26.1.2009 | 23:15
Litið til baka
Það er oft sagt að þjóðin hafi ekki séð hrunið fyrir, við flutum sofandi að feigðarósi á jeppunum okkar. Ég var byrjaður að blogga löngu áður en þessi stjórn tók til valda, svo það gæti verið skondið að sjá hvað ég skrifaði þegar hlutirnir voru að gerast.
13.05.07 - Stjórnin Fallin!
Væri Ísland eitt kjördæmi hefði stjórnin nú 48.4% atkvæða, hún væri því fallin. ... Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar (42 þingmenn) yrði sterkasta stjórnin í stöðunni eins og hún er núna, með 42 þingmenn á móti 21. Ég spái að þetta verði ofan á. ... Þessi stjórn myndi sennilega halda áfram á svipaðri braut og gamla stjórnin þar sem sjálfstæðismenn eru sterkari flokkurinn. Það er hugsanlegt að eitthvað verði hægt á stóryðjumálum í bili, en þegar hægir um og stjórnin er búin að koma sér fyrir fer það allt af stað á ný. Vilji Samfylkingarinnar til að stoppa stóriðju er ekki nógu sterkur til að eitthvað gerist í þeim málum.
14.05.07 - 5%
Þetta eru mikil vonbrigði fyrir Ísland, íslendinga og lýðræðið í landinu. Ég hélt að kosningalöggjöfinni hefði verið breytt á undanförnum árum til að gera vægi atkvæða jafnara og dreifingu þingsæta réttlátari. Við virðumst hinsvegar vera á svipuðu róli og Bandaríkin þar sem atkvæði eru ekki það sem skiptir mestu máli.
11.09.07 - Skjóta gæðinginn í hausinn
Ísland er alveg sérstaklega fallegt land... ennþá.
Ísland er sjálfstætt ríki... ennþá.
Ísland er ríkt... ennþá.
16.11.07 - Imagine no possessions, voru þessir peningar til?
Hvað er eign? Ef þetta er húsið mitt, af hverju skulda ég einhverjum banka næstum allt verðgildi þess? Hvernig getur banki búið til peninga úr engu? ... Peningurinn á reikningnum mínum er færður inn sem skuld bankans, en á móti er lánið mitt eign bankans. Þessar færslur eyða hvorri annari út, ég keypti húsið fyrir ekkert.
22.11.07 - Launaþrælar
Það er vont að vita til þess að í alsnægtarþjóðfélaginu á Íslandi hafi 60% þjóðarinnar ekki efni á að kaupa sér húsnæði. ... Hver sem ástæðan er, þá er það greinilegt að á Íslandi er ekki það þjóðfélag sem við vildum, unnum að og héldum að við byggjum í. ... Hvað er að þjóðfélaginu? Hvernig má bæta það? Ef íslendingar geta ekki lifað af launum sínum, hver getur það þá? ... Stöndum saman og gerum Ísland að draumalandinu sem það ætti að vera.
31.01.08 - Bleikar nærbuxur
Hér er lítil spurning. Er Alþingi íslendinga óhæft? ... Meðan rifist er um hvort börn megi klæðast bleikum og bláum nærbuxum, hvort ráðherra sé frú, hvort byggja eigi göng til Vestmannaeyja og flugvöll á skeri eru lög landsins hálfkveðnar vísur. Það er eitt að alþingi geti ekki lokað reykherbergi (sem það leyfir sjálfu sér að njóta), en þegar ríkisstjórn Íslands skilur ekki hvernig leiga virkar er ég svo hissa að ég fer að skrifa færslu um nærbuxur.
15.03.08 - Ingibjörg, er þetta rétt. Ertu að fremja pólitískt sjálfsmorð?
Ingibjörg Sólrún getur látið eins og Írak hafi aldrei gerst. Hún getur látið eins og Taiwan sé Árnessýsla þeirra kínverja, hún getur talað um eitt Kína meðan tíbetar eru myrtir. Hún getur gert hvað sem hún vill, en ekki gera það í mínu nafni. Íslendingar vilja ekki dauða tíbeta og kúgaða taiwana í nafni viðskipta. Ég ætla að sleppa því að minnast á Falun Gong ævintýrið í bili. ... Við höfum ekkert erindi í öryggisráðið. Við þorum ekki að tala eftir eigin sannfæringu.
28.03.08 - Ég vil ekki nöldra...
Að ljúga að öðrum er ljótur vani, að ljúga að sjálfum sér hvers manns bani, sagði þar," sagði Davíð. Ég vil ekki vera leiðinlegur, en átti stóriðjan ekki að vera töfralausnin?
30.03.08 - Landráð?
Nú virðast flest spjót beinast að okkar eigin íslensku bönkum. Flest bendir til að þeir hafi eitthvað með hrun krónunnar að gera.
04.04.08 - Barist á Bakka
Á endanum tók ég afstöðu á móti frekari stóriðju. Það var ekki vegna Draumalandsins, ekki vegna Kárahnjúka, ekki vegna neðri hluta Þjórsár. Ástæðan var þessi græðgi, þessi bulldozer hugsanaháttur.
22.06.08 - Einn kjósandi, eitt atkvæði, eitt kjördæmi
...þegar flokkur með 8% fær 5 þingmenn en flokkur með 6% einn og 4.9% engan? ... Er ekki kominn tími til að einfalda kosningakerfið? Einn kjósandi, eitt atkvæði, jafnvel eitt kjördæmi? Er ekki kominn tími á alvöru lýðræði, eða a.m.k. eitthvað í þá áttina?
26.06.08 - 1000 heimili undir hamarinn...
CNN var að tala um að íbúðamarkaðurinn í Bandaríkjunum væri svo veikur að ein milljón heimila væru að fara undir hamarinn. Svo maður setji þetta í íslenskt samhengi, eru það 1000 fjölskyldur sem væru að fara á hausinn. Það væri athyglisvert ef einhver veit hver staðan er heima. Hvað eru margir að missa heimili sín? Mun þetta hrun í USA hafa áhrif á Íslandi og viðar? Mun þetta verða til að ríkir verði enn ríkari með því að sópa til sín ódýrum fasteignum?
01.08.08 - Brýnt að vanda sig
Það er líka hallærislegt af forsætisráðherra að láta sjást að hann sé ósammála ráðherra í hans eigin ríkisstjórn.
18.08.08 - Samkeppni
Það er sorglegt að að koma heim og sjá hvernig komið er fyrir þjóðinni. Ein matvöruverslun (Bónus), ein verslun með afþreyingarefni (Skífan).
Svo hrundu bankarnir og ég fór að nöldra og þykjast vita allt, eins og allir hinir. Ég bloggaði eiginlega um allt annað en stjórnmál og fjármál fyrir hrun. Ég var þó allavega samkvæmur sjálfum mér. Ég var ekki að lofsyngja gósentíðina á bleiku skýi með gula hörpu. Og ég keyri ennþá um á gamla bílnum sem var klesstur hér og skulda ekki krónu í honum.
Baksvið: Þingvallastjórnina þraut örendið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.