Færsluflokkur: Menning og listir

SVARTUR SANDUR

Nú fer alveg að koma að því, myndin, sem hefur bara verið kölluð myndin fram að þessu, er svo gott sem tilbúin. Ég var að koma frá klipparanum þar sem við horfðum á hana og töluðum um hvað þarf enn að gerast.

Það þarf enn að leiðrétta örfá klippimistök og fínpússa hér og þar. Það þarf að velja stafagerð svo að allir titlar líti rétt út og leiðrétta pínulítið, þar sem ég virðist ekki geta pikkað án þess að pota í vitlausan takka. Mitt eigið nafn var meira að segja vitlaust stafað. Svo þarf ég að þýða myndina á hollensku og gera íslenska, enska og hollenska textann tilbúinn fyrir prufudiskinn. Við gerum ráð fyrir að þessi vinna verði búin í vikunni og að við getum gert prufudiska eftir viku.

Það sem gerist næst er að við sýnum völdu fólki myndina og heyrum hvað það hefur um hana að segja. Ef það sér mistök verða þau leiðrétt. Ef eitthvað er einstaklega hallærislegt verður það lagað ef hægt er en látið standa ef ekki.

Hvað finnst fólki svo um nafnið sem ég er loksins búinn að finna? SVARTUR SANDUR eða BLACK SAND eins og hún verður kölluð í erlandi? 

Svo er bara spurningin, hvar á maður að sýna hana fyrst? 


Focus

Í tilefni jólanna hef ég ákveðið að setja inn myndband sem ég gerði fyrir hollenska söngkonu í fyrrahaust. Þetta gerðist svona...

Ég fór á tónleika sem voru kallaðir Live in the Living af því að hljómsveitir komu fram í stofu heima hjá fólki. Ein þeirra sem komu fram var Marike Jager. Röddin var heillandi og ég ákvað að ég yrði að gera eitthvað með henni. Það sem ég er siðvandur maður bauðst ég til að gera myndband við lag af þá óútkominni plötu hennar. Það var slegið til og ég fór að hugsa um hvað myndbandið skyldi vera.

Sagan var samin og við komum okkur saman um tökustaði og daga. Stór hluti var tekinn upp í sandöldum í Soest í mið-Hollandi. Café hlutinn og götuatriðið var svo tekið upp í Amsterdam. Við notuðum líka myndver með bláum vegg til að taka upp sum atriðin, eins og þar sem hún er tvisvar í mynd.

Myndbandið var svo klippt og litað af mér. Ójá, ég lærði tvennt af þessu verkefni. Ekki gera allt sjálfur án þess að biðja nokkrn mann (eða konu) um hjálp (þó að erfitt sé að fara eftir því) og hitt var...

Látið svo endilega vita hvað ykkur finnst. Og til þeirra sem ekki lásu síðustu færslu, Gleðileg Jól!


Stuttmynd - Fyrsta sýnishornið

Þetta var fyrsta sýnishornið sem ég setti á netið. Þetta átti ekki að verða neitt, ég var að vinna við að klippa draum sem átti að vera í myndinni. Ég ákvað svo að setja þetta á heimasíðuna svo að samstarfsaðilar gætu séð hvað ég væri að gera. Síðan hefur komið í ljós að sumum finnst þetta flottara en seinna hornið, sem kom reyndar fyrst inn á bloggsíðuna. Sýnir bara hvað maður getur haft litla tilfinningu fyrir eigin verkum.

Það er einmitt þess vegna sem að ég hef látið annan klippara hafa myndina. Best að fá óháðan aðila til að klára dæmið. Nú er ég að bíða eftir tónlistinni og þá er hægt að klára dæmið. Við erum sem sagt að komast á endasprettinn. Ég læt vita þegar nær dregur. 

PS. Eftir að hafa horft á hornið hér á síðunni verð ég að segja að gæðin eru ekki yfirdrifin. Ég reyni að laga það, en læt þetta þó standa þangað til. 


Fyndnasti bloggarinn er...

Fyrir einhverjum mánuðum síðan bað ég fólk að tilnefna fyndnasta bloggarann á Blog.is. Það er augljóst að það eru ekki margir fyndnir pennar hér, þar sem aðeins var stungið upp á þremur. Nema að bloggið mitt sé bara ekki vinsælla en svo að enginn hafi séð þessa færslu og þar af leiðandi ekki vitað af þessari samkeppni. Verum ekkert ap velta okkur upp úr því. Sannleikurinn getur verið pínlegur.

Það komust sem sagt þrír bloggarar í úrslit. Hægt er að kjósa hér til hliðar. Endilega potið í hlekkina hér að neðan og kynnið ykkur málið

gemsaEva Kamilla Einarsdóttir

Beitt og skemmtilegt sjálfsháð sem fáir leika eftir. (Galdrmeistarinn)

 

gunnar_eysteinssonGunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson er nátturlega bara algjör snilld... (Petra)

 

090106_asnar_033_62210Gerður Rósa Gunnarsdóttir

...hún hefur sérlega skemmtilega sýn á hversdagsleikann. (Vala)

 

Svo má koma með athugasemdir þar sem stungið er upp á hvað skal vera í vinning. Ég náði ekki að hugsa dæmið svo langt. 


Að texta mynd...

...sökkar. Þvílíkt starf. Allavega, ég skulda ykkur ekki kvikmyndablogg, svo hér er það.

Anna Brynja í bílÉg var frekar upptekinn í gærkvöldi, var að klippa til fjegur um morguninn. Það var fluga í hausum á mér sem hætti ekki að suða. Klára röffköttið fyrir miðvikudaginn. Þá er hægt að texta og koma þessu frá sér. Ég kláraði sem sagt að búta saman myndinni og horfði á hana frá upphafi til enda í fyrsta sinn. Þetta var mikil stund, vegna þess að þarna var ég að sjá sköpunarverkið mitt í fyrsta skipti og af því myndin er svo löng. Mér er talin trú um að mynd er stuttmynd svo lengi sem hún nær ekki klukkutímanum. Þessi er 37 mínútur. Það er 1/3 af bíómynd. Spáið í það. Það held ég að maður sé léttskrítinn að fara út í svona dæmi.

Það var skrítin tilfinning að sjá myndina frá upphafi til enda. Ég var ekkert alveg viss um að þetta væri að virka. Þá minnti ég mig á að það á eftir að fínpússa klippinguna, laga liti og hljóð og semja tónlist. Þetta er ekki tilbúið. Í dag fór ég í að prufa liti og lagaði klippinguna til. Þetta er bara að virka, svei mér þá. Ég hef trú á þessu. Ójá.

Það skemmtilega var að leikaranir (here I go again) voru að skila sínu. Ég horfði upp á persónurnar falla í gryfjurnar sem ég hafði skrifað og hugsaði með mér, ekki gera þetta. Farðu varlega. Það verður gaman að sjá hvað öðrum finnst um þetta allt saman.

En af hverju er ég að texta þetta? Það er nebbla þannig að tónskáldið er enskt og skilur ekki baun í íslensku. Ég þarf því að texta alla myndina áður en ég set hana á DVD og sendi hana til hans. Það er voðaleg vinna. Svo mikil vinna að ég hlýt að vera fífl að vera að taka mér pásu til að pikka þetta blogg. Það er eins og sé ekkert líf nema maður hafi lyklaborðið undir nefinu.

Allavega, ég er spenntur. Svo spenntur að nú hætti ég þessu svo ég geti farið að texta svo ég geti sent diskinn svo ég geti heyrt hvers konar tónlist myndin fær heimsfrægan tónlistarmann til að semja. Ojá, hann er heimsfrægur. Ég er viss um að flestir íslendingar, flestir vesturlandabúar reyndar, undir fimmtugu eigi plötu sem hann spilar á.

Gleymið svo ekki að tilnefna fyndnasta bloggarann hér! 


SAMKEPPNI!!! - Fyndnasti bloggari á blog.is

Innflytjendur. Rasismi. Það er orðið svo þungt yfir öllu, eins og svart ský eftir pælingar liðinna daga. Það er eins og þjóðin sé komin í heilagt borgarastríð. Spurning með að koma með létta keppni til að létta lund í hinu meinta skammdegi sem virðist vera að leggjast yfir.

Spurningin er, hver er fyndnasti bloggarinn á blog.is?

Reglurnar eru einfaldar. Setjið inn athugasemdir hér fyrir neðan þar sem þið útnefnið þann bloggara sem fær ykkur til að hlægja. Það má útnefna fleiri en einn, þið getið jafnvel útnefnt ykkur sjálf. Eftir viku set ég svo upp skoðanakönnun hér til vinstri þar sem kosið verður.

Nú er bara að vona að undirtektirnar verði nógu góðar til að keppnin verði spennandi. 


Stuttmynd - Sýnishorn tvö

Ég var að klára að setja saman nýtt sýnishorn. Eins og síðast er þetta ekki kynningarmyndband (trailer), þar sem myndin er ekki komin það langt í vinnslu. Tónlistina gerði ég sjálfur, þar sem eiginleg tónlist myndarinnar er ekki tilbúin. Þetta er meira til að gefa fólkinu sem hjalpaði til möguleika á að sjá hvað er að gerast.

Myndbandið hér á blogginu er í venjulegru vef upplausn, 320x240 pixlar, en hægt er að nálgast iPod útgáfu í hærri upplausn á Oktober Films heimasíðunni.

Látið svo endilega vita hvað ykkur finnst og hvort það sé góð hugmynd að setja myndbönd beint inn í færslu eins og hér er gert.

 


Íslenskar Stuttmyndir

Það vita sennilega flestir lesendur bloggsins að ég er að vinna við að gera stuttmynd. Eftirvinnsla er í fullum gangi og þetta lítur vel út. Það er því augljóst að ég hef áhuga á stuttmyndum. Það vita færri að ég lærði fjölmiðlun á árum áður og sú veira verður seint drepin. Bætum svo við að RÚV er að fara að setja mikið meiri pening í kaup á íslensku efni, og við gætum farið að sjá markað fyrir íslenskar stuttmyndir. Því var mér að detta svolítið í hug.

Erum við að fara að upplifa annað íslenskt kvikmyndavor? Kannski meira tengt sjónvarpsefni? Það er fullt af þekkingu á Íslandi. Margir sem vilja búa til kvikmyndir, en einhvers staðar þarf að byrja. Er ekki um að gera að gefa íslenskum stuttmyndum þá athygli sem þeim ber?

íslensk vefsíða sem fjallar um íslenskar stuttmyndir á að vera til.  Einn staður þar sem fólk getur komið og lesið um myndir, leikara, leikstjóra, hvað er á döfinni, hvað er hægt að sjá og hvar. Það væri jafnvel hægt að horfa á myndir á síðunni, allavega kynningarmyndir svo að fólk geti ákveðið hvað það vill sjá. Þetta getur svo undið upp á sig og orðið DVD útgáfa, þar sem samansafn bestu íslensku stuttmyndanna er hægt að kaupa.

Annað sem ég myndi vilja gera er að gefa út einhverskonar tímarit, sennilega á þriggja mánaða fresti, þar sem talað er við fólk og sagt frá því helsta sem er í gangi. Þetta yrði sennilega gefið út sem PDF skrá sem hægt væri að sækja og prenta út ef fólk vill.

businesscardbackÞetta eru stórar hugmyndir og munu kosta mig mikinn tíma, en ef áhugi er fyrir hendi getur þetta orðið mjög skemmtilegt og þess virði. Það veltur allt á því hvað maður hefur úr miklu efni að moða. Ég vil því biðja fólk að hafa samband ef það hefur eitthvað að segja. Einnig væri það vel þegið ef þú, lesandi góður, segðir vinum og kunningjum sem eru í kvikmyndahugleiðingum frá þessari hugmynd.

Ég er búinn að skrá netfang fyrir þessa síðu, Stuttmyndir.com, svo nú er bara að koma dæminu af stað. 


Saga Myndarinnar - þriðji bútur

Tökum er því sem næst lokið. Við tókum upp atriði við Elliðavatn á sunnudag og á þriðjudag á Skógum og í Reynisfjöru milli Dyrhólaeyjar og Reynisdranga. Þá kom langþráð frí sem ég notaði til að sýna hollendingunum í hópnum Þingvelli, Gullfoss og Geysi. Nú eru allir farnir nema ég. Það á eftir að taka upp tvö atriði, en þau eru mjög einföld og ég fer einn með Jóel á morgun, sunnudag, og klára þau. Þá er tökum lokið og kominn tími á eftirvinnsluna.

Ég flýg aftur til Hollands á föstudag og fer beint í að koma myndinni inn í tölvu og gera hana tilbúna til klippingar. Þetta verður töluverð vinna, við tókum upp 10 klukkutíma af efni sem verður svo klippt niður í hálftíma. Allavega geri ég ráð fyrir að þetta verði hálftími. Ég ætla bara að láta það ráðast. Ef að myndin virkar sem 20 mínútur verður hún það. Ef hún þarf að vera 45 mínútur, lengi ég hana. Þetta fer bara eftir sögunni. Mér finnst mikilvægara að hún komist til skila og að maður leyfi henna að ráða þessu en að ákveða lengdina fyrir fram.

Ég verð að segja að þetta er allt að fara fram úr björtustu vonum. Leikararnir gáfu sig alla fram og allir sem komu að myndinni stóðu sig frábærlega. Ég er að endurtaka mig, en það er bara svona. Það er svo gaman að sjá fólk taka þetta verkefni svona alvarlega. Ég var búinn að vinna við handritsskrif og undirbúning í einhverja mánuði áður en ég kom til landsins og það var gaman að sjá að fólk var að gefa allt sitt í þetta. Fólki virtist þykja vænt um þetta verkefni og mér þykir vænt um það.

Ég á líka eftir að þakka fólki sem hjálpaði til við gerð myndarinnar á annan hátt, en það kemur seinna. 

Framhaldið er sem sagt eftirvinnsla. Ég geri ráð fyrir að vera kominn með gróft klippta útgáfu eftir mánuð (ég verð ennþá að vinna fullt starf út september) og þá fer tónlistin í gang. Hún verður samin af Henk Hofstede, reyndum manni og þekktum í Hollandi. Það þarf svo að fínklippa, leika sér með liti, skoða hvort þarf að lagfæra eitthvað, gera texta á einhverjum tungumálum þar sem hún var tekin upp á íslensku og gera DVD. Þá er komið að dreyfingu. Ég geri ráð fyrir að myndin verði tilbúin til sýninga seint á árinu. Það er bara vonandi að einhver taki þá að sér að sýna þetta. Ég hef ekki miklar áhyggjur, því ef klipping og tónlist tekst eins vel og tökurnar verður þetta mynd sem hægt er að vera stoltur af. Það er einhver markaður fyrir svona myndir erlendis, en ég vona að hún fái einhvern stuðning hér heima líka.

Þetta er sem sagt búið að ganga mjög vel og ég hlakka til að sjá hvað verður úr þessu. 


Sagan um Myndina - annar bútur

Eftir tökurnar á Eiríksstöðum var kominn tími á kirkjugarðinn. Jóel rakaði sig, en skildi eftir smá mottu. Leikararnir sáu sjálf um búningana, fyrir utan loðkápu sem ég fékk lánaða. Minkurinn var keyptur í London árið 1967 fyrir langömmu og hefur ekki verið notaður í meira en tuttugu ár. Þetta var allt annað tímabil svo að allt varð að vera öðruvísi. Ekki bara fötin, heldur staðurinn, farðinn og persónurnar. Sonja leysti sitt verk af hólmi með stæl eins og fyrri daginn og leikararnir voru í topp formi.

Mánudagurinn átti að fara í tökur í Vík, en þeim var frestað fram í næstu viku. Við vorum ekki komin með búningana á hreint og frekar en að kasta til hendinni var ákveðið að taka þau atriði upp seinna. Fyrstu tökudagarnir heppnuðust það vel að restin mátti ekki verða síðri.

Hollendingarnir þrír komu til landsins á þriðjudag. Eins gott, því það var komið að erfiðasta hluta myndatökunnar. Töluvert af myndinni gerist í bíl og eins og allir sem hafa gert kvikmyndir vita, er það flókið mál. Kiddi reddaði tækjabúnaði til að festa myndavélina á bílinn. Við vorum komin upp á Bláfjallaveg á miðvikudagsmorgun með gamla Sunnyinn sem ég keypti um daginn og Toyota Avensis sem Helena frænka leyfði okkur að nota í tvo daga. Þetta var erfiður dagur, en allt gekk vel. Veðrið var ekki gott, glampandi sól, en rigning hefði verið verri svo maður var ekkert að kvarta.

Fimmtudagurinn var erfiðasti dagurinn. Við þurftum að sviðsetja umferðarslys án þess að skemma bíla og slasa fólk. Hvert atriði var skoðað og hvert skot ákveðið kvöldið áður. Þetta gekk allt vel, en reyndi mikið á Önnu Brynju. Hún þurfti að standa á miðjum vegi með bíl keyrandi að sér. Hún þurfti að henda sér aftur á bak eins og hún hefði lent fyrir bíl og svo fylltum við nefið á henni af gerviblóði. Þetta allt ofan á farða sem tók tvo tíma að fullkomna. Ég var dauðþreyttur eftir daginn, en ég er viss um að dagurinn tók mest á hana. Það er ekki spurning að ég er með topp leikkonu í þessari mynd.

Föstudagurinn átti að vera einfaldur, fara á skemmtistað og taka upp eitt atriði, en það gekk ekki eins ljúft fyrir sig og ætlunin var. Það var einhver misskilningur í gangi þar sem eigandinn hélt við yrðum kannski hálftíma að klára þetta. Þegar vélin og ljósin voru komin upp og leikararnir klárir þurftum við að fara. Jóel reddaði okkur inn á Pravda og við tókum atriðið upp þar. Þetta gekk sem sagt allt upp, en tók mikið meiri tíma en ég hafði ætlað.

Á laugardag verður svo farið í bíltúr til að finna tökustað fyrir tvö atriði og svo er það suðurlandið í næstu viku. Ég er að vona að tökum ljúki svo í lok næstu viku.

Þetta er stuttmynd, en það er ekki hægt að segja að hún sé einföld í gerð. Við erum búin að vera að taka upp í viku og erum hálfnuð. Erfiðustu atriðin eru búin og eftir að hafa horft á það sem þegar er komið er ég viss um að útkoman verður glæsileg. Það er orðinn daglegur ávani að dásama fólkið sem ég er að vinna með, en það er bara góð ástæða fyrir því. Ég get ekki ímyndað mér betri hóp til að vinna með. Þetta verkefni byrjaði sem einföld hugmynd en er nú orðin stærri en ég hefði þorað að plana. Það vafðist upp á þetta og ég er núna að sjá hvað þetta er orðið stórt. Það er sennilega gott að ég sá það ekki fyrr, því ég er ekki viss um að ég hefði lagt í þetta.

Meira seinna... 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband