Færsluflokkur: Evrópumál

Framsal Ríkisvalds?

Stjórnarskrármálið er orðið að frasa, eins og svo margt annað í íslenskri stjórnsýslu. Síðustu þrjú árin hafa einkennst af klúðri á klúður ofan. Það eina sem núverandi stjórn hefur sér tl málsbóta er að fyrri stjórnir voru enn verri.

Við verðum að fara að klára þetta mál. Koma nýrri stjórnarskrá á koppinn. Eða hvað? Ég hef ekki lesið hana alla. Mun gera það fljótlega, en ég man að þegar ég rann yfir hana á sínum tíma hnaut ég um eina greinina. Trúði varla eigin augum.

111. gr. Framsal ríkisvalds

Heimilt er að gera þjóðréttarsamninga sem fela í sér framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að í þágu friðar og efnahagssamvinnu. Framsal ríkisvalds skal ávallt vera afturkræft.

Með lögum skal afmarka nánar í hverju framsal ríkisvalds samkvæmt þjóðréttarsamningi felst.

Samþykki Alþingi fullgildingu samnings sem felur í sér framsal ríkisvalds skal ákvörðunin borin undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu er bindandi. 

Í fyrsta lagi finnst mér að framsal ríkisvalds megi ekki vera leyfilegt. Viljum við gera það í framtíðinni, ætti að þurfa stjórnarskrárbreytingu. Þessi grein er eins og sérpöntuð af Samfylkingunni svo þau geti komið okkur í ESB tiltölulega vandræðalaust. En skoðum þennan texta.

Okkur er heimilt að framselja ríkisvald alþjóðastofnunum. Við gætum þess vegna gengið NATO á hönd. IMF er alþjóðastofnun, ef maður teygir hugtakið. Hvalveiðiráðið er alþjóðastofnun, sem og Asíubandalagið og NAFTA. Það má ganga að því vísu að hugtakið verði teygt þegar einhver þrýstihópurinn vill tilheyra einhverjum klúbbnum.

Framsal ríkisvalds skal vera afturkræft? Ef við afsölum okkur sjálfstæðinu, höfum við ekkert um það að segja. Við ráðum okkur ekki sjálf. Önnur setning í greininni fellur því um sjálfa sig.

Það má segja að þjóðaratkvæðagreiðsla sé öryggisventillinn, en er það svo? Segjum að Kína vilji innlima Ísland og það sé fólk hér á landi sem hafi áhuga á að koma okkur þar inn. Hversu erfitt verður að snúa þjóðinni? Við erum svo lítil að það þyrfti ekki nema einhverja skiptimynd til að múta okkur. Segjum að Kína byggi glæsilegt sjúkrahús, borgi upp Hörpuna, lofi að borga upp skuldir landsins og bora göng í gegn um öll fjöll landsins? Klink fyrir þetta stórveldi. Það er erfitt að standast slíkt boð. Hvað myndi þjóðin kjósa?

Og hverjar eru líkurnar á því að Kína leyfði okkur að öðlast sjálfstæðið aftur, eins og við segjumst eiga rétt á í setningu númer tvö?

111. grein hefur auðvitað ekkert með Kína, IMF eða NATO að gera. Hún er alveg örugglega hönnuð sem farmiði inn í ESB. En hana má misnota á svo marga vegu að ég get ekki stutt nýju stjórnarskrána óbreytta.

Ég vona að dagarnir fjórir í mars verði vel nýttir. 


mbl.is Furða sig á farvegi stjórnlagamálsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta virkilega eitthvað sem við viljum ganga í?

Evrópa er ríkasta svæði í heimi. Þó leggjumst við svo lágt að heimsækja þriðjaheimsríki og biðja um peninga? Kína er á barmi hruns og við mjálmum í þeim að styðja Evrópu í krísunni?

Er ESB gengið af göflunum? Er ekki snefill eftir af sjálfsvirðingui hjá þessu fólki? Skilja þessir "háu herrar" ekki að ef Kína fer að fjármagna einhverskonar gervibata - því án uppstokkunar kerfisins erum við ekki að leysa neitt - vilja þeir hafa eitthvað um evrópumál að segja? Trúum við virkilega að kínverjar muni hjálpa okkur af því þeir eru svo góðir í sér? Viljum við að ríki sem drepur þegnana án dóms og laga*, leyfir barnaþrælkun og gefur skít í mannréttindi yfirleitt hafi eitthvað með okkur að gera? Viljum við gefa Kína höggstað á okkur?

Svo er þetta skemmtilegt. "Barroso gerði lítið úr mótmælum og verkföllum í einstökum evruríkjum vegna efnahagsástandsins og sagði að það væri réttur fólks að mótmæla í opnum samfélögum." Auðvitað gerir hann lítið úr þessu, því Brussel elítunni er skítsama um hvað fólki finnst. Evrópustórnarskráin er gott dæmi. Þegar fólk í nokkrum evrópulöndum hafnaði henni, var nafninu breytt í Lissabonsáttmála og sett í lög. Það þarf nefninlega ekki að kjósa um einhvern sáttmála. Og þegar ekki er hjá kosningum komist, er kosið aftur og aftur þar til rétt niðurstaða fæst. Svo aldrei meir.

Ísland hefur ekkert í þetta samband að sækja. Ekki í bili allavega. Fyrst verðum við að taka til heima hjá okkar, koma efnahaginum í þokkalegt horf. Það getur ekki verið gott að setjast að samningaborðinu með allt niður um sig. Hvernig eigum við að geta samið um nokkurn skapaðan hlut í þeirri stöðu sem við erum nú? Svo er ágætt að bíða átekta þar til róast um evruna og ástandið almennt innan ESB áður en við ákveðum að ganga í sambandið.

ESB er ólýðræðislegt og smáríki hafa sama og engin völd. ESB málið hefur orðið til þess að núverandi stjórn hefur klofnað og ekki komið brýnari málum í verk.

Tökum þessu rólega. Vinnum í okkar málum og fylgjumst með ESB úr fjarlægð. Okkur liggur ekkert á. 

* Sjá þessa frétt. Vara við myndum sem geta komið fólki úr jafnvægi. http://barbadosfreepress.wordpress.com/2008/10/03/would-bussa-have-accompanied-barbados-chief-justice-and-prime-minister-to-chinese-embassy-celebration/


mbl.is ESB þróast áfram þrátt fyrir krísuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna móðgar...

...húsnæðiseigendur landsins með þessum útúrsnúningum. Hvernig getur beinasta leiðin verið í gegn um Brussel, samninga sem enn þarf að klára, setja í þjóðaratkvæði (það á að kjósa um þetta, ekki satt?) og skrifa undir? Svo þarf að tala um þetta í þinginu og setja í framkvæmd.

Er ekki einfaldara að hósta upp frumvarpi og bera fyrir Alþingi? Málið gæti klárast fyrir vorið! Hvernig getur það verið flóknara?

Svo er eitt sem gleymist oft að nefna. Þó verðtryggingin sé ekki almennt notuð innan ESB, er hún langt í frá bönnuð. ESB aðild er því engin trygging fyrir því að þessari bölvun verði létt af landanaum. 


mbl.is Beinasta leiðin að ganga í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB = Skýjaborg?

Ég er tiltölulega hlutlaus þegar kemur að ESB. Bý þar og hef það ágætt. Ekkert rosalega ríkur eða þannig, en skrölti. Stundum duga launin, stundum ekki. Er á rétt meðallaunum og borga hátt í 50% skatt. En...

Evrópa er með ónýtan gjaldeyri sem riðar til falls. Evran hefur haldið sér sæmilega undanfarið, en hún er undir gífurlegum þrýstingi.

Bankarnir hér í Hollandi eru svo sterkir að þeir þurftu beilát. Ég borgaði 1700 evrur af skattpeningunum til ABN Amro og enn meira til ING. Ég hef sennilega borgað meira, því þetta er meðaltal sem ég reiknaði út einhverntíma. Tók þar með hvert mannsbarn, líka börn og gamalmenni. Fyrrverandi fjármálaráðherra er bankastjóri ABN Amro. Sér einhver tengslin?

Ríkisfyrirtæki hér hafa verið seld með þeim afleiðingum að þjónusta versnar og verð hækkar. Þess má geta að ESB hefur þvingað Grikkland til að selja ríkiseigur eins og hafnir og aðrar nauðsynjar. Yrði þetta öðruvísi á Íslandi? Fengjum við "góðan díl" í fiskimálinu? Ég stórefast um það.

Þegar þær þjóðir sem fengu tækifæri til að tjá sig höfnuðu evrópsku stjórnarskráni, var nafninu breytt í Lissabonsáttmála og þar með þurfti ekki að ræða það meir. ESB er gott í að komast undan atkvæðagreiðslum og kjósa þar til rétt niðurstaða fæst og svo ekki meir.

Það er fínt að búa í ESB, en ekki halda að hlutirnir hér séu eitthvað betri eða bjartari en heima. Það er allt í lagi að skoða inngöngu, en ekki búa til skýjaborgir sem gufa svo upp í kastljósi raunveruleikans.
 

mbl.is „Gegndarlaus áróður ESB"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland stendur loksins við sitt!

Ég er búsettur í Hollandi og hér sér fólk málið öðruvísi, enda er það matreitt öðruvísi af hérlendum fjölmiðlum.

Tengdó voru í mat. Þau eru auðvitað ánægð með það sem var í fréttunum í dag, að Ísland ætli loksins að borga það sem því ber. Ég leiðrétti misskilninginn í mörghundruðasta sinn. Það dugði ekki til. Ég sagði þeim því sögu af ING, stærsta banka Hollands. Hvað myndi gerast ef... og ég sagði Landsbankasöguna. Breytti bara nafninu og upphæðunum yfir í Hollenskan veruleika. Endaði söguna á því að spyrja, hvað mynduð þið gera. Greiða þúsundir milljarða evra til Þýskalands og Bandaríkjanna (tvö mikið stærri vinveitt lönd) vegna fyrirtækis sem er ekki í eigu þjóðarinnar. Nei, það fannst þeim ekki réttlátt.

Ég vona svo sannarlega að þjóðin fái að stoppa þessa geðveiki aftur. 


mbl.is Icesave-samningur samþykktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygar?

Forsetinn mátti ekki skjóta Icesave til þjóðarinnar því það myndi gera IMF pirrað og setja stopp á ESB. Annað hefur komið í ljós. IMF er sama um Icesave á meðan við borgum þeim til baka. ESB er sama um Icesave, eða segjast vera það, því það mál er kolólöglegt hvort eð er. Hefur því engin áhrif á inngönguferlið.

Spurningin er, var ríkisstjórnin að ljúga eða hafa þau einfaldlega ekki hugmynd um hvað samningsaðilar okkar erlendis eru að hugsa? Veit ekki hvort það er, en veit að hvoru tveggja gerir þessa ríkisstjórn vanhæfa.

Verst er að stjórnarandstöðuflokkarnir eru þeir sem komu okkur í þetta vesen. Þeim er ekki treystandi heldur. Er ekki kominn tími á utanþingsstjórnina sem fólk hefur verið að biðja um síðan í október 2008?

Þar fyrir utan er það að komast á hreint að Grikkland, ESB- og evruland, þarf ekki að hafa áhyggjur af aðstoð vegna þeirra efnahagserfiðleika. Býst Samfó við því að við fáum aðstoð, frekar en þeir?


mbl.is ESB og Icesave aðskilin mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleðilegt ár?

Ætla ekkert að kommenta á heimsfréttirnar frá árinu 2009. Það vita allir að Samfó gerði allt til að selja okkur ESB, að VG sveik öll loforð, að Framstæðisflokkarnir þvoðu af sér alla sekt vegna hrunsins og létu eins og það kæmi þeim ekki við, að enginn sem máli skiptir hefur verið dreginn til saka, að forsetinn sem setti það fordæmi að ekki þyrfti að skrifa undir öll lög virðist ætla að skella við skollaeyrum þegar þjóðin grátbiður um að hlustað sé. Við vitum líka að Landsbankinn er galtómur og Icesave verður skellt á þjóðina. Við vitum að Wouter Bos vill endilega breyta bankakerfi Evrópu svo að lönd lendi ekki í vanda, komi til kerfishruns. Það segir hann við hollendingana sína, meðan hann snýr upp á handlegg íslensku þjóðarinnar. Gordon Brown borgar innistæðueigendum sem greitt hafa í breska ríkskassann, en ekki öðrum. Íbúar Isle of Man fá ekkert þegar banki hrynur, því þeir heyra undir krúnuna, ekki þingið, og hafa því ekki borgað skatta í Bretlandi. Það virðist þó ekki stoppa hann í að krefja íslendinga um greiðslu, þótt bretar hafi yfirleitt ekki verið að borga skatta á íslandi.

2009 var skemmtilegt ár fyrir Ísland.

Það var líka stórfínt hér. Stærsta verkefni sem ég hafði unnið að var sett á hilluna. Ekki opinberlega. Það bara gerðist ekkert. Engin hljómleikamynd var gefin út. Mér leiddist meira í útlandinu en nokkru sinni. Klúðraði kannski soldið sjálfur og hef endað í einhverju svartholi í árslok. En það er bara eins og lífið er. Upp og niður. Hef þó það sem þarf til að gera 2010 frábært ár. Allavega þegar fer að líða á. Þekki fólk sem ég þekkti ekki eða þekkti lítið sem mun hjálpa mér að lyfta mér á hærra plan. Veit hvað ég vil og vil ekki. Það er allavega ágætis byrjun, ekki satt?

Stundum þarf að brjóta allt niður og byrja upp á nýtt.

Vér óskum landsmönnum öllum gæfu og hamingju á nýja árinu. Megi það verða betra en það sem á undan er gengið. 


mbl.is Völvan spáir spennandi tímum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar til rétt niðurstaða næst

Kosningar innan ESB eru athyglisverðar. Þótt fólkið sé yfirleitt frekar á móti frekari samruna, evrunni, stjórnarskránni, virðast embættismenn eiga sér þann draum að sameina Evrópu. Koma öllum undir sama hatt. Til að geta stjórnað okkur plebbunum betur? Fæst lönd þar sem evran var tekin upp buðu fólkinu að segja sína skoðun. Þingið ákvað fyrir lýðinn. Flest lönd þar sem fólk fékk að kjósa, höfnuðu henni. Þá er kosið aftur og aftur þangað til rétt niðurstaða fæst, og svo aldrei meir.

Sama með evrópsku stjórnarskrána. Þegar fólkið hafnaði þessum doðranti sem er á stærð við símaskrá, var nokkrum setningum breytt lítillega, nafninu breytt í Lissabon-sáttmálann og kosið upp á nýtt. Og aftur. Og aftur. Þangað til pakkið drullast til að segja já. Og svo ekki meir.

Evrópskt lýðræði er að spyrja aftur og aftur þar til "rétta" niðurstaðan fæst. Svo ekki meir.


mbl.is Líklegt að Írar samþykki Lissabon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvíl í friði, Nýja Ísland.

Atburðarrásin fyrir ári síðan var eins og í bíómynd. Leynifundir að næturlagi, heilt þjóðfélag ryðar til falls en enginn James Bond eða Jack Ryan til að bjarga því. Það sem tók við voru svo hrikalegar hamfarir að enginn gat ímyndað sér að svoleiðis gæti gerst. Stjórnmálamenn horfðu í kringum sig, klóruðu sér í hausnum og reyndu að sparsla í þetta.

Þjóðin sameinaðist í sundrunginni, allir reyndu að gera sitt. Nú myndum við standa saman og búa til þjóðfélag sem við virkilega vildum lifa í. Gamla Ísland var hrunið. Kominn tími til að byggja Nýja Ísland. Það sem gerðist var þó að það var settur plástur á báttið og allt átti að verða eins og fyrir hrun. Við búum enn á Gamla Íslandi, en hripleku. Við bíðum eftir að kafbáturinn sem sökkti okkur komi og bjargi okkur. Velkomin í ESB.

Ég var og er erlendis, svo ég gat ekki veifað fána og barið á pott. Ég setti upp síðuna Nýja Ísland. Hugmyndin var að safna upplýsingum um hrunið og ástæður þess, búa til samfélag þar sem fólk gæti talað um landið sem það vildi byggja upp og safna nógu mörgum meðlimum til að geta haft áhrif. Ástæða þess að síðan varð til varð henni að falli. Ég var ekki á Íslandi og gat ekki kynnt hana almennilega. Hún lifði í einhvern tíma, en var farin að safna kóngulóarvefjum upp úr áramótum. Lítið sem ekkert hefur gerst á spjallinu síðan þá.

Ísland fékk nýja stjórn sem er jafnvel verri en sú fyrri. Við fengum nýjan stjórnmálaflokk sem sprakk svo í loft upp nokkrum vikum eftir kosningar. Bankamennirnir og útrásarvíkingarnir eru enn að fjárfesta meðan þeir eru ekki sötrandi kokkteila á snekkjunum. Þjóðin er sokkin í skuldafen og hefur hvorki áhuga né þrek til að synda. Hún bíður eftir að einhver hendi í hana kút, einhverjum stóra sannleik sem mun leysa öll okkar vandamál. Jóhanna virðist trúa því að hún hafi fundið kútinn, en skilur ekki að hún er að strjúka tundurduflinu.

Síðan Nýja Ísland verður ársgömul um miðjan október. Þá þarf að endurnýja lénið og það kostar pening sem er ekki til. Hrunið er spennusaga sem endaði illa. Nýja Ísland mun engu um það breyta. Við komumst út úr þessu einhvern daginn, með eða án einhverrar heimasíðu.

Nýja Ísland, hvíl í friði. 


mbl.is Rauðri málningu slett á hús Hreiðars Más
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki skjóta fótinn

Það var fyrirsjáanlegt að Þráinn myndi kjósa með ESB aðild. Ég kalla þetta aðild því við erum að hefja inngönguferli. Maður fer ekki í svona viðræður nema vera alvara.

Það sem var minna fyrirsjáanlegt var að hann skyldi fara í fýlu yfir því að hinir þrír þingmennirnir kysu eftir eigin sannfæringu, en ekki hans. Það er misskilningur eða útúrsnúningur að segja að Borgarahreyfingin hafi haft ESB aðild í stefnuskránni. Sannleikurinn er að flokkurinn hefur enga opinbera stefnu í ESB málum.

Allir þingmenn Borgarahreyfingarinnar kusu eftir eigin samvisku. Í mínum augum er þetta sterkur flokkur. Ég vona að Þráinn fari ekki að skemma fyrir.


mbl.is Fréttaskýring: Jaðrar við klofning í þinghópi borgaranna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband