Elsku Emilía og Lay Low

Mikið væri gaman að sjá ykkur spila í Paradiso, Amsterdam. Ennþá skemmtilegra væri að fá að kvikmynda hljómleikana og búa til fallegan DVD disk sem þið getið verið stoltar af. Ég er að klippa og hljóðblanda hljómleikana sem við tókum upp með Uriah Heep um daginn, og ég get lofað ykkur að þið getir orðið stoltar af því sem við myndum búa til fyrir ykkur.

Það væri gaman. En ef þetta gengur ekki upp, kem ég bara sem áhorfandi. Vonandi.


mbl.is Valdi Lay Low
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skoðanakönnun um ESB

ESB hefur aldrei falið löngun sína að fá okkur inn í sambandið. Ísland hefur ekki sýnt því áhuga, þótt við séum kaþólskari en páfinn í sumu. Þá ég við Schengen, sem margar ESB þjóðir hafa ekki séð ástæðu til að taka þátt í. Nú er búið að berja okkur til óbóta af sambandinu og á greinilega að notfæra sér veika aðstöðu okkar. Flýtimeðferðin, sem á víst ekki að vera til, stendur okkur til boða.

Ríkisstjórnin viðist hafa áhuga á aðildarviðræðum. Miðað við það sem á undan er gengið mun hún líka ákveða hvort við göngum Brussel á hönd eða ekki. Ég spái því að Olli hafi rétt fyrir sér, viið munum sækja um á árinu 2009 og verða komin inn í síðasta lagi 2011. Við verðum ekki spurð. Það verður engin þjóðaratkvæðagreiðsla. Evran verður svo orðin gjaldmiðill okkar í kring um 2016.

Endilega takið þátt í skoðanakönnuninni hér til vinstri. Eigum við að sækja um eða ekki? 


mbl.is Rehn: Ísland gæti komið óvænt með aðildarumsókn 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betri er kartafla en retta

Það er nú gott að McCain bjóði fram aðstoð sína. Kannski hann geti hjálpað Obama að læra biblíuna utan að eins og Palin. Hann getur þá kvótað biblíuvers meðan hann drepur, eins og gaukurinn í Tarantúllu myndinni. Kannski hann geti hjálpað Obama að hætta að reykja. Það virðist nefninlega vera hans stærsti galli.

Sem gerir hann að fjandi góðum forseta. Ef blysin eru hans stærsta vandamál er hann svo nálægt fullkomnun að framtíðin getur jafnvel talist björt. Lítil hætta á því, en það má láta sig dreyma.

Annars var ég að hugsa, af gefnu tilefni. Allt þetta anti-reykvæl og fólk sem er bara happí með Geira og Árna af því áfengi hækkar. Það er eins og fólk trúi því að áfengi og tóbak drepi alla sem deyja. Það er bara ekki svo. Held ég. Maður hefur þá allavega gaman af meðan þetta endist.

Kannski er ég ekki marktækur. Ég er að falla nett fyrir Film Noir, myndunum þar sem allir reykja og drekka eins og enginn sé morgundagurinn. Var alltaf hrifinn af dæminu, en nú er ég alveg að missa mig. Sá Casablanca um daginn eins og frægt er varla orðið, Kiss Me Deadly, The Big Sleep. Ég verð bara að viðurkenna að nútímaskvísurnar, edrú og reyklausar eru ansi litlausar miðað við Ingrid og hennar stöllur. Og voru þær þó í svart hvítu.

En hvað um það. Skál. Á einhver eld? 


mbl.is McCain heitir Obama aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kominn tími á byltingu?

Samningaviðræður standa yfir...

Í tvo mánuði? Bretar beittu hryðjuverkalögum á okkur. Ég sé tvennt í stöðunni.

1. Þeir voru "way out of line" og við ættum að fara í mál við þá strax.

2. "Við" vorum að leika þvílíkan skítaleik að hryðjuverkalögin voru réttlætanleg. Þá á að reka ríkisstjórnina, fjármálaeftirlitið, seðlabankastjórn og gera eigur útrásarvíkinganna upptækar. Strax.

Það er ekkert annað í stöðunni. Annað hvort voru Bretar skíthælar eða við. What's it gonna be, pal? 


mbl.is Veita enn ekki viðunandi svör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fráhvarfseinkenni

Ég er að upplifa fráhvarfseinkenni. Síðustu vikur hef ég verið að fínpússa handritið að Undir Svörtum Sandi. Daglega hef ég lesið eitthvað og lagfært. Stundum bara ritvillur eða orðalag, stundum hef ég hent út heilum atriðum og skrifað ný.

Undir Svörtum Sandi

Nú eru fimm dagar síðan ég kláraði nýjustu útgáfuna. Ég geri ráð fyrir að vera búinn með þetta, svo ég ákvað að bíða í nokkra daga áður en ég færi yfir þetta aftur. Þannig væri ég vonandi minna samdauna sögunni og gæti séð hana meira eins og áhorfandi og minna sem höfundur.

Fimm dagar eru langur tími. Mig klæjar í puttana að lesa þetta, breyta og bæta, en ég var búinn að lofa sjálfum mér að gera það ekki fyrr en á fimmtudag. Það er á morgun.

Hún er svolítið merkileg, þessi tómleikatilfinning sem maður finnur þegar verkefni er klárað. Til að bæta það upp hef ég verið að leita að leikurum í hlutverkin. Ekki tímabært kannski, en ég verð að gera eitthvað.  


mbl.is Ein besta mynd ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýr, en þess virði?

Það getur verið dýrt að spara. Dýrasta endurskipulagning mannskynssögunnar kann því að vera hverrar krónu virði ef rétt er að staðið. Því miður virðumst við ekki vera að fá peninganna okkar virði. Hvað erum við að borga fyrir ef sama fólk er í stjórn landsins, seðlabankans og hrundu bankanna þriggja? Sama fólk situr í nefndum og stjórnum verkalýðsfélaganna. Það fólk sem varð að láta sig hverfa er að rembast við að kaupa bankana og mun því komast aftur í stjórn þeirra. Útrásarvíkingarnir eiga ennþá nóg af peningum til að kaupa upp fyrirtæki. Kvótakerfið er óbreytt.

Það er allt í lagi að borga meira fyrir gæðavöru, en ég efast um að við séum að fá "value for money". 


mbl.is Dýrasta endurskipulagning mannkynssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerist nú?

Á undanförnum árum hefur íslenskum kvikmyndum fjölgað, en það sem meira máli skiptir, gæðunum hefur farið mikið fram. Íslenskar kvikmyndir eru ekki lengur einfaldar, ofleiknar blótsyrðakrukkur. Það er gaman að sjá Mýrina á þessum lista og Baltasar verða smám saman nafn úti í heimi. Köld Slóð var ekki síðri, nema kannski kameruvinnan í upphafi myndarinnar. Svo var Astrópía að fá viðurkenningu um daginn á fantasíuhátíð í Bandaríkjunum. En hvað gerist nú, þegar allir eru að fara á hausinn. Hvaða áhrif mun hrunið hafa á kvikmyndagerð á Íslandi?

Ég var að lesa reglur Kvikmyndamiðstöðvarinnar og komst að því að sú stofnun leggur til allt að 40% af heildarkostnaði myndarinnar en að sá kostnaður megi ekki vera innan við 50 milljónir. Þetta er sjálfsagt gert til að sía út þá sem er ekki alvara, en ég var samt ekki viss um að þetta væri rétta leiðin. Ísland er lítill markaður og mér finnst það skipta máli að myndir reyni að standa undir sér.

Einhvern tíma skrifaði ég um sjö milljóna kvikmyndir. Sú tala gæti verið breytt í dag vegna gengisfalls krónunnar, en hugmyndin ætti að vera skýr. Ég vildi stofna sjóð eða fyrirtæki sem framleiddi, eða aðstoðaði við framleiðslu kvikmynda í fullri lengd sem kostuðu ekki meira en sjö milljónir, fullkláraðar. 10 myndir yrðu framleiddar árlega. Þetta hljómar kannski eins og verksmiðja, en það er líka hægt að segja um Hollywood og ekki er allt slæmt sem þaðan kemur.

Hvað sem við erum nú, verðum við að sjá til þess að menning okkar íslendinga verði ekki fórnarlamb kreppunnar, því án menningar erum við ekkert.

Setti inn tvo hlekki á eldri færslur eftir að færslan var skrifuð:
26.08.07, Kvikmyndalandið Ísland
05.11.08, Hrunið - Kvikmynd um fall Íslands


mbl.is Mýrin ein af bestu myndum ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nei! Hingað með spillingarliðið!

Klára fréttina strákar (eða stelpur). Hvað á bankinn að kosta? Af hverju á að selja núna? Er hann ekki í eigu ríkisins? Af hverju fáum við þá ekki að vita um leynireikningana á Caymaneyjum og peningana sem á að hafa verið stungið undan gegn um KaupLux? Eru það ekki okkar peningar sem ættu að fara í skuldir? Af hverju á að selja vinum fyrrverandi bankastjórnenda? Af hverju voru þeir með 67 millur á manuði ef þeir bera enga ábyrgð? Hverju er verið að leyna?

Spurningin er, hefur einhver áhuga á að koma þessu skeri til hjálpar eða á bara að láta pakkið (þjóðina) éta það sem úti frýs?


mbl.is Eignast líbýskur banki Kaupþing í Lúxemborg?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áttu eld(sprengju)?

Ef ég væri geimvera og læsi þessa frétt myndi ég fá það á tilfinninguna að allt væri í fínu lagi á jörðinni. Ef stærstu fréttir heimsins væru að einhver reykti eða reykti ekki, myndi ég halda að það væri ekkert merkilegt að gerast. Ekki síst eftir að hafa lesið um að einhver poppstjarna vildi láta minnka tútturnar.

Æi. Ef valdamesti maður í heimi má ekki fá sér sígarettu eftir að hafa gefið fyrirskipun um að gera loftárás, þá erum við farin of langt í rétthugsuninni. Ef fólk hneykslast yfir rettunni en ekki sprengjunum, þá eigum við ekki séns. Við munum öll deyja löngum, leiðinlegum dauðdaga þess sem aldrei skemmtir sér.

Ætli þeir byggi skothelt reykhús í garðinum fyrir Obama?

Nikótínfasisminn lengi lifi. 


mbl.is Obama lofar að reykja ekki í Hvíta húsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitin að Steinunni

Það er gaman að sjá að Steinunni gengur svona vel í útlandinu. Til hamingju með það. Þar sem öllum virðist líka vel við Sólskinshestinn reyndi ég að finna hann é ensku eða hollensku. Þetta yrði skemmtileg jólagjöf. Góð bók eftir höfund sem fólkið hér þekkir ekki. En ég finn hana hvergi. Ég leitaði á Amazon og í hollenskum vefverslunum en ekkert bólar á hrossinu. Getur það verið að bókin sé til í þessum skrítnu löndum í kring um mig en ekki í Hollandi og Bretlandi? Eða höfum við verið þurrkuð út í þessum löndum?Íslenskt, nei takk?

Það fór að vísu lítið fyrir Steinunni, yfir höfuð. Kannski að sól hennar fari að skína eftir þessa viðurkenningu.


mbl.is „Ég get vel við unað, það er smá frægðarmunur á okkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband