Færsluflokkur: Menning og listir

Criterion

Spines_ShortMovies

Fyrir nokkru síðan fékk ég þá flugu í höfuðið að íslenskar myndir þyrfti að varðveita. Það er þekkt mál að filma skemmist með tímanum, svo ekki er upphaflega formið gott til geymslu. Svo finnst mér líka að list sé lítils virði fái fólk ekki að njóta hennar.

366_box_128x180Eitt besta átak sem ég veit um er Criterion safnið. Merkilegum myndum er safnað saman, þær hreinsaðar og lagfærðar eins vel og nútímatækni leyfir. Myndin er svo sett á high-definition stafrænt form til geymslu. Að lokum er myndin svo gefin út á DVD í betri gæðum en áður hafa sést og með miklu aukaefni. Það skemmtilega við Criterion safnið er að um er að ræða myndir allstaðar að úr heiminum, hvort sem það er Hollywood, Bollywood, Japan eða Svíþjóð. Það minnst skemmtilega er að það sem þetta er bandarískt átak, eru myndirnar einungis fáanlegar á Region 1 NTSC diskum.

Ég fékk sem sagt þessa hugmynd. Hvernið væri að skanna inn bestu eða merkilegustu íslensku kvikmyndirnar, sjá til þess að þær varðveitist og gefa út á diskum sem eru þeim sæmandi.  Þetta þyrftu ekki bara að vera kvikmyndir, heldur mætti gefa út stuttmyndasöfn og fleira.

En ég á engan pening, svo það þarf einhver annar að taka þetta að sér. 


mbl.is Kvikmyndafortíðin varðveitt til framtíðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stytta af ferjumanninum sem drukknaði

Síðan ég var barn hef ég vitað af því að langa-langafi minn, Runólfur Bjarnason, drukknaði í Iðu aðeins 37 ára gamall. Hann var þar ferjumaður. Langamma var ekki orðin fjögurra ára þegar hún missti föður sinn.

Það er fallegt að minnast þeirra sem fóru með sviplegum hætti. Það væri gaman að geta heiðrað Runólf einhvern tíma með styttu við bakka árinnar á þeim stað sem hann hvarf.

Runólfur Bjarnason var fæddur í Skurðbæ í Meðallandi, V-Skaft. 12. mars 1866. Hann lést 18. september 1903.


mbl.is Minnisvarði um Jón Ósmann ferjumann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

6 dagar - um gerð Svarta Sandsins

Eins og fram hefur komið mun ég setja Svartan Sand á netið á laugardaginn. Ég ætla að reyna að vera með daglega pistla meðan ég geri hana tilbúna.

Stuttmyndin Svartur Sandur er að hluta til byggð á eigin reynslu. Það var að minnsta kosti lítið atvik í mínu lífi sem varð grunnurinn. Fyrsta uppkastið var skrifað í febrúar 2006 og handritið var að mestu leyti tilbúið í mars. Ég fór í páskafrí til Íslans og hitti þar aðalleikarann Jóel Sæmundsson. Stuttu seinna fékk Anna Brynja Baldursdóttir aðal kvenhlutverkið vegna fyrri reynslu. Ég hafði aldrei séð hana leika, en hún hafði verið í Stelpunum, svo hún hlaut að vera í lagi.

Myndin er það sem stundum er kallað búningadrama, hún gerist að miklu leyti fyrr á öldum. Hún var tekin upp á Íslandi í ágúst 2006. Upptökustaðir voru meðal annars Skógasafn, Eiríksstaðir (Eiríks Rauða) og Reynisfjara við Vík í Mýrdal. Ýmsir tökustaðir í og við Reykjavík voru líka notaðir, þar á meðal Café Pravda sem brann seinna. Bílaatriðin voru tekin upp á Bláfjallaveginum.

Tónlistin var samin og spiluð af Guy Fletcher, hljómborðsleikara Dire Straits og seinna Mark Knopfler. Hann hefur reynslu af kvikmyndatónlist og mun ég ræða það í seinni pistli.

Myndin var tekin upp á Sony HDV vél sem ég keypti fyrir tveimur árum. Það er því til High Definition (hágæða?) útgáfa af myndinni. Hafi einhver áhuga, látið bara vita. Myndin var svo klippt í Final Cut Pro. Upphaflega klippti ég grófa útgáfu þar sem klipparinn, Johan, er hollenskur og skildi ekki mælt mál. Hann tók svo við og klippti myndina að mestu leyti með hjálp handritsins á ensku. Ég tók svo við myndinni í vor og kláraði dæmið. Ég vildi fínpússa myndina sjálfur þar sem litir og smáatriði skipta miklu máli og hafa meira með leikstjórn en klippingu að gera. Svo voru líka atriði sem voru of löng eða pössuðu ekki og ég þorði að henda þeim, þetta var mín mynd.

Myndin var tilbúin í ágúst 2007, heilu ári eftir upptökur. Ástæðan er einföld, enginn fékk borgað svo fólk gerði þetta þegar tími var aflögu. Þetta var skemmtileg reynsla og ég er þakklátur öllum sem komu að gerð myndarinnar, en ég vona að ég geti borgð fólki næst.

Eins og ég sagði að ofan mun myndin verða sett á netið 1. desember. Þetta verður iPod útgáfa, hún ætti að spilast á öllum tölvum, en hún er gerð fyrir iPod spilara. Fyrirkomulagið verður þannig að fólk getur sótt myndina frítt. Boðið verður upp á að fólk geti lagt í púkkið með PayPal. Þeir sem borga 1200,- eða meira fá sendan DVD disk. Þeir sem borga minna eiga þakklæti mitt allt. Ég vil reyna að ná einverju af fjárfestingunni til baka og ef vel gengur, borga fólkinu sem hjálpaði til.

Ég vona að þeir sem lesa þetta komi aftur og nái í myndina. Ef þið eruð bloggarar, endilega látið ykkar lesendur vita. 


Oft ég Svarta Sandinn leit...

Bara svo þið vitið það, 1. desember, eftir rétta viku, verður hægt að ná í stuttmynina Svartan Sand hér á vga.blog.is. Þetta verður eini staðurinn, fyrst um sinn, þar sem hægt verður að nálgast hana, Moggiebloggie exclusive, eða eitthvað svoleiðis. Hmmm... spurning með að fá Moggann til að öskra á þjóðina.

Látið mig enilega vita hvort þið hafið hugsað ykkur að ná í hana eða ekki.


Paul McCartney segir sóðabrandara

Góður þessi. Paul gerir grín þrátt fyrir erfiða tíma. Kannski þess vegna sem þetta er svona ljótur brandari.

Annars hef ég verið að hlusta á nýju plötuna, Memory Almost Full, og verð að segja að hún er virkilega góð. Þegar maður setur einn besta lagahöfund allra tíma í klípu er ekki að því að spyrja. George er dáinn, John er dáinn, Linda dó eftir þrjátíu ára hjónaband. Hann giftist aftur en það fór á versta veg. Sennilega með það í huga samdi hann eitt besta lag sitt frá upphafi, House of Wax (hlustið í spilaranum hér til hliðar). Hann er að eldast og veit af því, eins og kemur fram í The End of the End. Tíminn hefur hlaupið frá honum og allt sem eftir er eru myndir (That Was Me). Svo er auðvitað sama hvað hann gerir, allt er borið saman við Bítlana (My Ever Present Past).

Ég hef lítið fylgst með honum undanfarin ár. Að vísu fór ég á hljómleika með honum fyrir 3-4 árum og kom hann virkilega á óvart. Ég hafði búist við hálf hallærislegum og jafnvel væmnum hljómleikum, en það var alls ekki. Hann gerði betur en flestir, ef ekki allir, sem ég hef séð og ég hef séð marga. Þar á meðal flesta gömlu rokkarana sem enn eru að.

Af 13 lögum á diskinum líkar mér ekkert sérstaklega við tvö. Þá eru 11 góð lög eftir, 4-5 sem eru meðal þess besta sem hann hefur gert. Þessi diskur er hverrar krónu virði.

Ég legg það ekki í vana minn að skrifa plötudóma og ég hef aldrei sett lag í spilarann á Moggablogginu, en þessi diskur kom mér svo á óvart að ég varð að segja frá því. Svo varð ég að koma brandaranum að. 


Kvikmyndalandið Ísland?

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í dag, Sunnudag 26 ágúst. Ég hef ákveðið að henda henni hér inn svo fólk geti rætt innihaldið. Það væri gaman að heyra hvað fólki finnst. Það fylgdi að vísu ekki slóð með greininni, en við sjáum til.

Íslenska kvikmyndavorið hófst árið 1980 með gerð myndarinnar Land og Synir. Upp að því hafði verið lítið um innlenda kvikmyndagerð. Átta myndir voru framleiddar á Íslandi frá 1949 til 1977. Fimmtán ár liðu á milli 79 af Stöðinni (1962) og Morðsögu (1977)[1]. Árin á eftir voru að meðaltali gerðar tvær til þrjár kvikmyndir á ári, þó að oft hafi þær ekki verið nema ein. Þó að eitthvað hafi framleiðslan aukist frá aldamótum koma enn í dag u.þ.b. þrjár til fjórar kvikmyndir út á ári.

Á vef Kvikmyndamiðstöðvarinnar má lesa að ekki færri en fjórar kvikmyndir verði framleiddar ár hvert. Þar stendur einnig. "Aðilar eru sammála um að miða við að meðalframleiðslukostnaður kvikmynda verði í lok samningstímans 210 milljónir króna."[2] Þar er átt við árið 2010. Aðilarnir sem átt er við eru menntamálaráðherra, fjármálaráðherra og samtök í íslenskri kvikmyndagerð. Ég er viss um að þessir aðilar vita hvað þeir eru að tala um og vil ég alls ekki draga það sem sagt er í efa. Spurningin er hins vegar, þarf þetta að kosta svona mikið og eru fjórar kvikmyndir á ári nóg?

210 milljónir er ekki mikið fyrir kvikmynd. Þetta er klink ef miðað er við Hollywood. Sé myndin tekin upp á hágæða (high-definition) video í staðinn fyrir filmu og þurfi hún ekki flóknar leikmyndir má sennilega taka upp kvikmynd í fullri lengd fyrir vel innan við 10 milljónir. Hvað þarf til?

Upptökuvél sem tekur upp HDV 1080i kostar um 500.000 krónur. Það er sama upplausn og var notuð við tökur nýju Star Wars myndanna. SinCity var einnig tekin upp með sömu tækni.[3]

Klipping færi fram í tölvu. Tölva með skjá í HD upplausn og forritin sem til þarf kostar um hálfa milljón. Þá er allt komið sem þarf til að taka upp og klippa bíómynd fyrir innan við milljón. Þetta er auðvitað hægt að nota við gerð margra kvikmynda. Þetta er startgjaldið.

Segjum að tökur stæðu yfir í fjórar til sex vikur. Tíu leikarar taka þátt, hver fær 150.000 fyrir ómakið. Þetta er jú "low-budget" mynd og sennilega ekki um fullan vinnutíma að ræða. Það er 1,5 milljónir. Leikstjóri, hljóð, kvikmyndataka, skrifta, bílstjórar, bílar, matur. Milljón? Gott handrit er undirstaða góðrar myndar, svo höfundur fær milljón. Klipping og önnur eftirvinnsla tekur mánuð, kannski tvo, ef vel er að staðið. Fimmhundruðþúsund. Setjum milljón í púkkið fyrir bensíni, spólum, bókhaldi og öðru tilfallandi.

Þessi mynd kæmi því til með að kosta fimm milljónir, gróft reiknað. Er þetta bjartsýni eða er þetta hægt? Væri ekki gaman ef til væri sjóður sem styddi eina mynd í mánuði? Það væru tólf nýjar íslenskar kvikmyndir á ári, fyrir utan stóru myndirnar. En hvaðan kæmu þessar 60 milljónir?

Hvað kostar að fara í bíó á Íslandi? Þúsundkall? Það þyrftu því aðeins 5000 manns að sjá hverja kvikmynd í bíó. 10.000 ef maður reiknar vask, kostnað kvikmyndahúss og allt það. Þetta er slatti af bíóferðum, en íslendingar eru duglegir við það. Svo er sjónvarp og DVD. Ef fyrirtæki styrktu gerð myndarinnar til að byrja með, er þá ekki um að gera að nota hana sem auglýsingu og hreinlega gefa hana á DVD? Það væri auðvitað auglýsing á diskinum þegar hann er settur í spilarann. Það væri auglýsing á hulstrinu. Kannski yrði diskurinn ekki gefinn einn og sér heldur með pylsupakka, gosdrykkjum eða hvað það er sem styrktaraðilinn er að selja. Gefur þetta ekki líka skattaafslátt?

Sé farið eftir þessu kerfi má gera ráð fyrir að hver mynd verði ekki lengi á markaði. Þar kemur einstaklingurinn inn. Ef hægt er að treysta því að ný mynd komi út mánaðarlega er hægt að selja áskrift. Fyrir 500 kr. á mánuði færðu alltaf nýjasta diskinn sendan heim og nafnið þitt á skjáinn í lok myndarinnar. Segjum að eitt prósent þjóðarinnar gerist áskrifendur, þá erum við að tala um 3000 manns, 1,5 milljónir á mánuði. Áskriftin gæti kostað meira, en við höfum áhuga á að sem flestir sjái myndirnar, ekki að þetta verði gróðafyrirtæki.

Hver á að setja svona sjóð á laggirnar? Mér finnst að kvikmyndagerðarfólkið sjálft eigi að eiga fordæmi um þetta. Þekktir og óþekktir listamanna myndu vinna við myndirnar. Þannig fengju þær athygli til að byrja með. Það yrði svo verk listafólksins að nógu góðar framleiða myndir til að halda áhuga fólks vakandi. Það er engin ástæða til annars en að gæðastaðallinn haldist. Á Íslandi koma árlega út vel yfir 1000 skáldsögur. Tólf handrit ættu ekki að vefjast fyrir þjóðinni.

Það verða alltaf til sögur sem þurfa meira. Það er ekki hægt að gera stórmyndir fyrir fimm milljónir. Það er hins vegar hægt að gera virkilega góðar myndir fyrir lítið. Þetta kæmi ekki í staðinn fyrir "alvöru" bíómyndir, teknar upp á filmu á stórum sviðsmyndum með toppfólki í hverri stöðu, frekar en að pylsa komi í staðinn fyrir steik. Þetta er eitthvað sem getur hjálpað hæfileikafólki við að komast af stað svo það geti gert stórmyndir í framtíðinni.

Vorið er búið. Það er komið sumar.


Heimildir:
1. http://is.wikipedia.org/wiki/Listi_yfir_%C3%ADslenskar_kvikmyndir
2. http://www.kvikmyndamidstod.is/log-og-reglugerd/
3. http://en.wikipedia.org/wiki/CineAlta


Öræfi

MöðrudalsöræfiVað að grafa í gömlum hirslum og fann þetta. Á sínum tíma fannst mér þetta frekar misheppnuð mynd, en þetta var fyrir tíma digital myndavéla. Spurning hvort henni hefði verið hent annars. Þetta er núna ein af uppáhaldsmyndunum mínum.

Það sýnir sig því, ekki henda myndunum sem þér finnst ekkert spes. Það eru þær sem er gaman af seinna meir... eða þannig. 

 


Svartur Sandur, fyrstu þrjár mínúturnar

Í tilefni þess a það er 7.7.7. í dag, að fólk er að hugsa um umhverfismál og að Svartur Sandur er tilbúinn...

The sýnishorn. Þetta er ekki trailer, sem slíkur, heldur fyrstu þrjár minúturnar af myndinni.

Njótið!



Um Land, Þjóð, Fána og Þjóðsöng

Spaugstofan grínaðist með þjóðsönginn og virðist þar með hafa opnað box Pandoru. Margir eru móðgaðir yfir þessu "virðingarleysi". Það eru jú lög sem kveða á um að ekki megi flytja hann í breyttri mynd. En hvað er þjóðsöngur og hvert er hlutverk hans?

ReykjanesÞað er engin spurning að af hinni þjóðlegu þrenningu, landinu, fánanum og söngnum er landið dýrmætast. Án landsins er fáninn og söngurinn einskis virði.

Þjóðsöngurinn á að fjalla um landið, hversu dásamlegt það er og okkur dýrmætt. Þjóðsöngurinn okkar fjallar hins vegar um Guð meira en hvað annað. Kristin trú er þjóðtrúin og nenni ég því ekki að kvarta um það. Að söngurinn sé torsunginn hafa aðrir skrifað um. Það er sennilega rétt. Allavega kann ég hann ekki og gæti sennilega ekki sungið hann þó svo væri. Ekki að ég hefði neinn sérstakan áhuga, því ef ég hugsa um landið mitt vil ég ekki endilega blanda Guði eða trú inn í það. Ísland, landið sjálft, er það dýrmætasta sem íslenska þjóðin á og landið á skilið alla þá virðingu og ást sem við getum gefið. Landið er okkar, landið ar þeirra sem á undan lifðu og landið er þeirra sem á eftir koma. Það er merkilegt að sjá fólk sem styður stórvægilegar skemmdir á landinu, óafturkræfar skemmdir, móðgast þegar þjóðsöngurinn er notaður til að verja landið. Þjóðsöngurinn ætti að vea eign allra landsmanna, sameiningartákn. Ef að gerð er þungarokksútgáfa er það betra en núverandi ástand þar sem flestum er nokkuð sama um þetta "kórlag".

Fáninn er líka svolítið skemmtilegt fyrirbæri. Hann er kross, tákn trúarinnar, en litirnir tákna eld, ís og haf. Það sem mér finnst hvað merkilegast hér er að fáninn má ekki snerta jörðina, jörðina sem hann er tákn fyrir. Það er sennilega ástæða fyrir því, en ég get ekki ímyndað mér hver hún er.

Þjóðin sem býr í landinu hefur rétt á að nýta það, njóta þess og elska. Þjóðin hefur ekki rétt til að þurrmjólka það svo að ekkert standi eftir fyrir komandi kynslóðir.

Það að standa vörð um fánann og þjóðsönginn en eyðileggja landið er hræsni. Á sennilega mikið sameiginlegt með fólki sem ver kirkjuna en gengur þvert á það sem trúin boðar. Þjóðsöngvar og fánar eru tákn fyrir landið, rétt eins og kirkjur og krossar eru tákn trúarinnar. Okkur væri hollast að bera virðingu fyrir því sem virkilega skiptir máli, landinu sjálfu og þjóðinni. Þá kemur virðing fyrir öðrum hlutum af sjálfu sér.


mbl.is Spaugstofumenn brutu lög um þjóðsönginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver vill sjá myndina?

Eins og bloggvinum og öðrum er sennilega ljóst, er stuttmyndin Svartur Sandur um það bil tilbúin. Við erum ennþá að laga og bæta, en þetta eru smáhlutir sem pússast af með fínum sandpappír. Það eru ennþá smá vandamál með hljóð sem verða leyst í vikunni, örfáir staðir þar sem klippingin hefði mátt vera pínulítið öðruvísi.

Nú er spurningin einfaldlega, er eitthvað varið í ræmuna? Er þetta frábær mynd sem mun umbylta íslenskri kvikmyndagerð eða er þetta della, tímasóun fyrir alla sem komu að þessu? Hvorugt sennilega, en hvar á skalanum er hún? Ég get ekki dæmt um það. Ég samdi handritið, framleiddi og leikstýrði, hélt yfirleitt á kamerunni. Ég er svo samdauna myndinni að ég hef enga hugmynd um hvað fólki mun finnast um hana. Þannig að...

Ég var að spá í að fá vel valið fólk, sem þekkir mig og minn hugsanahátt sama og ekkert, til að horfa á myndina þegar hún er tilbúin. Hún er gerð á Íslandi, fyrir íslendinga. Ég hef hins vegar engan aðgang að íslendingum í mínu daglega lífi. Þessi síða er því staðurinn til að finna fólk sem maður þekkir lítið sem ekkert.  Ef lesendur þessa bloggs vilja sjá myndina þegar þar að kemur, eftir 1-2 vikur, er um að gera að láta mig vita. Þetta er auðvitað endurgjaldslaust, en fólk verður að skrifa mér og segja mér hvað því fannst um myndina. Var hún vel gerð eða amatörsleg, spennandi eða leiðinleg, auðskiljanleg eða óskiljanleg? Skildi hún eitthvað eftir sig og þá hvað? Hvað hefði mátt vera öðruvísi? Það er sem sagt hægt að sjá myndina endurgjaldslaust, en það þarf að vinna fyrir því.

Látið mig endilega vita á info@oktoberfilms.com ef áhugi er fyrir hendi. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband