Ísland stendur loksins við sitt!

Ég er búsettur í Hollandi og hér sér fólk málið öðruvísi, enda er það matreitt öðruvísi af hérlendum fjölmiðlum.

Tengdó voru í mat. Þau eru auðvitað ánægð með það sem var í fréttunum í dag, að Ísland ætli loksins að borga það sem því ber. Ég leiðrétti misskilninginn í mörghundruðasta sinn. Það dugði ekki til. Ég sagði þeim því sögu af ING, stærsta banka Hollands. Hvað myndi gerast ef... og ég sagði Landsbankasöguna. Breytti bara nafninu og upphæðunum yfir í Hollenskan veruleika. Endaði söguna á því að spyrja, hvað mynduð þið gera. Greiða þúsundir milljarða evra til Þýskalands og Bandaríkjanna (tvö mikið stærri vinveitt lönd) vegna fyrirtækis sem er ekki í eigu þjóðarinnar. Nei, það fannst þeim ekki réttlátt.

Ég vona svo sannarlega að þjóðin fái að stoppa þessa geðveiki aftur. 


mbl.is Icesave-samningur samþykktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýst eftir þjóð

Við viljum nýja ríkisstjórn. Við viljum þjóðstjórn, utanþingsstjórn, hægristjórn. Við viljum aðra stjórn. Hvað sem er, bara ekki vinstri velferðarstjórnina.

Eða hvað? Yrði önnur stjórn betri, réttlátari, meira í takt við þjóðina? Erfitt að segja, nema maður viti hvað þjóðin er að hugsa og ég efast um að hún viti það sjálf. Við viljum ekki borga Icesave. Skiljanlegt. Við viljum lífsgæðin sem við vorum vön fyrir hrun. Við viljum loka augunum og þegar við opnum þau aftur eru öll okkar vandamál horfin. Við viljum fara til baka, pota í "load saved game" og halda áfram frá þeim punkti áður en við gerðum mistökin. Leikurinn virðist vera tapaður og ef við bara förum aftur í tímann, kannski til 2006, getum við sleppt Icesave, bjargað bönkunum og lifað í vellystingum.

En lífið er ekki tölvuleikur. Við getum ekki ýtt á "save" takkann áður en við tökum afdrifaríkar ákvarðanir. Kannski eins gott, því það verður voðalega leiðinlegt til lengdar ef maður er alltaf að svindla á leiknum. Maður er nefninlega að svindla á sjálfum sér með því að læra ekki neitt, taka alltaf auðveldustu leiðina.

Hvað er annars vandamálið á Íslandi anno 2010? Er það Icesave? Er það yfirgangur fyrrverandi vinaþjóða okkar? Er það verðtryggingin, skattahækkanir, Steingrímur eða Jóhanna? Eða er vandamálið dýpra og nær okkur sjálfum? Erum við vandamálið?

Einhverntíma bloggaði ég um breytinguna á þjóðinni á fyrstu árum aldarinnar. Ég flutti til Hollands 1997, en fann fljótlega fyrir heimþrá. Hún entist þó ekki lengi. Þetta byrjaði allt þegar nýbyggingar spruttu upp út um allt. Þetta voru ekki hús, þetta voru hallir. Ég hafði oft sagt útlendingum frá því, fullur stolti, að við ættum synfóníu, óperu, fullt að kvikyndahúsum, leikhúsum og guð má vita hvað. En þegar verslanamiðstöð #300 spratt upp og hún var stærri en flest það sem sést í milljónaborgum erlendis, fór ég að hætta að fatta. Já, við vorum æði, gátum haldið úti menningu og verslun sem umheimurinn gat varla dreymt um, en þetta var að fara út í öfgar. Þetta gat aldrei staðið undir sér. Svo var það virkjanaáráttan. Allt skyldi virkja. Hvað var í gangi?

Þjóðin var að missa vitið. Ég sá þjóðfélagið með gestsauganu. Skildi tungumálið og þekkti þjóðarnadann en var ekki nógu oft á landinu til að samdaunast. Í hverri heimsókn sá ég breytingu. Ég hef yfirleitt komið heim tvisvar á ári. Ég man ekki hvenær hlutirnir fóru að breytast, en ég held ég hafi verið farinn að horfa stórum augum á framkvæmdirnar á árunum 2001-2003. Það var um svipað leyti sem þjóðin breyttist.

Alls snérist um peninga, allt kostaði helling, það þótti lítið mál að borga svimandi upphæðir fyrir einföldustu hluti. Það var eins og það væri flott að borga of mikið. Hér í Hollandi pössuðum við okkur á að fara (tiltölulega) vel með peningana. 10-20 evrur fyrir gallabuxur, sem var 800-1500 kr fyrir hrun þótti mikið. Á íslandi var fólk að borga tífalt verð. Án þess að blikka. Þótti sjálfsagður hlutur.

Fjárútlátin voru samt ekki það versta. Eftir því sem peningaflæðið jókst, Range Roverunum fljölgaði, fækkaði brosunum. Það var kominn einhver drambssvipur á þjóðina, stundum jafnvel heift. Ef einhver gekk á mann í Kringlunni, strunsaði sá hinn sami áfram, pirraður yfir því að ég hafi verið að flækjast fyrir. Enda skiljanlegt, sá pirraði var eflaust á leiðinni á mikilvægan fund og ég var fyrir. Í flestum borgum Evrópu hefði fólk stoppað og beðið hvort annað afsökunar. Skiptir ekki máli hver gekk á hvern, þetta er bara sjálfsögð kurteysi. En hún hafði verðið gerð útlæg á Íslandi. Sama við kassana í verslunum. Fólk var dónalegt við starfsfólk, var pirrað, að flýta sér og var móðgandi. Ég vorkenndi fullt af kassadömum á þessum tíma.

Ég ólst upp við sögur að fátæku fólki í burstabæjum sem buðu alla velkomna og deildu því litla sem það átti. Ef þreyttan og kaldan ferðalang bar að garði, var honum boðið inn. Þótt aðeins einn kjötbiti væri til á bænum, var ferðalangnum umsvifalaust boðið að borða. Það hefur líka sýnt sig að því meira sem fólk á, því minna gefur það. Mér varð oft hugsað til gamla Íslands, þar sem fólk bjó við raka og kulda, átti varla í sig og á, en virtist vera hamingjusamara. Það var hamingjusamara, því það átti hvort annað. Því maður er manns gaman. Range Roverarnir, Ipottarnir og utanlandsferðirnar voru allt í lagi, en þetta "drasl" kom ekki í staðinn fyrir mannlega þáttinn, samskipti við annað fólk.

Íslenska þjóðin er sterk. Við erum gestrisnir harðjaxlar sem getum hvað sem er. Inni við beinið. Við erum bara orðin svo feit að það er djúpt á alvöru íslendinginum í okkur. Nú er að hefjast nýtt ár. Ekkert merkilegt, svo sem. Bara einhver tala á almanaki. En hvernig væri að nota það sem nýtt upphaf. Reyna að finna íslendinginn í okkur? Ekki þjösnarlegu frekjudós síðustu ára, heldur það sem býr í okkur öllum. Brosandi harðjaxla liðinna alda. Ef við stöndum saman, getum við hvað sem er.

Gleðilegt ár. Megi 2011 vera upphafið á einhverju betra. 


mbl.is Vill nýja ríkisstjórn um tiltekin verkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uninspired by Iceland

Ísland er land tækifæranna. Gæti allavega verið það ef við værum ekki að drepast úr möppudýramennsku og húmorsleysi.

Milljónir, sjálfsagt hundruð milljóna, eru settar í landkynningu. Inspired by Iceland. Allt gott og blessað, en það virðist vera jafn innihaldslaust og fótósjoppað súpermódel að gefa til kynna að maður komist inn undir hjá henni og hverri sem er með boddíspreyinu sem verið er að auglýsa. Við þykjumst vera rosa hipp og kúl og segjum að Ísland sé land frelsisins og whatever. En á sama tíma erum við að spá í að kæra tökulið Top Gear sem nær sennilega til fleira fólks en auglýsingaherferð ESB-sleikjanna. Margfalt.

Hafi verið unnin spjöll, sem ég efast um, eru það ekkert í líkingu við það sem íslendingar sjálfir og löggan gerðu. Þar fyrir utan eru meira krefjandi mál sem bíða afgreiðslu á Íslandi. En við viljum ekki styggja "fjármagnseigendur".

Það er ekki hægt að segja að ég sé "inspired by Iceland" þessa dagana. 


mbl.is Löggan skoðar Top-gear
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland og blekking hippans

Þegar maður kaupir sér lífrænt ræktað jurtate, kaffi eða annað, býst maður við því að seljandinn sé vinaleg miðaldra dama með einhverskonar hippafortíð. Kannski fór hún í keflavíkurgöngu. Hún veit allt um jurtirnar, veit hvað þetta blóm gerir fyrir líkamann, veit hvaða te virkar gegn þessum eða hinum krankleikanum. Kallar sig kannski norn í alvörugefnu gríni.

Veruleikinn er víst annar. Grasið er flutt inn að fagfjárfestingafyrirtæki sem hefur þann eina tilgang að afla ávaxta fyrir fjárfestana. Það sem betra er, sníkjudýrið er að kaupa öll grasafyrirtækin og því er hin argasta einokun í gangi.

Gömlu hipparnir og bláeygu grasaæturnar eru höfð að fíflum. Inspired by Iceland, I am not.


mbl.is Auður eignast Yggdrasil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvikmynd í stofu

Allt heitir stofa nú til dags, en hvað um það. Það er talað um útflutning, tölvuleiki og tónlist, en hvað með kvikmyndir? Fátt kynnir land betur en kvikmynd. Ég vil sjá kvikmyndir styrktar og kynntar. Og hananú!
mbl.is Markmið að efla ímynd og orðspor Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjánaleg færsla um bjánalegt mál

Mig vantar peninga. Ég seldi einhverjum dólgi lykilinn að húsinu mínu á 100.000 kall. Lánaði honum líka 60.000 fyrir kaupunum. Ég borga svo 1000 kall í hvert skipti sem ég þarf að komast inn. Góður díll, er það ekki?

Hvað er fólk að hugsa?


mbl.is Opinber fjármögnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umturn

Merkilegt hvað lífið getur tekið stjórnina af manni. Þetta virtist allt vera svo skýrt. Vandamálið var fundið og lausnin kom í kjölfarið. Allt var breytt, allt yrði betra. Lífið hafði tilgang, framtíðin var bjartari en áður. En það er ekki nóg að hafa plan, það verður víst að setja það í framkvæmd. Bestu og ýtarlegustu áætlanir eiga það til að breytast þegar á hólminn er komið. Þetta tekur lengri tíma en gert hafði verið ráð fyrir, er erfiðara. Fólk missir móðinn.

Nú er fjórðungur ársins liðinn. Framtíðin hefði átt að vera komin en hún lætur bíða eftir sér. Kemur kannski alls ekki, eða þá í allt annarri mynd. Það er allavega ekki aftur snúið. Brennandi brýrnar lýsa upp himininn og ég trúi enn að grasið sé grænna hérna megin. 


Guðfaðir Búsáldabyltingarinnar kveður (konuna)

Dennis Hopper er einn af uppáhaldsleikurum mínum. Hann er kúl og fyndinn. Hann fann líka eiginlega upp slagorð búsáhaldabyltingarinnar, helvítis fokking fokk. Man eftir því þegar hann lét ein flottustu orð kvikmyndasögunnar út úr sér í myndinni Blue Velvet eftir David Lynch. Hann var eitthvað að pirrast og öskraði "fuck that fucking fuck!" Við sem horfðum sprungum auðvitað á staðnum. Ég gat því ekki annað en hugsað um hann meðan fólk var að æpa niðrí bæ í von um að eitthvað myndi breytast á Íslandi.

En af hverju að skilja eftir 14 ár, á dánarbeðinu? Hvað hefur kélla verið að gera sem fer svona illa í deyjandi manninn? Maður veit það svo sem ekki. Utanaðkomandi vita svo sem aldrei hvað er að gerast innan veggja heimilisins. Hjónabönd fara í hundana, jafnvel eftir 14 ár. Ojá, þau gera það.

En það sem gerir alveg út af við mig er að hann vill sameiginlegt forræði. Húmorinn í lagi þrátt fyrir að maðurinn með ljáinn sé farinn að breima í garðinum. 

Það er því ekki hægt að segja neitt annað en helvítis fokking fokk um ástand hans núna. Respect, man!


mbl.is Óskaði eftir skilnaði á dánarbeðnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herr Flikk hefur talað

Herr Flikk sem er víst eitthvað meiriháttar gaukur í norðurlandinu sem selur vopn og vesen til einræðisherra hefur talað. Heimurinn hlustar með andakt enda býr Flikk ekki í smálandi á barmi gjaldþrots.
mbl.is Mikilvægt að veita Íslandi stuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygar?

Forsetinn mátti ekki skjóta Icesave til þjóðarinnar því það myndi gera IMF pirrað og setja stopp á ESB. Annað hefur komið í ljós. IMF er sama um Icesave á meðan við borgum þeim til baka. ESB er sama um Icesave, eða segjast vera það, því það mál er kolólöglegt hvort eð er. Hefur því engin áhrif á inngönguferlið.

Spurningin er, var ríkisstjórnin að ljúga eða hafa þau einfaldlega ekki hugmynd um hvað samningsaðilar okkar erlendis eru að hugsa? Veit ekki hvort það er, en veit að hvoru tveggja gerir þessa ríkisstjórn vanhæfa.

Verst er að stjórnarandstöðuflokkarnir eru þeir sem komu okkur í þetta vesen. Þeim er ekki treystandi heldur. Er ekki kominn tími á utanþingsstjórnina sem fólk hefur verið að biðja um síðan í október 2008?

Þar fyrir utan er það að komast á hreint að Grikkland, ESB- og evruland, þarf ekki að hafa áhyggjur af aðstoð vegna þeirra efnahagserfiðleika. Býst Samfó við því að við fáum aðstoð, frekar en þeir?


mbl.is ESB og Icesave aðskilin mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband