Færsluflokkur: Fjármál

Hryðjuverk?

Arion Banki ber fyrir sig hryðjuverkum. Að fái hann ekki að njósna um landsmenn, geti þeir stutt við bakið á hryðjuverkastarfsemi.

Mér hefur sýnst á undanförnum árum að bankarnir, ekki síst þessi, séu að fremja stærsta hryðjuverk sem íslendingar hafa orðið fyrir. Bankarnir tóku stöðu gegn krónunni. Þeir spiluðu fjárhættuspil með fé landsmanna. Þeir settu þjóðina á hausinn og græða nú á tá og fingri.

Maður þarf ekki að sprengja eitthvað í loft upp til að eyðileggja samfélag. 

Hafi ég rangt fyrir mér, vil ég endilega heyra það. 


mbl.is Setur dagsektir á Arion banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna móðgar...

...húsnæðiseigendur landsins með þessum útúrsnúningum. Hvernig getur beinasta leiðin verið í gegn um Brussel, samninga sem enn þarf að klára, setja í þjóðaratkvæði (það á að kjósa um þetta, ekki satt?) og skrifa undir? Svo þarf að tala um þetta í þinginu og setja í framkvæmd.

Er ekki einfaldara að hósta upp frumvarpi og bera fyrir Alþingi? Málið gæti klárast fyrir vorið! Hvernig getur það verið flóknara?

Svo er eitt sem gleymist oft að nefna. Þó verðtryggingin sé ekki almennt notuð innan ESB, er hún langt í frá bönnuð. ESB aðild er því engin trygging fyrir því að þessari bölvun verði létt af landanaum. 


mbl.is Beinasta leiðin að ganga í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýr og Tré

Íslenskt samfélag er helsjúkt. Það er helsjúkt eins og barn í þriðjaheims ríki. Lækningin er til, en ekki til staðar.

Við lifum í réttarríki. Öll dýrin eru jöfn. Það á þó til að vera ekki alveg svona einfalt í raunveruleikanum. Stundum eru dýrin sem setja reglurnar jafnari en önnur. Þau geta brotið af sér, en enginn getur snert þau. Þau geta sópað til sín auðlindir og fjármagn, löglega og ólöglega, en þau eru yfir lögin hafin. Ekki formlega. Öll dýr eru jöfn. Það getur bara verið svo erfitt fyrir embættismenn innan dómsvaldsins að slá á höndina sem réttir þeim bitlinga í formi utanlandsferða, fjárframlaga og fleira. Það er kannski ekki við stjórnmálamenn og aðra embættismenn að sakast. Kannski er þetta bara mannlegt eðli. Við erum alltaf hrædd við að eiga ekki nóg, að verða blönk á einhverjum tímapunkti. Best að safna í sarpinn. Svo er svo erfitt að pirrast út í þá sem fjármagna kosningabaráttuna og annað sem nauðsynlegt er. Eins og hundurinn, passa þeir upp á þann sem gefur þeim að éta.

Kjósendur verða bara að sjá um sig sjálfir. Redda sér. Enda hafa þeir ekkert fjármagn til að kaupa sér velvild þeirra sem setja lögin. Verðtryggingin er að sliga þjóðina. 40.000 heimili skulda meira en þau eiga. Yfir hundrað þúsund manneskjur, þriðjungur þjóðarinnar eða meira, er í svo til vonlausri stöðu. Sum þeirra geta sjálfum sér um kennt. Þau eyddu um efni fram. En flestir sem ég þekki lifðu lífinu eins og hvert annað meðaldýr. Unnu allan daginn og vonuðu að þetta slyppi um mánaðamótin. Þau keyptu sér hús og bíl og fóru til útlanda á 2-3 ára festi. Lifðu ósköp venjulegu lífi. Þau eru ekki fórnarlömb eigin mistaka, heldur voru þau í röngu landi á röngum tíma. Kerfið hrundi og ákvað að heimilin skyldu bæta það sem miður fór.

Hið svokallaða hrun, eins og sumir eru farnir að kalla það, er langt í frá orðinn fjarlægur kafli í íslandssögunni. Það er enn í fullum gangi. Á meðan verðtryggingin er við lýði, á meðan bankamennirnir sem spiluðu með þjóðina, viðskiptaséníin sem keyptu og seldu stórfyrirtæki og bjuggu til falskt góðæri og stjórnmálamennirnir sem sáu hvert stefndi en gerðu ekkert... á meðan þetta fólk er ekki látið svara fyrir sig, á meðan hrunið er ekki gert upp, á meðan fólk er borið út af heimilum í nafni bankanna, mun þetta svöðusár á þjóðarsálinni ekki gróa. Á meðan löggjafavaldið tekur fram fyrir hendurnar á dómsvaldinu, getum við ekki sagt að við búum við réttarríki. Á meðan stjórnmálamenn leyfa kaupsýslumönnum að segja sér fyrir verkum, búum við ekki við lýðræði.

Af hverju gerist ekkert ef þriðjungur þjóðarinnar er á hausnum og þúsundir flytja ár hvert af landi? Af hverju mætir einn þúsundasti þjóðarinnar á fund um verðtrygginguna? 0.3% þeirra sem eru í vanda vegna hennar. Sömu hræðurnar og voru þarna síðast? Hvernig getur fámennur hópur haldið heilli þjóð í gíslingu? Svarið er einfalt. Við sjáum ekki trén fyrir skóginum. Vandamálin eru svo stór að við skiljum þau ekki eða gefumst upp á þeim. Við tuðum yfir stráka- og stelpuís. Við rífumst um það hvort konur eigi að raka sig eða ekki. Við missum okkur í smámálum sem skipta engu máli því við skiljum þau. Á meðan erum við heilaþvegin af öflum sem vilja halda í völdin, sama hvernig farið er að því. Við flytjum úr landi, dragandi skuldahalann á eftir okkur, eða rífumst um ís, trúandi því að þetta hrun hafi kannski aldrei orðið.

Við munum kjósa fólk á þing innan árs. Eigum við ekki að vanda okkur svolítið?


mbl.is Unga fólkið flytur út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt í sóma...

Hvað fóru miklir skattpeningar í að redda Kaupþingi? Hvað borgaði Nýja Kaupþing fyrir lánið hennar? Hvað stór hluti höfuðstólsins er vegna verðtryggingar?

Hvernig gengur annars að fella niður skuldir auðmanna? 


mbl.is Útburður í Breiðagerði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einhverskonar heimsendir

Mannkynið er á tímamótum. Eftirstríðsárin eru að renna sitt skeið. Árin 1945-2012 verða sennilega dásömuð í framtíðinni. Þegar fólk átti nóg af öllu, nóg var til af olíu og vatni. Nýtt tímabil er að renna upp. Betra eða verra? Erfitt að segja til um það.

Það er svolítið spaugilegt að fylgjast með stjórnmálamönnum tala um lausnir. Núverandi kerfi virkar ekki og á meðan við búum við það, munu engar lausnir finnast. Flest lönd heimsins eru að sligast undan skuldaklafa, en þó virðist enginn eiga skuldirnar. Hvernig getum við öll skuldað? Einfalt. Tökum bandaríska kerfið sem dæmi. Flest peningakerfi heimsins eru byggð á sömu hugmynd.

Segjum að ríkinu vanti 100 krónur. Það fær krónurnar lánaðar hjá seðlabankanum. Þessar krónur fara í umferð, við fáum þær í laun, eyðum þeim í verslunum og borgum skatta. Eftir ár vill ríkið endurgreiða lánið sem það tók hjá seðlabankanum. 100 krónur og 3% vextir. 103 krónur. Hvaðan koma krónurnar þrjár? Þær eru ekki til, því ríkið gaf þær aldrei út. Ríkið þarf því að taka annað lán til að borga vextina. Nú eru 103 krónur í umferð, svo þær eru 3% minna virði en í fyrra og við skuldum vextina. Verðbólga. Leyfum þessu að gerjast í 100 ár og útkoman er sú að flest lönd jarðar eru að drukkna í skuldum. Það ætti að vera augljóst að við getum aldrei borgað niður skuldirnar, því við verðum að taka lán til að borga vextina.

Allt tal um að kreppunni sé að ljúka var því bull og gat aldrei staðist. Þetta vissu fjármála- og forsætisráðherrarnir sem nú tala hissa um að við séum að taka aðra dýfu. Annaðhvort vissu þeir að dýfan kæmi, eða þeir eru ekki starfi sínu vaxnir.

Þrjú prósent virkar kannski ekki mikið, og stundum eru vextirnir lægri. Hvað er vandamálið? Málið er að vextirnir bætast ofan á vextina. Þrjú prósent í dag eru töluvert hærri tala en þau voru fyrir 10 árum.

Hér er lítil saga sem sýnir hvernig ríkisskuld hefur þróast. Segjum að þú sért með tvö glös og poka af salti. Þú setur eitt saltkorn í glasið á fyrsta degi. Tvö á öðrum degi, fjögur, svo átta. Eftir 27 daga er glasið kvartfullt. Á 28 degi er það hálft. Dagur 29 og glasið er fullt. Á þrítugasta degi eru glösin bæði full. Svo eru það fjögur glös, átta glös.

Skuld sem virðist lítil í upphafi endar sem risavandamál. Það kemur að því að kerfið ræður ekki við meiri skuld og þá hrynur það. Við erum komin að þeim punkti. Á meðan valdhafar setja plástur á beinbrotið og segja sjúklingnum að ganga, grær brotið ekki. Það er ekki nóg að auka við skuldum í formi styrkja, "bailout" eða hvað þetta heitir. Við erum að berjast við eld með eldi. Auka við skuldabirgðina.

Við verðum að hugsa dæmið upp á nýtt. Draga djúpt andann. Við getum ekki borgað okkur út úr þessum vanda. Við verðum að finna upp nýtt kerfi. Við erum á tímamótum, erum að upplifa einhverskonar heimsendi. Komandi mánuðir verða erfiðir, en það er undir okkur sjálfum komið hvað bíður okkar handan við þrengingarnar.


mbl.is Heimurinn á barmi nýrrar kreppu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland stendur loksins við sitt!

Ég er búsettur í Hollandi og hér sér fólk málið öðruvísi, enda er það matreitt öðruvísi af hérlendum fjölmiðlum.

Tengdó voru í mat. Þau eru auðvitað ánægð með það sem var í fréttunum í dag, að Ísland ætli loksins að borga það sem því ber. Ég leiðrétti misskilninginn í mörghundruðasta sinn. Það dugði ekki til. Ég sagði þeim því sögu af ING, stærsta banka Hollands. Hvað myndi gerast ef... og ég sagði Landsbankasöguna. Breytti bara nafninu og upphæðunum yfir í Hollenskan veruleika. Endaði söguna á því að spyrja, hvað mynduð þið gera. Greiða þúsundir milljarða evra til Þýskalands og Bandaríkjanna (tvö mikið stærri vinveitt lönd) vegna fyrirtækis sem er ekki í eigu þjóðarinnar. Nei, það fannst þeim ekki réttlátt.

Ég vona svo sannarlega að þjóðin fái að stoppa þessa geðveiki aftur. 


mbl.is Icesave-samningur samþykktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lygar?

Forsetinn mátti ekki skjóta Icesave til þjóðarinnar því það myndi gera IMF pirrað og setja stopp á ESB. Annað hefur komið í ljós. IMF er sama um Icesave á meðan við borgum þeim til baka. ESB er sama um Icesave, eða segjast vera það, því það mál er kolólöglegt hvort eð er. Hefur því engin áhrif á inngönguferlið.

Spurningin er, var ríkisstjórnin að ljúga eða hafa þau einfaldlega ekki hugmynd um hvað samningsaðilar okkar erlendis eru að hugsa? Veit ekki hvort það er, en veit að hvoru tveggja gerir þessa ríkisstjórn vanhæfa.

Verst er að stjórnarandstöðuflokkarnir eru þeir sem komu okkur í þetta vesen. Þeim er ekki treystandi heldur. Er ekki kominn tími á utanþingsstjórnina sem fólk hefur verið að biðja um síðan í október 2008?

Þar fyrir utan er það að komast á hreint að Grikkland, ESB- og evruland, þarf ekki að hafa áhyggjur af aðstoð vegna þeirra efnahagserfiðleika. Býst Samfó við því að við fáum aðstoð, frekar en þeir?


mbl.is ESB og Icesave aðskilin mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væluskjóða

Er þetta ekki maður sem var fenginn í ráðherrastól utan úr bæ? Átti hann ekki að hafa vit á fjármálum og vera laus við flokkspólitískt bull?

Af hverju er hann orðinn kaþólskari en páfinn? Af hverju er hann að troða umræðunni í svaðið? Af hverju er hann að eyðileggja þetta tækifæri sem við fengum til að byggja betra land?

Er ekki bara málið að hann segi af sér sjálfur fyrst hann er svona ósáttur og láti ríkisstjórnina um að ákveða hvað hún vill gera?

Væluskjóða. 


mbl.is Gylfi: Stjórnin frá ef Icesave fellur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurning til Steingríms...

Kæri Steingrímur,

Gott að þú ert í beinu sambandi við kollega þína í Bretlandi og Hollandi. Ef þú komst ekki inn á það í dag, gætirðu þá spurt Wouter Bos af hverju hann heldur því staðfastlega fram í hollenskum fréttum að forsetinn hafi sett Icesave samkomulagið í hættu? Viltu spyrja hann af hverju hann heldur því fram að íslendingar hafi ákveðið að borga ekki krónu? Hann er nefninlega að segja það við landa sína. Ég hef það á tilfinningunni að hann sé að upphefja sigg á okkar kostnað, að veiða atkvæði með því að sverta okkur.

Takk fyrir að taka þetta til greina. 


mbl.is Steingrímur til Bretlands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjálm, væl, bull...

Voðalegt mjálm er þetta. Málið snýst alls ekki um hvort borgað verður, heldur skilmálana. Á að sökkva landinu og stela auðlindunum ef við upplifum ekki þúsund prósenta hagvöxt strax, eða á að borga eftir getu? Ef við borgum eftir getu, borgum við. Ef við erum þvinguð til að borga, hvort sem við erum á hausnum eða ekki, munum við ekki borga. Getum það ekki. Kannski að Rás Fjögur hafi þá rétt fyrir sér, en bara öfugt?

Allt sama bullið, mjálmið og lygi út um allt. Er það nema von a fæstir skilji þetta mál?

PS, gott að vera farinn að blogga aftur... 


mbl.is Ekki lengur spurning um hvenær heldur hvort
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband