikmyndavorið hófst árið 1980 með gerð myndarinnar Land og Synir. Upp að því hafði verið lítið um innlenda kvikmyndagerð. Átta myndir voru framleiddar á Íslandi frá 1949 til 1977. Fimmtán ár liðu á milli 79 af Stöðinni (1962) og Morðsögu (1977)[1]. Árin á eftir voru að meðaltali gerðar tvær til þrjár kvikmyndir á ári, þó að oft hafi þær ekki verið nema ein. Þó að eitthvað hafi framleiðslan aukist frá aldamótum koma enn í dag u.þ.b. þrjár til fjórar kvikmyndir út á ári.
Á vef Kvikmyndamiðstöðvarinnar má lesa að ekki færri en fjórar kvikmyndir verði framleiddar ár hvert. Þar stendur einnig. "Aðilar eru sammála um að miða við að meðalframleiðslukostnaður kvikmynda verði í lok samningstímans 210 milljónir króna."[2] Þar er átt við árið 2010. Aðilarnir sem átt er við eru menntamálaráðherra, fjármálaráðherra og samtök í íslenskri kvikmyndagerð. Ég er viss um að þessir aðilar vita hvað þeir eru að tala um og vil ég alls ekki draga það sem sagt er í efa. Spurningin er hins vegar, þarf þetta að kosta svona mikið og eru fjórar kvikmyndir á ári nóg?
210 milljónir er ekki mikið fyrir kvikmynd. Þetta er klink ef miðað er við Hollywood. Sé myndin tekin upp á hágæða (high-definition) video í staðinn fyrir filmu og þurfi hún ekki flóknar leikmyndir má sennilega taka upp kvikmynd í fullri lengd fyrir vel innan við 10 milljónir. Hvað þarf til?
Upptökuvél sem tekur upp HDV 1080i kostar um 500.000 krónur. Það er sama upplausn og var notuð við tökur nýju Star Wars myndanna. SinCity var einnig tekin upp með sömu tækni.[3]
Klipping færi fram í tölvu. Tölva með skjá í HD upplausn og forritin sem til þarf kostar um hálfa milljón. Þá er allt komið sem þarf til að taka upp og klippa bíómynd fyrir innan við milljón. Þetta er auðvitað hægt að nota við gerð margra kvikmynda. Þetta er startgjaldið.
Segjum að tökur stæðu yfir í fjórar til sex vikur. Tíu leikarar taka þátt, hver fær 150.000 fyrir ómakið. Þetta er jú "low-budget" mynd og sennilega ekki um fullan vinnutíma að ræða. Það er 1,5 milljónir. Leikstjóri, hljóð, kvikmyndataka, skrifta, bílstjórar, bílar, matur. Milljón? Gott handrit er undirstaða góðrar myndar, svo höfundur fær milljón. Klipping og önnur eftirvinnsla tekur mánuð, kannski tvo, ef vel er að staðið. Fimmhundruðþúsund. Setjum milljón í púkkið fyrir bensíni, spólum, bókhaldi og öðru tilfallandi.
Þessi mynd kæmi því til með að kosta fimm milljónir, gróft reiknað. Er þetta bjartsýni eða er þetta hægt? Væri ekki gaman ef til væri sjóður sem styddi eina mynd í mánuði? Það væru tólf nýjar íslenskar kvikmyndir á ári, fyrir utan stóru myndirnar. En hvaðan kæmu þessar 60 milljónir?
Hvað kostar að fara í bíó á Íslandi? Þúsundkall? Það þyrftu því aðeins 5000 manns að sjá hverja kvikmynd í bíó. 10.000 ef maður reiknar vask, kostnað kvikmyndahúss og allt það. Þetta er slatti af bíóferðum, en íslendingar eru duglegir við það. Svo er sjónvarp og DVD. Ef fyrirtæki styrktu gerð myndarinnar til að byrja með, er þá ekki um að gera að nota hana sem auglýsingu og hreinlega gefa hana á DVD? Það væri auðvitað auglýsing á diskinum þegar hann er settur í spilarann. Það væri auglýsing á hulstrinu. Kannski yrði diskurinn ekki gefinn einn og sér heldur með pylsupakka, gosdrykkjum eða hvað það er sem styrktaraðilinn er að selja. Gefur þetta ekki líka skattaafslátt?
Sé farið eftir þessu kerfi má gera ráð fyrir að hver mynd verði ekki lengi á markaði. Þar kemur einstaklingurinn inn. Ef hægt er að treysta því að ný mynd komi út mánaðarlega er hægt að selja áskrift. Fyrir 500 kr. á mánuði færðu alltaf nýjasta diskinn sendan heim og nafnið þitt á skjáinn í lok myndarinnar. Segjum að eitt prósent þjóðarinnar gerist áskrifendur, þá erum við að tala um 3000 manns, 1,5 milljónir á mánuði. Áskriftin gæti kostað meira, en við höfum áhuga á að sem flestir sjái myndirnar, ekki að þetta verði gróðafyrirtæki.
Hver á að setja svona sjóð á laggirnar? Mér finnst að kvikmyndagerðarfólkið sjálft eigi að eiga fordæmi um þetta. Þekktir og óþekktir listamanna myndu vinna við myndirnar. Þannig fengju þær athygli til að byrja með. Það yrði svo verk listafólksins að nógu góðar framleiða myndir til að halda áhuga fólks vakandi. Það er engin ástæða til annars en að gæðastaðallinn haldist. Á Íslandi koma árlega út vel yfir 1000 skáldsögur. Tólf handrit ættu ekki að vefjast fyrir þjóðinni.
Það verða alltaf til sögur sem þurfa meira. Það er ekki hægt að gera stórmyndir fyrir fimm milljónir. Það er hins vegar hægt að gera virkilega góðar myndir fyrir lítið. Þetta kæmi ekki í staðinn fyrir "alvöru" bíómyndir, teknar upp á filmu á stórum sviðsmyndum með toppfólki í hverri stöðu, frekar en að pylsa komi í staðinn fyrir steik. Þetta er eitthvað sem getur hjálpað hæfileikafólki við að komast af stað svo það geti gert stórmyndir í framtíðinni.
Vorið er búið. Það er komið sumar.
Heimildir:
1. http://is.wikipedia.org/wiki/Listi_yfir_%C3%ADslenskar_kvikmyndir
2. http://www.kvikmyndamidstod.is/log-og-reglugerd/
3. http://en.wikipedia.org/wiki/CineAlta
![]() |
100 starfsmenn Glitnis í mat fyrir 500 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.11.2007 | 21:30
Voðalega er spámaðurinn viðkvæmur...
Hann fer í fýlu ef fólk ælir og það hljómar eins og muah..meh... Ég get ekki betur séð en að blessuð kennslukonan hafi verið að reyna að vera góð og sýna þessum fíflum virðingu.
Annars er gott að vita til þess að allt má bæta með vandarhöggum. Spurning með að hópnauðga henni líka. Svo er líka um að gera að loka skólanum meðan gengið er úr skugga um að sýkingin leynist ekki í skúmaskotum.
![]() |
Nefndi bangsa eftir spámanninum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.11.2007 | 07:51
Viðhalda hefð?
Stórkostlegt. Þeir vilja setja ný lög sem þvingar fólk til að gera nýja hluti til að viðhalda hefð. Er hefð ekki eitthvað sem hefur verið gert í einhvern tíma?
Fyndið.
![]() |
Stöðvað til að hlusta á þjóðsönginn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.11.2007 | 13:06
Grænmetishommi
Ef ég verð einhvern tíma yfirbossinn á KEF mun ég sjá til þess að dýravinir, grænmetisætur, friðarsinnar, demókratar og svertingjar fái ekki að yfirgefa flugvélina sem þeir komu með. Fjandans frelsiselskandi hyski alltaf. Það er því nokkuð ljóst að ef ég fengi að ráða yrði ekkert af meintum hljómleikum Macca á Íslandi.
![]() |
Paul McCartney fékk ekki að lenda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.11.2007 | 21:00
Engill Dauðans
Ef heimurinn væri eins og bíómynd...
Stelpan fengi sér Colt .45 þegar hún losnaði úr fangelsi og hvíldist ekki fyrr en allir úr klefanum væru dauðir.
En heimurinn er ekki svoleiðis. Réttlætinu verður aldrei fullnægt, heldur verður hún einfaldlega ein þúsunda kvenna sem lifa sem fórnarlömb um allan heim.
![]() |
15 ára stúlka sett í fangaklefa með 20 mönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.11.2007 | 16:22
AIDS drepur of hægt, Ebola er betri.
Þetta var haft eftir hinum virta vísindamanni Eric Pianka á ráðstefnu vísindamanna í Texas árið 2006, þar sem vann fékk heiður fyrir störf sín.
Hér er brot úr grein eftir Forrest M. Mims III, formann Environmental Science Section of the Texas Academy of Science og ritstjóra The Citizen Scientist, sem var á ráðstefnunni. "AIDS is not an efficient killer, [Pianka] explained, because it is too slow. His favorite candidate for eliminating 90 percent of the world's population is airborne Ebola ( Ebola Reston ), because it is both highly lethal and it kills in days, instead of years. However, Professor Pianka did not mention that Ebola victims die a slow and torturous death as the virus initiates a cascade of biological calamities inside the victim that eventually liquefy the internal organs."
Greinina er hægt að lesa hér.
Heimasíða Pianka sjálfs er hér.
![]() |
Nýgreindum HIV og alnæmistilfellum fjölgar víða í Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2007 | 20:43
Þú skalt kyngja þessu, helvískur!
Um að gera, hafa atkvæðagreiðslur þangað til þeir fá svarið sem þeir vilja. Ef danir neita aftur verður bara farið í aðra auglýsinga- og heilaþvottsherferð og kosið í þriðja sinn.
Lengi lifi lýðræðið.
![]() |
Danska stjórnin vill nýja atkvæðagreiðslu um evruna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2007 | 14:42
Launaþrælar
Það er vont að vita til þess að í alsnægtarþjóðfélaginu á Íslandi hafi 60% þjóðarinnar ekki efni á að kaupa sér húsnæði. Maður hefði haldið að þróunin yrði í hina áttina, en svo er ekki. Hverju er um að kenna? Kapítalisma? Of mikilli íhlutun stjórnvalda? Röngum flokkum í stjórn? Röngum áherslum stjórnvalda þar sem hlutfallslega mörg láglaunastörf eru sköpuð? Hver sem ástæðan er, þá er það greinilegt að á Íslandi er ekki það þjóðfélag sem við vildum, unnum að og héldum að við byggjum í.
Ég er í svipaðri stöðu. Það er að vísu svolítið mér að kenna. Ég var í góðri vinnu, en sagði henni upp. Þegar ég segi góðri, á ég við að hún hafi verið þokkalega borguð. Þetta var leiðinleg vinna og ég hafði lært kvikmyndun, svo ég sagði starfi mínu lausu, fór að vinna hlutavinnu og setti upp eigið kvikmyndafyrirtæki. Í hlutastarfinu er ég með rúmlega helmingi lægra tímakaup en áður. Þetta eru miðlungslaun, en ég gæti aldrei lifað af þeim. Sem betur fer er konan enn á góðum launum, en þó finnum við all hrottalega fyrir peningaleysinu. Þetta, þrátt fyrir að hafa keypt okkar húsnæði fyrir níu árum síðan. Það er því augljóst að báðir aðilar þurfa að hafa góðar tekjur til að lifa af. Ég tek það fram að við erum í Hollandi, en ástandið er síst betra heima.
Af kvikmyndadæminu er það að segja að innkoman þar er ekki upp á marga fiska. Þau störf sem ég vinn fyrir aðra eru illa borguð og vonlaust að lifa af því. Ég tók upp stuttmynd á Íslandi í fyrra. Þá var ég enn í gamla starfinu. Ég gæti ekki gert þetta aftur því það er ekki til peningur. Vandamálið við myndina er að hún er stutt, og því lítill markaður fyrir hana.
Þessi frétt og fréttin um Torrent.is í gær hefur fengið mig til að hugsa málið. Ég ætla að setja myndina á netið 1. desember og leyfa hverjum sem er að ná í hana og horfa á. Hafi fólk gaman af henni vona ég að það borgi fyrir. Svo er ég að reyna að koma henni á hátíðir. Eftir það er ekkert annað að gera en að snúa sér að næsta máli sem verður að vera kvikmynd í fullri lengd. Spurning með að taka á vandamálum líðandi stundar. Hvað er að þjóðfélaginu? Hvernig má bæta það? Ef íslendingar geta ekki lifað af launum sínum, hver getur það þá? Ég er ekki að tala um skandinavíska vandamálamynd, en það gæti verið gaman að kryfja þjóðfélagið og skoða hvað er í gangi. Allar hugmyndir eru velkomnar.
Ég sendi samúðar- og baráttukveðjur til allra sem ekki geta fengið þak yfir höfuðið. Stöndum saman og gerum Ísland að draumalandinu sem það ætti að vera.
![]() |
Meðaltekjur duga ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.11.2007 | 15:28
Imagine no possessions, voru þessir peningar einhvern tíma til?
Það væri gaman að skoða þessar spurningar og sjá hvort hægt sé að svara þeim öðruvísi en neitandi. Ef jafnrétti, friður og mannlegur kærleikur er það sem við viljum, hvers vegna er heimurinn fullur af stríði og fordómum? Erum við sjálfselsk eða hefur sagan og þjóðfélagið spillt okkur? Eru einhverjar líkur á að við munum nokkurn tíma lifa við alvöru jafnrétti, frið og gagnkvæman skilning?
Skoðum textann við Imagine.
Imagine there's no Heaven
It's easy if you try
No hell below us
Above us only sky
Imagine all the people
Living for today
Fyrsta versið veltir fyrir sér trúnni. Trúarbrögð hafa lofað okkur Himnaríki ef við erum góð og hótað okkur helvíti ef við erum slæm. Að vera góð í þessu stutta lífi er fjárfesting á eilífð í paradís. Án trúar myndum við verða sjálfselsk og troða á nágrannanum, því okkur yrði ekki refsað. Það má því segja sem svo að trúarbrögð geri ráð fyrir að við séum öll slæm af náttúrunnar hendi. Það má segja að trúnni hafi mistekist ætlunarverk sitt, því við komum ennþá illa fram við hvort annað eftir allar árþúsundirnar. Trúarbrögð hafa meira að segja oft verið orsök styrjalda. Við getum endalaust rökrætt um það hvort trúnni (Guði, Biblíunni, Kóraninum) er um að kenna eða trúarleiðtogum, og hvort við hefðum fundið aðrar ástæður til að berjast. Hver svo sem ástæðan er, trúarbrögðum hefur mistekist það meinta ætlunarverk sitt að gera okkur manneskjulegri.
- Hvað kenna trúarbrögð?
- Hver er munurinn á trúuðum og trúleysingjum?
- Hver er munurinn á mismunandi trúarbrögðum?
- Hvaða áhrif hafa trúarbrögð haft á heiminn?
- Eru einhver trúarbrögð minna útötuð blóði en önnur, og ef svo er, hvað gerir þau öðruvísi?
- Hvernig yrði heimurinn án trúarbragða?
Imagine there's no countries
It isn't hard to do
Nothing to kill or die for
And no religion too
Imagine all the people
Living life in peace
Annað versið er um lönd, og þar með þjóðir og þjóðernishyggju. Hver erum við, einstaklingar eða hlutar af heild? Af hverju erum við tilbúin til að drepa fólk af öðrum þjóðernum ef stjórnvöld segja okkur að gera það? Hver er munurinn á að drepa útlending eða einhvern af sama þjóðerni? Er einhver munur á kosnum stjórnum og erfðum, skiptir það máli hvort okkur er stjórnað af þjóðþingum og forsetum eða flokkum, einræðisherrum eða konungsfjölskyldum? Þarf að stjórna okkur, og ef svo, hvers vegna? Ef við losuðum okkur við lönd og þjóðir, myndi einhver notfæra sér það og kúga fólkið? Getum við lifað af án þess að einhver sé við völd? Er einhver munur á þjóðernishyggju og kynþáttafordómum?
- Hvað er land?
- Af hverju þurfum við lönd, ef svo er?
- Hvað hefur komið af stað stríðum milli landa og hvers vegna höfum við tekið þátt í þeim og barist?
- Hvað eru þjóðarleiðtogar og hvernig virka stjórnvöld?
- Hvernig væri heimurinn án landamæra og væri það yfir höfuð mögulegt?
You may say that I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will be as one
Imagine no possessions
I wonder if you can
No need for greed or hunger
A brotherhood of man
Imagine all the people
Sharing all the world
Þessu er sennilega erfiðast að svara eins og John bendir á. Hvað er eign? Ef þetta er húsið mitt, af hverju skulda ég einhverjum banka næstum allt verðgildi þess? Hvernig getur banki búið til peninga úr engu? Ef ég kaupi hús og tek lán setur bankinn pening inn á reikninginn minn, en það er ekkert annað en að setja vissa tölu við nafnið mitt í tölvunni. Þegar banki lánar, kemur peningurinn úr lausu lofti. Peningurinn á reikningnum mínum er færður inn sem skuld bankans, en á móti er lánið mitt eign bankans. Þessar færslur eyða hvorri annari út, ég keypti húsið fyrir ekkert. Ef bankinn lánaði innistæðu annars fólks, eins og flestir halda, þyrfti hann að lækka þær innistæður til að bókhaldið gengi upp. Húsið var borgað með láni, lánið eru peningar sem eru ekki til og voru búnir til fyrir viðskiptavininn. Það er því nokkuð ljóst að peningar eru hugarástand, þeir eru til meðan við trúum á þá. Ef við hættum að trúa á peninga, hrynur hagkerfið. Það þarf ekki meira til.
- Hvað er eign?
- Hvernig virka peningar?
- Ef peningar eru verðlausir og ekkert meira en tölur í tölvu, af hverju erum við að eltast við þá?
- Höfum við rétt á landinu okkar, húsinu, bílnum, og hafa sumir meiri rétt en aðrir?
- Indjánar höfðu allt aðra skoðun á heiminum. Þeir trúðu að við værum hluti af heiminum og mættum nota hann skynsamlega en við ættum hann ekki.
- Hvernig myndi heimurinn virka ef við deildum öllu?
You may say that I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will live as one
Eru til önnur svör við spurningunum að ofan eða er heimurinn sem við höfum skapað besta, eða eina, leiðin fram á við? Ef við hugsum öðru vísi, erum við rænulaust draumórafólk með hausinn í skýjaþoku eða snillingarnir sem leggjum grunninn að betri framtíð?
Þessi færsla reynir ekki að svara spurningunum, heldur að velta þeim upp. Það er auðvelt að taka heiminum eins og hann er, eða virðist vera. Allt er, hins vegar, sjaldan það sem það sýnist. Heimurinn, og skilningur okkar á honum, er sífellt að breytast og það sem við trúum í dag eru sennilega hindurvitni framtíðarinnar. Spurningin er, í hvaða átt er heimurinn að þróast og erum við ánægð með þá þróun?
![]() |
Fjármálastofnanir gætu tapað allt að 400 milljörðum dala |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |