Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

1/250.000.000

Þessi þjófnaður er einn á móti tvöhundruðogfimmtíu milljónum Icesave skuldarinnar á gjalddaga. Ef Bjöggarnir yrðu dæmdir eins, yrðu þeir dæmdir í skilorðsbundið fangelsi í 7.5 milljarða daga. Það eru rúmlega 25.000 ár.

Einhverjar líkur á því? 


mbl.is Stal vodkafleyg og einum bjór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósin...

Hækkum skatta sem munu hækka framfærsluvísitöluna sem hækkar verðbólgu sem smyr á hjól verðtryggingarinnar sem er að setja fólk á hausinn og flæma úr landi.

Skjaldborg um heimilin?

Eins og þeir sögðu í den. Sá sem síðastur fer, vinsamlega slökkvið ljósin. 


mbl.is Boðar auknar álögur á áfengi og tóbak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennitöluflakk bankanna

Ég ætla ekki að verja ákvarðanir þessarar fjölskyldu. Persónulega hefði ég ekki þorað að vera með þrjár eignir, jafnvel í góðæri. En það breytir því ekki að kerfið á Íslandi er alveg sérstaklega fjandsamlegt fólkinu í landinu. Þar virðist ekkert ætla að breytast.

Bankinn samþykkir að lána og tekur veð í eigninni. Þegar lántakandi getur ekki borgað, er veðið ekki nóg, heldur ákveður bankinn hvers virði veðið er og skellir restinni á lántakanda. Neitar svo að semja, vill ekki leysa málið. Þrátt fyrir hina meintu skjaldborg vinstri stjórnarinnar. Vinstri er yfirleitt fyrir launþegana, þótt raunveruleikinn hafi kannski yfirleitt sannað annað.

Fjölskylda tekur lán og byrjar að borga af því. Tveimur árum síðar hefur höfuðstóll skuldarinnar hækkað, þrátt fyrir að greitt hafi verið af láninu. Við erum ekki að tala um vexti, heldur lánið sjálft. Þetta kallast verðtrygging og er eins óréttlát og mögulegt er. Þetta þekkist ekki annars staðar.

Í þriðja lagi, og ég viðurkenni að ég hef ekki hugsað þetta til enda. Fólk sem vit hefur á þessu má endilega gera athugasemdir. Þau tóku sennilega lán hjá banka sem er kominn í gjaldþrot. Hvernig getur nýi bankinn rukkað og farið út í eignarnám þegar hann hafði ekkert með upphaflega lánið að gera? Keypti hann gömlu útlánin? Er það löglegt? Munu erlendir kröfuhafar i gömlu bankana samþykkja það? Ef ég kaupi á reikning í búð og hún fer í þrot, getur sami eigandi haldið áfram að rukka mig á annarri kennitölu meðan gamla búðin er gerð upp? Myndu bankarnir sem eiga kröfu í þrotabú fyrri búðarinnar samþykkja kennitölubrask eigandans? 


mbl.is Fjölskylda á hringekjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland - Tilraunin sem mistókst

Vér mótmælum allir. 1918. 1944. Fallegar minningar þjóðar sem taldi sig geta staðið á eigin fótum í hörðum heimi. Danir höfðu kúgað okkur í aldir, kirkjan og kóngur höfðu haft okkur að fíflum, en sjálfstæð yrðum við eigin herrar í eigin landi. Við myndum byggja ríki sem aðrir öfunduðu okkur af.

Það hefði ekki átt að vera svo erfitt. Íslendingar eru harðduglegir, heiðarlegir, gestrisnir. Voru það allavega einhvern tíma. Hvenær það breyttist veit ég ekki.

Íslandssagan er ekki beysin. Við dunduðum okkur við að drepa hvert annað, gengum noregskonungi á hönd þegar útséð var að við gætum ekki séð um okkar mál sjálf, þræluðum fyrir kaþólsku kirkjuna, svo fyrir danakonunga. Vorum sjálfum okkar verst og vorum dugleg við að framfylgja furðulegum duttlungum og dómum erlendu herranna. Þegar við loksins fengum að ráða okkur sjálf, tóku við höft og skattpíning. Innflutningshöft, gjaldeyrishöft. Ofurskattar á áfengi því alþingismenn vildu hafa vit fyrir alþýðupakkinu. Óðaverðbólga hefur verið landlæg svo lengi sem elstu menn muna. Nema síðustu 15 ár, en þá var sukkað svo hroðalega að það mun taka okkur 2-3 sinnum þann tíma að jafna okkur. Þegar ég útskýrði verðtryggingu fyrir hollenskum vini í gær, datt hann næstum af stólnum. Hann hafði aldrei heyrt af eins frábæru kerfi fyrir bankana. Og hann vinnur í fjármálageiranum.

Það er rétt sem við sögðum fyrir hrun. Útlendingarnir skilja okkur ekki. 

Nú er sagan búin. Við klúðruðum sjálfstæðinu, erum komin á hausinn vegna óstjórnlegrar eyðslu og sofandaháttar. Ísland var sjálfstætt í nokkra áratugi. Við réðum ekki við það. Nú er um að gera að ganga nýjum konungi á hönd. Það rignir hvort eð er alltaf á 17. júní.


mbl.is Aukafundur EFTA ef Ísland sækir um aðild
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirspurn til meðlima VG

Fyrir kosningar söng VG um sjálfstætt Ísland. Ekkert ESB, enga evru, ekkert Icesave, burt með IMF, auðlindinrnar skilyrðislaust í íslenskum höndum, glæfrafólkið sótt til saka. Nú er VG í stjórn og hefur tekið U-beygju í öllu. Sjaldan eða aldrei hef ég séð kosningaloforð svikin eins svakalega og nú. Við vissum hvar við höfðum Samfó, en VG er annað mál.

Ég hef áhuga á að heyra hvað kjósendum og meðlimum VG finnst.

Ég sá eftirfarandi brot úr Icesave samningnum á bloggi Róberts Viðars Bjarnasonar. Þetta lítur út eins og hreint valdaafsal til Bretlands og Hollands:

"16.3. Waiver of Sovereign Immunity

Each of the Guarantee Fund and Iceland consents generally to the issue of any process in connection with Dispute and to the giving of any type of relief or remedy against it, including the making, enforcement or execution against any of its property or assets(regardless of its or their use or intended use) of any order or judgment.  If either the Guarantee Fund or Iceland or any of their respective property or assets is or are entitled in any jurisdiction to any immunity from service of process or of other documents relating to any Dispute, or to any immunity from jurisdiction, suit, judgment, execution, attachment (whether before judgment, in aid of execution or otherwise) or other legal process, this is irrevocably waived to the fullest extent permitted by the law of that jurisdiction.  Each of the Guarantee Fund and Iceland also irrevocably agree not to claim any such immunity for themselves or their respective property or assets." 


mbl.is Spurning um daga hvenær leynd verður létt af Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aldrei í lagi

Fólk er aldrei ánægt. Ekkert er gott. Allt er of stórt eða lítið, sætt eða súrt, feitt eða mjótt, gamalt eða ungt. Einn daginn les maður að aldrei hafi fleiri unglingar eignast börn, siðan að aldrei hafi fleiri gamalmenni eignast börn.

Við getum endalaust horft á vandamÁlin og reynt að pissa í logana. Það er svo miklu einfaldara en að skoða ástæðurnar að baki vandamálunum. Unglingar eru í uppreisn og gera mistök sem bindur þá við öskrandi smákrakka þegar þau hefðu átt að vera í skóla. Eða við menntum okkur svo mikið og fáum svo fína vinnu að við föttum ekki að við vildum börn fyrr en korteri fyrir lokun. Konan er að nálgast fertugt. Maðurinn sjálfsagt orðinn það. Krakkinn vaxinn úr grasi þegar foreldrarnir eru um sextugt. Þjóðfélagið gerir ekki ráð fyrir að við eignumst börn á þeim aldri sem náttúran vill það. Það er yfir höfuð ekki gert ráð fyrir að við eignumst börn. Þess vegna eru einu börnin slys fyrir tvítugt eða "nú eða aldrei" ákvarðanir rétt fyrir fertugt.

Samfélagið eins og það leggur sig er ekki að virka. Við störum á litlu vandamálin, börnin sem eru fyrir okkur, húsnæðislánin sem eru of há, mengunina sem er of mikil, hraðann á þjóðfélaginu sem við ráðum ekki við. Hvernig væri að skoða rætur vandamálanna í staðinn fyrir að pissa í logana hér og þar? 


mbl.is Varað við hækkandi barneignaaldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á ég þá...

...að skilja það þannig að fólk sé bara sátt? Bara borga og vera ekki með þetta væl? Atvinnuleysi og húsnæðislán sem hækka meðan húsnæði hrynur í verði? Eða er einhver önnur ástæða fyrir mætingarleysinu? Á ESB kannski að redda þessu?

Fyrir ESB sinna heima vil ég benda á samræður sem ég heyrði í útvarpinu hér í Hollandi í vikunni. Þar var því haldið fram að Holland hefði ekki nógu mikið um evrópumálin í Brussel að segja því landið væri svo lítið. Hollendingar eru 53 sinnum fleiri en íslendingar.

Það er hægt að kaupa u.þ.b. 10 milljón flatskjái fyrir Icesave skuldina. Kannski fimm milljónir, ef maður kaupir stóra. Eða 67.000 íbúðir. Hmmm...


mbl.is Fámenn Icesave mótmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brugga bjór

Þetta er soldið vesen svo sumir láta landann duga, en bjórinn er alltaf góður.

 


mbl.is Álögur á eldsneyti og áfengi hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunið rétt að byrja?

Það eru ekki bara læknar sem munu láta sig hverfa. 18.000 atvinnulausir með lán sem hækka með hverri afborgun munu skilja lykilinn eftir í skránni þegar þeir fara úr landi. Við viljum ekki styggja útlendingana því án útflutningstekna erum við ekkert, en erum við ekki að leggjast lægra en 14 ára stelpa á heróíni?

Við getum ekki borgað Icesave. Við getum ekki heldur borgað 350 milljarða afglöp Seðlabankans frá því korteri fyrir hrun. Afskrifum það, eða reynum allavega að semja um hvað skal greiða. Að taka þetta á sig gerir ekkert annað en að steypa okkur í skuldir sem við ráðum ekki við. Gleymum ESB í bili. Innganga yrði í fyrsta lagi eftir 2-3 ár og evran kæmi mikið seinna. Þegar það er allt komið í gegn verður enginn eftir til að borga skuldirnar sem við tókum á okkur. Nema kannski fatlaðir og gamalmenni sem komast ekki úr landi.

IMF (neita að nota íslensku skammstöfunina því þessi stofnun á ekkert erindi á Íslandi) vinnur ekki að uppbyggingu íslenska efnahagslífsins. IMF hefur það markmið að fá íslendinga til að greiða eins mikið af skuldunum til baka og hægt er. Þeir eru ekki að vinna fyrir okkur. 3-6faldir vextir á við nágrannalöndin eru ekki til þess gerðir að koma atvinnulífinu í gang aftur. Það er verið að mjólka íslenska lántakendur eins og mögulega hægt er. Fyrirtæki og einstaklinga. Fyrirtæki geta ekki rétt úr sér meðan þau eru að borga skatt til erlendra auðhringa. Að stofna fyrirtæki á Íslandi hefur ekkert upp á sig. Fjölskyldur geta ekki komið sér út úr skuldafeninu meðan höfuðstóll lána hækkar við hverja afborgun, ofan á vexti sem þekkjast hvergi nema hér.

Ég var að skoða fasteignasíðu MBL. Ódýrasta íbúðin í Reykjavík kostar um 10 milljónir. Fyrir 18 milljónirnar sem var lágmarksverðið fyrir ári, er hægt að fá yfir 100 fermetra 4 herbergja íbúð með útsýni yfir sundin blá. Ég reiknaði út lán á 13 milljóna króna íbúð og fékk yfir 80.000 á mánuði, og það fór hækkandi vegna ofurvaxta og verðtryggingar. Dæmið gengur einfaldlega ekki upp, sérstaklega hjá þeim sem keypu sér íbúð eftir miðjan áratuginn.

Ísland er ekki að virka. Það gerist ekkert með því að tala kurteysislega og passa sig á að móðga engan. ESB er ekki töfralausn, allavega ekki skammtímatöfralausn. Það eru skammtímalausnir sem við þurfum, áður en vinnufæra fólkið lætur sig hverfa. Við erum fámenn þjóð og það munar um hverja 1000 íslendinga sem flytjast úr landi. Þegar skriðan er farin af stað, verður erfitt að snúa við. Hvar verðum við þá eftir 10 ár eða 20? Vakni stjórnvöld ekki strax, má gera ráð fyrir að hrunið sé rétt að byrja.


mbl.is Læknar flýja kreppuland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grotn

Í vetur var ég á því að þetta ætti að klára. Nú er óöldin önnur. Þetta hús er tákn bruðls og geðveikislegrar veraldarhyggju og hefur ekkert með list að gera. Alvöru listamenn þurfa ekki milljarðabyggingu, þeim líður ekki vel í 100.000 króna hótelherbergjum. Þetta hús var ekki byggt fyrir listamenn. Það var byggt fyrir ráðstefnugesti með silkibindi sem kosta álíka mikið og bíllinn minn.

Þetta hús er tákn hugsunarháttar sem kemur vonandi ekki aftur, þar sem jeppinn skipti meira máli en amma, þar sem krakkinn flæktist fyrir og var látinn halda kjafti með nýjum iPod, PSP eða einhverju öðru sem var orðið úrelt eftir viku. Þetta hús á að fá að standa í núverandi mynd og grotna rólega niður. Leyfum hafinu að éta það. Þangað til mun það minna okkur á hvað það er sem virkilega skiptir máli. 


mbl.is Deilt um tónlistarhús á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband