Segir þetta eitthvað?

Eins og segir í fréttinni var spurt hvort væri æskilegra, jarðvarmavirkjanir eða fallvatnavirkjanir, jafn æskilegar eða jafn óæskilegar. Jarðvarmavirkjanirnar unnu, en segir það okkur eitthvað?

Ef ég hefði verið spurður hefði ég svarað eins og meirihlutinn. Það segir hins vegar ekkert um hvað mér finnst um virkjana- og stóriðjustefnuna. Það má því segja að könnunin hafi verið gölluð og að fyrirsögn fréttarinnar segi ekki alla söguna.


mbl.is Stuðningur eykst við jarðvarmavirkjanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getum við gert eitthvað?

Virkjanasinnar vaða áfram án þess að bera virðingu fyrir landi eða þjóð. Virkjanir skulu byggðar sem fyrst og hraðast svo að fólk hafi ekki tíma til að átta sig á hvað er að gerast. Það er til gott orðasamband á ensku sem lýsir svona. Þeir segja "he never knew what hit him".

Virkjanir eru í sjálfu sér ekki slæmar, en það verður að vega og meta hvað skal virkja, hvaða landsvæðum skuli fórnað fyrir hvaða hagsmuni.

Ég vil endilega benda á síðuna Hengill.nu það sem upplýsingar um Bitruvirkjun, og hvernig hægt er að gera athugasemd við hana, er að finna. Frestur rennur út eftir fjóra daga.


mbl.is „Fjárfestingar á sviði jarðorku geta numið þúsundum milljarða"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki tala, við getum drepið þá...

Mynd 443173Hvað er vandamálið með kúrda? Þetta er smáþjóð sem býr á afskekktu svæði á landamærum Tyrklands og Íraks. Það væri einfalt mál að leysa þetta. Af hverju fá þeir ekki þessa spildu frá báðum löndunum og fá að setja upp eigið ríki? Er betra að neyða þá til að vera minnihlutahópar í tveimur löndum sem hata þá? Er betra að undiroka þá og láta drepa fólk á báða bóga? Af hverju er fólki alltaf svona mikið um að stjórna öðrum?

Það hlýtur að vera olía eða einhver fjandinn á þessu svæði. 


mbl.is Ríkisstjórn Tyrklands samþykkir refsiaðgerðir gegn PKK
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Paul McCartney segir sóðabrandara

Góður þessi. Paul gerir grín þrátt fyrir erfiða tíma. Kannski þess vegna sem þetta er svona ljótur brandari.

Annars hef ég verið að hlusta á nýju plötuna, Memory Almost Full, og verð að segja að hún er virkilega góð. Þegar maður setur einn besta lagahöfund allra tíma í klípu er ekki að því að spyrja. George er dáinn, John er dáinn, Linda dó eftir þrjátíu ára hjónaband. Hann giftist aftur en það fór á versta veg. Sennilega með það í huga samdi hann eitt besta lag sitt frá upphafi, House of Wax (hlustið í spilaranum hér til hliðar). Hann er að eldast og veit af því, eins og kemur fram í The End of the End. Tíminn hefur hlaupið frá honum og allt sem eftir er eru myndir (That Was Me). Svo er auðvitað sama hvað hann gerir, allt er borið saman við Bítlana (My Ever Present Past).

Ég hef lítið fylgst með honum undanfarin ár. Að vísu fór ég á hljómleika með honum fyrir 3-4 árum og kom hann virkilega á óvart. Ég hafði búist við hálf hallærislegum og jafnvel væmnum hljómleikum, en það var alls ekki. Hann gerði betur en flestir, ef ekki allir, sem ég hef séð og ég hef séð marga. Þar á meðal flesta gömlu rokkarana sem enn eru að.

Af 13 lögum á diskinum líkar mér ekkert sérstaklega við tvö. Þá eru 11 góð lög eftir, 4-5 sem eru meðal þess besta sem hann hefur gert. Þessi diskur er hverrar krónu virði.

Ég legg það ekki í vana minn að skrifa plötudóma og ég hef aldrei sett lag í spilarann á Moggablogginu, en þessi diskur kom mér svo á óvart að ég varð að segja frá því. Svo varð ég að koma brandaranum að. 


í Býtið - The Small Hours

Ég gerði stuttmynd árið 2005 um leigubílstjóra og kvenkyns farþega hans. Það fer auðvitað allt í klessu, enda væri engin mynd ef allt væri í góðu lagi.

 

Ég setti myndina í heild á netið um daginn. Hér er hún.

PS. Ef einhver vill segja mér hvernig maður setur youTube myndir inn á moggabloggið skal ég setja hana beint inn í færsluna.


Júbbí

Júbbí er dáinn.

Kötturinn JúbbíVið fundum hann liggjandi í ganginum á laugardagskvöld. Hann gat varla staðið upp. Ég fór með hann til dýralæknis. Hún fann blóð í þvaginu og vildi skoða hann betur, svo ég skildi hann eftir. Við skoðun kom í ljós að hann var með rifu á þvagblöðrunni og slitin liðbönd í vinstri afturlöpp. Það lítur út fyrir að hann hafi fengið mikið högg milli lappanna. Hann hefur sennilega dottið einhverja metra niður á eitthvað, eða einhver hefur sparkað í hann. Það er sennilega líklegast, því á liðböndunum var að sjá að höggið kom innan frá. Hann hefur því ekki orðið fyrir bíl eða lent milli stafs og hurðar. Hann var í góðu formi og svoleiðis kettir lenda yfirleitt á fótunum ef þeir detta. Hann hafði verið hjá dýra síðan um helgina og á mánudag leit út fyrir að hann myndi jafna sig, en hann dó um átta leytið.

Við munum sakna hans, en það er líka leiðinlegt að Mats mun ekki geta leikið við hann. Þeir voru farnir að dúlla sér saman. Júbbí vissi auðvitað af Mats frá upphafi, en Mats hefur verið að uppgötva hann á síðustu vikum. Stundum sá maður þá saman. Þá hafði Júbbí komið upp að Mats til að þefa eða hvað það er sem kettir gera, og þá hafði Mats gripið til hans. Ef Mats náði taki á honum var togað, en aldrei gerði Júbbí neitt til baka. Dýr eru svo skynsöm, þau skilja að um óvita er að ræða. Svo var svo sniðugt að sjá þegar Mats var í barnastólnum, fór Júbbí upp á afturlappirnar og þefaði af hendinni og fékk bros og hlátur þegar Mats fann fyrir blautu nefinu. Svo kom Júbbí oft þegar Mats lá í fanginu á manni. Hann vildi vera með og það tókst því Mats fór, eins og dáleiddur, að fitla við feldinn. Það var eins og þeir væru orðnir perluvinir.

Júbbí var næstum því 10 ára. Hann fæddist í nóvember 1997. Hann hefur því fylgt mér síðan ég kom til Hollands. Leiðinlegt að hann sé farinn.

Þá vitið þið það.

Framtíð - Umhverfi - Hugmyndasamkeppni

Kjarnorkan er á undanhaldi, en hvað tekur við? Erfitt að segja.

Ég fann stórmerkilega frétt í gærkvöldi um ísbreiðuna á norðurpólnum. Þar fylgdi líka kort sem sýnir þóun síðustu ára. Mér líst ekkert á þetta. Það er spurning hvort það skipti máli hvort þetta sé okkur að kenna eða ekki, við verðum að bregðast við, hvort heldur sem er. Ég hvet alla til að skoða.

Svo er það IDFA, alþjóðleg hátíð  heimildamynda sem haldin er árlega í Amsterdam. Næsta hátíð verður helguð umhverfismálum. Því er kvikmyndafólk beðið um að senda inn litlar heimildamyndir um gróðurhúsaáhrifin. Myndin skal ekki vera lengri en ein múnúta, en skilafrestur er 1. nóvember.

Ég ætla að taka þátt og hef einhverjar hugmyndir, en ég held þeim fyrir mig í bili svo að ég sé ekki að hafa áhrif á ykkar hugsanir. Það væri nefninlega gaman að heyra ef einhverjum dettur eitthvað betra í hug. Myndin yrði gerð á einum degi í Hollandi, svo ég bið fólk að halda þessu einföldu, kraftmiklu og jökulsárlausu (það eru engar jökulár í Hollandi).

Ég er að fara til Spánar á Sunnudag og kem til baka viku síðar. Ég geri ráð fyrir að taka myndina upp og klippa milli 16. og 20. október.

Endilega látið heyra í ykkur! 


mbl.is Kæliturnar elsta kjarnorkuvers Breta jafnaðir við jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig sameinar maður ríkisrekstur og samkeppni?

Hvernig er hægt að sameina ríkisrekstur og samkeppni í orkumálum? Hvernig er hægt að koma í veg fyrir að vatnsorka og jarðvarmi íslendinga fari kaupum og sölum eins og fiskkvótinn? Það einfalt.

Lög yrðu sett um að öll orka Íslands væri eign þjóðarinnar. Þannig væri tekið fyrir að einkafyrirtæki gætu "eignað sér" borholur og virkjanir. Landsvirkjun yrði áfram í eign ríkisins. Allar virkjanaframkvæmdir yrðu á vegum Landsvirkjunar. Allar raflínur eign Landsvirkjunar. Öll tenging til notenda í eign ríkis eða bæjar- og sveitarfélaga.

Samkeppnin færi fram þannig að smásalar keyptu kílóvöttin á heildsöluverði og seldu áfram til notenda. Stórir smásalar gætu sennilega boðið betra verð, þó að það sé ekki víst. Það færi eftir því hvernig þeir hefðu samið um heildsöluverðið.

Segjum sem svo að Jón kaupi rafmagn af Stuði. Stuð er fyrirtækið sem Jón skiptir við. Hann fær reikninga frá Stuði og hefur ekkert með Landsvirkjun (OR eða hvað) að gera. Mælirinn er í eigu Landsvirkjunar og hún athugar hann einu sinni á ári. Nú er Jón ekki alveg sáttur því Stuð gerði mistök og fólkið í símanum var dónalegt. Hann fer á netið og sér að Neisti, sem er í samkeppni við Stuð, býður betri kjör. Hann segir upp samningnum við Stuð og fer að versla við Neista. Ekkert hefur breyst, nema að hann fær reikning frá öðru fyrirtæki, lægra verð og kannski betri þjónustu.

Neista gengur vel, því þar er boðið upp á góða þjónustu og fólk er að skipta yfir. Neisti fór úr 10.000 notendum í 19.000 notendur á milli ára og getur því samið um lægra heildsöluverð hjá Landsvirkjun. Þetta þýðir meiri hagnað eða lægra verð til neytenda. Fer eftir þvi hvað stjórn Neista vill.

Hver sem er gæti stofnað orkuveitu. Það er spurning með að þurfa að vera með einhvern lágmarksfjölda viðskiptavina svo að hver blokk sé ekki með eigin orkuveitu. Svona er allavega hægt að stuðla að samkeppni án þess að hætta á að orkan okkar verði seld hverjum sem er. Fyrirtæki myndu spretta upp, neytendur hefðu val og Landsvirkjun þyrfti ekki að standa í því að rukka hvern landsmann og gæti einbeitt sér að sínum stóru verkefnum. 

 


mbl.is Ingibjörg Sólrún: Orkuveitur verði í félagslegri meirihlutaeign
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

To Protect and Serve

Eða To Serve and Protect. Man það ekki. Þetta er víst bandarískt slógan. Eins gott, því ekki á það við í Bretlandi. Þetta minnti mig á mál sem kom upp í Amsterdam fyrr á árinu. Þar rann barnavagn út í sýki með 7-8 mánaða barn innanborðs. Óviðkomandi vegfarandi henti af sér jakkanum og skónum og fleygði sér á eftir vagninum, bjargaði barninu og þakkaði fyrir sig. Hann vildi ekki sjá "laun" eða neitt annað. Sagði að þetta myndi hver sem er gera.

Nema breska löggan, virðist vera. Það er víst óviðeigandi. Merkilegt, þar sem sýkin í Amsterdam eru mun hættulegri en einhver tjörn. Þetta skilur að mennina og aumingjana. 


mbl.is Lögreglumenn horfðu á dreng drukkna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég fell niður á hné...

Urriðafoss í Þjórsá...og kyssi eigendur Skálmholtshrauns a rassinn.

Spurning hvort þau séu listamenn sem búa í 101 Reykjavík. Hér er ég að vitna í sálgreiningu á mér sem má lesa hér á blogginu hans Ómars. Athugasemd 22 er sálgreiningin. Nokkuð skemmtileg lesning. 


mbl.is Eigendur jarðar í Flóahreppi slíta viðræðum við Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband