25.11.2007 | 07:00
6 dagar - um gerð Svarta Sandsins
Eins og fram hefur komið mun ég setja Svartan Sand á netið á laugardaginn. Ég ætla að reyna að vera með daglega pistla meðan ég geri hana tilbúna.
Stuttmyndin Svartur Sandur er að hluta til byggð á eigin reynslu. Það var að minnsta kosti lítið atvik í mínu lífi sem varð grunnurinn. Fyrsta uppkastið var skrifað í febrúar 2006 og handritið var að mestu leyti tilbúið í mars. Ég fór í páskafrí til Íslans og hitti þar aðalleikarann Jóel Sæmundsson. Stuttu seinna fékk Anna Brynja Baldursdóttir aðal kvenhlutverkið vegna fyrri reynslu. Ég hafði aldrei séð hana leika, en hún hafði verið í Stelpunum, svo hún hlaut að vera í lagi.
Myndin er það sem stundum er kallað búningadrama, hún gerist að miklu leyti fyrr á öldum. Hún var tekin upp á Íslandi í ágúst 2006. Upptökustaðir voru meðal annars Skógasafn, Eiríksstaðir (Eiríks Rauða) og Reynisfjara við Vík í Mýrdal. Ýmsir tökustaðir í og við Reykjavík voru líka notaðir, þar á meðal Café Pravda sem brann seinna. Bílaatriðin voru tekin upp á Bláfjallaveginum.
Tónlistin var samin og spiluð af Guy Fletcher, hljómborðsleikara Dire Straits og seinna Mark Knopfler. Hann hefur reynslu af kvikmyndatónlist og mun ég ræða það í seinni pistli.
Myndin var tekin upp á Sony HDV vél sem ég keypti fyrir tveimur árum. Það er því til High Definition (hágæða?) útgáfa af myndinni. Hafi einhver áhuga, látið bara vita. Myndin var svo klippt í Final Cut Pro. Upphaflega klippti ég grófa útgáfu þar sem klipparinn, Johan, er hollenskur og skildi ekki mælt mál. Hann tók svo við og klippti myndina að mestu leyti með hjálp handritsins á ensku. Ég tók svo við myndinni í vor og kláraði dæmið. Ég vildi fínpússa myndina sjálfur þar sem litir og smáatriði skipta miklu máli og hafa meira með leikstjórn en klippingu að gera. Svo voru líka atriði sem voru of löng eða pössuðu ekki og ég þorði að henda þeim, þetta var mín mynd.
Myndin var tilbúin í ágúst 2007, heilu ári eftir upptökur. Ástæðan er einföld, enginn fékk borgað svo fólk gerði þetta þegar tími var aflögu. Þetta var skemmtileg reynsla og ég er þakklátur öllum sem komu að gerð myndarinnar, en ég vona að ég geti borgð fólki næst.
Eins og ég sagði að ofan mun myndin verða sett á netið 1. desember. Þetta verður iPod útgáfa, hún ætti að spilast á öllum tölvum, en hún er gerð fyrir iPod spilara. Fyrirkomulagið verður þannig að fólk getur sótt myndina frítt. Boðið verður upp á að fólk geti lagt í púkkið með PayPal. Þeir sem borga 1200,- eða meira fá sendan DVD disk. Þeir sem borga minna eiga þakklæti mitt allt. Ég vil reyna að ná einverju af fjárfestingunni til baka og ef vel gengur, borga fólkinu sem hjálpaði til.
Ég vona að þeir sem lesa þetta komi aftur og nái í myndina. Ef þið eruð bloggarar, endilega látið ykkar lesendur vita.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 07:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.11.2007 | 05:23
Oft ég Svarta Sandinn leit...
Bara svo þið vitið það, 1. desember, eftir rétta viku, verður hægt að ná í stuttmynina Svartan Sand hér á vga.blog.is. Þetta verður eini staðurinn, fyrst um sinn, þar sem hægt verður að nálgast hana, Moggiebloggie exclusive, eða eitthvað svoleiðis. Hmmm... spurning með að fá Moggann til að öskra á þjóðina.
Látið mig enilega vita hvort þið hafið hugsað ykkur að ná í hana eða ekki.
23.11.2007 | 21:00
Engill Dauðans
Ef heimurinn væri eins og bíómynd...
Stelpan fengi sér Colt .45 þegar hún losnaði úr fangelsi og hvíldist ekki fyrr en allir úr klefanum væru dauðir.
En heimurinn er ekki svoleiðis. Réttlætinu verður aldrei fullnægt, heldur verður hún einfaldlega ein þúsunda kvenna sem lifa sem fórnarlömb um allan heim.
![]() |
15 ára stúlka sett í fangaklefa með 20 mönnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.11.2007 | 19:01
Framleiðslufyrirtæki í boði
Ég býð hér með Skjánum að frumsýna stuttmyndina Svartur Sandur.
![]() |
13 starfsmönnum sagt upp á Skjánum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2007 | 18:59
Loftur Hreinsson...
Ísafold Jökulsdóttir og Öskuskrímslið. Býr þetta fólk nokkuð í Latabæ?
Disclaimer: Ég biðs afsökunar ef þetta fólk er til og fréttin er ekki grín.
![]() |
Á grænni grein |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.11.2007 | 16:22
AIDS drepur of hægt, Ebola er betri.
Þetta var haft eftir hinum virta vísindamanni Eric Pianka á ráðstefnu vísindamanna í Texas árið 2006, þar sem vann fékk heiður fyrir störf sín.
Hér er brot úr grein eftir Forrest M. Mims III, formann Environmental Science Section of the Texas Academy of Science og ritstjóra The Citizen Scientist, sem var á ráðstefnunni. "AIDS is not an efficient killer, [Pianka] explained, because it is too slow. His favorite candidate for eliminating 90 percent of the world's population is airborne Ebola ( Ebola Reston ), because it is both highly lethal and it kills in days, instead of years. However, Professor Pianka did not mention that Ebola victims die a slow and torturous death as the virus initiates a cascade of biological calamities inside the victim that eventually liquefy the internal organs."
Greinina er hægt að lesa hér.
Heimasíða Pianka sjálfs er hér.
![]() |
Nýgreindum HIV og alnæmistilfellum fjölgar víða í Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2007 | 20:43
Þú skalt kyngja þessu, helvískur!
Um að gera, hafa atkvæðagreiðslur þangað til þeir fá svarið sem þeir vilja. Ef danir neita aftur verður bara farið í aðra auglýsinga- og heilaþvottsherferð og kosið í þriðja sinn.
Lengi lifi lýðræðið.
![]() |
Danska stjórnin vill nýja atkvæðagreiðslu um evruna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.11.2007 | 14:42
Launaþrælar
Það er vont að vita til þess að í alsnægtarþjóðfélaginu á Íslandi hafi 60% þjóðarinnar ekki efni á að kaupa sér húsnæði. Maður hefði haldið að þróunin yrði í hina áttina, en svo er ekki. Hverju er um að kenna? Kapítalisma? Of mikilli íhlutun stjórnvalda? Röngum flokkum í stjórn? Röngum áherslum stjórnvalda þar sem hlutfallslega mörg láglaunastörf eru sköpuð? Hver sem ástæðan er, þá er það greinilegt að á Íslandi er ekki það þjóðfélag sem við vildum, unnum að og héldum að við byggjum í.
Ég er í svipaðri stöðu. Það er að vísu svolítið mér að kenna. Ég var í góðri vinnu, en sagði henni upp. Þegar ég segi góðri, á ég við að hún hafi verið þokkalega borguð. Þetta var leiðinleg vinna og ég hafði lært kvikmyndun, svo ég sagði starfi mínu lausu, fór að vinna hlutavinnu og setti upp eigið kvikmyndafyrirtæki. Í hlutastarfinu er ég með rúmlega helmingi lægra tímakaup en áður. Þetta eru miðlungslaun, en ég gæti aldrei lifað af þeim. Sem betur fer er konan enn á góðum launum, en þó finnum við all hrottalega fyrir peningaleysinu. Þetta, þrátt fyrir að hafa keypt okkar húsnæði fyrir níu árum síðan. Það er því augljóst að báðir aðilar þurfa að hafa góðar tekjur til að lifa af. Ég tek það fram að við erum í Hollandi, en ástandið er síst betra heima.
Af kvikmyndadæminu er það að segja að innkoman þar er ekki upp á marga fiska. Þau störf sem ég vinn fyrir aðra eru illa borguð og vonlaust að lifa af því. Ég tók upp stuttmynd á Íslandi í fyrra. Þá var ég enn í gamla starfinu. Ég gæti ekki gert þetta aftur því það er ekki til peningur. Vandamálið við myndina er að hún er stutt, og því lítill markaður fyrir hana.
Þessi frétt og fréttin um Torrent.is í gær hefur fengið mig til að hugsa málið. Ég ætla að setja myndina á netið 1. desember og leyfa hverjum sem er að ná í hana og horfa á. Hafi fólk gaman af henni vona ég að það borgi fyrir. Svo er ég að reyna að koma henni á hátíðir. Eftir það er ekkert annað að gera en að snúa sér að næsta máli sem verður að vera kvikmynd í fullri lengd. Spurning með að taka á vandamálum líðandi stundar. Hvað er að þjóðfélaginu? Hvernig má bæta það? Ef íslendingar geta ekki lifað af launum sínum, hver getur það þá? Ég er ekki að tala um skandinavíska vandamálamynd, en það gæti verið gaman að kryfja þjóðfélagið og skoða hvað er í gangi. Allar hugmyndir eru velkomnar.
Ég sendi samúðar- og baráttukveðjur til allra sem ekki geta fengið þak yfir höfuðið. Stöndum saman og gerum Ísland að draumalandinu sem það ætti að vera.
![]() |
Meðaltekjur duga ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.11.2007 | 08:35
Er símaskráin lögleg?
Eftir því sem ég best veit brýtur Torrent.is engin lög. Síðan hjálpar manni að finna efni á netinu, en dreifir engu efni sjálf. Er þetta ekki svipað og að banna símaskránna vegna þess að til eru einstaklingar sem nota hana til að finna fórnarlömb, t.d. vegna innbrota, ýmiskonar áreytis og annara glæpa? Ef ég leita að biskupi í símaskránni og brýst svo inn hjá honum vegna þess að hann á sennilega mikið af verðmætum eignum, er þá hægt að kenna símaskránni um, þar sem ég fann heimilisfangið þar? Ef ég ákveð að ræna dóttur forsætisráðherra (á hann dóttur?) og finn heimilisfangið í símaskránni, hverjum er það að kenna?
Nú eru kannski einhverjir sem segja, nei þú getur verið með leyninúmer og þá er ekki hægt að finna þig. Er það þá ekki það sama og þegar Páll Óskar bað um að platan hans væri fjarlægð, sem var gert?
![]() |
Lögbannskrafa tekin til greina og Torrent vefnum lokað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.11.2007 | 15:28
Imagine no possessions, voru þessir peningar einhvern tíma til?
Það væri gaman að skoða þessar spurningar og sjá hvort hægt sé að svara þeim öðruvísi en neitandi. Ef jafnrétti, friður og mannlegur kærleikur er það sem við viljum, hvers vegna er heimurinn fullur af stríði og fordómum? Erum við sjálfselsk eða hefur sagan og þjóðfélagið spillt okkur? Eru einhverjar líkur á að við munum nokkurn tíma lifa við alvöru jafnrétti, frið og gagnkvæman skilning?
Skoðum textann við Imagine.
Imagine there's no Heaven
It's easy if you try
No hell below us
Above us only sky
Imagine all the people
Living for today
Fyrsta versið veltir fyrir sér trúnni. Trúarbrögð hafa lofað okkur Himnaríki ef við erum góð og hótað okkur helvíti ef við erum slæm. Að vera góð í þessu stutta lífi er fjárfesting á eilífð í paradís. Án trúar myndum við verða sjálfselsk og troða á nágrannanum, því okkur yrði ekki refsað. Það má því segja sem svo að trúarbrögð geri ráð fyrir að við séum öll slæm af náttúrunnar hendi. Það má segja að trúnni hafi mistekist ætlunarverk sitt, því við komum ennþá illa fram við hvort annað eftir allar árþúsundirnar. Trúarbrögð hafa meira að segja oft verið orsök styrjalda. Við getum endalaust rökrætt um það hvort trúnni (Guði, Biblíunni, Kóraninum) er um að kenna eða trúarleiðtogum, og hvort við hefðum fundið aðrar ástæður til að berjast. Hver svo sem ástæðan er, trúarbrögðum hefur mistekist það meinta ætlunarverk sitt að gera okkur manneskjulegri.
- Hvað kenna trúarbrögð?
- Hver er munurinn á trúuðum og trúleysingjum?
- Hver er munurinn á mismunandi trúarbrögðum?
- Hvaða áhrif hafa trúarbrögð haft á heiminn?
- Eru einhver trúarbrögð minna útötuð blóði en önnur, og ef svo er, hvað gerir þau öðruvísi?
- Hvernig yrði heimurinn án trúarbragða?
Imagine there's no countries
It isn't hard to do
Nothing to kill or die for
And no religion too
Imagine all the people
Living life in peace
Annað versið er um lönd, og þar með þjóðir og þjóðernishyggju. Hver erum við, einstaklingar eða hlutar af heild? Af hverju erum við tilbúin til að drepa fólk af öðrum þjóðernum ef stjórnvöld segja okkur að gera það? Hver er munurinn á að drepa útlending eða einhvern af sama þjóðerni? Er einhver munur á kosnum stjórnum og erfðum, skiptir það máli hvort okkur er stjórnað af þjóðþingum og forsetum eða flokkum, einræðisherrum eða konungsfjölskyldum? Þarf að stjórna okkur, og ef svo, hvers vegna? Ef við losuðum okkur við lönd og þjóðir, myndi einhver notfæra sér það og kúga fólkið? Getum við lifað af án þess að einhver sé við völd? Er einhver munur á þjóðernishyggju og kynþáttafordómum?
- Hvað er land?
- Af hverju þurfum við lönd, ef svo er?
- Hvað hefur komið af stað stríðum milli landa og hvers vegna höfum við tekið þátt í þeim og barist?
- Hvað eru þjóðarleiðtogar og hvernig virka stjórnvöld?
- Hvernig væri heimurinn án landamæra og væri það yfir höfuð mögulegt?
You may say that I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will be as one
Imagine no possessions
I wonder if you can
No need for greed or hunger
A brotherhood of man
Imagine all the people
Sharing all the world
Þessu er sennilega erfiðast að svara eins og John bendir á. Hvað er eign? Ef þetta er húsið mitt, af hverju skulda ég einhverjum banka næstum allt verðgildi þess? Hvernig getur banki búið til peninga úr engu? Ef ég kaupi hús og tek lán setur bankinn pening inn á reikninginn minn, en það er ekkert annað en að setja vissa tölu við nafnið mitt í tölvunni. Þegar banki lánar, kemur peningurinn úr lausu lofti. Peningurinn á reikningnum mínum er færður inn sem skuld bankans, en á móti er lánið mitt eign bankans. Þessar færslur eyða hvorri annari út, ég keypti húsið fyrir ekkert. Ef bankinn lánaði innistæðu annars fólks, eins og flestir halda, þyrfti hann að lækka þær innistæður til að bókhaldið gengi upp. Húsið var borgað með láni, lánið eru peningar sem eru ekki til og voru búnir til fyrir viðskiptavininn. Það er því nokkuð ljóst að peningar eru hugarástand, þeir eru til meðan við trúum á þá. Ef við hættum að trúa á peninga, hrynur hagkerfið. Það þarf ekki meira til.
- Hvað er eign?
- Hvernig virka peningar?
- Ef peningar eru verðlausir og ekkert meira en tölur í tölvu, af hverju erum við að eltast við þá?
- Höfum við rétt á landinu okkar, húsinu, bílnum, og hafa sumir meiri rétt en aðrir?
- Indjánar höfðu allt aðra skoðun á heiminum. Þeir trúðu að við værum hluti af heiminum og mættum nota hann skynsamlega en við ættum hann ekki.
- Hvernig myndi heimurinn virka ef við deildum öllu?
You may say that I'm a dreamer
But I'm not the only one
I hope someday you'll join us
And the world will live as one
Eru til önnur svör við spurningunum að ofan eða er heimurinn sem við höfum skapað besta, eða eina, leiðin fram á við? Ef við hugsum öðru vísi, erum við rænulaust draumórafólk með hausinn í skýjaþoku eða snillingarnir sem leggjum grunninn að betri framtíð?
Þessi færsla reynir ekki að svara spurningunum, heldur að velta þeim upp. Það er auðvelt að taka heiminum eins og hann er, eða virðist vera. Allt er, hins vegar, sjaldan það sem það sýnist. Heimurinn, og skilningur okkar á honum, er sífellt að breytast og það sem við trúum í dag eru sennilega hindurvitni framtíðarinnar. Spurningin er, í hvaða átt er heimurinn að þróast og erum við ánægð með þá þróun?
![]() |
Fjármálastofnanir gætu tapað allt að 400 milljörðum dala |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |